Japan: staðfest meiriháttar kjarnorkuslys

Núna um helgina höfum við fylgst agndofa með atburðarásinni sem hefur verið í gangi í Japan. Fyrst geysiharður jarðskjálfti, svo flóðbylgja í kjölfarið, og núna er alvarlegt kjarnorkuslys yfirvofandi.

Í kjölfar jarðskjálftans á föstudag urðu alvarlegar rekstartruflanir á kjarnorkuverinu Fukushima I, sem leiddu til taps á kælivökva og hættu á ofhitnun í kjarnaofnum #1, #2 og #3. Síðan þá hefur verið unnið hörðum höndum að því að kæla ofnana til að reyna að koma í veg fyrir að þeir bræði úr sér og geislavirk efni sleppi út í andrúmsloftið.

Klukkan 15:26 að staðartíma á laugardaginn varð sprenging í byggingunni sem umlykur kjarnaofn #1 og eftir það virðast eldsneytisstangirnar í þeim ofni hafa bráðnað a.m.k. að hluta til en þó hafi hlífðarkápa sem umlykur ofninn ekki enn rofnað. Klukkan 11:15 í morgun sprakk svo byggingin sem umlykur kjarnaofn #3 en ofninn sjálfur hefur í dag að sama skapi verið á mörkum þess að bráðna niður.

Klukkan 6:15 að staðartíma bárust fréttir af því að sprenging hefði orðið í kjarnaofni #2 og þrýstingur hefði fallið á ofninum sem bendir til þess að hlífðarkápan unhverfis hann kunni að hafa brostið. Sé það raunin kunna geislavirk efni að hafa lekið út, og af þeim sökum hefur flestum starfsmönnum verið fyrirskipað að yfirgefa svæðið. Um svipað leyti og þetta gerðist mældist aukin geislun á mælum umhverfis verið, en á þessu stigi er ástandið afar óljóst.

Það eina sem er ljóst er að takmarkaðar upplýsingar berast og japanskir embættismenn virðast hikandi að viðurkenna alvarleika ástandsins. Þær litlu staðreyndir sem á er að byggja benda til þess að a.m.k. þrír kjarnakljúfar séu einhversstaðar á mörkum þess að bráðna og mikil hætta sé á ferðum.

Þessu má fylgjast með hér:

Bein útsending japanska sjónvarpsins NHK

BBC: Japan earthquake

Wikipedia: Fukushima I nuclear accident

UPPFÆRT 00:28 Nú hafa loksins borist rauntímamælingar á geislavirkni frá Japan. Á þeim kemur fram að mælingar fyrir Fukushima og Miyagi héruð séu "í athugun" sem er snyrtileg leið til að segja að þær eru ekki birtar. Í nágrannahéraðinu Ibaraki sem liggur á milli Fukushima og höfuðborgarinnar Tokyo, mælist hinsvegar mikil geislun nú þegar. Japönsk yfirvöld hafa viðurkennt að vísbendingar séu um að kjarnakljúfur #2 hafi brostið að hluta og ástandið sé nú mjög alvarlegt.

 

UPPFÆRT 01:35 Enn eitt vandamálið, í kjölfar skjálftans byrjaði eldfjallið Shinmoedake í suðurhluta Japans að gjósa í gær. Hundruðir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín en engar fregnir hafa borist af manntjóni.

 

Á sama tíma eru japanskir fjölmiðlar farnir að tala um "versta mögulega tilfelli" í Fukushama kjarnorkuverinu og kvarta undan skorti á nákvæmum upplýsingum frá stjórnvöldum. Nýjustu tölur um þessar hamfarir: staðfest dauðsföll eru 2500, en 17000 manns er saknað, allt að hálf milljón eru á vergangi.

Og síðast má nefna efnahagslegu afleiðingarnar, sem eiga án efa eftir að senda höggbylgjur um fjármálakerfi heimsins sem er þó ekki burðugt fyrir.

 

japan-quake-stocks.png

UPPFÆRT 02:15 Forsætisráðherra Japans, Naoto Kan, ávarpaði þjóð sína fyrir nokkrum mínútum síðan. Af máli hans mátti dæma að ástandið væri nú mjög alvarlegt og að kjarnaofn #2 í Fukushima væri líklega að bráðna. Enn fremur hefði komið upp eldur í kjarnaofni #4 sem reynt væri að slökkva. Geislun hafi mælst talsverð í nágrenni versins, margalft það magn sem er skaðlegt heilsu manna. Rýming hefur verið fyrirskipuð á svæði innan 20 kílómetra fjarlægðar og fólki í 30 kílómetra fjarlægð er ráðlagt að halda sig innandyra og loka gluggum í húsum sínum.

Ja hérna...


mbl.is Sprenging í kjarnorkuveri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband