Smálán já, en hvað með þau meðalstóru?

Talsvert hefur verið fjallað undanfarna sólarhringa um vandamál sem tengjast svokölluðum smálánum. Í þeirri umræðu vill þó falla í skuggannn sú staðreynd að enn eru óleyst mál sem snúa að meðalstórum neytendalánum, og er þá vísað til almennra lána heimila á borð við húsnæðislán. Stórlánin, þ.e. þau sem hljóða upp á milljarðana vegna froðuviðskipta eru svo sér kafli út af fyrir sig sem verður ekki fjallað um hér enda hefur gengið prýðilega að leysa úr þeim með stórfelldum afskriftum.

Eftir stendur að álíka stór hluti mála er óleystur vegna meðalstórra neytendalána, sem falla hvorki í þann flokk að vera smálán fyrir neyslu eða stórlán fyrir braski, heldur einfaldlega þau lán sem fjölskyldur hafa tekið til að búa sér heimili, og eru gjarnan á bilinu frá nokkrum milljónum upp í nokkra tugi milljóna að fjárhæð.

Málefni meirihluta þeirra sem sitja uppi með slík lán eru ennþá óleyst, núna fjórum árum eftir hrun. Burtséð frá smáskammtalækningum sem boðnar hafa verið, þá eru það engar raunverulegar lausnir sem útrýma vandanum heldur framlengja hann bara. Svona svipað og lítill plástur sem er settur á slagæðablæðingu, hann seinkar því kannski að manni blæði út, en mun hinsvegar aldrei koma í veg fyrir hinar óhjákvæmilegu afleiðingar.

Varðandi smálánin hefur mikið verið vísað til fyrirhugaðrar endurskoðunar á lögum um neytendalán, þar sem meðal annars verði tekið á þeim hluta lánamarkaðarins. Minna hefur þó og nánast ekkert verið fjallað um þá staðreynd að lög um neytendalán hafa einmitt verið í gildi frá árinu 1993 þegar þau voru sett á grundvelli tilskapana sem innleiddar voru í kjölfar undirritunar EES-samningsins. Séu lög þessi grandskoðuð sem og saga þeirra öll kemur í ljós, að óþarfi er að tala um afnám verðtryggingar, því síðan þau tóku gildi hafa þau í reynd lagt bann við því formi ótakmarkaðrar verðtryggingar sem hér tíðkast á neytendalánum.

Árið 2000 var svo lögunum breytt og gildissvið þeirra útvíkkað þannig að síðan þá hafa þau einnig gilt um húsnæðislán. Með öðrum orðum fæst ekki annað séð en að verðtryggingin hafi þegar verið afnumin á bróðuparti allra neytendalána, og það fyrir tólf árum síðan hvorki meira né minna.

Nú kann einhver að vísa því frá sem fásinnu að það geti staðist að umrædd starfsemi hafi fengið að viðgangast öll þessi ár án þess að standast lög. Í því tilliti má á móti benda á að örfáum mánuðum eftir að þessi breyting var gerð, var einnig gerð breyting á lögum um vexti og verðtryggingu sem fól í sér afnám heimildar til verðtryggingar miðað við gengi erlendra gjaldmiðla (svokallaðrar gengistryggingar).

Þá rétt eins og þegar neytendalánalögunum var breytt, lögðust lánveitendur gegn afnámi heimilda þeirra til verðtryggingar. Í skjalfestum álitum þeirra kemur vel fram að þeir skildu hvað lögin þýddu, en virðast í báðum tilvikum hafa einfaldlega kosið að fara ekki eftir þeim. Frá þessu leið svo tæpur áratugur frá afnámi gengistryggingar þar til ólögmæti hennar var endanlega staðfest með dómi hæstaréttar.

Í dag eru liðin tæp tólf ár frá afnámi verðtryggingar á húsnæðislánum, og um átján ár frá því hún var afnumin á öðrum neytendalánum. Fjölmiðlar hafa algjörlega hunsað þessa stórfrétt, sem er ekki síður stór í dag þrátt fyrir að vera orðin gömul. Enn hefur þó ekki fallið dómur þessu til staðfestingar, enda hefur aldrei verið reynt á það fyrir dómstólum svo vitað sé, ekki frekar en gengistrygginguna þangað til sumarið 2010.

Nú eru hinsvegar í undirbúningi dómsmál þar sem mun reyna á ýmsar hliðar verðtryggingarinnar, og ekki bara þessa sem hér er nefnd til sögunnar heldur ýmsar fleiri. Til dæmis heimila vaxtalögin frá 2001 alls ekki verðtryggingu á höfuðstól skuldar, en það er þó sú aðferð sem lánveitendur hafa beitt við útreikninga og innheimtu eftirstöðva þessara lána um árabil og sú aðferð breyttist ekki þó vaxtalögunum væri breytt að þessu leyti.

Þegar hæstiréttur dæmdi gengistryggingu ólögmæta í júni 2010 var það ekki vegna þess að neinsstaðar stæði í lögum að hún væri beinlínis bönnuð, heldur vegna þess að það stóð hvergi í lögum að hún væri heimil. Nú skora ég á alla sem vilja láta þessi mál til sín taka að kanna hvort einhversstaðar í íslenskum lögum er veitt heimild til verðtryggingar á höfuðstól skuldar. Ef ekki er sýnt að tiltekið form verðtryggingar sé heimilt, þá er óhjákvæmileg niðurstaða samkvæmt röksemdum hæstaréttar að álíta það óheimilt.

Þessi áskorun beinist ekki síst að þeim sem eru andvígir þessu sjónarmiði, því það eru slíkir úrtölumenn sem þurfa að sannfærast, rétt eins og um gengistrygginguna.

 


mbl.is Leggur aftur fram frumvarp um smálán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Þetta er stórfrétt Guðmundur. Það eru sennilega fáir sem vita þetta, nema kannski bankarnir.

Það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þessa máls, sérstaklega fyri okkur sem vorum eingöngu með verðtryggð lán og höfum nánast alfarið verið haldið utan allra "leiðréttinga".

Reyndar hefði maður haldið að slíkur forsemdubrestur lána sem varð við hrun ætti að duga til endurskoðunnar lána. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig hefði verið tekið á málinu ef þessi brestur hefði orðið lántakendum í hag, ef lán hefðu á einni nóttu lækkað um 40%. Þá er hætt við að sjórnvöld hefðu verið fljót að grípa til lagasetninga.

Gunnar Heiðarsson, 22.8.2012 kl. 07:59

2 identicon

Gaman væri að frétta hvenær HH þingfestir dómsmálið um verðtrygginguna fyrir Héraðsdómi, því þetta er stór mál fyrir allan almenning í þessu landi, og það verður gaman að fylgjast með því.

Samk. lögum um greiðslujöfnun fasteignalána til einstaklinga Nr.63/1985.

Bar ríkistjórninni að taka vísitöluna úr sambandi strax eftir Hrun, ég get ekki komist að annari niðurstöðu.

1.gr."Skal misgengi sem orsakast af hækkun vísitölu neysluverðs eða annarar viðmiðunarvísitölu lána, umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist"

Halldór Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.8.2012 kl. 10:37

3 identicon

Ég er með verðtryggt og stökkbreytt lán, ég á minna en ekki neitt í íbúðinni minni.. ég er ekki að sjá að ríkið ætli að gera neitt í þessum málum.. ef eitthvað verður gert, ætli margir verði ekki búnir að missa allt sitt og endi með engar leiðréttingar.

Þetta smálánarugl er alger skömm, það er ekki hægt að fara á neinar síður án þess að smálánaauglýsingar poppi upp, erlendar sem innlendar síður smella þessu í andlitið á manni út um allt; Það er augljóslega ofurgróði á þessum okurlánum þeirra

DoctorE (IP-tala skráð) 22.8.2012 kl. 12:04

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Halldór ég get ekki gefið upp dagsetningu en þess verður þó ekki langt að bíða. Málsmeðferð alla leið í hæstarétt getur hinsvegar tekið talsverðan tíma eins og í öllum viðamiklum málum. Meira um þetta, bráðum.

Guðmundur Ásgeirsson, 22.8.2012 kl. 21:07

5 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Það má benda á blaðagrein á mbl.is -fréttir frá 6.okt 1993.Smá úrdráttur.

 
6. október 1993 | Innlendar fréttir | 396 orð

"Bankarnir hafa ekki getað keypt viðskiptaskuldabréf eftir 1. október

Bankarnir hafa ekki getað keypt viðskiptaskuldabréf eftir 1. október Afborgunarsamningar standast ekki lög um neytendalán BANKAR og sparisjóðir hafa ekki getað keypt afborgunarsamninga sem gerðir hafa verið frá mánaðarmótum vegna þess að þeir standast...

Bankarnir hafa ekki getað keypt viðskiptaskuldabréf eftir 1. október Afborgunarsamningar standast ekki lög um neytendalán"

Eggert Guðmundsson, 26.9.2012 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband