Bretland ekki fyrst til að ganga úr ESB
18.1.2020 | 21:20
Fullyrt er í meðfylgjandi frétt að Bretland verði fyrsta ríkið sem gengur úr Evrópusambandinu, 31. janúar næstkomandi.
Þetta er rangt því áður hafa tvö ríki og eitt sjálfsstjórnarsvæði gengið úr Evrópusambandinu, en þau eru:
- Alsír (1962) sem var áður frönsk nýlenda
- Grænland (1985) sem var áður dönsk nýlenda
- Saint Barthélemy (2012) sem er frönsk nýlenda
Aftur á móti verður Bretland fyrsta ríkið innan Evrópu sem gengur úr Evrópusambandinu, 31. janúar næstkomandi.
Þingnefnd meinar útgöngusinnum að hringja Big Ben | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Öryggis- og alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Áður en sagt er að ekkert ríki hafi gengið úr Evrópusambandinu, áður en Bretland (líklega) gerir það 31. janúar næstkomandi (eða gagnkvæmt) verður að ná samkomulagi um hvað er ríki.
Er Grænland sjálfstætt ríki, eða sjálfstjórnarhérað innan Danmerkur? Er hægt að vera hérað innan lands í "Sambandinu" eða ekki?
Yfirgaf Algería Frakkland eða Evrópusamabandið (eða forvera þess?). Hvenær varð Algería sjálfstætt ríki? 1954 eða 1962? Um þetta eru skiptar skoðanir.
Pólítísk staða St. Barts er einnig frekar flókin. Hluti af Frakklandi, en samt ekki. Ekki eina dæmið um hvað flókin og óljós Frönsk stjórnmál eru. Að frátaldri þeirri staðreynd að Frakkar verða að teljat eitt af fáum nýlenduveldum samtímans.
En þó að það sé umdeilanlegt, er alls ekki út í hött að segja að Bretland sé fyrsta ríkið sem yfirgefur "Sambandið", ef að verður, sem er þó af líklegt undir núverandi kringumstæðum.
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2020 kl. 22:23
Vissulega er ekkert klippt og skorið í þessum efnum.
St. Barts er til dæmis ekki ríki og ég fullyrti ekkert slíkt heldur tók fram að það væri sjálfstjórnarhérað.
Alsír sleit sig frá Frakklandi með stríðsátökum og eftir það var aðild þess að ESB sem fransks landsvæðis sjálfhætt.
Öðru máli gegnir um Grænland, en íbúar þess hafa frá upphafi verið andvígir ESB aðild. Haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla um það áður en Danmörk gekk í ESB og þá höfnuðu Grænlendingar því að fara inn með Dönum. Sú niðurstaða var virt að vettugi þar sem Grænland hafði þá ekki sjálfstjórn. Þegar Grænland fékk heimastjórn árið 1979 öðlaðist það hins vegar stöðu fullvalda ríkis. Eitt af fyrstu verkum hennar var að halda nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild þar sem henni var aftur hafnað. Samkvæmt þeirri niðurstöðu var svo gerður sérstakur útgöngusamningur sem tók gildi 1985.
Samkvæmt þess lít ég svo á að Grænland hafi verið fyrsta fullvalda ríkið til að taka sérstaka ákvörðun um útgöngu úr ESB og semja um hana í formlegu og viðurkenndu útgönguferli.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.1.2020 kl. 22:45
Ég er að ýmsu leyti sammála þér hvað varðar Grænland, en þó er staða Grænlands að mörgu leyti "gruggug" og óljós.
Er Grænland raunverulega fullvalda?
Er uppbygging flugvalla t.d. eitthvað sem fullvalda ríki getur tekið ákvörðun um eða ekki?
Er það "innanríkismál" eða "utanríkismál"?
Var Grænland einhverntíma sem ríki aðildarríki "Sambandsins" með þeim réttindum skyldum sem því fylgir?
Er Grænland "sjálfstjórnarhérað" eða fullvalda ríki? Ég er ekki viss um hvernig ætti að svara þeirri spurningu með öllum lagalegum fyrirvörum.
G. Tómas Gunnarsson, 18.1.2020 kl. 23:15
Vissulega er þessi staða Grænlands ekki fullkomlega skýr en það sem ég á við er að hvað varðar útgönguna úr ESB var ríkið viðurkennt af öllum hlutaðeigandi samningsaðilum sem raunverulega fullvalda í því samhengi. Á hinn bóginn getur svo alveg verið að það sé ekki raunverulega fullvalda í einhverju öðru samhengi.
Hvort ríki sé viðurkennt sem slíkt eða ekki getur nefninlega farið eftir samhenginu. Til dæmis viðurkennir Kína ekki Taiwan sem ríki en mörg önnur ríki gera það. Spurningin um "raunverulegt" fullveldi er markleysa í sumum heimshlutum nú til dags. Ef við tökum sem dæmi ríki eins og Afganistan, Írak eða Jemen sem eru sundurskotin af átökum erlendra herja og svæðisbundinna skæruliða má vel draga í efa að þau hafi raunveruleg yfirráð á öllu landsvæði sínu.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.1.2020 kl. 23:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.