Verðbólga og verðtrygging

Viðskiptablaðið segir frá:

„Gengisbundin lán bera lægri vexti en krónulán, en Seðlabankinn hefur ítrekað varað við slíkum lánum til þeirra sem ekki hafa tekjur í samskonar gjaldeyri," sagði Eiríkur Guðnason, þá seðlabankastjóri, í ræðu sem hann hélt í maí 2008. Vísaði hann meðal annars í Peningamál sem komu út í mars 2007 þar sem bent var á þetta.

Á fundi flokksfélags Vinstri Grænna í Reykjavík um skuldavanda heimilanna þann 14. október sl. var Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra (o.fl.) spurður út í muninn á venjulegum krónupeningum og því sem kallast "verðtryggðar krónur". Hann svaraði á þá leið að "verðtryggða krónan er einfaldlega bara allt annar gjaldmiðill." (tilvitnun) Og þar er ég sammála Ögmundi, því séu "venjulegar" krónur bornar saman við "verðtryggðar krónur" sést að áhrifin af verðtryggingunni á lántakendur eru mjög svipuð og af gengistryggingu, því upphæð lánsins sveiflast þá í allt öðrum takti en tekjur fólks.

Helsti munurinn er þó að frá innleiðingu verðtryggingar á lánsfé hefur gengið á gjaldmiðlinum sem flestir skulda í (verðtryggðu krónunni) farið síhækkandi og nánast aldrei lækkað milli mánaða. Það er í raun eins og við búum í tvöföldu hagkerfi, þar sem annar hlutinn er frátekinn fyrir lánveitendur, sem eru aðallega bankar og aðrar fjármálastofnanir. Enn fremur tryggir seðlabankinn með markmiði sínu um 2,5% verðbólgu að sá hluti hagkerfisins mun alltaf fara hækkandi, á meðan hinn hlutinn sem öllum er opinn og almúginn þarf þ.a.l. að búa við, fer sífellt lækkandi í samanburði.

Prófum því núna að taka ofangreind ummæli Eiríks Guðnasonar fv. seðlabankastjóra og skipta þar út hugtakinu "erlendur gjaldmiðill" fyrir hugtakið "verðtryggður gjaldmiðill":

Gengistryggð Verðtryggð lán bera lægri vexti en krónulán, en Seðlabankinn hefur ítrekað aldrei varað við slíkum lánum til þeirra sem ekki hafa tekjur í samskonar gjaldmiðli.

Þetta opnar vonandi aðeins augu þeirra fáu sem enn telja að verðtrygging sé skynsamleg. en það er ekki að ástæðulausu sem gengistrygging er ólögleg og með nákvæmlega sömu rökum ætti verðtrygging að vera það líka. Vonandi opnar þetta líka augu fólks fyrir þeim geðklofa sem íslensk hagstjórn undanfarinna ára byggist á. Nýir ráðamenn hafa líka sýnt það og sannað að þeir hafa engan hug á að gera breytingu á þessu, heldur þvert á móti orðið uppvísir að samskonar framkomu gagnvart almenningi. Á meðan æðstu menn komast upp með að tala tungum tveim er ólíklegt að traust á hagkerfinu muni aukast, og því viðbúið að hinn margumtalaði efnahagsbati muni láta á sér standa enn um sinn.


mbl.is Telja verðbólguhorfur óbreyttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Upphaflega voru launin verðtryggð en einhhverjum snillingnum datt það í hug að afnema verðtryggingu launa.

Jafnframt átti verðtryggingin aðeins að vera til skammstíma og mætti færa rök fyrir því að hún eigi ekki stoðir í lögum þar sem lögin kváðu um skamman tíma.  Það væri vandmeð farið dómsmál þar sem líklegast væri 30 ár á milljarða gamallri plánetu í einhverskonar samhengi álitinn skammur tími.

Ég vildi gjarnan færa fyrir því rök að sú eignaupptaka sem verður hjá skuldurum með verðtryggingunni sé brot á stjórnarskrárákvæði um að eignarréttur sé heilagur.  En stjórnarskráin er ekki skýr með það hvað felst í orðinu heilagur.

Ég vil styrkja þennan stjórnarskrárbundna eignarrétt fái ég stuðning inná stjórnlagaþing og skilgreina betur hvað í honum felst og verja þjóðina fyrir þessari kúgun auðvaldsins í formi verðtryggingar.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 27.10.2010 kl. 18:40

2 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Frábær pistill...

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 27.10.2010 kl. 20:05

3 identicon

Sæll

Þetta er nákvæmlega það sem ég er búinn að vera að hugsa. Það er eins og við höfum verið einu stóru Matadori þar sem bankinn hreinlega sprakk. Get varla talið upp alla siðspillinguna sem orsakaði fallið en birtist smá saman á hverjum degi... Heiðar Már í dag, afskrifitir Halldórs í gær o.s.frv. Það sem svo yfirgengilegt er að sú ríkisstjórn sem nú situr við völd, vill bara halda áfram með sama kerfi eins og ekkert hafi gerst.. hvernig er þetta hægt!

vj (IP-tala skráð) 28.10.2010 kl. 00:22

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Arnar Geir: Ég er sammála þér um að verðtryggingin er ekkert annað en eignaupptaka með vafasamt lögmæti.

Varðandi eignarréttinn þá vil ég vekja athygli á því sem virðist fara framhjá mörgum, að eignarréttarákvæðið er í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þar er þeirri spurningu hinsvegar ósvarað hvort mannréttindi nái líka til fyrirtækja, en ég vil meina að það sé rangtúlkun. Mér finnst þetta vera eitthvað sem sé mikilvægt að verði skýrt nánar á komandi stjórnlagaþingi, hvort eigi að vera rétthærri í þjóðfélaginu, fyrirtækin eða fólkið?

Guðmundur Ásgeirsson, 28.10.2010 kl. 02:20

5 identicon

Það er vandmeð farið hvort fyrirtæki eigi að njóta mannréttinda.  Þó mörg fyrirtæki virðist vera miskunarlaus þá gleymist það stundum að á bakvið fyrirtækin er fólk.  Fólk sem að á fyrirtækin og þar af leiðandi hlýtur fyrirtækið að verða fyrir einhverjum áhrifum af eignarrétti þess sem á fyrirtækið.

Hinsvegar þá tel ég brýna þörf á að setja einhverskonar meginreglu eins og t.d. að það skuli ávallt vera litli-maðurinn/aðilinn sem njóti réttarins sé einhver vafi.

Hinsvegar þá er verðtryggingin ósanngjörn og til þess hugsuð að stóri aðilinn verði ekki fyrir tjóni.   Ég fæ ekki fyrir nokkurn mun skilið hverjum þótti það sniðugt að það væri litli aðilinn og oft á tíðum margir litlir aðilar sem áttu að bera tjón þessa stóra aðila, þarna er hreinlega farið í manngreiningarálit og afstaða tekin með fjármagnseigendum gegn almenningi.

Verðtryggingin er svo aftur það sem að mínu mati hefur kolfellt þetta samfélag.  Eftir að hún var sett á hefur fasteignaverð hækkað um 2000% og verðbólgan hleypur á þúsundum prósenta.

Afborgun af húsnæðisláni sem ég er að fara að taka yfir er í dag um 100 þús en við enda samningstímann er afborgunin rúmlega 500 þúsund.  Það er ógerlegt að eignast húsin enda hefur raunin sýnt að þegar greiðslubyrgðin verður of þung þá endurfjármagnar fólk lánin og er því alltaf með reglulegu millibili að taka nýtt 40 ára lán á húsin sín og eignast þau aldrei.

Það er ekki sanngjarnt og ég fæ ekki skilið hvernig slíkt getur talist löglegt.

Annað sem ég skil ekki er að lífeyrissjóðir reyna að skila himin háum ávöxtunum á meðan aðrir séreignarsparnaðir erlendis gera kröfu um 2-2,5% ávöxtun.

Ef fé lífeyrissjóðana væri notað íbúðalánasjóð gætum við hæglega haft 2-3% vexti á íbúðalánum.  Það er nóg fjármagn til og það þarf enginn að reyna að ljúga því að mér að það sé enginn tilbúinn að lána án verðtryggingar.

Væru slík lán í boði þá væri greiðslubyrgði af 20 miljón króna íbúðarláni um 70-90 þúsund eða um helmingi lægri en hún er í dag.   Leiga og húsnæðisafborganir gætu lækkað um helming og ráðstöfunartekjur heimilanna væru komnar á par við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum.

Þetta getum við allt gert fyrir okkur sjálf og forsendurnar eru til staðar.  Samt er því logið að okkur af pólítíkusum og fjölmiðlum sem eru í eigu peningaaflana að dæmið geti ekki gengið upp og að við þurfum nauðsynlega að ganga í ESB til þess að þetta geti orðið að veruleika.

En talandi um fjölmiðla- og fjármagnsvald að þá myndi ég vilja stjórnarskrárbinda 5 skiptingu valdsins fremur en þrískiptingu líkt og flestir tala um.

Það eru jú fjölmiðlar sem að mata okkur af upplýsingum og hafa mestu áhrif á ákvarðanir og niðurstöður kosninga.

Það eru fjármagnseigendur sem að eiga fjölmiðlana og þeir stjórna því hvað er þar birt.

Það skal því engan furða að hér er öllu stjórnað eftir henntisemi fjármagnseigenda.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 28.10.2010 kl. 11:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband