Bitcoin kerfið var ekki hakkað
2.3.2018 | 09:13
Fram kemur í viðtengdri frétt að íslenskur landsliðsmaður í knattspyrnu hafi tapað inneign sinni í rafmyntinni Bitcoin. Það er að sjálfsögðu slæmt að hann hafi orðið fyrir slíku tjóni. Af þessu tilefni kunna, eins og eðlilegt má teljast, að vakna spurningar um öryggi Bitcoin og eftir atvikum annarra rafmynta. Mikilvægt er að halda ákveðnum staðreyndum til haga áður en ályktanir eru dregnar af þessu.
Margar rafmyntir eru til og Bitcoin er aðeins ein þeirra. Sumar þeirra eru mögulega svikamyllur sem hefur verið komið á fót af ótraustum aðilum en það þýðir alls ekki að það sama eigi við um Bitcoin. Ekki frekar en að það er mismunandi hvort fólk treystir dollurum frá Zimbabwe eða Bandaríkjunum.
Bitcoin nýtur þeirrar sérstöðu meðal rafmynta að allur forritskóði sem hún byggist á er opinn og þar af leiðandi geta allir tölvunördar heimsins rýnt í kóðann og hakkarar reynt óheftir að brjóta hann en það hefur engum þeirra tekist ennþá. Að enginn skuli hafa fundið brotalöm í kerfinu er líklega besta sönnun sem hægt er að fá fyrir því að öryggið haldi, að minnsta kosti enn sem komið er.
Þrátt fyrir þetta sterka innbyggða öryggi er Bitcoin alls ekki gallalaus. Til dæmis útheimtir það ákveðna kunnáttu, geymslupláss og vinnslugetu á tölvubúnaði að tileinka sér notkun Bitcoin af einhverju viti. Þessi skref eru þó ekki óyfirstíganleg fyrir nútíma tölvunotendur eins og útbreiðsla kerfisins gefur ákveðnar vísbendingar um.
Vegna flækjustigsins hafa samt sprottið upp allskyns aðilar sem bjóðast til þess að einfalda ferlið með því að taka við peningum í þjóðargjaldmiðlum (eða evrum) frá fólki og breyta þeim í bitcoin inneignir. Þessu má líkja við það þegar einhver leggur peninga inn í banka sem breytir þeim í innstæðu á bankareikningi, í trausti þess að geta komið hvenær sem er og innheimt þá innstæðu í formi peninga. Slíka aðila væri í þessu samhengi hægt að kalla milliliði en tölvukerfi þeirra sem halda utan um inneignirnar eru ekki opin heldur er kóðinn og þar með virkni þeirra leyndarmál.
Engar tölvuárásir þar sem Bitcoin inneign hefur verið stolið hafa brotið sjálft myntkerfið enda er það nánast ómögulegt, heldur hafa þær allar beinst að milliliðunum í slíkum viðskiptum. Af upplýsingum sem fylgja með þeirri frétt sem hér um ræðir má álykta að það sama eigi við í þessu tilfelli. Þessu má líkja við bankarán og gildir einu hvort það er framið af hvítflibbum, tölvuhökkurum eða vopnuðum ræningjum.
Þegar bankinn er tómur eða milliliðurinn hefur verið rændur af kunnáttumönnum á því sviði með einbeittan brotavilja, þýðir það ekki að peningarnir sem voru lagðir til hans séu einskis virði eða ótraustir heldur fóru þeir einfaldlega bara annað. Stundum er fólk líka rænt milliliðalaust. Ef einhver er til dæmis rændur tíuþúsund krónum eru þær krónur ekkert ótraustari gjaldmiðill fyrir vikið heldur var fórnarlambið einfaldlega rænt. Sama á við ef einhver hakkar tölvu og stelur Bitcoin veski annars manns, það er ekki brot á Bitcoin heldur þjófnaður á veski sem inniheldur Bitcoin.
Þrátt fyrir allt er tvennt sem Bitcoin hefur fram yfir flesta þjóðargjaldmiðla. Í fyrsta lagi er ekki hægt að falsa Bitcoin án þess að brjóta sjálft grunnkerfið og gera það um leið verðlaust. Í öðru lagi og með sama fyrirvara, er ekki hægt að offramleiða Bitcoin og rýra þannig verðgildi myntarinnar þar sem takmörkun á því er innbygð í kerfið og enginn einn getur breytt því innan kerfisins. Þannig er nýmyndun peninga í kerfinu ("peningaprentun") alltaf fyrirsjáanleg stærð sem hægt er að draga ályktanir af og byggja ákvarðanir á.
Þegar allt þetta er tekið saman má segja sem svo að þó svo að hægt sé að stela peningum þýðir það ekki að peningarnir sjálfir séu ótraustir heldur hafi þeir einfaldlega ekki verið geymdir á stað sem var nægilega vel varinn fyrir þjófnaðinum. Innbrot og þjófnaður á fjárverðmætum sýna ekki fram á bresti í verðmætunum heldur því umhverfi þar sem þau voru geymd. Þvert á móti bendir það til þess að um verðmætan gjaldmiðil sé að ræða ef einhver vill leggja á sig þá fyrirhöfn að stela honum.
Íslenskur landsliðsmaður rændur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Peningamál | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 04:45 | Facebook
Athugasemdir
Góð umfjöllun.
Einhver býr til hugmynd, kallar það rafminnt, verðmætið, verður til á spámarkaði, ef einhver heldur henni stöðugri, er hægt að nota hana til að færa verðmæti á milli aðila.
Einhver stór aðili getur hugsanlega látið raf minntina hækka og lækka á milli til dæmis, 10.000 og 17.000, kaupir á 10.000 selur á 17.000 svo aftur og aftur.
Í þjóðar minntunum, er einhver sem reynir að halda minntinni stöðugri.
Er þetta hálfgerð spilamennska?
Egilsstaðir, 02.03.2018 Jónas Gunnlaugsson
Jónas Gunnlaugsson, 2.3.2018 kl. 10:56
Sæll Jónas.
Það er vel hægt að stunda svona spilamennsku með þjóðargjaldmiðla alveg eins og rafmyntir ef maður á nóg af þeim. Hér er dæmi:
How did George Soros "break the Bank of England"?
Svo er ekkert endilega víst að það sé neinn að reyna að halda þjóðargjaldmiðli stöðugum. Til að mynda gerðu íslensk stjórnvöld peningamála nákvæmlega ekkert til að hindra að einkavæddu bankarnir fyrir hrun margfölduðu peningamagn í umferð.
Bitcoin myntir geta aftur á móti aldrei orðið fleiri en 21.000.000 talsins því það er innbyggt í forritskóðann.
What Happens to Bitcoin After All 21 Million are Mined? | Investopedia
Þangað til því hámarki verður náð tryggir forritskóðinn líka að myntum í kerfinu fjölgar jafnt og þétt en ekki í stökkum.
Sjá línurit hér: Bitcoins in circulation - Blockchain
Þannig er fjöldi mynta í kerfinu á hverjum tíma ávallt þekktur, til dæmis eru þær núna um 16,9 milljónir. Það þarf enginn að reyna að halda þessum fjölda stöðugt vaxandi og svo föstum eftir að hámarkinu er náð því það gerist sjálkrafa. Það er því ómögulegt að offramleiða bitcoin en það sama er ekki hægt að segja um þjóðargjaldmiðla sem bankar geta fjölgað að vild án takmarkana þar til kerfið hrynur vegna offramleiðslu eins og það íslenska gerði árið 2008.
Ástæðan fyrir því að enginn reynir að halda fjölda bitcoin stöðugum er að það þarf ekki, kerfið sjálft tryggir þann stöðugleika. Aftur á móti er ekkert innbyggt í kerfi neins þjóðargjaldmiðils sem veitir sambærilega tryggingu fyrir stöðugleika.
Guðmundur Ásgeirsson, 2.3.2018 kl. 14:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.