Mótmælum fyrirhuguðum stjórnarskrárbrotum!
7.6.2009 | 18:37
Sú ákvörðun stjórnvalda að láta ríkissjóð og þar með skattgreiðendur ábyrgjast það sem út af stendur þegar eignir gamla Landsbankans hafa verið seldar upp í IceSave skuldir, er ekki bara óskiljanleg eins og Eiríkur Bergmann Einarsson stórnmálafræðingur bendir á, heldur brýtur hún beinlínis í bága við landslög og stjórnarskrá lýðveldisins. Í tilefni af þessum fordæmalausu landráðum vil ég draga fram eftirfarandi lagagreinar máli mínu til stuðnings og hef feitletrað þau atriði sem mestu máli skipta í þessu samhengi. Ég ætla ekki að bæta við frekari skýringum eða túlkun frá eigin brjósti heldur láta lögin tala sínu máli og treysti ég því að viðmælendur mínir séu sæmilega læsir og skilji íslensku.
Úr III. kafla laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta:
10. gr. Fjárhæð til greiðslu.
Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
Úr IV. kafla stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944:
40. gr. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.
41. gr. Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.
Enn fremur, úr VII. kafla stjórnarskrárinnar:
Úr X. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, n.tt. um landráð:
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Sömu refsingu skal enn fremur hver sá sæta, sem falið hefur verið á hendur af íslenska ríkinu að semja eða gera út um eitthvað við annað ríki, ef hann ber fyrir borð hag íslenska ríkisins í þeim erindrekstri.
Hafi verknaður sá, sem í 1. og 2. mgr. hér á undan getur, verið framinn af gáleysi, skal refsað með fangelsi allt að 3 árum, eða sektum, ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.
Slíku ofbeldi og valdníðslu sem í þessu felst má þjóðin ekki kyngja þegjandi og hljóðalaust. Sjáumst vonandi öll með potta og pönnur við Alþingi þegar málið verður tekið fyrir á morgun kl. 15:00.
Ísland lengi lifi!
Hugsanleg Icesave mótmæli á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mynd úr veislunni sem haldin var upp á krít og við þurfum að borga nú.
http://www.dv.is/frettir/2009/5/28/atu-gull-i-bodi-landsbankans/
Í þetta fer Iceslave
Hvar eiga fyrrum stjórnendur og eigendur bankans heima?
Þar er vettvangur mótmælanna.
Jón Óskarsson (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 18:51
Það er glæsileg staðan sem Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að koma þjóð sinni í. Það er annað hvort að borga og vera í samfélagi þjóðanna, eða borga ekki og vera útskúfuð. Ef maður trúir því sem Jón Daníelsson hagfræðingur og Sjálfstæðismaður segir. Ef við borgum ekki má búst við að lífskjör á íslandi fari marga áratugi aftur í tímann, ef við hins vegar borgum þá má búast við að við þurfum eitthvað að herða ólina.
Valsól (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 19:50
Valsól. Davíð var einmitt búinn að prófa hrokafullu aðferðina "borgum ekki" og fagna ég því að hún sé ekki notuð núna.
þessi nýja aðferð hefði alla vega virkað betur á mig ef einhver hefði skuldað mér veraldleg auðæfi. Jafnvel hefði ég virt viljann fyrir verkið að lausn svo mikið, að ég hefði slegið af upphæðinni.
Ég er nú bara mannleg eins og við öll (líka aðrar þjóðir) en ekki góð í hagfræðiútfærslum.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 7.6.2009 kl. 22:03
Anna Sigríður, hvernig á að vera hægt að "virða viljann fyrir verkið", að ætla sér að virða landslög að vettugi og þverbrjóta stjórnarskrá Íslands? Þetta er ekki spurning um hagfræðiútfærslur heldur grundvallarréttindi Íslendinga sem þegna í fullvalda ríki, sem í þessu tilviki virðist eiga að gera að blórabögglum í refskák alþjóðastjórnmála. Afhverju eru hinir raunverulegu glæpamenn ekki frekar sóttir til saka fyrir glæfraskapinn og gerðir ábyrgir fyrir greiðslu skaðabóta? Ef íslensk stjórnvöld treysta sér ekki til þess mætti vel hugsa sér að framselja þá til þeirra Evrópuþjóða sem vilja ná fram rétti sínum í þessu máli. Réttarfarsleg álitamál á að leysa á vettvangi dómstóla en ekki af misvitrum pólitíkusum.
Guðmundur Ásgeirsson, 7.6.2009 kl. 22:19
Það vantar eina tilvitnun í þetta hjá þér:
"...in the event of the closure of an insolvent credit institution the depositors at any branches situated in a Member State other than that in which the credit institution has its head office must be protected by the same guarantee scheme as the institution's other depositors" (Markmiðsgreinin)
"Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 in the event of deposits' being unavailable." §7.1
"Deposit-guarantee schemes shall be in a position to pay duly verified claims by depositors in respect of unavailable deposits within three months..." §10.1
Þetta er úr tilskipun ESB um innlánstryggingar (94/19/EC), sem leiðir af samningi sem íslenska ríkið hefur gert og var staðfestur með lögum. Ath. að það stendur ekki "€20 000 or some fraction of some arbitrary amount set aside and reduced to virtually nothing by decree of an incompentent central bank director".
Íslenska ríkið ber ábyrgð á þessu. Við getum ekki snúið okkur undan því.
Það þarf ekki að koma í veg fyrir að hinir raunverulegu glæpamenn verði sóttir til saka. Ég sé ekkert samhengi þar á milli.
Bjarki (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 12:58
Þrátt fyrir 20.000 Evru hámarkið þá á það ekki við nema að því marki sem inneign sjóðsins hrekkur til. 1% inngreiðsluhlutfall af innstæðum er í fullkomnu samræmi við það sem gengur og gerist í öðrum EES-ríkjum, þ.m.t. heimaríki Jean-Claude-Trichet eins af höfundum tilskipunarinnar sem var þá fjármálaráðherra.
"must be protected by the same guarantee scheme as the institution's other depositors"
Segir manni í raun veru að neyðarlögin eru ekki í samræmi við tilskipunina, og brjóta auk þess gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það hefði sennilega verið ódýrarara fyrir ríkið að sleppa því einfaldlega að ábyrgjast innstæður sérstaklega, nema gegnum tryggingasjóðinn og e.t.v. með aukafjárveitingu til hans. Það væri athyglisvert að reikna út þessar tvær leiðir og bera saman kostnaðinn/tapið. Það lítur nefninlega út fyrir að þeir sem var verið að reyna að vernda með neyðarlögunum (íslenskir innstæðueigendur) muni hvort sem er tapa miklu vegna aukinnar skattheimtu sem verður óhjákvæmileg til að standa undir ábyrgð ríkisins.
Fyrir utan það mun þetta líklega bitna langverst á ungu fólki eins og mér sem er nýlega búið að stofna fjölskyldu og kaupa húsnæði. Við áttum engar innstæður sem við fáum bættar heldur bara skuldir sem hafa snarhækkað, það er nefninlega líka stór skaði sem við höfum engar bætur fengið fyrir!
Guðmundur Ásgeirsson, 11.6.2009 kl. 16:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.