Erlend umfjöllun um IceSave

Nýlega birti ég allviðamikla samantekt á umfjöllun erlendra fjölmiðla og málsmetandi aðila sem tekið hafa undir málstað Íslands í IceSave málinu eftir að forsetinn ákvað að veitingu ríkisábyrgðar skyldi vísað til þjóðaratkvæðis. Síðan þá hefur lítið dregið úr umfjölluninni sem heldur áfram að vera hliðholl okkar málstað, allavega ef ummæli deiluaðilana sjálfra eru undanskilin.

Í gær fullyrti yfirmaður norska innstæðutryggingasjóðsins að hvergi á EES-svæðinu nytu slíkir sjóðir ríkisábyrgðar að lögum, sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra viðurkenndi meira að segja að væri rétt síðar sama dag. Ég dró einnig fram í dagsljósið yfirlit úr fyrirspurnatíma í lávarðadeild breska þingsins sumarið 2008, þar sem kemur skýrt fram í svari að bresk stjórnvöld líta svo á að Tryggingasjóður Innstæðueigenda og Fjárfesta (TIF) á Íslandi beri ábyrgð á lágmarkstryggingu innstæðna (€20.887), en allt umfram það sé á ábyrgð sambærilegs sjóðs í Bretlandi (FSCS) og hvergi er minnst á ríkisábyrgð enda er sjóðurinn sjálfseignarstofnun.

Breska blaðið Times segist nú hafa fengið að fá skjöl sem sýni fram á  bullandi ágreining vegna IceSave í breska fjármálaráðuneytinu. Alistair Darling fjármálaráðherra hafi haft að engu varnaðarorð ráðuneytisstjóra síns og Englandsbanka þegar hann fyrirskipaði hina svokölluðu "lánveitingu" til Íslands vegna IceSave, sem var þó ekkert annað en einhliða ákvörðun um að láta skattgreiðendur gangast í ábyrgð fyrir skuldir annara. Persónulega er ég alveg sammála  mati ráðuneytisstjórans: Íslendingarnir munu aldrei samþykkja að borga þetta úr eigin vasa! ;)

Stórblaðið Financial Times segir í leiðara sínum sem er tileinkaður Icesave-málinu að  „London og Amsterdam ættu að hætta bulluskap sínum og samþykkja fyrra tilboð - eða taka yfir eignir Landsbankans og afskrifa það sem eftir stendur," harkan gegn Íslendingum hafi náð endastöð og þeir muni ekki samþykkja að taka á sig allan kostnaðinn vegna mistaka sem öll þrjú löndin, og Evrópa í heild sinni, eiga sök á.

Núna síðast er það svo WikiLeaks einu sinni enn, sem var reyndar búið að loka tímabundið vegna fjárskorts, en birti engu að síður á forsíðu sinni í gærkvöldi mikilvæg gögn um Ísland. Þetta er leynilegt minnisblað (sjá viðhengi) frá starfandi yfirmanni bandaríska sendiráðsins þar sem fram kemur að fulltrúar íslenskra stjórnvalda hafi í janúar á þessu ári sóst eftir stuðningi bandarískra stjórnvalda í IceSave deilunni. Fram kemur að bresk stjórnvöld virðast vilja koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, og að sá möguleiki hafi verið kannaður að fá Norðmenn til að ábyrgjast endurgreiðslu fyrir hönd Íslands. Afstaða Bandaríkjanna sem hafa lengi átt í "sérstöku sambandi" við Breta, kemur hinsvegar ekki á óvart: þeir ætla ekki að skipta sér af.

Sagt er frá fundum við þá Einar Gunnarsson ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, Kristján Guy Burgess aðstoðarmann utanríkisráðherra, og Hjálmar W. Hannesson sendiherra í Washington, þar sem þeir hafi dregið upp dökka mynd af yfirvofandi stjórnarkreppu og þjóðargjaldþroti verði  ríkisábyrgð vegna IceSave felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Maður hlýtur að spyrja sig, ef þeir hafa raunverulega áhyggjur af óbærilegri greiðslubyrði afhverju vilja þeir þá hækka hana með því að gangast í ábyrgð fyrir skuldir annara? Það getur varla talist ábyrg ráðstöfun fjármuna!

Í minnisblaðinu kemur skýrt fram að Bretar vilji alls ekki að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og séu reiðurbúnir að skoða ýmsa möguleika til að koma í veg fyrir það: "British Ambassador Ian Whiting who said that Britain might consider options that would forestall a national referendum on the Icesave issue", en það sjónarmið kemur líka fram hjá íslensku embættismönnunum og gefur ágætis innsýn í hvað þeim gengur helst til: "Everyone could potentially save face, they suggested, if a new repayment agreement was reached with the British and Dutch". Minnisblaðið endar svo með eigin athugasemdum Watsons til bandaríska utanríkisráðuneytisins, þar sem hann segir: "It is quickly becoming clear that very few of the involved parties are comfortable with the Icesave issue being put to a vote in a national referendum."

Staðfesting á því að Bretar vilji koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu kemur svo sem ekki mikið á óvart, en um þá hugmynd að Norðmenn taki að sér að ábyrgjast greiðsluna er haft eftir breska sendiherranum: "Negotiating a good loan repayment agreement with Norway, said Whiting, would allow both sides to claim victory." Þetta snýst sem sagt í hugum embættismanna beggja vegna borðsins ekki um hagsmuni fólksins sem þeir starfa fyrir, heldur fyrst og fremst að bjarga andlitinu, sem menn þurfa yfirleitt ekki að gera nema þegar þeir hafa klúðrað einhverju mjög illa.

Það sem vakti hinsvegar mesta athygli mína er að Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra og formaður annars stjórnarflokksins kom alveg af fjöllum og sagðist hafa heyrt um þetta núna fyrst í fréttunum eins og við hin. Ef það er raunverulega þannig sem samskiptin eru á stjórnarheimilinu, þá held ég að stjórnarkreppa hljóti að vera yfirvofandi burtséð frá því hvað kemur út úr einhverri þjóðaratkvæðagreiðslu!


mbl.is Minnisblað sendimanns birt á Wikileaks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Gíslason

Þetta mál er búið að fara það marga hringi að þetta fer að vera nú að brandari.

Ómar Gíslason, 19.2.2010 kl. 12:11

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Breski hagfræðingurinn John Kay skrifar í vikulegum pistli sínum í breska viðskiptablaðinu Financial Times, að þjóðaratkvæðagreiðslan á Íslandi muni marka tímamót í baráttu almennings gegn því að hann beri fjárhagslega ábyrgð á mistökum banka og bankamanna. (mbl.is) - Pistill Johns Kay

Guðmundur Ásgeirsson, 24.2.2010 kl. 13:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband