Persónuverndarlög og dreifing nektarmynda

Eftirfarandi pistill er byggður á minnisblaði undirritaðs frá 3. apríl 2017 um stafrænt kynferðisofbeldi (svokallað hrelliklám) með hliðsjón af lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 (pvl.).

Þessi grein er samin í tilefni af umfjöllun í íslensku samfélagi um athæfi sem stundum er kallað hrelliklám. Slíkt athæfi felur jafnan í sér upptöku nektarmynda eða myndefnis sem sýnir kynferðislega hegðun og er svo dreift síðar í óþökk þeirra sem sjást á þeim myndum.

Aðallega er fjallað um tvennskonar persónuupplýsingar í pvl. þ.e. annars vegar almennar persónuupplýsingar og hins vegar viðkvæmar persónuupplýsingar en eðli málsins samkvæmt gilda strangari reglur um viðkvæmar upplýsingar heldur en almennar. Samkvæmt d-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. pvl. teljast „upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan“ vera viðkvæmar persónuupplýsingar, sem hlýtur að eiga við um myndir sem sýna nekt eða kynlífsathafnir og hafa kynferðislega skírskotun. Samkvæmt 2. tl. sama ákvæðis er hugtakið vinnsla skilgreint sem „Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.“ Að taka myndir af einstaklingum og dreifa þeim eftir rafrænum leiðum getur samkvæmt því talist fela í sér vinnslu persónuupplýsinga.

Samkvæmt 9. gr. pvl. er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. og enn fremur eitthvert af þeim níu skilyrðum sem talin eru upp í 1. mgr. 9. gr. Auk þess þarf öll vinnsla að uppfylla meginreglur 1. mgr. 7. gr. sem meðal annars eru þær að vinnslan þarf að vera sanngjörn og lögmæt, ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er í vinnslunni, og að upplýsingarnar séu aðeins notaðar í þeim tilgangi sem ætlað er en ekki öðrum ósamrýmanlegum tilgangi. Umræddar meginreglur eiga m.a. uppruna sinn að rekja til samnings Evrópuráðsins um vernd persónuupplýsinga frá 1981 sem Ísland fullgilti árið 1991 og eiga sér einnig stoð í 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu ásamt 71. gr. stjórnarskrárinnar sem kveða á um friðhelgi einkalífs.(1)

Stundum hefur verið bent á að myndefni af þessu tagi sé í einhverjum tilfellum tekið upp með samþykki viðkomandi í upphafi, en sé svo birt eða því miðlað í óþökk viðkomandi, til dæmis eftir að samband hlutaðeigandi aðila hefur versnað eða slitnað upp úr því. Samþykki er einmitt eitt þeirra skilyrða sem heimild til vinnslu persónuupplýsinga getur byggst á sbr. 1. tl. 1. mgr. 8. gr. og 1. tl. 1. mgr. 9. gr. pvl. Á hinn bóginn segir í 1. mgr. 28. gr. að hinn skráði, í þessu samhengi sá sem myndin er af, eigi rétt á að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um sig, og séu þau andmæli réttmæt, eins og þau hljóta að vera í tilfellum sem þessum, þá sé frekari vinnsla óheimil. Jafnframt segir í 1. mgr. 25. gr. að eyða skuli persónuupplýsingum sem hafi verið skráðar án tilskilinnar heimildar. Enn fremur segir í 1. mgr. 26. gr. að skylt sé að eyða persónuupplýsingum þegar ekki sé lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær, sem getur til dæmis átt við eftir að samband aðilanna hefur versnað og sá sem sést á mynd vill ekki lengur að sú mynd sé varðveitt og hvað þá miðlað. Þá segir einnig í 2. mgr. 26. gr. að hinn skráði geti ávallt krafist þess að upplýsingum um sig sé eytt eða notkun þeirra bönnuð, teljist það réttlætanlegt út frá heildstæðu hagsmunamati. Samkvæmt slíku mati getur sá sem hefur tekið nektarmynd af öðrum, almennt séð ekki talist hafa neina réttmæta hagsmuni af því að varðveita hana í óþökk viðkomandi, heldur hefur sá sem sést á slíkri mynd þvert á móti ríka hagsmuni af því að henni sé eytt í tilfellum sem þessum. Enda telst friðhelgi einkalífs þess aðila til grundvallar mannréttinda eins og kemur fram í 71. gr. stjórnarskrárinnar sem og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994.

Af framangreindu leiðir að vinnsla persónuupplýsinga sem felst í miðlun nektarmynda eða myndefnis af kynferðislegum toga er almennt séð óheimil í óþökk viðkomandi og varðveisla slíks myndefnis er bönnuð gegn andmælum þeirra sem sjást á slíkum myndum. Samkvæmt því sem segir í 1. mgr. 42. gr. pvl. varða brot á ákvæðum þeirra laga fésektum eða fangelsi allt að þremur árum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Persónuvernd er sú stofnun sem hefur eftirlit með framkvæmd pvl. samkvæmt 1. mgr. 37. gr. og samkvæmt 2. mgr. úrskurðar stofnunin í ágreiningsmálum um vinnslu persónuupplýsinga. Persónuvernd tekur mikinn fjölda slíkra mála til meðferðar á hverju ári, en í einu tilfelli var um að ræða svo alvarlegt brot að stofnunin ákvað að kæra málið til lögreglu.(2) Þá var um að ræða fjarskiptafyrirtæki sem hafði unnið úr og notað upplýsingar úr farsímakerfinu um símnotkun viðskiptavina annars fjarskiptafyrirtækis sem það var í samkeppni við en athæfið braut einnig í bága við fjarskiptalög. Það blasir því við að birting og miðlun nektarmynda í óþökk þeirra sem slíkar myndir eru af, hljóti að vera að minnsta kosti jafn alvarlegt lögbrot og misnotkun upplýsinga um farsímanotkun, jafnvel mun alvarlegra.

Þeir sem hafa orðið fyrir því að viðkvæmum myndum af þeim hafi verið dreift eða þær birtar í þeirra óþökk, geta beint kvörtun yfir því til Persónuverndar, auk þess að sjálfsögðu að kæra brotið til lögreglu. Jafnframt gæti brotaþoli krafið hinn brotlega um miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga vegna ólögmætrar meingerðar gegn frelsi, friði, æru eða persónu sinnar. Slíka skaðabótakröfu má setja fram í sakamáli sem getur veitt brotaþola það hagræði að þurfa ekki að höfða einkamál til að sækja sér miskabætur.

Að endingu er rétt að benda á þau ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (hgl.) sem kunna að eiga við um athæfi sem þetta. Þar liggur beinast við að nefna 209. gr. um brot gegn blygðunarsemi þar sem refsiramminn nær allt að 4 árum fyrir alvarleg brot en 6 mánuðum fyrir smávægileg brot. Til hliðsjónar má nefna 199. gr. um kynferðislega áreitni en þar er þó aðeins 2 ára refsirammi, eða 229. gr. um brot gegn friðhelgi einkalífs en þar er refsiramminn þó aðeins 1 ár og verður sök aðeins sótt í einkarefsimáli sbr. 3. tl. 242. gr. hgl.

Samkvæmt framangreindu getur verið við hæfi að byggja ákæru vegna ólögmætrar dreifingar myndefnis sem sýnir nekt eða er af kynferðislegum toga, á bæði 209. gr. hgl. og 42. gr. pvl. Blygðunarsemisákvæðið hefur hærri refsiramma, en sérrefsiákvæðið í pvl. getur þjónað þeim tilgangi að undirbyggja betur verknaðarlýsinguna enda innihalda lögin ítarlegar skilgreiningar á því hvenær tiltekin vinnsla persónuuplýsinga er heimil og hvenær ekki, sem er tvímælalaust til þess fallið að styðja við skýrleika refsiheimildarinnar. Þess má geta að í þeim málum sem nú þegar hafa komið til kasta dómstóla af þessu tagi hafa fangelsisrefsingar gjarnan verið ákvarðaðar til nokkurra mánaða, oftast innan við eitt ár. Virðist því refsiramminn samkvæmt pvl. vera nægilega víður til að rúma hæfilegar refsingar fyrir athæfi af þessu tagi.

Tilvísanir:

(1) II. og III. kafli greinargerðar með frumvarpi til persónuverndarlaga

(2) Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2010/488


mbl.is Kæra ólöglega dreifingu á nektarmyndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband