Umfjöllun um neytendalán á villigötum

Umræða um ný lög um neytendalán er því miður á villigötum og erfitt að gera sér í hugarlund hvaða hagsmunir ýmsir aðilar sem um þau fjalla virðast hafa af því að afvegaleiða umræðuna með þeim hætti sem þeir gera. Aðalatriðið er auðvitað að það er einkum á grundvelli laga um neytendalán, sem því er haldið fram að verðtryggð lán kunni að vera ólögleg. Einhverra hluta vegna virðist umræðan um þessa löggjöf einhvernvegin alltaf snúast upp í eitthvað annað sem skiptir minna máli, eins og smálán eða greiðslumat.

Það er í raun óskiljanlegt að þeir sem um þessi mál fjalla fái óáreittir að gangast upp í því að fjalla sífellt um aukaatriði, þegar aðalatriði þess máls er að í þessum lögum liggur lykillinn að lausn á leiðréttingu húsnæðislána landsmanna. Svokallaður "skuldavandi heimilanna" myndi gufa upp af sjálfu sér væri þessum lögum framfylgt, sem myndi þá umsvifalaust breytast í "lánavanda fjármálafyrirtækjanna", og það með réttu.

Hér eru nokkrar mikilvægar staðreyndir til að "leiðrétta" umræðuna um neytendalán:

1. Lög um neytendalán nr. 33/2013 voru ekki að koma til sögunnar í dag 1. nóvember eins og eitthvað glænýtt fyrirbæri sem fallið hafi af himnum ofan. Reglur um neytendalán voru fyrst færðar í lög hér á landi með lögum nr. 30/1993 um neytendalán. Þau voru svo endurnýjuð ári seinna og endurútgefin sem lög nr. 121/1994, og hafa þau verið í gildi fram til dagsins í dag. Þannig áttu íslensk sérlög um neytendalán tvítugsafmæli fyrr á þessu ári eða nánar tiltekið þann 13. apríl.

2. Upplýsingaskylda um lánskostnað er ekkert nýmæli í lögunum, þvert á móti er upplýsingaskylda um lánskostnað sem skal koma fram í lánssamningi, sú sama og samkvæmt eldri lögunum! Þessi upplýsingaskylda hefur hinsvegar aldrei verið virt af hérlendum lánveitendum með fullnægjandi hætti. Þeir hafa kosið að undanskilja stærsta kostnaðarlið verðtryggðra lána, sjálfar verðbæturnar, frá sínum kostnaðarútreikningum og greiðsluáætlunum. Reyndar þá eru slíkir útreikningar eða greiðsluáætlanir alls ekki fyrir hendi í mörgum tilvikum. Brot á þeirri upplýsingaskyldu leiða fortakslaust til þess að óheimilt sé að innheimta þann lánkostnað sem ekki er rétt upp gefinn.

3. Lögin um neytendalán gilda alls ekkert bara um smálán eins og halda mætti af því hvernig sumir á opinberum vettvangi nálgast umræðu um þessi mál. Þvert á móti þá gilda þessi lög um stóru lánin líka, það er að segja þau sem fólk tekur til að kaupa bíla, húsnæði og annað sem er venjubundinn hluti af íslenskum heimilisrekstri. Þegar lögin voru fyrst sett árið 1993 voru reyndar talsverðar skorður settar á gildissvið þeirra, en það var hinsvegar útvíkkað verulega árið 2001 og síðan þá hafa þau náð til hverskyns neytendalána, allt frá raðgreiðslusamningum og yfirdráttarheimildum, upp í stærstu lánin sem flestir neytendur taka á ævinni: húsnæðislán.

4. Það eru ekki einungis smálánafyrirtæki sem reyna að sniðganga þessi lög eins og það sé eitthvað nýtilkomið, því eins og áður sagði hafa þau verið sniðgengin að mestu leyti af öllum lánveitendum hér á landi frá því að þessi lög voru sett. Sniðgangan eða vanrækslan felst einkum í því að undanskilja allan þann kostnað sem hlýst af verðtryggingu lána, frá útreikningum á lánskostnaði. Þar sem verðbætur eru stærsti einstaki kostnaðarliður slíkra lána, þá er klárlega um villandi upplýsingagjöf að ræða, og beinlínis blekkjandi.

Þessi sjónarmið reynir á í mörgum þeirra dómsmála sem nú standa yfir vegna verðtryggðra lána. Ég ætla að segja hér frá tveimur sem mér er kunnugt um, en ég þykist vita að þau sé allnokkuð fleiri sem eru nú í pípum dómskerfisins eða á leiðinni þangað á næstunni.

Fyrsta málið, og í raun það fyrsta sem höfðað hefur verið til þess að láta reyna sérstaklega á þetta fyrir verðtryggð jafngreiðslulán (Íslandslánin svokölluðu) er mál hjóna sem eru félagsmenn í Hagsmunasamtökum heimilanna og sem hefur verið undirbúið á vettvangi samtakanna af fjölda sérfræðinga í þeim tilgangi að reyna að ná fram fordæmisgefandi niðurstöðu. Þessi málshöfðun var kynnt ítarlega af samtökunum síðasta vetur, meðal annars á borgarafundi sem haldinn var fyrir fullum sal í Háskólabíói fyrir tæpu ári síðan ásamt auglýsingaherferð í fjölmiðlum á sama tíma.

Sem betur fer skilaði auglýsingaherferðin og umsagnargerð samtakanna um nýju lögin, þeim árangri að í þeim er hvergi vikið frá upplýsingaskyldu lánveitenda, heldur þvert á móti eru ákvæði um útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar skýrð betur þannig að ekki verði um villst hvað við sé átt með þeim: að það sé ófrávíkjanleg skylda að reikna með verðtryggingu í lánskostnaði

Sannleikurinn liggur í breytingartillögu meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar sem var samþykkt við lokaafgreiðslu frumvarpsins og varð sem slík að lögum. Þar var kveðið á um þá breytingu skv. 8. tl. að við 3. mgr. 21. gr. nýju laganna bættist nýr málsliður sem skýrir ákvæðið þannig að miða skuli við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs. Þessi litla viðbót er aðeins til skýringar á sambærilegu ákvæði eldri laganna sem er bundið í 12. gr. þeirra og er svohljóðandi:

Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans.

Til samanburðar er hér sambærilegt ákvæði nýju laganna (viðbótin er feitletruð):

Ef lánssamningur heimilar breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teljast hluti árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, en ekki er unnt að meta hverju nemi á þeim tíma sem útreikningur er gerður, skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans. Ef lánssamningur heimilar verðtryggingu skal útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar miðast við ársverðbólgu samkvæmt tólf mánaða breytingu vísitölu neysluverðs og þá forsendu að ársverðbólga verði óbreytt til loka lánstímans.

Eins og sjá má hefur ekkert breyst, nema að bætt hefur verið við þeirri einföldu og sjálfsögðu skýringu sem leiðir af öllum öðrum ákvæðum laganna og er feitletruð hér að ofan: Að það skuli að sjálfsögðu taka verðbólguforsendur með í reikninginn þegar kostnaður verðtryggðra lána sé reiknaður og útskýrður fyrir neytendum. Enda væri annað beinlínis villandi, þar sem þetta er stærsti kostnaðarliðurinn. Sem betur fer þá fékkst það í gegn að halda orðalagi 1. málsl. ákvæðisins óbreyttu í hinum nýju lögum, en að viðbættri þessari framangreindu skýringu, sem er mikilvæg þegar kemur að því að meta hvernig rétt sé að skilja ákvæði eldri laganna um þetta úrslitaefni.

Þess má geta að í gær var kveðinn upp úrskurður í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-338/2013, þar sem dómurinn féllst á þá kröfu neytanda sem höfðaði málið, að leitað yrði álits EFTA-dómstólsins á spurningum varðandi verðtryggingu neytendaláns á grundvelli þessara reglna um neytendavernd sem innleiddar hafa verið í hérlend lög samkvæmt EES-tilskipunum. Spurningarnar sem leggja á fyrir verða í sex liðum, en veigamestur er líklega sá fyrsti sem snýr einmitt að þessu álitaefni sem rakið er hér að framan:

1. Samrýmist það ákvæðum tilskipunar nr. 87/102/EBE um neytendalán, eins og tilskipuninni var breytt með tilskipun nr. 90/88/EBE og tilskipun nr. 98/7/EB, að við gerð lánssamnings, sem bundinn er vísitölu neysluverðs samkvæmt heimild í settum lögum og tekur því breytingum í samræmi við verðbólgu, sé við útreikning á heildarlántökukostnaði og árlegri hlutfallstölu kostnaðar, sem birtur er lántaka við samningsgerðina, miðað við 0% verðbólgu en ekki þekkt verðbólgustig á lántökudegi? 

Ég ætla að ljúka þessum pistli með smá skoðanakönnun. Spurningin sem mér þætti afskaplega áhugavert ef þið lesendur góðir mynduð svara, og e.t.v. rökræða (kurteislega) í athugasemdum hér að neðan, er einfaldlega þessi spurning sem hér var vitnað í og sem leggja á fyrir EFTA-dómstólinn: er það í samræmi við reglur um upplýsingaskyldu um lánskostnað að undanskilja þann kostnað sem hlýst af verðtryggingu með því að miða útreikninga við að verðbólgan verði engin? Jafnframt ef svo er, geta það þá talist vera raunhæfar forsendur fyrir samningi um slíka lánveitingu? Svarið gjarnan frá eigin brjósti hvað ykkur finnst réttmætt samkvæmt eigin sannfæringu.

Reynum svo að hafa umræðuna málefnalega ef fram koma skiptar skoðanir. :)


mbl.is Smálánafyrirtæki sögð sniðganga lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Guðmundur og takk fyrir enn einn frábærann pistilinn.

Svarið við spurningum þínum er einfallt, spurningin til EFTA dómstólsins er skýr og sjálfsögð og auðvitað eiga lánastofanir að upplýsa viðskiptavini sínu um allan kostna lána, samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir hverju sinni. Um þetta þarf vart að rökræða, svo sjálfsagt sem það er.

Hitt er svo annað mál að þegar stóráföll skella á þjóðinni, svona eins og eitt alsherjar bankagjaldþrot, breytir slík upplýsingaskylda litlu. Þær staðreyndir sem lánastofnanir geta nýtt til gerðar á kostnaðarmati lána hljóta alltaf að miða að þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá fortíðinni. Framtíðin er óskrifað blað.

Því er þetta lánaform, verðtrygging lána, allt of mikil áhætta fyrir hinn almenna borgara, sérstaklega til húsnæðislána. Það eru fáir lántakendur í þeirri stöðu að geta metið hvað framtíðin ber í skauti sér og enn minni geta til að taka á sig slík áföll sem bankahrun þjóðar veldur. 

Það er gott og gilt að leitast við að fá verðtryggingu lána hnekkt á þeirri forsendu að upplýsingaskylda lánastofnanna hafi ekki verið nægjanleg, en það leysir einungis vanda þeirra sem geta sýnt fram á að sú upplýsingaskylda  hafi ekki verið samkvæmt lögum. Lánastofnanir munu síðan sjá til þess að þessari skyldu verði sinnt, samkvæmt lögum. 

Lántakandinn mun því eftir sem áður taka verðtryggð lán og þegar nýtt bankafall verður mun önnur holskefla gjaldþrota ríða yfir.

Eina leiðin er að banna verðtryggð lán. Undantekningu má gera fyrir fagfjárfesta, ef þeir hafa ahuga á slíku lánsformi. Þeir ættu að vera í betri stöðu til að meta framtíðina.

Samhliða slíku banni ætti að setja á vaxtaþak á vexti lán til húsnæðiskaupa. Önnur neytendalán eru oftast til skamms tíma og kannski ekki þörf á vaxtaþaki á þau. 

Kveðja

Gunnar Heiðarsson, 1.11.2013 kl. 19:54

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

það leysir einungis vanda þeirra sem geta sýnt fram á að sú upplýsingaskylda hafi ekki verið samkvæmt lögum

Meðal þess sem ég bendi á í greininni er að þetta virðist einmitt vera tilfellið í nánast öllum tilvikum. Þannig mun þetta einmitt geta leyst vanda flestra ef ekki næstum allra, að framfylgja þessum lögum. Það er að segja fortíðarvandann sem er uppsafnaður. Eins og þú réttilega bendir á þarf aftur á móti að huga að öðrum lausnum til framtíðar, eins og þessari:

Eina leiðin er að banna verðtryggð lán

Það ánægjulega er að þetta stendur einmitt til að gera, a.m.k. varðandi neytendalán. það er meira segja búið að skrifa frumvarpið og koma því á framfæri við þá sem hafa umsjón með framkvæmd verkefnisins.

Guðmundur Ásgeirsson, 1.11.2013 kl. 20:40

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Lykilatriðið eða lykilorðin þarna eru ,,með fullnægjandi hætti".

Að td. ef um breytilega vexti er að ræða -þá er ekkert hægt að sýna fram á niðurnjörfað hver afborgunar upphæðin kann að vera langt fram í tímanum.

Það að fara fram með að verðtrygging hafi ekki verið nægilega vel útskýrð gagnvart lánveitenda - lítur soldið út eins og verið sé að segja að lántakendur hafi alls ekki skilið hvað verðtrygging er.

Eins og eg hef sagt áður, þá finnst mér rosalega langsótt að fara fram með slíkt og rosalega langsótt að dómsstólar fari að samþyggja af þeim sökum að lán hafi þess vegna innihaldið ósanngjarna skilmála.

En hver veit. Það hafa nú fallið furðulegir dómar sem stundum hafa litið út eins og dómararnir hafi varpað hlutkesti um niðurstöðuna.

Hinsvegar hefði átt að vísa gengismálunum líka til EFTA.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.11.2013 kl. 20:58

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þessu skal ég bara einfaldlega svara lið fyrir lið:

Að td. ef um breytilega vexti er að ræða þá er ekkert hægt að sýna fram á niðurnjörfað hver afborgunar upphæðin kann að vera langt fram í tímanum

Það er tekið mjög vandlega á þessu í lögunum, einmitt í 12. gr. sem vitnað er til í greinni og er samhljóða í bæði eldri lögum sem og þeim nýju. Þá skal einfaldlega miða útreikning lánskostnaðar og greiðsluáætlunar við þá forsendu, að vextirnir séu þeir sem gilda á þeim tíma sem útreikningurinn er gerður, til dæmis við undirritun lánssamnings, skuli gilda út lánstímann. Auðvitað geta þeir hækkað eða lækkað seinna og þá á líka að gera nýja kostnaðaráætlun og senda hana til neytandans svo hann eigi þess kost að velja hvort hann sætti sig við nýju vextina eða borgi upp eða endurfjármagni lánið með nýju láni á betri kjörum frá öðrum lánveitanda. Það er þessi samkeppni á grundvelli gegnsæis í lánskjörum sem er ætlað að vera neytendum til hagsbóta í þessu tilviki.

Þessi regla, um að miða við þær kostnaðarforsendur sem eru við lýði þegar útreikningurinn er gerður, eru þær nákvæmlega sömu og eiga við þegar um er að ræða verðtryggingu, sem er líka bara breytilegur kostnaðarliður gagnvart þessum lögum, alveg eins og breytilegir vextir geta verið. Það sem á þá að gera þegar lánskostnaður er reiknaður út, er að miða við þá forsendu að verðbólga verði sú sama og á lántökudegi út lánstímann. Það þýðir einfaldlega að ef það er 4% verðbólga þegar lánið er tekið, þá eiga útreikningar á lánskostkostnaði og greiðsluáætlun að miðast við að það verði 4% verðbólga út lánstímann. Þetta er vel hægt að gera alveg nákvæmlega eins og við breytilegu vextina og slíkir útreikningar eru meira að segja sýndir í fylgiskjali með tilvísaðri umsögn HH til Alþingis um málið.

Það er nærtækt fyrir mig að vitna í þetta þar sem ég er höfundur bæði umsagnarinnar og útreikninganna sem hafa verið yfirfarnir og samþykktir af hagfræðingum, stærðfræðingum, lögfræðingum og sjálfum mér. Nýlega birti Neytendastofa á vef sínum sýnidæmi um svona útreikninga á lánskostnaði, sem eru útfærðir á nákvæmlega sama hátt og mínir útreikningar (nema kannski ekki alveg eins ítarlega):

http://www.neytendastofa.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=3188

Eins og sjá má á þessum útreikningum er kostnaður vegna verðtryggingar tekinn með í reikninginn, eins og hefur alltaf verið skylt að gera.

Þannig er það augljóst að það hlýtur að vera algjörlega óraunhæf forsenda að miða við 0% verðbólgu, en slíkar forsendur hafa aldrei verið nálægt neinum raunveruleika hér á landi. Á hinn bóginn hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að miða kostnaðarútreikninga við rétta verðbólgu á hverjum tíma, og er í raun óskiljanlegt að það skuli ekki einfaldlega hafa verið gert.

Þess í stað hafa lánveitendur, í þeim fáu tilvikum þar sem þessi upplýsingaskylda hefur á annað borð verið uppfyllt að einhverju leyti, gengist upp í því að miða þá upplýsingagjöf við 0% verðbólgu, sem er bersýnilega óraunhæft og þar af leiðandi villandi upplýsingagjöf.

Reyndar er rétt að láta þess getið að örfá dæmi eru þekkt þar sem lánveitendur hafa kosið að miða útreikninga við 2,5% verðbólgu sbr. verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Þrátt fyrir að það sé samkvæmtopin beru viðmiði, þá má færafyrir samkonar og jafn sannfærandi rök fyrir því að það sé álíka óraunhæf forsenda. Helsti gallinn við hana er nefninlega sá að það er álíka sjaldgæft og Geirfuglinn að þetta markmið náist í raun og veru, auk þess sem það er óraunhæft miðað við núverandi þær forsendur peningamálastjórnar sem viðhafðar hafa verið gegnum tíðina að búast við því að Seðlabankinn geti eitthvað ráðið því hvort þetta markmið náist eða ekki miðað við þau fáu stjórntæki sem hann hefur í höndunum til þess.

Það að fara fram með að verðtrygging hafi ekki verið nægilega vel útskýrð gagnvart lánveitenda - lítur soldið út eins og verið sé að segja að lántakendur hafi alls ekki skilið hvað verðtrygging er.

Já það er nákvæmlega það sem er tilfellið. Hefur þú fundið venjulegan neytanda sem getur útskýrt fyrir þér hvernig verðtryggt jafngreiðslulán virkar, hvaða formúlur stýra kostnaðinum við það og hvaða breytur hafa áhrif á útkomuna úr þeirri formúlu? Nei, ég hélt ekki.

Ég skal spara þér vangavelturnar með því að benda þér á tvennt:

Annars vegar varðandi breyturnar, þá eru þær mörgþúsund talsins ef ekki tugþúsundir og tekur samsetning þeirra jafnframt breytingum sem enginn nema einhverjir örfáir galdrakarlar á Hagstofu Íslands skilja, ef þeir skilja það þá nokkuð sjálfir yfir höfuð.

Hins vegar varðandi reikniaðferðirnar, þá eru þær svo flóknar að sjálfur Seðlabanki Íslands reyndi á 13 blaðsíðna greinargerð  til Umboðsmanns Alþingis að gera grein fyrir þeim, en gafst upp á miðri leið og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri of flókið fyrir jafngreiðslulán til að setja fram á prenti. Þessa greinargerð er hægt að lesa á vef Seðlabanka Íslands:

http://sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=8964

Ef seðlabankinn getur ekki útskýrt það, hver á þá að skilja það?

Svo má benda á að sérfræðingar á sviði fjármálafræða hjá tilteknu verðbréfafyrirtæki hér í bæ hafa lagt fræðilegt mat á flækjustig verðtryggðra jafngreiðslulána (Íslandslána):

http://www.arev.is/wp-content/uploads/2013/06/20122012_T_afleidan.pdf

Niðurstaðan er einkum þessi: "T-alfeiðan er flókinn og varhugaverður fjármálagerningur. Í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti (108/2007, 2. gr.) og reglugerð (995/2007, 35. gr.) er líklegt að fjármálafyrirtækum sé óheimilt að skuldbinda almenna fjárfesta eða lántakendur með honum þar sem ósennilegt er að hann uppfylli skilyrðið um að vera tilhlýðandlegur (e. "suitable") fjármálagerningur fyrir slíka aðila."

Þá segir þar jafnframt: "Einu gildir hvort afleiðan er samofin lánasamningi eða ekki og má raunar færa fyrir því rök að í fyrra tilvikinu sé enn síður heimilt að skuldbinda lántakandann þar sem örðugra er fyrir hann að skilja eðli hennar við þær aðstæður. "

Eins og eg hef sagt áður, þá finnst mér rosalega langsótt að fara fram með slíkt og rosalega langsótt að dómsstólar fari að samþyggja af þeim sökum að lán hafi þess vegna innihaldið ósanngjarna skilmála.

Þetta var líka sagt um gengistryggingu fyrir fjórum árum síðan.

En hver veit. Það hafa nú fallið furðulegir dómar sem stundum hafa litið út eins og dómararnir hafi varpað hlutkesti um niðurstöðuna.

Í þessu tilviki er engin þörf á því. Það hefur þegar verið dæmt í sambærilegum málum víðsvegar um Evrópu á grundvelli nákvæmlega sömu reglna og niðurstöðurnar eru allar á einn veg. Ekkert "hlutkesti" þar.

Hinsvegar hefði átt að vísa gengismálunum líka til EFTA.

Það var gert. Reyndar ekki EFTA dómstólsins sjálf heldur eftirlits-stofnunarinnar (ESA). Helsta niðurstaðan var sú að þetta væri fyrst og fremst úrlausnarefni fyrir innlenda dómstóla, þar sem það er ekkert í reglunum sem hefur að gera með hvort gengistrygging sé leyfileg eða ekki heldur fer það bara eftir þeim lögum sem gilda í hverju landi fyrir sig. Hér á Íslandi reyndust lögin vera afdráttarlaus: það er ekki heimilt að nota aðra verðtryggingu en þá sem miðast við vísitölu neysluverðs. Þess vegna er óheimilt að verðtryggja miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Það þurfti ekki nema einn Hæstaréttardóma til að skera úr um þetta og þá var ekki varpað neinu hlutkesti heldur einfaldlega dæmt samkvæmt lögunum.

Vonandi verður það gert líka varðandi hina verðtrygginguna.

Einhverjar fleiri spurningar?

Guðmundur Ásgeirsson, 1.11.2013 kl. 21:53

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Neei, var það ekki þannig með gengistrygginguna, að ESA sagði að það væri óheimilt að banna hana? Mig minnir það.

Varðandi verðtrygginguna, að þarna kemur þá fram hjá þér að ef breytilegir vextir eru - þá er ekki hægt að reikna nákvæmlega fyrir fram mörg ár fram í tímann hver afborgunin verður.

Það sama hlýtur þá að gilda um verðtryggingu.

Þar fyrir utan, að mínu mati, þá er þarna komið útí svo mikið tæknilegt formsatriði að ræða - að það er tæplega réttlætanlegt að dómsstólar fari að dæma ,,ólöglegt" frá a-ö.

Við erum þá ekki, augljóslega, að tala um að verðtrygging sem slík sé ,,ól-gleg" heldur vissar tæknilegar útfærslum í lánaskilmálum séu með þeim hætti að verðtrygging sé útlistuð lið fyrir lið og jafnvel kennsla í verðtryggingu fylgi lántöku.

Það er nóg, að mínu mati, að fólk viti sirka hvernig verðtrygging virkar.

Til að túlkast sem ólögmætir skilmálar þyrfti að sýna fram á að lántaki hafi ekki gert sér grein fyrir að lánið væri verðtryggt og verðtrygging/verðbætur hefðu komið flatt uppá viðkomandi lántaka.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.11.2013 kl. 22:54

6 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Guðmundur og hafðu þökk fyrir þessa samantekt. 

Ég vil víkja aðeins að Smálánum sem eru veitt í gegnum símaskilaboð.  Í þessum lánum fer ekki fram neitt greiðslumat, ekki gefið neinar skýringar á reglugerðum um innheimtu.

Hvar liggur réttur þeirra sem fengu þessi lán.

Ég hef séð dæmi um smálán kr.12000 kr. verða að kr. 60.ooo á nokkrum mánuðum. Þessi hækkun á sér ekki stað með hefðbundum dráttarvöxtum, heldur ítrekuðum innheimtubréfum sem eru stutt með reglugerð. Þ.e. ríkisvaldið styður þetta innheimtuferli. 

Hækkun þessara smálána í innheimtuferli skv. reglugerðum gefur  það í skyn að verðbólgu/vísutölulán er í facta smálán í þeim samanburði.

Gaman væri að fá einnig umræðu um stöðu lántakanda gagnvart smálánafyrirtækjum og lögum og reglugerðum sem þau byggja á.

Eggert Guðmundsson, 1.11.2013 kl. 22:55

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

,,Ísland hefur gerst brotlegt við EES samninginn með því að leggja algert bann við veitingu gengistryggðra lána í íslenskum krónum. Þetta er niðurstaða rökstudds álits Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í dag."

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/05/22/ologlegt_ad_banna_gengistryggd_lan_i_kronum/

Hefði nefnilega átt að vísa þessu gengistryggingarmáli strax í upphafi til EFTA. Það vildu íslenskir dómsstólar ekki, einhverra hluta vegna.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.11.2013 kl. 00:04

8 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Og ps. Með núverandi málaupplegg varðandi verðtryggingu, þá snýst það ekki um hveort verðtrygging sé lögleg eða ólögleg.

Snýst um hvort skilmálarnir í lánasamningi séu fullnægjandi varðandi upplýsingagjöf um hvernig verðtrygging virkar.

Eg segi það enn, mér finnst ákaflega langsótt að dómsstólar fari að dæma slíkt sem ósanngjarna skilmála í lánasamningum.

Það sést líka strax að þar sem dómar hafa fallið í Evrópudómstól um slíka ósanngjarna skilmála - að þá er um alt annað að ræða en í tilfelli Íslands.

Í tilfelli Íslands er verðtrygging stjórnvaldsaðgerð sem gripið var til vegna ónýtleika krónunnar. Og verðtrygging er til að jafna út sveiflur.

Hvernig sem umræddu er snúið - þá væri gjörsamlega fráleitt af dómsstólum að dæma slíkt ólöglegt.

EN eins og áður er sagt, þá falla oft undurfurðulegir dómar og ekki síst hin seinni ár. Eg vara fólk samt við að setja allt traust sitt á að það vinni lottó fyrir dómsstólum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.11.2013 kl. 00:10

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ómar Bjarki:

Neei, var það ekki þannig með gengistrygginguna, að ESA sagði að það væri óheimilt að banna hana? Mig minnir það.

Þarna ertu að rugla saman tveimur ólíkum málum. Í fyrsta lagi þá sendu Hagsmunasamtök heimilanna í samstarfi við fleiri aðila, ítarlegt erindi (það vó fleiri kíló á pappír) til ESA þar sem var fjallað um hvort það væri réttmætt að  breyta vöxtum afturvirkt (sbr. seðlabankavexti) og í því var rétt svo minnst á verðtrygginguan neðanmáls. Það var úr því máli sem fékkst sú niðurstaða að þetta væri úrlausnarefni innlendra dómstóla, sem átti svo eftir að koma á daginn að þeir hafa núna leyst úr þessu að nokkru leyti. Athugaðu að það er alls ekkert víst að þeir hefðu gert það nema vegna þess að svona þrýstingi var beitt til að knýja á um það.

Í öðru lagi þá var það lögmaður á vegum bankanna sem beindi miklu seinnaerindi til ESA þar sem hann hélt því fram að bann við gengistryggingu bryti gegn ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga. Að sjálfsögðu hefur það hvort tiltekin lánaform eru leyfileg innanlands á Íslandi ekki nokkurn skapaðan hlut með fjármagnsflutninga milli landa að gera, en á einhvern óskiljanlegan hátt tók ESA samt upp þá afstöðu sem virðist hafa verið pöntuð, að svo kynni að vera. Þessu hefur ekki verið leyst úr fyrir dómstólum ennþá, og líklega er EFTA-dómstóllinn sá eini sem getur skorið úr um það. Af fenginni reynslu minni af þeim dómstól, þá dæmir hann eftir þeim reglum sem gilda án þess að snúa mikið út úr þeim, eins og hann gerði til dæmis í Icesave málinu. Ef hann gerir það með gengistryggingu líka, þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af niðurstöðunni.

Varðandi verðtrygginguna, að þarna kemur þá fram hjá þér að ef breytilegir vextir eru - þá er ekki hægt að reikna nákvæmlega fyrir fram mörg ár fram í tímann hver afborgunin verður.  Það sama hlýtur þá að gilda um verðtryggingu.

Það er einmitt kjarni málsins. Það á að miða við bestu fáanlegu forsendur sem fáanlegar eru, alveg sama hvort um er að ræða breytilega vexti eða verðtryggingu, og bestu fáanlegar forsendur eru þær sem eru raunverulegar á þeim tíma sem lánið er veitt eða útreikningur gerður.

Þar fyrir utan, að mínu mati, þá er þarna komið útí svo mikið tæknilegt formsatriði að ræða - að það er tæplega réttlætanlegt að dómsstólar fari að dæma ,,ólöglegt" frá a-ö.

Það vill nú bara þannig til að þetta "tæknilega formsatriði" er algjört aðalatriði samkvæmt tilskipuninni og lögunum um neytendalán, það er að segja að upplýsingar um kostnaðin séu eins nákvæmar og hægt er. Þess vegna geta þessar reglur einmitt náð yfir allskonar ólík lánaform, bæði með og án verðtrygging, breytilegum vöxtum, og hvaðeina. Eina spurningin sem upplýsingarnar þurfa að svara er: hvað á með réttu að borga mikið til baka miðað við þær forsendur sem eru uppi þegar lánið er tekið? Þetta er eins og áður sagði alls ekkert erfitt að áætla með þeim hætti.

Við erum þá ekki, augljóslega, að tala um að verðtrygging sem slík sé ,,ól-gleg"

Nei alls ekki, enda á þetta einungis við um neytendalán.

heldur vissar tæknilegar útfærslum í lánaskilmálum séu með þeim hætti að verðtrygging sé útlistuð lið fyrir lið og jafnvel kennsla í verðtryggingu fylgi lántöku.

Ekki endilega kennsla, heldur bara að ítarlega sé gert grein fyrir þeim kostnaði sem þetta hefur í för með sér, og hvernig hann myndast.

Það er nóg, að mínu mati, að fólk viti sirka hvernig verðtrygging virkar.  Til að túlkast sem ólögmætir skilmálar þyrfti að sýna fram á að lántaki hafi ekki gert sér grein fyrir að lánið væri verðtryggt og verðtrygging/verðbætur hefðu komið flatt uppá viðkomandi lántaka.

Það er einmitt það sem enginn gerir sér  grein fyrir, ekki einu sinni Seðlabanki Íslands treystir sér til að útskýra það fyrir Umboðsmanni Alþingis hvernig þetta virkar. Það er ógegnsæið sem gerir þetta óréttmætt.

Svo er sama hvað þér finnst, það eru lögin sem gilda.

Eggert:

Það gilda núna frá og með deginum í dag sömu reglur um þessi lán og önnur, að upplýsa verður með skýrum hætti um allan kostnað, og þá meina ég allan kostnað við lántökuna. Auk þess er nú komið í gildi hámark á þann kostnað, sem nemur árlegri hlutfallstölu 50% að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Það ætti að binda enda á þessi okursmálán eða a.m.k. að koma einhverjum böndum á kostnaðinn við þau.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.11.2013 kl. 00:21

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

P.S. biðst velvirðingar að skáletrun tilvitnana í Ómar Bjarka misfórst þarna á köflum en ég vona að þetta skiljist engu að síður.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.11.2013 kl. 00:24

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Varðandi gengistrygginguna, þá hefði samt verið fróðlegt að sjá útkomuna ef málinu hefði verið vísað strax fyrir EFTA. Þeir hefðu, sennilega, dæmt hana góða og gilda.

Með verðtrygginguna, að þá verður þetta bara að koma í ljós.

Það sem mér finnst mest umhugsunarvert er, að dómar sem stundum er vísað í eru um allt annað en íslenska tilfellið með verðtrygginguna. Málin eru allt annars eðlis.

Að öðru leiti finnst mér umhugsunarvert varðandi það er þú nefnir með ,,þrýsting" á dómsstóla.

Að ef niðurstöður dómsstóla eru farnar að byggja á þrýstingi hagsmunaaðila - þá erum við komin útá hættulega braut.

Hugsanlega eru dómsstólar oft ofmetnir. Stundum er ekki endilega gott að vinna mál fyrir dómsstólum sbr. betri er mögur sátt en feitur dómur.

Eg er hálfpartinn hugsi yfir öllu dómaþvarginu á íslandi hin seinni ár. Td. varðandi æfingar sumra fjármálamanna tengdum bönkum. Að eftir mikið þvarg og þvælu þar sem dómsstólar fallast loks á að ekki hafi allt farið eftir lögum - þá kemur nauðaómerkilegur dómur sem er nánast bara grín.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.11.2013 kl. 00:33

12 identicon

Þrátt fyrir umræðu núna í 5 ár um gengistryggð lán virðist Ómar ekki enn hafa öðlast skilning á muninum á gengistryggðu og svo erlendu láni.

Karl anginn.

Gengitstrygging kemur frelsi í fjármagnsflutningum ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Sigurður (IP-tala skráð) 2.11.2013 kl. 22:40

13 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jamm það er mjög sérstakt að verða vitni að þessari umræðu þegar Ísland er á bak við gjaldeyrishöft, að einhverjum skuli detta í hug að það sé eitthvað annað en gjaldeyrishöftin sem hefta fjármagnsflutninga. Það er að minnsta kosti alls ekki bann við notkun gengisvísitölu til verðtryggingar neytendalána í íslenskum krónum sem er að hefta fjármagnsflutninga!

En Ómar Bjarki snertir líka á öðru og mikilvægara atriði:

ef niðurstöður dómsstóla eru farnar að byggja á þrýstingi hagsmunaaðila - þá erum við komin útá hættulega braut.

Soðið þá endilega þessa tvo dóma:

http://www.haestirettur.is/domar?nr=8360

"Á hinn bóginn liggja fyrir yfirlýsingar varnaraðila [Landsbankans] .... Að áliti dómsins felst í þessum yfirlýsingum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir, enda eru engar vísbendingar um að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila. "

Hálfu ári seinna var þessi banki í fréttum fyrir að geta ekki greitt af 300 milljarða skuldabréfi við slitastjórn gamla bankans sem hann tók við af. Þannig reyndust þessar "yfirlýsingar" sem dómurinn byggðist á vera eintóm froða eins ogallt annað í þessum bönkum.

http://www.haestirettur.is/domar?nr=9028

Á hinn bóginn hefur varnaraðili [Lýsing] lýst því yfir að hann hafi... [gert ýmislegt] Þá hefur varnaraðili lýst því yfir í kjölfar dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, sem varði bílasamning, að hann hafi... [gert ýmislegt] Felst í yfirlýsingum þessum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir og hefur sóknaraðili ekki lagt fram haldbær gögn sem styðja það að ástæða sé til að óttast um greiðslugetu varnaraðila.

Það var rétt svo liðinn mánuður frá þessum dómi þar til það fréttist að lánveitandinn sem í hlut á hefði lokið "endurfjármögnun" sem fól það meðal annars í sér að veðsetja stærsta kröfuhafanum allar eignir fyrirtækisins, og skilja lítið sem ekkert eftir til ráðstöfunar handa viðskiptavinum sem bíða enn eftir að fá endurgreiðslu á ofteknum lánskostnaði.

Í báðum þessum málum var dæmt eftir yfirlýsingu fjármálafyrirtækis. Ekki lögum, ekki málsatvikum, og ekki sönnungargögnum, heldur yfirlýsingum hinna brotlegu aðila á þessum málum, í báðum tilvikum fjármálafyrirtæki.

Eigum við svo að ræða fleiri dóma sem hafa verið fjármálafyrirtækjunum mjög að skapi, eða prófmálin ellefu sem þau fengu hálft ár til að hafa samráð um að velja og sem hafa ekki leitt af sér nokkurn skapaðan hlut?

Já það má svo sannarlega taka undir það sjónarmið, að full ástæða sé til að hafa áhyggjur af "þrýstingi" hagsmunaaðila á dómskerfið. Sérstaklega í ljósi þess að stærstu hagsmunaaðilar landsins virðast ekki einu sinni þurfa að beita dómstólana þrýstingi, heldur byggja dómstólarnir beinlínis niðurstöður sínar á yfirlýsingum þessara stóru hagsmunaaðila.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.11.2013 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband