Á vegum XL flugfélagsins
27.11.2008 | 23:42
Það sem fylgir ekki sögunni er að Airbus 320 þotan sem hrapaði í Miðjarðarhafið í dag var gerð út á vegum XL Germany, dótturfélags XL Leisure Group sem var að mestu í eigu íslenskra aðila með talsverð tengsl við Landsbankann. Þýska dótturfélagið er nú komið í eigu Straums fjárfestingarbanka sem var einn af stærstu lánadrottnum móðurfélagsins, en eins og mörgum er sjálfsagt kunnugt þá var XL Leisure Group lýst gjaldþrota í september sl. og ábyrgðir tengdar félaginu féllu við það á Eimskip sem lenti í kjölfarið í verulegum vandræðum. Margir þjóðkunnir Íslendingar hafa komið að eignarhaldi og rekstri XL undanfarin ár, en hlutafé þess hefur gengið kaupum og sölu í ýmsum viðskiptum fram og til baka eins og skopparabolti, og hafa fyrri eigendur jafnan bókfært umtalsverðan hagnað af sölunni í hvert sinn, sem er orðið ansi kunnuglegt mynstur í hinum svokölluðu útrásarviðskiptum sem nú hafa sett allt á annan endann í efnahagslífi Íslands.
Sjá frétt BBC um slysið, og yfirlit mbl.is um sögu XL undanfarin misseri.
Sjö manns voru um borð í flugvélinni, tveir Þjóðverjar og fimm Nýsjálendingar, en hún var í eigu New Zealand Airways sem leigði hana til XL. Vélin hrapaði eins og áður sagði í hafið undan strönd Frakklands þegar verið var að framkvæma á henni prófanir eftir viðhaldsframkvæmdir.
Ég vil nota tækifærið og votta fjölskyldum þeirra sem fórust samúð mína.
Farþegaflugvél í Miðjarðarhaf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.