Opinber vísbending um huglæga afstöðu?

Þann 15. febrúar 2012 lögðu Hagsmunasamtök heimilanna fram hjá Sérstökum saksóknara, kæru á hendur öllum stjórnendum allra þeirra bankastofnana sem veittu ólögmæt gengistryggð lán frá árinu 2001 og sem síðan hafa innheimt þessi lán. Í kæru samtakanna voru brotin talin varða við 17. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, 248. og 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 68. og 76. gr. laga um hlutafélög nr. 30/1995. Með kærunni fylgdi listi unnin úr hlutafélagaskrá með kennitölum og nöfnum hinna ákærðu sem voru mörg hundruð talsins auk áskilnaðar um fleiri óþekkta og yrði endanleg rannsókn að leiða í ljós tæmandi lista réttilegra sakborninga.

Þann 3. apríl 2012 barst samtökunum svar frá embætti Sérstaks saksóknara. Samkvæmt því taldi saksóknari ekki vísbendingar að finna í kæru samtakanna um að hinir ákærðu kynnu með athöfnum sínum eða athafnaleysi að hafa uppfyllt refsiskilyrði, þ.m.t. hvað varðar huglæga afstöðu, og þar með bakað sér refsiábyrgð. Saksóknari hefði því ákveðið að vísa kærunni frá á grundvelli 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samtökin kærðu þessa ákvörðun til Ríkissaksóknara þann 3. maí 2012 en fengu þann 1. júní svar frá embættinu þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest, þ.e. að kærunni skyldi vísað frá.

Meðal þeirra sem tilnefndir voru í kæru hagsmunasamtakanna eru fyrrum stjórnendur Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson forstjóri, Sigurður Einarsson stjórnarformaður og fleiri, en sem fyrr segir var listi yfir ákærðu ekki endilega tæmandi þar sem engin rannsókn hafði farið fram í málinu eins og var þó farið fram á að sérstakur saksóknari gerði og beitti til þess rannsóknarvaldi sínu.

Með hliðsjón af þessu vekur það nokkra athygli að þessir sömu menn skuli nú um þessar mundir standa í málaferlum um gengisbundin lán, en um er að ræða mál sem Drómi hf. höfðaði fyrir hönd þrotabús SPRON á hendur umræddum herramönnum ásamt fleiri fyrrum stjórnendum Kaupþings. Málið sem tekið var fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi snýst um kúlulán sem eignarhaldsfélag stefndu, Hvítsstaðir ehf., tók til kaupa á jörðinni Langárfoss árið 2005, en endurgreiða átti lánið árið 2010. Leiða má líkur að því að sú greiðsla hafi ekki borist enda annars vart tilefni til málshöfðunar.

Þess má geta dómar hafa áður fallið í tveimur keimlíkum málum Dróma hf. gegn Jónasi Þór Þorvaldssyni, fyrrum starfsmanni Kaupþings og framkvæmdastjóra Landfesta (fasteignafélags í eigu Arion banka) og eiginkonu hans. Þau mál voru einnig höfðuð til fullnustu á innheimtu gengistryggðra kúlulána sem áttu í því tilviki að greiðast árið 2009 en greiðsla barst aldrei. Meðal þess sem var merkilegt í niðurstöðu Hæstaréttar í málunum var að þar sem aldrei hafði verið greitt af lánunum ætti dómafordæmi um gildi fullnaðarkvittana ekki við heldur væri rétt að miða endurútreikning við lög nr. 151/2010 til að ákvarða eftirstöðvar þeirra, sem væru rétt tilgreindar kröfur og til fullnustu þeirra mættu fjárnámsgerðir á hendur þeim hjónum ná fram að ganga. Ekki var tekin afstaða til þess hvort þeir útreikningar væru rétt útfærðir, þar sem það var ekki sérstakt ágreiningsefni en svo merkilegt sem það kann að virðast tóku stefndu ekki til neinna varna í þessum tveimur málum.

Þannig hefur nú verið höfðað svipað mál og þetta á hendur aðilum sem hafa verið opinberlega ákærðir fyrir að hafa af ráðnum hug veitt lán með gengistryggingu vitandi að um ólöglega samningsgerð væri að ræða. Er það ekki síst athyglisvert í ljósi þess að samkvæmt heimildum sem Morgunblaðið vitnar til bera þeir stefndu fyrir sig að lánið sem málið snýst um sé ólögmætt gengistryggt lán og beri að reikna upp á nýtt.

Það hlýtur þá að þurfa líka að skoða upp á nýtt hvaða huglæga afstöðu hinir stefndu kunni að hafa haft til veitingar þeirra lána sem þeir sjálfir stóðu að sem stjórnendur Kaupþings banka á þessum tíma, en flest þeirra voru einmitt veitt almenningi eftir árið 2005. Ekki verður betur séð en að framburður þeirra fyrir dómi nú um málsatvik sem eru fyllilega sambærileg feli í sér skýrar vísbendingar um huglæga afstöðu þeirra til þess að veita gengistryggð lán, það er að segja að þeir skuli beinlínis byggja málsvörn sína á það hafi verið ólöglegt. Jafnframt verður að líta til stöðu þeirra sem stjórnenda stærsta fjármálafyrirtækis landsins auk þess ávinnings sem þeir höfðu í formi atvinnutekna af starfsemi þess sem fól meðal annars í sér veitingu umræddra lána, sem samkvæmt þeirra eigin framburði fyrir dómi nú, fólu í sér einmitt þau lögbrot sem þeir hafa áður verið kærðir fyrir af Hagsmunasamtökum heimilanna.

Vart fæst þannig betur séð en að fram séu komnar knýjandi ástæður fyrir saksóknara til þess að endurskoða nú þá fyrri ákvörðun sína að vísa frá þeim þætti kærunnar sem snýr að fyrrum stjórnendum Kaupþings. Getur verið að þeir séu jafnvel búnir að játa með óbeinum hætti á sig einhverja tiltekna huglæga afstöðu nú þegar til veitingar lána með ólöglega gengistryggingu? Getur verið að þeim finnist hún hafa verið óréttlát og vilji fá lánin sín leiðrétt? Þetta yrði einkum kannað með því að lesa skrásettan framburð þeirra og framlagðar greinargerðir til varnar í máli Dróma hf. á hendur Kaupþingsmönnum.


mbl.is Kaupþingsmenn hafna gengistryggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Það sem er merkilegt við afstöðu Sérstaks saksóknara á kæru HH er að hún virðist eingöngu byggjast á mati hans á málsástæðum án nokkurra frekari rannsókna eða vitnaleiðsla.  Þetta segi ég því ég sendi mjög ítarlega kæru til Sérstaks vegna stjórnenda SP-Fjármögnunar, sem svo var vísað frá á sömu ástæðum og kæru HH, þ.e. að efast var um að huglæg afstaða kærðu við samningsgerð hafi uppfyllt ákvæði um saknæmi.  Ég var aldrei kallaður til skýrslugerðar vegna minnar kæru, og það sem meira er saksóknarfulltrúinn hélt því fram að ekki kæmi fram í kærunni í hverju hin meinta blekking var fólgin, engu að síður voru málsatvik skýrð ítarlega.  En....svona er Ísland í dag.  Algerlega handónýtt!

Erlingur Alfreð Jónsson, 15.4.2013 kl. 21:36

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Erlingur. Stjórnendur SP voru líka tilnefndir í kæru HH.

Já þetta er því miður svo ónýtt að réttlætið nær ekki fram að ganga.

En eins og ég bendi á pistlinum ætti þó núna að vera fullt tilefni fyrir saksóknara til þess að endurskoða afstöðu sína til kærunnar.

Annars gætum við kannski þurft að kæra saksóknarann...

Guðmundur Ásgeirsson, 16.4.2013 kl. 15:03

3 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

.....og það sem meira er: Landsbankinn hefur lýst því yfir í tölvupósti til mín að Hrd. 600/2011 eigi ekki við um bílalán að þeirra mati og bílalán Landsbankans verða ekki endurreiknuð nema dómstólar skeri svo úr. En það merkilega við þessa afstöðu er að Héraðsdómur hefur skorið úr um að Hrd. 600/2011 gildi um bílasamninga Landsbankans við lögaðila en Landsbankinn neitar að fara eftir dómnum!

Erlingur Alfreð Jónsson, 16.4.2013 kl. 15:48

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þess má geta að nokkur mál eru nú á leið í gegnum dómskerfið þar sem reynir á lögmæti bílasamninga sem heyra undir Landsbankann. Þeir eru hugsanlega að bíða niðurstaðna þeirra eins og Lýsing segist vera að gera.

Guðmundur Ásgeirsson, 16.4.2013 kl. 16:10

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

www.haestirettur.is/domar?nr=8773

Það virðist vera komin ákveðin niðurstaða um bílasamningana. Með fyrirvara um að ég er enn að kynna mér dóminn í máli nr. 672/2012 þá virðist hann vera mjög góður og gæti haft umtalsvert fordæmisgildi að mínu mati. Það byggi ég á því að þau lagarök sem beitt var í málinu geta átt við um hvað neytendalán sem er þar sem upplýsingar um lánskostnað eru ekki nógu skýrar.

Þessi dómur er afar merkilegur, einkum fyrir tveggja hluta sakir:

1   a. Staðlað ákvæði um breytilega vexti var dæmt ógild.

     b. Í stað breytilegra vaxta töldust samningsvextir gilda.

2.  a. Verðtrygging lánsins í íslenskum krónum var dæmd ógild.

     b. Það varð ekki til þess að ógilda umsamda vexti samningsins.

     c. Sem hnekkir meintu fordæmi máls 471/2010 um SÍ vexti.

Þetta felur í sér viðurkenningu mikilvægra atriða:

- Málflutningur Hagsmunasamtaka heimilanna reynist enn hárréttur.

- Sturla Jónsson er ekki lesblindur, þó að hann haldi því sjálfur fram. 

- Það er engan veginn óraunhæft að verðtrygging ógildist með dómi.

- Fordæmið um seðlabankavextina var bara plat allan tímann.

Líklega endar þetta með því að fjármálakerfið neyðist til að viðurkenna að það er ekki til einn einasti löglegur lánasamningur hjá þeim og skuldir íslenskra heimila eru í raun helmingi lægri en haldið hefur verið fram.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.4.2013 kl. 14:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband