Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?

"Spurð hvort áfram­hald­andi upp­gjör á efna­hags­hrun­inu og eft­ir­mál­um þess sé aðkallandi segir Katrín [Jakobsdóttir forsætisráðherra] að með rann­sókn­ar­skýrslu Alþing­is hafi þegar feng­ist nokkuð skýr heildarmynd." - segir í frétt mbl.is.

Berum þessi ummæli nú saman við nokkrar sögulegar staðreyndir:

Fyrstu rannsóknarnefnd Alþingis var falið að rannsaka aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna - en ekki eftirmála, afleiðingar og áhrif þess á heimilin í landinu.

Annarri rannsóknarnefnd Alþingis var falið að rannsaka áhrif breytinga á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs á starfsemi sjóðsins á tímabilinu 2004-2010 - en ekki eftirmála, afleiðingar og áhrif þeirra á heimilin í landinu.

Þáverandi fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon lét ráðuneyti sitt gera skýrslu um endurreisn viðskiptabankanna sem hann lagði fyrir Alþingi í lok mars 2011. Engin slík skýrsla hefur verið gerð um áhrif endurreisnar föllnu bankanna á heimilin í landinu eða afdrif þeirra í kjölfarið. Ekki hefur heldur verið gerð skýrsla um aðgerðir stjórnvalda til að endurreisa heimilin enda erfitt að gera skýrslu um það sem aldrei varð.

Þriðju rannsóknarnefnd Alþingis var falið að rannsaka aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna - en ekki eftirmála, afleiðingar og áhrif þess á heimilin í landinu. Svo dæmi sé tekið endar umfjöllunin um SPRON í skýrslu nefndarinnar við þann punkt þegar Drómi var stofnaður (ólöglega) og hóf að sölsa undir sig hvert heimilið á fætur öðru, í skjóli og með stuðningi stjórnvalda.

Vinnueftirlitið og Háskóli Íslands létu gera rannsókn á líðan og heilsu starfsfólks í fjármálafyrirtækjum eftir hrun sem var birt í erlendu fagtímariti í apríl 2015 og kynnt á ráðstefnu um hrunið 5. október 2018 í Háskóla Íslands. Áhrif hrunsins á líðan og heilsu barna hafa einnig verið rannsökuð - en engin slík rannsókn hefur verið gerð á áhrifum hruns og endurreisnar fjármálafyrirtækja á líðan og heilsu þeirra fullorðnu einstaklinga sem hafa orðið fyrir barðinu á þeim.

Eftir bankahrunið var komið á fót embætti sérstaks saksóknara sem var falið að rannsaka grun um refsiverða háttsemi sem tengst hefur starfsemi fjármálafyrirtækja. Þegar embættið hætti starfsemi í árslok 2015 hafði það gefið út ákærur á hendur nokkrum fyrrum hátt settum aðilum fyrir brot gegn hagsmunum eigenda bankanna og annarra fjárfesta á hlutabréfamarkaði sem áttu hagsmuna að gæta - en engar ákærur fyrir stórfelld brot þeirra gegn heimilunum í landinu og öðrum viðskiptavinum þeirra.

Fjórðu rannsóknarnefnd Alþingis var falið að rannsaka erlenda þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. í tengslum við einkavæðingu hans árið 2003 - en ekki eftirmála, afleiðingar og áhrif einkavæðingar þess banka eða annarra fjármálafyrirtækja á heimilin í landinu.

Seðlabanki Íslands birti í gær skýrslu um þrautavaralán til Kaupþings og eftirmál þess - en í henni er ekkert fjallað um eftirmála, afleiðingar og áhrif þess á heimilin í landinu að tæma gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar ofan í svarthol bankahrunsins.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra birti í dag nýja skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi þar sem er fjallað um þá ógn sem stafar af innlendum og erlendum glæpahópum sem stunda smygl og sölu á fólki og fíkniefnum - en ekki um þá ógn sem steðjar að heimilunum í landinu af skipulagðri fjárglæpastarfsemi. Fyrri skýrslur um þetta efni eru sama marki brenndar, jafnvel þó framferði bankanna gegn heimilunum falli að flestu leyti undir skilgreiningu ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi.

Getur kannski verið að forsætisráðherra hafi hreinlega ekki áttað sig á því að afleiðingar og áhrif hrunsins á heimilin í landinu hafa nánast ekkert verið rannsökuð opinberlega?

Varla, því 15. janúar 2018 eða skömmu eftir að Katrín Jakobsdóttir varð forsætisráðherra, fóru fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna á fund hennar og kynntu málefni samtakanna fyrir henni, með áherslu á nauðsyn þess að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka afleiðingar og áhrif bankahrunsins á heimilin, sambærilega þeim nefndum sem rannsökuðu fall fjármálafyrirtækjanna sjálfra og voru taldar upp hér að ofan. Fundi þessum var fylgt eftir með formlegu erindi þar sem rækilega var gerð grein fyrir þessu málefni.

Þegar engin viðbrögð höfðu borist frá forsætisráðherra að tæpum hálfum mánuði liðnum, birtu Hagsmunasamtök heimilanna opinberlega áskorun til stjórnvalda um að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka afleiðingar og áhrif bankahrunsins á heimili landsins, með heilsíðuauglýsingu í Fréttablaðinu og fréttatilkynningu, ásamt því að senda eintök af þeim til forsætisráðherra og afrit á alla Alþingismenn.

Þrátt fyrir allt þetta hafa helstu fjölmiðlar verið undarlega þögulir um hinn hróplega skort á opinberum rannsóknum á afleiðingum og áhrifum bankahrunsins á heimilin í landinu og áskorun Hagsmunasamtaka heimilanna um slíka rannsókn. Síðan Katrín Jakobsdóttir varð forsætisráðherra hefur hún verið næstum daglega í viðtölum við helstu fjölmiðla landsins, en í engu þeirra hefur hún verið spurð hinnar brennandi spurningar:

Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?

Óhjákvæmilegt er því að ítreka áskorunina og halda henni á lofti þangað til brugðist verður við henni á viðeigandi hátt. Það hafa Hagsmunasamtök heimilanna meðal annars gert með því að stofna sérstaka síðu á fésbók til að vekja athygli á kröfunni um Rannsóknarskýrslu heimilanna. Aðalfundur samtakanna 2019 samþykkti jafnframt svohljóðandi ályktun:

Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna ítrekar áskorun samtakanna til stjórnvalda um að láta fara fram óháða rannsókn á þeim aðgerðum sem stjórnvöld stóðu fyrir eftir hrun. Brýn þörf er á sambærilegri rannsóknarskýrslu og þeirri sem gerð var um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna en nú þarf að fjalla um aðgerðir stjórnvalda í kjölfar hrunsins og afleiðingar þeirra fyrir heimili landsins.

Við höfum beðið réttlætis í 10 ár og nú er nóg komið.

Við krefjumst Rannsóknarskýrslu heimilanna!


mbl.is Skýrsla nýtist við væntanlega sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Nú held ég að það sé mikilvægt, Guðmundur, að tryggja sem best að heimilin verði ekki að nýju fyrir áfalli þegar afleiðingar samdráttarins taka að koma í ljós.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.5.2019 kl. 20:52

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Til þess þarf að leiða í ljós hvað fór úrskeiðis í því síðasta og kjölfar þess, svo hægt að sé að tryggja að það endurtaki sig ekki.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.5.2019 kl. 20:55

3 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Það er gott að gera sér grein fyrir því, já. En ég er ekki viss um að rétta leiðin sé sú að leggja í margra ára vinnu við að gera rannsóknarskýrslu. Ég óttast raunar að það myndi tefja fyrir aðgerðum. Og ég held að allir sem hafa eitthvað kynnt sér þessi mál viti hvað olli vanda heimilanna síðast: Það var annars vegar fáheyrð óráðsía í bankarekstri og fjárfestingum - bönkunum var einfaldlega stýrt af kjánum og glæpamönnum - og hins vegar hrun krónunnar. Og það sem olli því var ósjálfbær eftirspurn eftir krónum í aðdraganda bankahrunsins.

Af einhverjum ástæðum treysti ég Bjarna og Katrínu betur til að hafa hemil á efnahagsmálunum en Geir Haarde og ráðgjöfum hans.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.5.2019 kl. 21:13

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það er ekkert því til fyrirstöðu að gera bæði. Störf rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls bankanna töfðu ekki endurreisn þeirra á sama tíma.

Að hreinsa upp eftir flóðbylgju þarf ekki að tefja fyrir því að samtímis séu gerðar flóðvarnir gegn þeirri næstu.

Það er kannski rétt að margir viti (í meginatriðum) hvað olli vanda heimilanna síðast. Það sem aftur á móti hefur aldrei verið rannsakaða nægilega og upplýst er hvers vegna það var látið valda slíkum vanda hjá heimilum landsins.

Það sem gerðist haustið 2008 var að þrjú hlutafélög í einkaeigu urðu gjaldþrota. Að óviðkomandi fjölskyldur sem áttu engan hlut að máli hafi samt þurft að bera ómældan kostnað af gjaldþrotinu, er skrumskæling á takmarkaðri ábyrgð hlutafélagaformsins.

Þegar um manngerðar hamfarir er að ræða er ekki hægt að fyrirbyggja að þær endurtaki sig án þess að upplýsa hvaða menn voru að verki og hvað þeir nákvæmlega gerðu til að manngera þær hamfarir.

Þó einkafyrirtæki fari á hausinn, er mjög óeðlilegt að flestöll heimili landsins verði nánast sjálfkrafa stórskuldug á undraskömmum tíma vegna þess. Það þarf því að rannsaka til hlítar þær ákvarðanir sem ollu því að heimilin urðu fyrir slíkum áhrifum.

Tilgangurinn með því er ekki aðeins sá að fyrirbyggja að það sama gerist "næst" heldur einkum og sér í lagi að upplýsa það sem gerðist "síðast" og ná þannig fram réttlæti fyrir heimilin. Annars verður ekkert "næst" fyrir þau heimili sem verst urðu úti, heldur bara áframhaldandi samfelldar hamfarir af mannavöldum.

Guðmundur Ásgeirsson, 28.5.2019 kl. 23:24

5 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Við sjáum það sama gerast, en á smærri skala núna, við gjaldþrot WOW. Atburðir sem verða í hagkerfinu, séu þeir nógu stórir, hafa alltaf óbein áhrif á fleiri en þá sem tengjast viðkomandi atburði beint. Það verður aldrei komið í veg fyrir það. 

Þorsteinn Siglaugsson, 29.5.2019 kl. 08:20

6 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Það hafði nákvæmlega engin áhrif á mig þegar WOW varð gjaldþrota og þannig ætti það helst alltaf að vera.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.5.2019 kl. 15:40

7 identicon

Get. Over. It. Buddy.

Ari (IP-tala skráð) 29.5.2019 kl. 22:16

8 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

það er hæpið að tengja saman wow og fólkið sem þrælaði sólahringinn út til að koma upp þaki yfir sig og sína- sem glæpamenn tóku svo til sín.

 Wow fekik ótakmarkað fjármagn- þrátt fyrir fyrri afskriftir.

Erla Magna Alexandersdóttir, 29.5.2019 kl. 22:17

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Lán heimilanna voru líka afskrifuð um helming eða meira í hruninu en samt voru þau rukkuð að fullu eftir það og eru enn. Hvers vegna það getur átt sér stað er meðal þess sem þarf að rannsaka. Þetta snýst um eftirmála og afleiðingar bankahrunsins en ekki orsakir þess enda eru þær langflestum nokkuð vel kunnar nú þegar.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.5.2019 kl. 03:37

10 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Áhrifin af gjaldþroti WOW eru bæði bein og óbein. Gjaldþrotið hefur til dæmis áhrif til lækkunar á gengi - gengið verður lægra en það hefði annars orðið. Lækkun á gengi veldur því að innfluttar vörur kosta meira en þær hefðu annars kostað. Þannig hefur svona atburður áhrif á alla hvort sem þeir taka eftir því eða tengja saman.

Húsnæðislánin voru seld í nýju bankana með afskriftum. Það er alveg rétt. Ástæðan fyrir því var óvissa um greiðslur. Það kom líka í ljós, því miður, að margir gátu ekki staðið skil á sínum greiðslum. En flestir gerðu það samt. Lánin hafa því kannski verið seld með of miklum afskriftum og kröfuhafar bankanna því á endanum fengið minna fyrir þau en þeir hefðu getað fengið.

Þorsteinn Siglaugsson, 30.5.2019 kl. 11:46

11 Smámynd: Jóhann Elíasson

Meiriháttar grein og vönduð.  Ég er 100% sammála, auðvitað vantar að komi fram hver voru "raunveruleg" áhrif bankahrunsins á almennin og það þarf að koma fram AÐ ÞAÐ VORU HEIMILIN Í LANDINU, SEM REISTU ÍSLAND VIÐ EFTIR BANKAHRUNIÐ......

Jóhann Elíasson, 30.5.2019 kl. 14:20

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk Jóhann, fyrir undirtektirnar.

Þorsteinn, takk sömuleiðis fyrir innlitið.

"Lánin hafa því kannski verið seld með of miklum afskriftum og kröfuhafar bankanna því á endanum fengið minna fyrir þau en þeir hefðu getað fengið."

Þetta er kolrangt. Lánasöfnin voru "seld" með svo miklum afskriftum að það hefði átt að duga, en heimilin hafa samt verið rukkkuð að fullu. Það er ekki sanngjarnt og verður aldrei leiðrétt fyrr en það hefur verið lagað, þetta er kjarni málsins.

Góðar stundir.

Guðmundur Ásgeirsson, 13.6.2019 kl. 02:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband