Hvar í heiminum er hr. Lee Buchheit?

Kæmi ykkur á óvart ef ég upplýsti að hann væri núna staddur í Aþenu?

Einhver kynni nú að búast við safaríkri samsæriskenningu í næstu málsgrein.

Ég vona þá að ég valdi ekki vonbrigðum með því að vitna hér að mestu leyti í þurr og opinberlega aðgengileg gögn, meðal annars verk hr. Buchheit sjálfs. Undanfarin misseri hefur hann skrifað nokkrar greinar, meðal annars um skuldavanda Grikklands. Samkvæmt frétt Athens News er hann nú staddur þar til að starfa sem ráðgjafi grískra stjórnvalda í samningaviðræðum við erlenda kröfuhafa.

Já þetta er svo sem eitthvað sem við Íslendingar könnumst við þegar hr. Buchheit er annars vegar. Eitt af því sem borið hefur á góma í tilfelli Grikklands er það skilyrði lánadrottna fyrir nýjum samningum að þeir innihaldi ákvæði sem fella þá undir enska lögsögu. Já, þetta er reyndar líka eitthvað sem bar á góma þegar hr. Buchheit heiðraði okkur með nærveru sinni í fyrra.

Bæði hr. Buchheit, aðrir samninganefndarmenn sem og stjórnmálaleiðtogar voru ítrekað spurðir út í þetta atriði og þýðingu þess. Almennt var reynt að gera lítið úr því og látið sem um lagatæknilegt formsatriði væri að ræða, eða bent á að að dómsmeðferð skyldi fara fram fyrir alþjóðlegum dómstól í Haag sem væri sanngjarn og hlutlaus vettvangur. 

Hvernig dómstóll á hollenskri grundu sem dæmir samkvæmt enskum lögum er sanngjarn vettvangur fyrir Íslendinga til að verja sig á hef ég reyndar alltaf átt erfitt með að skilja. Af öllum mönnum ætti Buchheit að vera meðvitaður um þá þýðingu sem þetta getur haft. Við skulum grípa niður í grein hans og Mitu Gulati frá árinu 2010 þar sem fjallað er um möguleika á endurskipulagningu skulda gríska ríkisins.

"How to Restructure Greek Debt" (úrdrættir): Governing law. From the legal standpoint, the salient feature of Greece’s bond debt is that approximately 90% of the total is governed by Greek law. Only about 25 billion of the bond debt was issued under the law of another jurisdiction, and most of that under English law.

Það er semsagt álitið lykilatriði hversu stór hluti skulda Grikklands lýtur grískum lögum, og hversu lítill hluti enskum. Hér er svo merkilegt fróðleikskorn í framhjáhlaupi:

But Greece’s form of negative pledge clause did not change for more than four years after the adoption of he Euro; the “lawful currency” just quietly ceased being the Drachma and ecame instead the Euro. In practical terms, this means that Greece’s negative pledge clause in its foreign law bonds issued prior to 2004 would only be triggered by the creation of a lien to secure a non Euro-denominated Greek debt.

Kröfur skráðar í drökmum frá því fyrir upptöku evru, virðast samkvæmt þessu njóta forgangs fram yfir kröfur í evrum. Ætli yfirprentararnir í Frankfürt viti af því? En safaríkasti kaflinn er hugsanlega þessi:

No other debtor country in modern history has been in a position to significantly to affect the outcome of a sovereign debt restructuring by changing some feature of the law by which the vast majority of the instruments are governed.

Þetta var reyndar ekki alveg rétt, því þegar það var skrifað höfðu Íslendingar strax hafnað einum lögum sem hefðu breytt talsverðu um fjárhagslega útkomu ríkisins við endurreisn efnahagslífsins, og áttu svo eftir að hafna öðrum þar sem hr. Buchheit átti svo eftirminnilega aðkomu. En afhverju ætli hann hafi sumarið 2010 álítið stöðu Grikklands svona sérstaka?

The Tactical Implications of Local Law Bonds: International investors are often leery of buying debt securities of emerging market sovereign issuers that are governed by the law of the issuing state. Why? Because investors fear that the sovereign might someday be tempted to change its own law in a way that would impair the value or the enforceability of those securities.

Það sem gerir stöðu Grikklands sérstaka er einmitt sú bætta samningsstaða sem felst í möguleikum fullvalda ríkis á að endurskipuleggja skuldir samkvæmt sínum eigin leikreglum. Samkvæmt enskum lögum er þessi möguleiki hinsvegar ekki fyrir hendi, eins og hið víðlesna Wall Street Journal skýrði frá þann 6. janúar síðastliðinn:

In exchange, Greece has agreed to consider that the new bonds be governed by English law, which means creditors would be allowed to seize Greek assets if the country fails on its payments. Until now Athens had refused to offer such collateral. 

"Once the Greek government said it would consider English law for the new bonds, we agreed to look at a lower coupon depending on the maturity period," a representative of one of the creditors said.

Þarna gæti verið að finna skýringu á því sem virtust vera lágir samningsvextir og var hampað sem helsta kosti Buchheit samningsins: Lágir vextir sem buðust ekki fyrir góðmennsku heldur gegn fullveldisafsali. Hr. Buchheit varaði okkur ekkert sérstaklega mikið við þessu þegar hann mælti með samningum sem hefðu getað myndað grundvöll fyrir upptöku fullveldiseigna íslenska ríkisins ef Hollendingar og Bretar teldu Ísland ekki hafa staðið við meintar skuldbindingar, eins og þeir hafa gert frá upphafi deilunnar.

Óhjákvæmilega vaknar sú spurning hvort 370 milljóna útgjöldum ríkissjóðs vegna samninganefndarinnar þar af 83 milljónum til lögfræðistofu Buchheit hafi verið vel varið, fyrst algerlega mistókst að kynna það sem formaður nefndarinnar virðist álíta lykilatriði í slíkum samningum. Þetta tókst hinsvegar þeim aðilum að gera sem lögðu áherslu á að kynna ókosti samningsins fyrir almenningi, og þáðu engar greiðslur fyrir.

Hver og einn hefur sjálfsagt skoðun á því hvorir hafi frekar verðskuldað þetta almannafé, þeir sem vörðu ómældum frítíma og sjálfboðavinnu í að afla sér víðtækrar þekkingar og stunda rannsóknarvinnu sem skilaði vönduðu kynningarstarfi, eða samninganefnd sem mistókst að skila, þó ekki hefði verið nema endurflutningi áður skjalfestrar rannsóknarvinnu og þekkingu síns eigin formanns.

Eða má vera að greiðslan hafi verið einmitt fyrir að þegja yfir því síðastnefnda?

Eins og sagði í upphafi hef ég enga safaríka kenningu um það.


mbl.is Salan á Iceland bætir stöðu almennra kröfuhafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert í góðu stuði í dag með fullt af góðum athugasemdum og skýringum í nokkrum færslum.

Hver borgar þér fyrir þetta ?

Ég þakka sérstaklega fyrir þessi skrif, því sjaldan þakka ég einhverjum fyrir skrif enda frekar þunn umræða hjá öllu "vaknaða" liðinu sem er búið að "fatt'edda", - því miður.

En hér má sjá vandaða og nákvæma umfjöllun og tilvísanir í eitthvað svo hægt sé að fá botn í málin og athuga sjálfur.

Nú er ég sérstaklega - en ekki eingöngu - að vitna til skrifa þinna um ný fallinn Hæstaréttardóm og tilvísun í lögin frá 1936 sem alltaf gleymast í umræðunni.

Annars vil ég taka það fram að þessi bucheit er padda sem ég hef alltaf skynjað sem slíka, enda sérfræðingur í meindýrum og sníkulifnaðar dýrum.

Kristján Þorsteinsson. (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 04:05

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Kristján, ég svaraði þessu hjá hinni færslunni þar sem þú barst fram svipaða spurningu/athugasemd.

Varðandi Buchheit, þá hef ég reyndar átt við hann orðastað einu sinni, en þau samskipti voru fagleg, kurteis og ánægjuleg. Mér kom þó talsvert á óvart að maður eins og hann, eftirsóttur lögmaður með háar tekjur, skyldi taka að sér að ferðast um landið til að kynna samninginn sem hann gerði fyrir okkur, að hans eigin sögn í sjálfboðavinnu fyrir þessa "vinaþjóð" sína. Svo góður...

Ég get bara talað fyrir sjálfan mig, en ég vinn ekki sjálfboðavinnu nema til að beita mér fyrir einhverju sem varðar mína persónulegu hagsmuni. Ég þykist ekki vera engill að vinna alfarið óeigingjarnt starf, heldur hef ég þvert á móti viðurkennt opinskátt að eiga hagsmuni undir ýmsum málum t.d. skuldavanda heimilanna enda átti ég slíkt einu sinni og langar gjarnan að geta eignast að minnsta kosti eitt enn áður en gröfin tekur við. Það væri hæpið að þykjast ekki eiga hagsmuni undir því komna hvort maður býr í siðmenntuðu samfélagi, eða samfélagi þar sem rán og önnur svívirða eru látin afskiptalaus.

Ég myndi líka alveg þiggja myndarleg laun ef þau væru í boði, fyrir því er ég ekki ónæmur enda engin vanþörf á eigi að takast að standa í skilum með allt. Reyndar skilst mér að nokkrar líkur séu á því að starf losni bráðum hjá Fjármálaeftirlitinu og launin eru víst skítsæmileg. Ég sótti meira að segja um þetta sama starf síðast þegar það var laust, svo það er aldrei að vita nema ég endurnýji einfaldlega umsóknina. Að sjálfsögðu í þeirri von að fá feitan launatékka fyrir þægilega innivinnu í aðgerðalausri stofnun. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2012 kl. 20:36

3 identicon

Já ég svaraði einnig flestu í hinni færslunni, "Enging túlkun = Engir vextir".

Takk fyrir gott svar.

Ég er hugsjónamaður alveg sama hvort ég eigi sjálfur beina hagsmuni eða ekki.

Að standa með réttlætinu og sannleikanum o.s.frv. og stuðla að því leiðir til sameiningar en hitt til sundrungar sem myrkraöflin nýta sér.

Við sem viljum alvöru breytingar og réttlátt samfélag ætlum að breyta þessu samfélagi, lögum, stofnunum og spilltu embættismannakerfinu o.s.frv. þannig að hæft og heiðarlegt fólk en ekki skúrkar og helst ekki ein manneskja sjái um verkefni eins og til dæmis að stjórna Fjármálaeftirlitinu.

Kristján Þorsteinsson. (IP-tala skráð) 18.2.2012 kl. 22:14

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég er líka hugsjónamaður. En ég reyni ekki að telja fólki trú um að ég eigi enga persónulega hagsmuni, því þá eiga allir, annað er lygi.

Guðmundur Ásgeirsson, 18.2.2012 kl. 23:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband