Vefpóstur fyrir Indriða: postur.stjr.is

Í gær bárust fréttir af birtingu WikiLeaks á tölvupóstsamskiptum Indriða H. Þorlákssonar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í tengslum við IceSave viðræðurnar fyrr á þessu ári. Í póstinum frá Indriða kemur m.a. fram að hann beinir frekari samskiptum við Mark Flanagan fulltrúa IMF á sitt persónulega netfang (...@mac.com), sem er alvarlegt mál í ljósi þess að það er hýst utan íslenskrar lögsögu og slík samskipti eru ekki skráð í gagnagruna stjórnarráðsins. Þetta er semsagt rafrænt ígildi þess að eiga leynifund á afviknum stað.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokks, bar fram fyrirspurn um málið á Alþingi í dag. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, svaraði því til að ekki væri æskilegt að starfsmenn ráðuneyta noti persónuleg netföng í samskiptum sínum við erlendar stofnanir. Eðlilegt væri að þau færu fram í gegnum farvegi ráðuneyta. Össur benti auk þess á að  Indriði hafi sjálfur skýrt málið með þeim hætti, að vegna ferðalaga hafi hann ekki alltaf haft aðgang að pósthólfi ráðuneytisins.

Þessi afsökun Indriða nær auðvitað ekki nokkurri átt, enda er stjórnarráðið með vefgátt fyrir tölvupóst sem er aðgengileg hvaðan sem er úr heiminum á slóðinni postur.stjr.is. Þegar menn reyna að ljúga svona upp í geðið á fólki þá ber það vitni um slíkan hroka og virðingarleysi að efasemdir hljóti að vakna um heilindi viðkomandi.


mbl.is Ekki æskilegt að nota persónuleg netföng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Láttu ekki svona. Þetta er allt uppá borðum þ.e. eldhúsborði Indriða. Þar getur hann flokkað og valið hvað opinber stjórnsýsla fær að sjá og dæma. Hvað þá að kjósendur geti haft nokkurn möguleika á að sjá í gegnum lygavef í kosningaáróðri. Algjör óþarfi að hafa fundarskrár eða annað þar sem eftirlitsaðilar geta komist í þetta. Kæru stjórnarliðar þetta er ávísun á spillingu. Ekkert nútíma réttarfarsríki starfar svona.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 7.12.2009 kl. 13:20

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Við þetta má svo bæta að hegðun Indriða stangast á við skýr ákvæði í lögum og reglum um skjalavörslu ríkisins. Þannig segir til dæmis í 22. grein upplýsingalaga „Stjórnvöldum er skylt að skrá mál, sem koma til meðferðar hjá þeim, á kerfisbundinn hátt og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg.“

Guðmundur Ásgeirsson, 7.12.2009 kl. 13:42

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ábendingar um þessa hlið málsins hafa verið sendar til eftirfarandi fjölmiðla:

  • mbl.is og Morgunblaðið
  • visir.is og Fréttablaðið
  • Fréttastofa Ríkisútvarpsins
  • amx.is
  • Pressan.is
  • DV.is
  • Eyjan.is
Það verður forvitnilegt að sjá hvort einhver þeirra tekur upp keflið og veitir þannig stjórnkerfinu nauðsynlegt aðhald.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.12.2009 kl. 14:18

4 Smámynd: Villi Asgeirsson

Eru þetta ekki bara samsæriskenningar? Stjórnvöld geta ekki verið að ljúga upp í opið geðið á fólkinu sem kaus þau?

Veit svo líka að stjór póstar eru ekki bundnir við skrifstofuna. Fólk kemst í þá hvaðan sem er. Eða hvað? Kannski var hann í Kína, bak við eldmúrinn?

Villi Asgeirsson, 7.12.2009 kl. 15:23

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Frábært hjá þér, Guðmundur, að halda uppi þessu aðhaldi og ekki sízt með þessu sem fram kemur hjá þér í athugasemdunum kl. 13:42 og 14:18.

Svo er annar handleggur á þessu: að þeir notuðu brezka vefþjóna og gerðu með því allt opið fyrir brezku leyniþjónustuna að lesa!

Jón Valur Jensson, 7.12.2009 kl. 22:39

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þakka hvatninguna Jón Valur.

Það er rétt að allar helstu fjarskiptalínur frá Íslandi liggja um Bretland, og leyniþjónusta hennar hátignar situr þar við hlustir. Ég kom betur inn á það í mun ítarlegri færslu sem ég skrifaði í gærkvöldi þegar fréttist af birtingu póstanna á WikiLeaks.

Guðmundur Ásgeirsson, 8.12.2009 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband