Lastu smáa letrið?
18.10.2008 | 12:58
Ég les alltaf smáa letrið á öllum samningum og slíku áður en ég skrifa undir, og kanna sérstaklega vel allt sem getur leitt til aukakostnaðar, skilmála sem kveða á um ábyrgð "seljanda", binditíma samnings o.s.frv. Ég er reyndar líka þessi "pirrandi viðskiptavinur" sem hankar afgreiðslufólk í stórmörkuðum alltaf á því ef verð vöru á kassa stemmir ekki við hillumerkingar, en nóg um það. ;) Um þessar mundir er mikið rætt um þessa peningasjóði bankanna sem sumir virðast hafa tapast að miklu leyti, og af því tilefni ætla ég að segja hér dálitla dæmisögu.
Þegar kom að því á sínum tíma að taka húsnæðislán þá stóð valið milli tvennskonar greiðslufyrirkomulags, en munurinn í kostnaði að lánstíma loknum var á við kaupverð íbúðarinnar! Ég valdi að sjálfsögðu ódýrari kostinn þrátt fyrir að það hefði í för með sér hærri greiðslur í upphafi. Þegar þjónustustjórinn í bankanum hafði útbúið lánasamninginn og boðaði mig til undirritunar þá kom hinsvegar í ljós að búið var að breyta greiðslufyrirkomulaginu frá því sem ég tilgreindi á umsókninni. Ég gerði að sjálfsögðu athugasemd við þetta, enda hefði ég tekið skýrt fram við þjónustustjórann hverskonar lán ég vildi sækja um. Beðist var velvirðingar, gerður nýr (og réttur) lánasamningur og hann undirritaður án frekari eftirmála. Hefði ég verið svo vitlaus að lesa ekki vandlega þennan samning um stærstu fjárfestingu ævi minnar, áður en ég undirritaði hann, þá hefði ég þegar upp er staðið (á 40 ára tímabili) verið búinn að þurfa að greiða a.m.k. 10-20 milljónir aukalega í vexti. Ekki nóg með það heldur hefðu afborganirnar fyrstu 3 árin verið að langmestu leyti vextir og sáralítil eignamyndun sem verðbólgan undanfarið hefði étið upp jafn óðum og vel það. Eftir á að hyggja, hefði ég skrifað undir þetta plagg athugasemdalaust, þá vær ég í raun aðeins búinn að vera að leigja íbúðina af bankanum síðan ég keypti hana og upphaflega veðsetningin væri kominn upp í 100% eða jafnvel yfir það. En það er líka auðvelt að þykjast vera vitur eftir á...
Einfaldlega vegna þess að ég hafði fyrir því að lesa smáa letrið áður en ég skrifaði undir þá hefur veðsetningarhlutfallið lækkað um heil 5% í stað þess að hækka, og á meðan hafa afborganirnar sáralítið hækkað eða í raun lækkað að raunvirði sé tekið tillit til verðlagsþróunar. Á sama tíma hefur verðmæti eignarinnar aukist nokkuð eða um 15- 25% frá kaupverði, þannig að sá hluti sem er umfram veðsetningu er nú orðinn miklu stærri í krónum talið en ég keypti hann á. Það hvarflaði sem betur fer aldrei að mér að taka gengistryggt lán fyrir svo stórum hluta æviteknanna, enda er áhættan af þeim meiri og ekki mjög skynsamlegt að setja þau egg öll í sömu (mynt)körfuna. Eftir á að hyggja þá hefðu líka verið mistök að treysta Davíð Oddssyni þannig óbeint fyrir efnahagslegri framtíð fjölskyldu minnar, sérstaklega með gjaldmiðli sem er ekki einu sinni víst að verði til út allan lánstímann! En eins og áður sagði þá er auðvelt að þykjast vera vitur eftir á... kannski hefði krónan bara haldið áfram að hækka endalaust, en hefði verið raunhæft að búast við því?
Ætli það sé ekki samt algengara en fólk vill viðurkenna að annaðhvort fyrir vankunnáttu eða vegna "sölugræðgi" bankastarfsmanna hafi það látið platast til að skrifa undir lánasamninga sem voru þegar upp er staðið hreinlega óábyrgir? Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé, því ég veit um fullt af fólki sem hugsar ekki svo langt að það sé að velta því fyrir sér hvað verður um það eftir 40 ár. Umræddir einstaklingar hafa sumir eflaust ekki verið að hugsa málið til enda, heldur bara kvittað, búið og bless, og svo eru þau farin heim í nýju flottu íbúðirnar sínar. Þeir sem hafa tapað peningum í þessum sk. "peningasjóðum" ættu e.t.v. að dusta rykið af þeim samningum sem það skrifaði undir og lesa smáa letrið áður en það fer að væla yfir töpuðum "peningum". Til að byrja með verður fólk að átta sig á að um leið og það er búið að kaupa hlutabréf fyrir peninga, þá á það ekki lengur peninga heldur hlutabréf sem geta fallið í verði hvenær sem er. Ég tók t.d. meðvitaða ákvörðun á sínum tíma um að láta leggja viðbótarlífeyrissparnað minn í sjóð sem að hluta til samanstóð af pappírsverðmætum (hlutabréfum og verðbréfum), nú er sá sjóður lokaður (vonandi bara tímabundið) en ekki er ég vælandi yfir því. Það á einfaldlega bara eftir að koma í ljós hversu mikið hefur tapast þar og ég ætlaði hvort sem er aldrei að taka viðbótarsparnaðinn með mér í gröfina, þegar að því kemur verður "eiginfjárstaðan" ekki það sem mun vera mér efst í huga...
Tökum annað dæmi, ef ég myndi t.d. kaupa hús fyrir pening væri það mjög svipað, þá ætti ég ekki lengur peninginn heldur húsið og verðmæti þess getur tekið breytingum. Sveiflur í húsnæðisverði eru yfirleitt ekki eins öfgakenndar og á hlutabréfamörkuðum, því er áhættan minni en þó er hún tvímælalaust fyrir hendi. Í návígi við íslensk náttúruöfl er það t.d. fullkomlega raunverulegur möguleiki að eignin skerðist vegna tjóns sem er ekki bætt af tryggingum. Staðreyndin er einfaldlega sú að öllum fjárfestingum fylgir áhætta, og allar eignir geta minnkað að verðmæti af ástæðum sem maður ræður ekki yfir sjálfur. Jafnvel beinharðir peningar geta tapað verðmæti sínu skyndilega. Það gerist þó ekki oft nema e.t.v. þegar þær stofnanir sem eiga að bera ábyrgð á efnahagslegum stöðugleika klúðra sínu helsta verkefni, eins og sumir fá núna að reyna á eigin skinni t.d. Íslendingar erlendis. Krónan er í rauninni ekkert annað en hlutabréf í hagkerfinu Íslandi og ef það er raunin að Seðlabankinn sé farinn á hausinn (allir stærstu viðskiptavinir hans komnir í þrot?) þá er að sjálfsögðu ekkert skrýtið þó gengi krónunnar hafi lækkað nokkuð hratt við það!
Góðar stundir.
„Það er búið að þurrausa sjóðinn“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:06 | Facebook
Athugasemdir
Auðvitað erum menn óánægðir með það þegar því er selt þetta sem 100% öruggt, eins og bankareikningar.
Það voru almennt ekki samningar sem fólk skrifaði undir þegar keypt var inn í þessa sjóði, ekki frekar en það eru pappírar sem þú skrifar undir þegar þú opnar reikning. Það var því ekkert smátt letur til að lesa.
Þetta er ekki bara spurning um að lesa smáa letrið, heldur traust á bankanum þínum. Þegar bankastarfsmaður segir þér að þetta sé 100% traust, þá treystir fólk því væntanlega.
Tómasha (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 16:32
Alltaf gaman að lesa skrif þín, kemur oft með svör við spurningum sem maður vissi ekki einu sinni að ætti að spyrja að.
A.L.F, 18.10.2008 kl. 19:56
Hvað segirðu Tómasha, treystirðu bankastarfsmönnum? Það held ég að hafi verið mistök hjá þér. Mín fyrstu bankaviðskipti hófust á unglingaldri í Íslandbanka, en reynsla mín af þeim vinnubrögðum sem þar tíðkuðust varð til þess að ég skipti seinna yfir í Landsbankann sem bauð mér skárri kjör, aðeins til að komast að því að þar voru vinnubrögð svosem ekkert mikið skárri. Af þessum sökum er ég fyrir löngu hættur að treysta fólki sem þykist ætla að fara vel með peningana mína eða skuldir sem ég hef stofnað til, og reyni bara að passa upp á þessa hluti sjálfur eftir megni. Þegar þessi þrjú "stórfyrirtæki" fóru svo á hausinn öll í sömu vikunni, þá kom mér fyrst og fremst á óvart, að það skyldi ekki hafa gerst fyrr!
Í góðæri er það nefninlega víst þannig að jafnvel illa rekin fyrirtæki geta gengið ansi lengi með því að leggja siðgæðið að veði fyrir sífellt meiri yfirdrætti og allskyns asnaskap... Ég veit því ég var að vinna hjá einu slíku í skamman tíma fyrir um ári síðan, yfirmaðurinn á fínum jeppa með iPhone, alltaf að skreppa til útlanda og voða flottur, en stóð svo ekki í skilum með rassgat í bala sem neinu máli skipti... og þannig er Ísland í Dag.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.10.2008 kl. 11:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.