Hamid Karzai, pípulagningameistari?
20.8.2008 | 21:21
Það heyrir til undantekninga ef allar þær staðreyndir sem máli skipta þær ná í gegn um allar þessar fréttatilkynningar sem latir blaðamenn senda í þýðingu og birta svo án þess að hafa unnið nokkra þá vinnu sem flokkast getur undir blaðamennsku. Ég ætla því að bæta úr því hér og fjalla dálítið um þennan mann, Hamid Karzai. Um hann hefur lítið verið skrifað á íslensku svo ég viti en hann er svo nátengdur afganskri svæðispólitík að varla verður um hann fjallað nema fara í leiðinni dálítið lauslega yfir atburðarásina í landinu undanfarna áratugi. Sem fyrr reyni ég eftir megni að vísa í heimildir með linkum, en margt af því sem á eftir fer er vafalaust umdeilanlegt og takist því með sjálfsögðum fyrirvara um villur, missagnir o.þ.h. Athugasemdir eru vel þegnar hafi lesendur einhverju við þetta að bæta.
"agent" Hamid Karzai og pípulagnir í mið-austurlöndum
Hamid Karzai er menntaður í stjórnmálafræði frá indverskum háskóla, en fjölskylda hans var hliðholl Zahir Shah fyrrverandi konungi Afghanistans og flúði hernaðaríhlutun Sovétmanna í landinu fyrir um 30 árum síðan tilBoston (USA) þar sem þau eiga núna veitingarekstur. Að loknu námi árið 1983 gekk Hamid hinsvegar til liðs við Mujahideen skæruliðana í baráttunni gegn Sovétmönnum, en starfsemi þeirra var leynt og ljóst studd og fjármögnuð af Bandaríkjamönnum. Hann sá þar um "fjáröflunarstörf" og var aðal tengiliður CIA við "frelsishermennina" eins og þeir voru gjarnan kallaðir, sem þýðir að flestar peningasendingar til þeirra hafa farið um hans hendur og eitthvað af þeim sennilega borist til Osama Bin Laden sem sá um skipulagningu á þjálfunarbúðum fyrir aðflutta Mujahideen vígamenn. Karzai var þá í persónulegum tengslum við háttsetta aðila innan Bandaríkjastjórnar, m.a. George H. W. Bush þáverandi varaforseta og William Casey* leyniþjónustustjóra sem var kosningastjóri Reagans og maðurinn á bak við Iran-Contra vopnasölusamsærið. Afgönsku skæruliðarnir nutu einnig stuðnings pakistönsku leyniþjónustunnar ISI sem var milliliður um vopnaflutninga frá Bandaríkjamönnum. Útfrá þessu myndaðist talsvert samstarf milli CIA og ISI en mikilvægt að gera sér grein fyrir því að með þessum stuðningi sínum gerðu þessir aðilar ekki bara Karzai heldur líka Bin Laden sjálfan að "lykilmönnum" í Afghanistan.
*Casey þessi er sagður hafa ásamt félögum sínum úr repúblikanaflokknum (engum öðrum en Dick Cheney og Donald Rumsfeld!) lagt sig fram um að vekja tortryggni Reagans í garð Sovétmanna með fölskum áróðri um ætluð brot þeirra á afvopnunarsamningum, stuðning við alþjóðlega hryðjuverkastafsemi og fleira í þeim dúr. Kunnuleg nöfn og kunnulegt stef úr herbúðum nýfasista (NeoCons), ekki satt?
Eftir að Sovétmenn hypjuðu sig frá Afghanistan 1992 var skipt um ríkisstjórn í Afghanistan, og Hamid Karzai var þá skipaður í sæti aðstoðar-utanríkisráðherra. Landið var engu að síður hálf stjórnlaust eftir áralöng stríðsátök og borgarastyrjöld í kjölfarið. :egar Talibanar risu til valda upp úr 1994 eygðu Bandaríkjamenn og Pakistanir því von um meiri stöðugleika og studdu þá í upphafi, en Talibanar höfðu og hafa enn talsverð áhrif í Pakistan. Karzai var þá skipaður sem tengiliður þeirra við bandarísk fyrirtæki sem höfðu fyrirætlanir um lagningu olíu- og gasleiðslu frá Kaspíahafssvæðinu, gegnum Afghanistan og Pakistan að strönd Indlandshafs. TAPI-jarðgasleiðslunni var ætlað að mynda útflutningsleið vestrænna fyrirtækja fyrir jarðgas frá Turkmenistan þar sem er að finna 3. stærstu gaslindir í heiminum. Turkmenbashi einræðisherra þar hafði frá hruni Sovétríkjanna átt í miklu samstarfi við bandaríska fyrirtækið Halliburton (þá undir stjórn Dick Cheney!) um uppbyggingu á jarðgasvinnslu, t.d. gerðu þeir þann 27. október 1997 samning að verðmæti 30 milljónir $ um boranir eftir jarðgasi. Samdægurs var stofnað hlutafélagið CentGas en í farabroddi þess voru hið bandaríska Unocal (nú hluti af Chevron) og saudi-arabíska olíufyrirtækið Delta en með í för voru ýmsir fjárfestar þ.á.m. hið rússneska Gazprom, í janúar 1998 var svo undirritaður samningur við Talibana um lagningu gasleiðslunnar gegnum Afghanistan.
Fljótlega kom í ljós að Talibanar voru ekki eins "þægilegir" í viðskiptum og vonir stóðu til, m.a. komst á kreik orðrómur um að þeir hefðu á sama tíma reynt að ná (betri?) samningi við samkeppnisaðila CentGas um verkefnið, nánar tiltekið argentínska fyrirtækið Bridas. Fleiri brestir komu í samstarfið þegar í ljós kom að Talibanar réðu í raun aðeins hluta landsins, norðurhéröðin voru t.d. ennþá á valdi ýmissa smærri stríðsherra og andspyrnuhópa sem setti allt í uppnám, og Gazprom dró sig út úr samstarfinu í júní 1998. Slæm umfjöllun um stjórnarhætti Talibana var þá farin að draga að sér athygli fleiri aðila víðsvegar um heim og ljóst að áframhaldandi samstarf við þá yrði í besta falli erfitt. Í ágúst gerði svo Al-Qaeda sprengjuárásir samtímis á bandarísku sendiráðin í Tanzaniu og Kenya, en Clinton þáverandi Bandaríkjaforseti brást við með flugskeytaárásum á Afghanistan (sem Talibanar fordæmdu auðvitað), og Saudi-Arabísk yfirvöld einn aðal bandamaður Talibana sleit öllum tengslum við þá þegar þeir neituðu að framselja Bin Laden. Daginn eftir sendiráðssprengingarnar hófu Talibanar, með stuðningi hliðhollra afla innan Pakistönsku leyniþjónustunnar, stórsókn í Afghanistan þar sem þeir réðust inn í borgina Mazar og lögðu undir sig meirihlutann af því svæði sem þá var enn ekki kominn undir stjórn þeirra, þ.m.t. landsvæðið þar sem stóð til að leggja gasleiðsluna. Í öllum látunum felldu þeir 10 íranska sendifulltrúa, og lá um tíma við hernaðaríhlutun af hálfu Írans (sem a.m.k. óformlega njóta stuðnings Rússa). Í október þetta ár var svo viðskipta- og ferðabann á Afghanistan samþykkt einróma í öryggisráði SÞ, og Talibanastjórnin þannig nánast alveg einangruð á alþjóðavettvangi. Í lok árs 1998 dró Unocal sig loks út úr CentGas verkefninu (að nafninu til a.m.k.), sem hefði annars getað orðið fyrsta erlenda stórfjárfestingin í Afghanistan eftir áratuga borgarastyrjöld sem lagði landið nánast algjörlega í rúst.
Árið 1999 réðu Talibanar af dögum Abdul Ahad Karzai, föður Hamids, en þá sór hann hefndareið og hóf að vinna markvisst að því að koma þeim frá völdum. Þrátt fyrir að vera hliðhollur bandarískum stjórnvöldum hefur hann gagnrýnt þau fyrir að taka ekki mark á aðvörunum sínum vegna Talibanastjórnarinnar fyrr en það var orðið of seint, en Talibanar hafa einmittítrekað reynt að ráða hann af dögum. Eftir 11.9.2001 kom svo annað hljóð í strokkinn og tengslin við skæruliðana voru endurvakin auk þess sem vesturveldin gerðu innrás, allt með því markmiði að koma Talibönum frá völdum (og ná í skottið á Osama líka en það gleymdist ansi fljótt...). Hernaðaríhlutun af þessu tagi hafði reyndar lengi verið í undirbúningi, en árásirnar á New York og Washington reyndust prýðileg ástæða til að hefja á þessum tímapunkti beinan landhernað í Afghanistan með samvinnu fyrrverandi Mujahideen o.fl. undir merkjum "Norðurbandalagsins". Í desember 2001 eftir innrás vesturveldanna voru nokkrir afganskir "framámenn" kallaðir til fundar í Bonn í þeim tilgangi að mynda bráðabirgðastjórn. Þeir skipuðu Hamid Karzai sem oddvita 29 manna bráðabirgðastjórnar, en 13. júní 2002 var svo skipun hans sem forseta staðfest til bráðabirgða af ættbálkaþingi í Afghanistan.
Aðeins hálfu ári eftir þessa embættistöku Karzais skrifaði hann svo fyrir hönd Afghanistans ásamt leiðtogum Pakistans og Turkmenistans undir nýtt samkomulag um lagningu TAPI-leiðslunnar margnefndu með aðkomu Þróunarbanka Asíu. Það var svo ekki fyrr en 2004 sem hann var kjörinn forseti í fyrstu almennu kosningunum sem haldnar voru í Afghanistan. Í apríl á þessu ári (2008) var loks skrifað undir endanlegt samkomulag um kaup á gasi frá Turkmenistan, en auk Afghanistans og Pakistans eru Indverjar nú orðnir aðilar að viðskiptunum enda fer orkuþörf þeirra hratt vaxandi. Nú er áætlað að smíði TAPI-leiðslunnar verði lokið árið 2014. Hún mun þá líklega verða í samkeppni við IPI-leiðsluna ("friðarpípuna" sk.) sem Íranir vilja leggja með samvinnu Pakistana yfir til Indlands, en samningaviðræður um byggingu hennar og gassölu voru núna nýlega á lokastigi. Áætlað er að IPI-leiðslan verði tekin í notkun 2013 og sá möguleiki hefur verið nefndur að framlengja hana alla leið til Kína en ráðamenn þar hafa sýnt verkefninu mikinn áhuga. Þessar fyrirætlanir fara illa fyrir brjóstið á bandarískum stjórnvöldum í markvissri viðleitni þeirra til að einangra Íran á alþjóðavettvangi, sérstaklega frá sínum aðal bakhjörlum Kínverjum og Rússum. Það er því ljóst að kapphlaup er hafið um yfirráðin yfir orkumörkuðum SA-Asíu. Nú nýlega hefur svipað valdabrölt tekið á sig mynd stríðsátaka á Kákasussvæðinu, sem er Evrópuhliðin á þessum sama "orkuöryggismála-leik", en hálfvelgjulegur stuðningur vesturveldanna við málstað Georgíumanna gegn Rússum í því máli er mögulega aðeins angi af sömu einangrunarstefnunni gagnvart Íran.
Fyrirhugaðar jarðgasleiðslur í S-Asíu
Á næsta ári (2009) verða aftur forsetakosningar í Afghanistan og ári síðar þingkosningar, en samkvæmt nýrri stjórnarskrá er kosið til fimm ára í senn. Hamid Karzai hefur nú lýst því yfir að hann muni gefa kost á sér til endurkjörs í embætti forseta, en helstu keppinautar hans verða líklega Ali Jalali fv. innanríkisráðherra og hinn afgansk-ættaði Zalmay Khalilzad. Ítök Karzais er mikil bæði pólitísk og efnahagsleg, en um leið er hann umdeildur m.a. fyrir að standa í vegi fyrir aðgerðum gegn valmúaræktun, í valdatíð Talibana var heróinframleiðsla nefninlega algerlega stöðvuð á þeim svæðum sem þeir réðu yfir en þaðan kom áður um 90% heimsframleiðslunnar, og í dag er það aftur á ný orðið að stærstu (einu?) útflutningsvörunni. Almenningur er ekki alls kostar ánægður með núverandi stjórn og því eru taldar nokkrar líkur á valdaskiptum á næsta ári, þeim fyrstu í sögu Afghanistans sem munu jaðra við að vera "lýðræðisleg" en vegna lágs menntunarstigs og skorts á lýðræðishefð eru kosningasvik algeng þar um slóðir. Þó eru blikur á lofti vegna óstöðugleika í landinu og jafnvel hefur komið til tals að fresta kosningunum vegna þess hversu illa gengur að halda uppi lögum og reglu. Hinsvegar er vafamál hvort komandi kosningar muni hafa einhverjar breytingar í för með sér, af helstu frambjóðendum er einn "verktaki" fyrir CIA (Karzai) og hinir tveir með bandarískt ríkisfang en Jalali er kennari við varnarmálaháskóla bandaríska varnarmálaráðuneytisins og Khalilzad er sendiherra BNA hjá Sameinuðu Þjóðunum. Bandarísk stjórnvöld þurfa því sennilega ekki að óttast að missa tengslin við þau afgönsku á næstunni...
Karzai sækist eftir endurkjöri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Öryggis- og alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Ég reyndi eftir bestu getu að lesa pistilinn þinn þar sem ég hafði áður lesið áhugavert frá þér. En þessi er of nákvæmur, ég veit í fyrsta lagi ekki muninn á héruðum á þessu svæði og þar fyrir utan eru nöfnin of framandleg, ég get ekki lagt þau á minnið og missi þráðinn.
Gætirðu nokkuð komið þessum upplýsingum fyrir í færri orðum og ef ég hef áhuga á að vita meira meira um hvað þú ert að tala, sett link fyrir mig til að kafa dýpra?
Með kærri kveðju, Káta
Káta (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 03:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.