Rangtúlkun áhrifa Hæstaréttardóms

Nýlega féll dómur Hæstaréttar Íslands sem felldi úr gildi ákvörðun um endurupptöku á skattamáli Jóns Ásgeirs Jóhanessonar og Tryggva Jóhannessonar. Síðan þá hefur ítrekað verið fjallað um málið á síðum mbl.is og niðurstaða hans rangtúlkuð. Einkum hefur verið reynt að blanda þeirri umfjöllun saman við málið er lýtur að skipun dómara Landsréttar þó þau eigi nánast ekkert sameiginlegt.

Þar sem ég hef ekki aðra reynslu af mbl.is en að sá miðill vilji segja rétt frá eins og kostur er, liggur beint við að koma hér á framfræmi leiðréttingum.

Byrjum á staðhæfingum í umfjöllun mbl.is:

"Í niður­stöðu dóms­ Hæsta­rétt­ar í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva frá því á mánu­dag seg­ir að í ís­lensk­um lög­um sé ekki að finna heim­ild til end­urupp­töku máls í kjöl­far þess að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að brotið hafi verið gegn mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við meðferð máls fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva."

Þetta er nánast að öllu leyti rangt, skoðum það nú lið fyrir lið.

Ýmsar heimildir er að finna í íslenskum lögum til endurupptöku máls af ýmsum ástæðum og ekkert sem útilokar að niðurstaða Mannréttindadómstóls geti verið þar á meðal. Það veltur samt á atvikum í hverju máli fyrir sig hvort þær eigi við. Þó Hæstiréttur hafi talið að þær ættu ekki við í einu máli útilokar það ekki að þær geti átt við í öðru ólíku máli.

Þar sem umrætt mál var sakamál var hægt að byggja endurupptöku á skilyrðum 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sem eru þar tilgreind í fjórum stafliðum. Af einhverjum ástæðum virðast dómfelldu eingöngu hafa byggt á d-lið sem felur í sér það skilyrði að "verulegir gallar hafa verið á meðferð máls þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess". Samkvæmt orðanna hljóðan nægir ekki að einhver ágalli hafi verið á málsmeðferð, heldur verður að sýna fram á að hann hafi haft áhrif á niðurstöðuna.

Hæstiréttur afgreiddi þetta þannig að í fyrri dómi hefði verið gætt að þeim ákvæðum Mannréttindasáttmálans sem um ræddi og það hefði ekki haft áhrif á niðurstöðuna samkvæmt íslenskum lögum þó Mannréttindadómstóll Evrópu hefði verið ósammála um áhrif þeirra ákvæða sáttmálans sem reyndi á í málinu. Þá væri það hlutverk löggjafans að lagfæra ágalla á íslenskum lögum, en ekki dómstóla.

Einhverra hluta vegna byggðu dómfelldu hins vegar ekki á öðrum stafliðum 1. mgr. 228. gr. fyrrnefndra laga, svo sem a-lið sem felur í sér það skilyrði að "fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk". Augljóst er að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu fellur undir skilgreininguna "ný gögn" og hér þarf ekki að sýna fram að þau gögn hefðu haft áhrif á niðurstöðuna heldur er nóg að leiða líkur að því að þau hefðu getað skipt máli. Þar sem þessi skilyrði virðast hafa verið uppfyllt í málinu er óskiljanlegt að dómfelldu hafi ekki byggt á a-liðnum, en á því ber enginn ábyrgð nema þeir sjálfir og lögmenn þeirra.

Af einhverjum enn undarlegri ástæðum hefur mbl.is svo reynt að draga upp einhverjar ímyndaðar hliðstæður með framangreindu máli við það mál er lýtur að ólöglegri skipun dómara Landsréttar. Miðillinn hefur jafnvel gengið svo langt að beina fyrirspurnum þar að lútandi til skrifstofustjóra Landsréttar og nú síðast dómsmálaráðherra, sem hafa bæði svarað því réttilega að frávísun Hæstaréttar á máli Jóns Ásgeirs og Tryggva, hafi engin áhrif á stöðuna í hinu svokallaða Landsréttarmáli.

Niðurstaðan er sú að ekki er hægt að draga neinar efnislegar ályktanir af því að Hæstiréttur hafi vísað frá endurupptökumáli Jóns Ásgeirs og Tryggva, enda eru frávísunardómar almennt ekki fordæmisgefandi nema um frávísunarástæður. Sá dómur útilokar alls ekki að eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu geti verið hægt að byggja beiðni um endurupptöku máls fyrir íslenskum dómstólum á einhverjum af stafliðum 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála, sérstaklega ekki liðum a-c sem reyndi ekkert á í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva, og enn síður 1. mgr. 191. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 sem eðli máls samkvæmt reyndi ekkert á í umræddu sakamáli.

Ekki verður hér reynt að ráða neitt frekar um hvaða ástæður kunni að búa baki þeirri vegferð sem mbl.is virðast vera í til að reyna að finna einhver áhrif af frávísunardómi Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva, á hið svokallaða Landsréttarmál. Að minnsta kosti er þó ljóst að sú vegferð er á algjörum villigötum.

Mál Jóns Ásgeirs og Tryggva hefur nefninlega aldrei verið til meðferðar í Landsrétti.


mbl.is Staða dómaranna fjögurra óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband