Glæsilegt!
28.3.2008 | 02:59
Styð heilshugar þessar aðgerðir. Það er fyrir löngu kominn tími til að stjórnvöld taki hausinn út úr afturendanum á sér og geri eitthvað í málinu, og ekki bara varðandi eldsneyti. T.d. mætti byrja á því að útskýra fyrir manni hversvegna í fjandanum þeir sem ákveða verð á neysluvöru í þessu landi fá að komast upp með að nýta alltaf fyrsta tækifæri til að hækka verð "vegna markaðsaðstæðna", en aldrei til að lækka þau? Er það eitthvað lögmál að verðlag þurfi alltaf að hækka? Það hefur gert það eins lengi og ég get sjálfur munað, og er þó orðinn svo gamall sem á grönum má sjá!
Ég hef aldrei skilið (mögulega sökum barnslegrar einfeldni ;) hversvegna flestar vörur eins og t.d. mjólkurlítrinn sem á víst núna að fara yfir hundraðkallinn, þurfa yfirhöfuð að kosta meira núna en t.d. í fyrra. Fyrir hinum almenna neytanda (t.d. mér!) er árgangur 2008 af mjólk alveg nákvæmlega jafn góður, hollur, merkilegur og nauðsynlegur eins og árgangur 2007 eða eitthvað annað ár ef því er að skipta! Það eina sem er öðruvísi er krónutalan á verðmiðanum, en notagildi vörunnar og þar með verðmæti hennar frá mínum bæjardyrum séð sem neytanda er hið sama og áður. Það er ekki eins og mjólk sé beinlínis takmörkuð auðlind hérlendis og þar sem hún er fjöldaframleidd hefði ég búist við lækkun frekar en hækkun framleiðslukostnaðar til lengri tíma litið, t.d. vegna þróunar í framleiðslutækni og almennra framfara í tækni og rekstri. Launakostnaður ætti ekki heldur að hækka með tímanum því sjálfvirkni og þar með framleiðni í framleiðslugreinum er mun meiri en áður fyrr og því færri hendur sem þarf til að vinna sömu verkin. Hráefniskostnaður er stundum nefndur sem áhrifaþáttur, en verð á hráefnum er auðvitað líka bara vöruverð rétt eins og verð á framleiðsluvörum úr þeim hráefnum, og því væntanlega háð sömu grunnforsendum þegar á botninn er hvolft.
En hvað er það þá sem gerir að verkum að verð fara sífellt hækkandi þrátt fyrir að til lengri tíma ættu forsendur verðmyndunarinnar að öllu jöfnu að haldast stöðugar eða jafnvel fara lækkandi? Afhverju þarf ég allt í einu núna að láta af hendi hærri upphæð, og þar með ávísun á meiri verðmæti en áður, fyrir sama hlutinn? Hvernig fór mjólkin að því að öðlast skyndilega meira "verðmæti" þrátt fyrir að vera ekkert endilega "meira virði" í augum neins? Til þess að svara því þarf að byrja á því gera sér grein fyrir því að verðmæti og verð eru alls ekki sama hugtakið, og ef við skoðum málið betur þá kemur í ljós að það eru aðeins tvær stærðir í þeirri jöfnu: verðmæti vörunnar (huglægt mat eða samanburður við aðrar vörur) vs. verð hennar (sem er talið í krónum). Þrátt fyrir að mjólk sé holl og góð þá munu ekkert felast meiri verðmæti í einum lítra af henni þó hann hækki í 100 kall, það munu áfram teljast jöfn skipti: einn lítri af mjólk fyrir einn lítra af mjólk, og allir mjólkurlítrar eru nokkurnveginn eins. Það sem breytist hinsvegar er verðið, en það er talið í krónum (peningum) sem nú þarf að greiða fleiri en áður fyrir sama magn af mjólk (í lítrum). En þegar verðið hefur hækkað án þess að verðmæti vörunnar hafi aukist, þá eru það augljóslega peningarnir sem hafa rýrnað að verðmæti, talið í mjólkurlítrum! Munið að peningarnir sjálfir eru ekki verðmætir heldur eru þeir "táknræn ávísun á einhver raunveruleg verðmæti" eins og t.d. mjólkurlítra! Og þegar vöruverð hækkar, þá þýðir það ósköp einfaldlega að við fáum minni verðmæti fyrir sömu peninga.
Eitthvað er það nú ósanngjarnt...
En .... hvað er þá hundraðkall eiginlega mikils virði? Nú, 100 kr. = 100 x 1 kr. myndu kannski sumir segja, en hvað er það annað og meira en bara einhver tala? Það gæti allt eins staðið þar 100 bingókúlur = 100 x 1 bingókúla, og svo stæði á hillum í búðinni hvað vörurnar kostuðu margar bingókúlur. En það segir manni aftur ekki neitt um vöruverðið nema maður viti hvers virði ein kúla er og þar með hversu mikil verðmæti felast í henni! Ágætt dæmi um verðlagsviðmið gæti verið hversu marga mjólkurlítra eða aðra algenga nauðsynjavöru er hægt að fá fyrir t.d. 20 bingókúlur?! En ef peningarnir (afsakið, bingókúlurnar ;) geta svona hæglega rýrnað að verðmæti eins og raun ber vitni, þá gera væntanlega launin okkar það líka enda eru þau greidd í peningum og eru í flestum tilvikum ákveðin upphæð á mánuði, talin í krónum. Þannig að þegar sú upphæð er skyndilega minna virði en áður, þá er í raun búið að lækka launin manns!
Eitthvað er það nú ósanngjarnt...
Meira um þetta seinna!
Vörubílstjórar stöðva umferð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.