Losunarheimildir: nýja flugeldahagfræðin ?

Samhliða umræðunni um loftslagsmál og hræringum á þeim vettvangi er forvitnilegt að skoða hvaða þýðingu þær munu hafa fyrir fjármálageirann. Alþjóðlegir bankar eru sagðir í óðaönn að útbúa nýja afleiðupappíra fyrir viðskipti með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda. Ef þið hélduð að íslenska kvótabraskið væri slæmt þá er í uppsiglingu mjög svipað fyrirbæri, nema í þetta sinn á heimsvísu. Búið ykkur undir nýjasta útspil alþjóðlegra fjármálasnillinga: pappírsbrask sem byggir á engu nema lofti, bókstaflega! Whistling

 --- Cryptogon / þýð. bofs ---

Kona sem fann upp skuldatryggingar í aðalhlutverki við undirbúning afleiðuviðskipta með losunarheimildir

Bloomberg segir frá því að markaður fyrir losunarheimildir gróðurhúsaofttegunda muni snúast um afleiðuviðskipti:

Bankarnir eru í óðaönn að leika sama leikinn með losunarheimildir eins og þeir hafa gert svo oft áður: hanna og markaðssetja afleiðusamninga sem fyrirtæki geta notað til að verja sig fyrir verðsveiflum til lengri tíma. Þeir eru líka tilbúnir að selja utanaðkomandi fjárfestum kolefnistengdar fjármálaafurðir.
 
[Blythe] Masters segir að bankar verði að fá að leiða þróunina til að kerfi kolefnisviðskipta geti hjálpað til við að bjarga jörðinni með lægstum tilkostnaði. Og bætir við að afleiður tengdar við kolefni verða að vera með í spilinu. Afleiður eru verðbréf sem hafa verðmæti sitt tengt við verðþróun undirliggjandi viðskiptavöru — í þessu tilviki CO2 og annara gróðurhúsalofttegunda. [Innskot: ekki ósvipað og myntkörfulán sem breytist að verðgildi eftir gengisþróun undirliggjandi gjaldmiðla. -bofs]
 
En hver er þessi Blythe Masters?
 
Hún er sá starfsmaður hjá JP Morgan sem á sínum tíma fann upp afleiðupappíra sem kallaðir eru skuldatryggingar (Credit Default Swaps), en hefur núna yfirumsjón með kolefnisviðskiptum hjá bankanum. Eða skv. Bloomberg:
 
Masters hefur yfirumsjón með viðskiptum á sviði umhverfismála hjá JP Morgan í New York, þar sem hún gegnir stöðu forstöðumanns alþjóðlegra vöruviðskipta.
 
Upp úr 1990  var Masters hluti af teymi hjá JP Morgan í London sem þróaði hugmyndir um hvernig færa mætti áhættu í viðskiptum yfir á þriðja aðila. Hún átti svo seinna eftir að fást við áhættustýringu hjá fjárfestingarsviði bankans.
 
Meðal afurða af þessum fyrstu þreifingum bankans á sviði afleiðuviðskipta voru skuldatryggingar.
 
--- --- ---

Brask með afleiðupappíra og ekki síst skuldatryggingar er almennt talið hafa verið ein af meginorsökum fjármálahrunsins í Bandaríkjunum sem breiddist svo út á heimsvísu fyrir rúmu ári síðan. Til fróðleiks skulum við svo skoða hvað hefur verið sagt og skrifað um skuldatryggingar:

  • George Akerlof, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði spáði því árið 1993 að  skuldatryggingar ættu eftir að valda næsta hruni
  • Warren Buffett kallaði þær "gereyðingarvopn" árið 2003
  • Fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Alan Greenspan segir núna að skuldatryggingar séu hættulegar - þrátt fyrir að hafa lengst af verið ein helsta "klappstýra" slíkra viðskipti
  • Fyrrverandi yfirmaður bandaríska fjármálaeftirlitsins, Christopher Cox sagði að "skortur á regluverki fyrir viðskipti með skuldatryggingar hafi spilað stórt hlutverk í fjármálakrísunni".
  • Newsweek kallaði skuldatryggingar "Skrímslið sem át Wall Street"
  • Obama Bandaríkjaforseti sagði í ræðu sem hann flutti á 17. júní að skuldatryggingar og önnur afleiðuviðskipti hefðu "ógnað fjármálakerfinu eins og það leggur sig"
  • George Soros segir að markaðirnir séu ennþá ótraustir, og að skuldatryggingar séu "eitraðar" og "mjög hættulegar afleiður" sem auðveldi mönnum að "taka stöðu" gegn skuldaranum
  • Bandaríska þingkonan Maxine Waters lagði frumvarp um bann við afleiðuviðskiptum með skuldatryggingar fyrir þingið í júlí, sem hún rökstuddi með því að slík viðskipti opnuðu fyrir áhættufjárfestingar af því tagi sem hefðu knésett fjármálakerfið
  • Myron Scholes, Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði - sem þróaði að stóru leyti aðferðir sem beitt er við verðlagningu á skuldatryggingum - hefur sagt að bein viðskipti með skuldatryggingar séu svo hættuleg að það þyrfti að útrýma þeim
  • Satyajit Das sem er leiðandi sérfræðingur á sviði skuldatrygginga, hefur sagt að nýjum reglum um skuldatryggingar muni ekki bara mistakast koma á efnahagslegum stöðugleika, heldur gætu jafnvel stuðlað að meiri óstöðugleika
Þetta er það sem margir sk. efasemdarmenn hafa áhyggjur af, og hefur það ekkert að gera með hvort menn trúa á hnattræna hlýnun af mannavöldum. Heldur eru hérna miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og braskið er þegar byrjað bak við tjöldin þar sem menn reyna að tryggja sér sneið af þessari takmörkuðu auðlind sem er verið að búa til. Fyrst að "fjármálasnillingar" eru komnir í spilið þá verður þess eflaust ekki langt að bíða að hugtakið "kvótakóngur" muni síast inn í alþjóðlega vitund. Nema það mun kannski hafa dálítið aðra merkingu en við eigum að venjast hérna á Íslandi...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband