Evrumýtan um afnám verðtryggingar

Verðtrygging hefur löngum verið fastur liður í þjóðfélagsumræðu á Íslandi. Ekki síst vegna háværra krafna um afnám einhliða verðtryggingar á skuldum íslenskra heimila. Í þeirri umræðu hefur því stundum verið haldið fram að innganga í Evrópusambandið og eftir atvikum, upptaka evru með  inngöngu í evrópska myntbandalagið, sé ákjósanleg leið, jafnvel sú eina að því markmiði. Slíkar kenningar standast þó ekki nánari skoðun og verður hér útskýrt hvers vegna þær gera það ekki.

Algengar spurningar:

  • Er krónan ónýtur gjaldmiðill og orsök verðtryggingar? Svar: Nei, þvert á móti er verðtrygging lánsfjár ein helsta meginuppspretta óstöðugleika í efnahagsmálum íslenskra heimila.
  • Er verðtrygging lánsfjár bönnuð í Evrópusambandinu? Svar: Nei, reglur Evrópusambandsins banna ekki verðtryggingu svo lengi sem upplýst er um áhrif hennar á kostnað við lántöku.
  • Myndi verðtrygging ekki hverfa eða verða áhrifalaus með aðild að myntbandalagi? Svar: Nei, verðtrygging er skilmáli sem er ekki prentaður á peningaseðla heldur samninga og slíkir samningar myndu ekki falla sjálfkrafa úr gildi þó gengið yrði í erlent myntbandalag.
  • Hvernig á þá að afnema verðtryggingu lánsfjár miðað við vísitölu neysluverðs? Svar: Það er einfalt að afnema heimildina úr íslenskum lögum með samþykki meirihluta Alþingis.
  • Hvað yrði þá um eldri samninga? Svar: Það mun alltaf verða sjálfstætt viðfangsefni.
  • Hvað hefur þetta þá með Evrópumál að gera? Svar: Ekkert sérstakt í sjálfu sér.

Kenning: Verðtrygging er nauðsynleg því krónan er ónýtur gjaldmiðill.

Staðreyndir: Krónan er ekki ónýtari en svo að með henni má greiða allar löglegar fjárkröfur á Íslandi líkt og á við um langflesta þjóðargjaldmiðla. Verðtrygging er ekki prentuð á peninga heldur byggist hún á samningsskilmálum. Verðtrygging er ekki náttúrulögmál heldur undantekning frá meginreglu íslensks réttar um bann við verðtryggingu lánsfjár án lagaheimildar. Verðtrygging var á sínum tíma leyfð sérstaklega með bráðabirgðalögum en það hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera.

Kenning: Í Evrópusambandinu er verðtrygging óheimil.

Staðreyndir: Verðtrygging er ekki bönnuð í Evrópusambandinu eins og hefur verið staðfest af þar til bærum dómstólum, þó með fyrirvörum um að skilmálarnir séu skýrir og lánskostnaður vel kynntur fyrir lántaka. Allar Evróputilskipanir um neytendalán gilda nú þegar á Íslandi vegna EES-samningsins og á því yrði engin breyting með aðild að Evrópusambandinu. Verðtrygging myndi því ekki sjálfkrafa falla brott með slíkri aðild. Verðtrygging verður ekki afnumin nema með lögum frá Alþingi og slík lög mætti samþykkja alveg óháð því hvort það hefði neitt með Evrópumál að gera.

Kenning: Með upptöku stöðugs eða alþjóðlegs gjaldmiðils yrði verðtrygging óþörf.

Staðreyndir: Fullyrðingin er gildishlaðin því hún gerir ráð fyrir að verðtrygging sé óhjákvæmilegur fylgihlutur gjaldmiðils. Nánari skoðun leiðir í ljós að verðtrygging virðist óþörf í þeim fjölmörgu ríkjum sem halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli en nota ekki verðtryggingu eins og hún tíðkast á Íslandi. Verðtrygging er því engin nauðsyn, víðast hvar sjá vextir lánveitanda fyrir sanngjörnu endurgjaldi að teknu tilliti til samningsforsendna. Það er aftur á móti á færi hvers ríkis fyrir sig að ákveða hvort verðtrygging höfuðstóls lánsfjár sé heimiluð. Það er meðvituð ákvörðun en ekki nauðsyn!

Spurning: Er ekki óyfirstíganlega erfitt að afnema verðtryggingu?

Staðreyndir: Nei það er ekki erfitt að afnema verðtryggingu. Nýleg fordæmi eru fyrir afnámi tiltekinna tegunda verðtryggingar með einföldum lagabreytingum, nánast með einu pennastriki. Frumvörp um afnám verðtryggingar lána til neytenda miðað við vísitölu neysluverðs hafa verið lögð fram þrisvar frá hruni en ekki náð fram að ganga. Það eina sem þarf til að breyta því er meirihluti Alþingismanna.

Spurning: En hvað með eldri lánasamninga frá því fyrir afnámið?

Staðreyndir: Afnám verðtryggingar á við um ný lán eftir brottfellingu lagaheimilda um verðtryggingu lána (til neytenda). Um eldri lán þarf að fara með öðrum hætti sem er sjálfstætt úrlausnarefni. Þar þarf að skoða hvort löglega hafi verið staðið að lánveitingu og hvaða afleiðingar vanræksla á upplýsingaskyldu lánveitanda geti haft í för með sér. Það er úrlausnarefni dómstóla fremur en löggjafans og efni í sjálfstæða umfjöllun í öðrum pistli.

Spurning: Er með þessu mælst gegn Evrópusambandsaðild eða evru?

Staðreyndir: Hér er engin afstaða tekin til þess hvort aðild að Evrópusambandi eða myntbandalagi sé ákjósanleg fyrir Ísland heldur er eingöngu leitast við að útrýma misskilningi í því skyni að byggja megi umræðu um verðtryggingu á staðreyndum og réttum forsendum. Verðtrygging neytendalána er mein sem þarf að útrýma óháð stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Engum væri heldur neinn greiði gerður með því að ganga í ríkjasamband og myntbandalag á grundvelli ranghugmynda.

Höldum okkur við staðreyndir!


mbl.is „Tími krónunnar er liðinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Að hvaða leyti eru lánasamningar öðruvísi en kjarasamningar Guðmundur?

Samanber úrskurði kjararáðs, sem hafa gilt marga mánuði aftur í tímann. 

p.s Góð grein í anda Kjarnansundecided

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2017 kl. 09:23

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hvort heldur þú að vextir hækki eða lækki við afnám verðtryggingar?

Hvort heldur þú að húsnæðisverð hækki eða lækki við afnám verðtryggingar?

Heldur þú að lífeyrissjóðirnir styrkist eða veikist verulega við afnám verðtryggingar?

Hver var ástæðan fyrir því að verðtrygging var sett á? Var það af djöfulsskp eða nauðsynlegt jafnvægistæki í hagstjórn?

Af hverju kom afnám verðtryggingar í hámæli á sama tíma og ákveðið var að stefna á Evrópusambandsaðild?

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2017 kl. 09:59

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð grein hjá þér Guðmundur. Þú fyrirgefur þó ég svari spurningum Jóns Steinars.

Svar við fyrstu spurningu þinni Jón Steinar er að vextir munu í fyrstu hækka en síðan lækka og jafna sig.

Svar við annarri spurningu er svipað, enda samhengi þar á milli. Húsnæðisverð mun hækka í fyrstu en lækka síðan. Lærri vextir og aftenging húsnæðisverðs í sjálvirkum vöxtum hlýtur að stuðla að því. Að vísu er stærst faktorinn í húsnæðisverði auðvitað framboð og eftirspurn, svo hugsanlega mun afnám verðtryggingar lítil áhrif hafa.

Þriðja spurning. Lífeyriskerfið er þegar rammskakkt og erfitt að segja hvernig staða þess raunverulega er. Í dag er talað um að eignir sjóðanna séu yfir 3.000 milljarðar. Stór hluti þeirra eigna er bundin í hlutafélögum, sem sjóðirnir hafa verið að versla með sín á milli. Hvert raunverulegt verðmæti þeirra er, er erfitt að segja, a.m.k. má fullyrða að raunveruleg eign sjóðanna er mun minni en bækur þeirra segja. Sjóðirnir eru farnir að minna óþægilega mikið á bankakerfið fyrir hrun, haldið uppi af froðufé. Afnám verðtryggingar mun litlu breyta um það, en gæti hins vegar krafist ábyrgari stjórnun þeirra.

Fjórða spurning. Þegar verðtrygging var sett á hafði um árabil verið mikil sveifla á hagkerfinu, verðbólgan sveiflaðist frá 20% og vel yfir 40%.Þetta var tilraun til að koma böndum á þá sveiflu og því bæði lán og laun verðtryggð.

Skemmst er frá að segja að á þrem árum, eftir að verðtrygging var sett á, æddi verðbólgan upp og þegar hún var að komast í 100% var verðtrygging launa afnumin. Lán voru þó áfram verðtryggð. Við þessa breytingu datt verðbólgan niður, þ.e. niður á sama plan og fyrir verðtryggingu, sveiflaðist aftur frá 20% í 40%.

Það var svo með þjóðarsáttinni, um 1991, sem loks tókst að ná tökum á verðbólgunni og var hún nokkuð stabíl fram undir hrun. Jafnvel í sjálfu hruninu náði verðbólgan hér á landi ekki nema rétt upp í hina árlegu toppa sem hér voru síðasta áratug fyrir verðtryggingu og þann fyrsta eftir hana!

Því er sannað að verðtrygging virkar öfugt á hagsveiflur.

Fimmta spurning. Umræðan um afnám verðtryggingar er mun eldri en umræðan um umsókn að ESB. Strax eftir að verðtrygging var sett á komu upp efasemdarraddir og umræðan gegn henni hófst. Mesta umræðan var þó sennilega þegar ákveðið var að afnema með einu pennastriki verðtryggingu launa en halda verðtryggingu lána, árið 1983.

Umræðan að umsókn byrjaði nokkru síðar og hófst ekki af alvöru fyrr en undir lok níunda áratugarins. Krötum datt það snajallræði í hug þá að tengja þessi tvö mál saman, verðtrygginguna og aðild að ESB, sem reyndar hét þá EB.

Þetta er því frasi sem aðildarsinnar hafa haldið fram síðan, án þess þó að geta rökstutt það á neinn veg. Svo lengi má ljúga að lygarnar verða sem sannleikur í eyrum fólks.

Eins og fram kemur í pistli höfundar, var verðtryggingin sett á tímabundið. Þegar ljóst var að tilrauninhafði mistekist hrapalega, að verðtryggingin virkaði þver öfugt verðbólguna, þegar verðbólgan stefndi í þriggja stafa tölu, var ákveðið að afnema vertrygginguna. Einhverra hluta vegna náðu þó peningaöflin að hræða stjórnmálamenn þess tíma til að afnema einungis launahluta verðtryggingar en halda inni lánahluta hennar. Síðan hafa ekki komist á þing nógu kjarkmikir stjórnmálamenn til að leiðrétta ruglið.

Gunnar Heiðarsson, 9.10.2017 kl. 11:39

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Að hvaða leyti eru lánasamningar öðruvísi en kjarasamningar Guðmundur?

Þessi spurning hefur reyndar lítið sem ekkert með efni pistilsins að gera, en ég skal samt reyna að svara henni.

Lánsasamningar eru öðruvísi en kjarasamningar að nánast öllu leyti sem máli skiptir. Andlag lánasamninga er lánsfé en andlag kjarasamninga eru launataxtar og önnur réttindi launþega á vinnumarkaði. Aðilar að lánasamningi eru oftast tveir, fjármálastofnun og neytendi. Aðilar að kjarasamningum eru oftast heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins sem jafnan hafa mörg þúsund einstaklinga og fyrirtæki innan sinna vébanda.

Ég veit ekki hvort þetta veitir akkúrat þau svör sem þú varst að leita eftir Jóhannes, en þetta er allavega það svar sem ég get gefið miðað við hvernig spurningin er orðuð.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 12:21

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þakka svörin Gunnar. 

Þetta voru einlægar spurningar byggðar á hrakspám varðandi afnám verðtryggingar. 

Ég er sjálfur svo gamall að muna það villta vestur sem ríkti hér í gengi og fjarmalum. Þjóðin var hreinlega búin að missa allt verðskyn því brauðið kostaði alltaf meira næsta dag en daginn áður. Víxlhækkun kaupgjalds og verðlags var stjórnlaust fyrirbrigði og hér logaði allt í verkföllum árin út og inn. Hvað sem gerðist, þá lauk þessu fljötlega eftir að verðtrygging var sett á, svo ég ályktaði að her væri um að ræða jafnvægistæki.

Þú talar svolítið um lífeyrissjöðina eins og þeir geti verið svona "collateral damage" sem ekki þurfi að hafa stórar áhyggjur af. Þeir séu of stórir hvort sem er. Er það rétt skilið?

Annars til að vera alveg ærlegur, þá er eitt inni í jöfnunni um óstöðugleikann forðum, en það var sú staðreynd að gengi krónunnar væri eitthvað afstætt mál, sem mætti breyta handvirkt. LÍÚ þurfti bara að mæta í ráðuneytið og biðja um lækkun á gengi og þa var það lækkað handvirkt og pöbullinn leið fyrir það. Held að þetta ábyrgðarlausa fokk í genginu hafi verið stærri ahrifavaldur sífelldum óróa á vinnumarkaði og afleiddum víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags.

Telur þú ráðlaegt að kippa verðtryggingunni af með einu pennastriki sísvona án þess að það setji allt í háaloft, eða telur þú einhverja leið sem hægt væri að gera þetta í áföngum?  Ég er nokkuð viss um að þetta verður ekki sársaukalaust og jafnvel alveg óútreiknanlegt hver áhrifin verða. Þetta snertir jú öll stig efnahagsmála séð og óséð. 

Göfuglegt tal Kötu Jak um að "minnka vægi verðtryggingar" (án skýringa hvernig) hljómar eins og rakalaust lýðskrum í mínum eyrum. Ef þetta er svona lítið mál, af hverju gerði "tæra vinstristjórnin" ekkert? 

Annars varðandi evrutenginguna, þá er augljóst að við getum ekki verðtryggt hana ef hún verður tekin upp. Þessvegna tel ég að Evrufílunum er þetta meira hjartans mál en öðrum.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2017 kl. 13:31

6 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Svona í hnotskurn.

Ég er nokkuð viss um að það verður ekkert bara bara að taka af verðtrygginguna og ég hef ekki enn séð neina vitræna og heildstæða strategíu í því umfram lýðskrum.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2017 kl. 13:34

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Steinar Ragnarsson

Þína spurningar hafa lítið með efni pistilsins að gera, nema ef til vill eilítið sú síðasta, en ég reyni samt að veita svör:

Hvort heldur þú að vextir hækki eða lækki við afnám verðtryggingar?

Þeir munu lækka, enda er það fyrst og fremst verðtrygging sem gerir það að verkum að þeir eru háir. Um þá niðurstöðu vísast m.a. til skrifa Dr. Ólafs Margeirssonar Hagfræðings og kynningarefnis hans frá borgarafundi í Háskólabíói síðastliðinn laugardag.

Spurningar og svör um verðbólgu, verðtryggingu, vexti og fleira « Ólafur Margeirsson

Ólafur Margeirsson - Nokkrir yfirlýstir kostir verðtryggingar, þegar fræðin og raunveruleikinn stangast á breytir maður ekki raunveruleikanum

Svo er líka önnur ástæða fyrir því að vaxtabyrði í krónum talið mun lækka, sem kemur fram í svarinu við næstu spurningu.

Hvort heldur þú að húsnæðisverð hækki eða lækki við afnám verðtryggingar?

Þar sem verðtrygging er stærsti undirliggjandi kostnaðarliður húsnæðisverðs á Íslandi (jafnt leigu og lána) og sú sífellda hækkun sem hún veldur á áhvílandi skuldum er helsti drifkraftur hækkunar þess (seljendur þurfa nefninlega að geta greitt upp lánin og verðleggja samkvæmt því við sölu) þá er augljóst að við brotthvarf þessa stóra áhrifaþáttar mun húsnæðisverð lækka. Það mun koma sér vel fyrir alla því þá þarf ekki að taka eins há lán og þar af leiðandi ekki að greiða eins mikla vexti heldur.

Heldur þú að lífeyrissjóðirnir styrkist eða veikist verulega við afnám verðtryggingar?

Hvorugt. Eins og allir fjárfestingasjóðir ræðst afkoma þeirra af því hversu skynsamleg (eða heppileg) fjárfestingarstefna þeirra reynist vera. Verðtrygging ræður engum úrslitum um það. Auk þess munu lífeyrissjóðir áfram hafa aðgang að verðtryggðum fjárfestingum ef þeir óska þess, svo sem skuldabréfum útgefnum af ríkissjóði og fyrirtækjum, óháð afnámi verðtryggingar neytendalána.

Hver var ástæðan fyrir því að verðtrygging var sett á?

Ég var eins árs þegar ákveðið var að innleiða verðtryggingu sem meginreglu á íslenskum lánamarkaði og veit því ekki nákvæmlega hvaða ástæður menn höfðu í huga eða tilgreindu fyrir því. Enda skiptir það engu máli í dag því jafnvel þó gildar ástæður hefðu búið að baki á sínum tíma eiga þær varla við mörgum áratugum seinna þegar fjármálakerfi og efnahagslíf hafa tekið stakkaskiptum. Auk þess verður að hafa í huga að þegar þetta var gert var um að ræða bráðabirgðaákvæði í neyðarlögum. Varla er ennþá neyðarástand sem þarf að bregðast við með bráðabirgðaaðgerðum núna mörgum áratugum seinna. Þvert á móti hefur skapast í millitíðinni annað og mun verra neyðarástand, sem má rekja beinlínis til verðtryggingarinnar sbr. það sem kemur fram í skýrslu seðlabankans um stöðu heimilanna eftir fjármálahrunið 2008.

Var það af djöfulsskp eða nauðsynlegt jafnvægistæki í hagstjórn?

Hvorugt. Að mínu mati var það miklu frekar gert af vanþekkingu og skammsýni en einhverri meðvitaðri illkvittni. Að viðhalda henni áratugum síðar þegar skaðsemi hennar er orðin morgunljós, getur aftur á móti ekki verið af öðru en yfirlögðu ráði. Verðtrygging neytendalána hefur aldrei verið nauðsynlegt jafnvægistæki, þar sem hún er hvorugt þ.e. hvorki nauðsynleg né jafnvægistæki. Þvert á móti er hún einn stærsti orsakavaldur ójafnvægis í peningakerfinu og fjármálum heimilanna. Verðtrygging neytendalána er jafn ónauðsynleg og eitur í drykkjarvatninu.

Af hverju kom afnám verðtryggingar í hámæli á sama tíma og ákveðið var að stefna á Evrópusambandsaðild?

Það gerði hún alls ekki. Afnám verðtryggingar hefur verið til umræðu í samfélaginu að minnsta kosti frá því á tíunda áratug síðustu aldar, ef ekki lengur, sbr. margar skýrslur sem hafa verið ritaðar í ráðuneytum, þingmál sem hafa verið lögð fram á Alþingi o.s.frv. Kröfur um afnám verðtryggingar neytendalána urðu einna háværasta vegna afleiðinga fjármálahrunsins 2008. Það var afleiðing af hruninu en ekki af einhverjum hugmyndum sumra um Evrópusambandsaðild. Auk þess hefur enginn ákveðið að "stefna" sérstaklega á Evrópusambandsaðild nema örfáir smáflokkar í pólitík, en meirihluti Íslendinga er ekki að stefna á neitt slíkt.

Ég vona að þessi svör komi að gagni, þó svo að spurningarnar hafi í raun lítið sem ekkert með efni pistilsins að gera.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 13:41

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jón Steinar.

Varðandi seinni athugasemd þína (nr. 6) þá hefur hún ekkert með efni pistilsins að gera frekar en sú fyrri.

Ég veit ekki hvað þú átt við með orðalaginu "heildstæð strategía" og "umfram lýðskrum" en þau benda til þess að þú hafir sennilega ekki einu sinni lesið pistilinn, hvað þá kynnt þér málefnið af neinni alvöru og án fordóma. Í pistlinum hér að ofan er nefninlega vísað með tenglum á frumvarp sem hefur þrisvar á síðustu rúmlega fjórum árum verið lagt fram á Alþingi í einni eða annari mynd. Það frumvarp inniheldur útfærsluna á afnámi verðtryggingar og til þess að það verði að veruleika þarf enga aðra "heildstæða strategíu" heldur en að meirihluti þingmanna úti á "JÁ" takkann við atkvæðagreiðslu um frumvarpið. Varla felst í því meira lýðskrum heldur en í hverju öðru frumvarpi sem hlýtur samþykki sem lög frá Alþingi.

Lýðskrum er að lofa almenningi einhverju sem almenningur vill án þess að hugur fylgi máli eða gegn betri vitund þess sem loforðin veitir. Ekkert slíkt á við um afnám verðtryggingar eða frumvarp þar að lútandi, þar sem bæði hugur og hjarta fylgja máli auk þess sem ekkert er þar gert gegn betri vitund heldur þvert á móti samkvæmt bestu vitund á grundvelli fyrirliggjandi staðreynda.

Vinsamlegast höldum okkur við staðreyndirnar.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 13:54

9 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

 Jón Steinar.

Þegar ég var að svara 6. athugasemdinni yfirsást mér 5. athugasemd sem þú hafðir bætt við í millitíðinni svo ég biðst velvirðingar að svörin komi hér ekki í sömu röð.

Þar sem þú beinir 5. athugasemdinni til Gunnars ætla ég að leyfa honum að svara eftir eigin höfði, en þó sýnist mér tilefni til að ég bregðist við eftirfarandi ummælum í téðri athugasemd:

Göfuglegt tal Kötu Jak um að "minnka vægi verðtryggingar" (án skýringa hvernig) hljómar eins og rakalaust lýðskrum í mínum eyrum.

Sammála því. Það er engin ástæða til að vera með hálfvelgju og stikla eins og k0öttur í kringum heitan graut. Við sem aðhyllumst afnám verðtryggingar viljum ekkert draga úr vægi hennar heldur einfaldlega afnema hana. Með því er að sjálfsögðu átt við lán til neytenda en á hinn bógin er enginn að tala um að afnema hana af öðrum lánum svo sem lántökum ríkissjóðs og fyrirtækja. Þetta er það sem ég á við þegar ég segi að hugur fylgi máli og byggt sé á staðreyndum máls, svo það er ekki um neitt skrum að ræða.

Ef þetta er svona lítið mál, af hverju gerði "tæra vinstristjórnin" ekkert?

Góð spurning. Þú verður að spyrja hana að því. Mikið var skorað á hana, meðal annars með afhendingu 37.000 manna undirskriftalista, en því ákalli var ekki sinnt á umræddu kjörtímabili.

Annars varðandi evrutenginguna, þá er augljóst að við getum ekki verðtryggt hana ef hún verður tekin upp. Þessvegna tel ég að Evrufílunum er þetta meira hjartans mál en öðrum.

Þetta er beinlínis og sorglegt ef rétt er að evrusinnar byggi upp til hópa afstöðu sína á slíkum ranghugmyndum. Enn og aftur verð ég að hvetja þig til að lesa pistill almennilega áður en lengra er haldið. Eins og þar er bent á eru skilmálar um verðtryggingu prentaðir á lánasamninga en ekki peningaseðla og það myndi því ekki breytast þó skipt yrði um gjaldmiðill, hvaða nafni sem sá gjaldmiðill nefnist. Enn fremur er ekkert í reglum ESB sem bannar verðtryggingu og slíkar reglur eru ekki heldur settar af evrópska seðlabankanum enda hefur hann ekki löggjafarvald.

Setninga laga um þau lánsform sem heimil eru í lánum til neytenda, er og mun ávallt verða innanríkisákvörðun og á færi Alþingis Íslendinga. Það hafa m.a. framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstóllinn staðfest.

Evrusinnar á Íslandi hafa aldrei hvorki fyrr eða síðar getað eða yfirhöfuð reynt að benda á hvar það stendur skrifað að verðtrygging falli sjálfkrafa niður við inngöngu í ESB eða myntbandalagið eða yfir höfuð neitt sem gæti haft slík áhrif. Séu einhverjir þeirra ósammála því hvet ég viðkomandi til að færa fram rök fyrir máli sínu og styðja þau með vísan til heimilda. Hér er opið tækifæri til þess sem viðkomandi hljóta að taka fegins hendi og nýta sér, það er að segja ef þeir hafa slíkar sannanir fram að færa og hafa áhuga á því að fram fari upplýst og málefnaleg umræða um málið.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 14:25

10 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hér að ofan átti að standa:

"Þetta er beinlínis rangt og sorglegt ef rétt er að evrusinnar byggi upp til hópa afstöðu sína á slíkum ranghugmyndum. ..."

Orðið rangt vantaði og biðst ég velvirðingar á innsláttarvillunni.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 14:28

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég las pistilinn og geri mér grein fyrir að hann er að gagnrýna það að afnám hennar skuli notað til réttlætingar evru. 

Engu að síður hefur þú sterkar skoðanir á því að það beri að afnema hana. Þá vildi ég bara spyrja hvaða áhrif það hefði og hvernig menn myndu bera sig að því.

Eg hef aldrei séð þetta frumvarp sem þú talar um, svo ég vona að þú afsakir fávísi mína.

Þegar ég tala um lýðskrum, þá er ég að tala um það þegar menn lofa einhverjum aðgerðum án þess að skýra jákvæð og neikvæð áhrif þessa. Það á  einnig við um kosningaloforð um lækkun eða hækkun skatta, aukin útgjöd eða niðurskurð. Allt er þetta meira og minna boðað án samhengis og háð því hvert buzzið er á hverjum tíma.

Á meðan fólk skilur ekki til fulls til hvers verðtryggingin er né hvaða jákvæðu og neikvæðu áhrif það hefur til lengri og skemmri tíma, þá er það að mínu mati skylt lýðskrumi að lofa slíku í kosningabaráttu. Alveg eins og þessi "cure all" áróður fyrir Evrópusambandsaðild.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.10.2017 kl. 14:34

12 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jón Steinar.

Nú ertu að nálgast umfjöllunarefnið og staðreyndir þess.

Eg hef aldrei séð þetta frumvarp sem þú talar um, svo ég vona að þú afsakir fávísi mína.

Ég skal afsaka það. Eins og ég benti á hefur frumvarpið verið lagt fram þrisvar og í pistlinum hér að ofan eru tenglar á öll þrjú eintökin. Til frekari skýrleika eru þeir tenglar eftirfarandi:

1138/141 frumvarp: verðtrygging neytendasamninga

741/145 frumvarp: vextir og verðtrygging

21/147 frumvarp: vextir og verðtrygging o.fl

Þegar ég tala um lýðskrum, þá er ég að tala um það þegar menn lofa einhverjum aðgerðum án þess að skýra jákvæð og neikvæð áhrif þessa.

Sammála. Þess vegna legg ég mig einmitt fram um að koma réttum staðreyndum málsins á framfæri, vegna þess að ég er ekki skrumari, hvorki lýðs- né annars, heldur raunhyggjumaður.

Reyndar er algjörlega óþarfi að gera grein fyrir neikvæðum áhrifum afnáms verðtryggingar því þau yrðu engin sem skipta máli. Til að setja þetta í auðskiljanlegt samhengi: Ef fram kæmi tillaga um afnám eiturs úr drykkjarvatni myndi ekki hvarfla að neinum að krefjast skýringa á neikvæðum áhrifum þess. Sama á við hér.

Jákvæðu áhrifin eru augljós, það er alltaf jákvætt að losna við fyrirbæri sem hafa skaðleg áhrif á samfélagið. Mörg þeirra óteljandi jákvæðu áhrifa sem afnám verðtryggingar hefði í för með sér hafa áður verið rakin ítarlega hér á þessu bloggi og vísast til þeirra fyrri skrifa sem er ástæðulaust að vera að reyna að endurtaka öll hér í þessari stuttu athugasemd.

Sjá: Færsluflokkur: Verðtrygging - bofs.blog.is

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 15:07

13 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Spurningin snéri að afturvirkni laga Guðmundur. Hvers vegna ætti ekki að vera hægt að afnema verðtryggingarákvæði lánasamninga afturvirkt eins og hægt er að hækka laun afturvirkt. Því þú segir: "Um eldri lán þarf að fara með öðrum hætti sem er sjálfstætt úrlausnarefni."

Væri til dæmis hægt að breyta vístölu neysluverðs?  Væri það túlkunaratriði fyrir dómstóla.  Sumir tala um að taka út húsnæðiskostnaðinn. Væri það líka úrlausnarefni dómstóla?  Á hvaða braut erum við eiginlega komin í lagahyggjunni þegar löggjafinn lætur dómstóla segja sér fyrir verkum?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2017 kl. 15:42

14 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Jóhannes.

Nú skil ég betur hvað þú ert að fara.

Það er svo sem alveg hægt að setja lög sem myndu hafa slík afturvirk áhrif, það var til dæmis gert með svokölluðum Árnapálslögum en í því tilviki var það reyndar gert neytendum í óhag. Sem betur fer var afturvirkni þeirra dæmd ógild að hluta, en hér þurfum við að gæta þessa að vera samkvæm sjálfum okkur og ætlast ekki til afturvirkni bara þegar okkur hentar en ekki þegar það er óhentugt.

Afturvirkar launahækkanir brjóta ekki í bága við bann við afturvirkni því þær eru ívilnandi en ekki íþyngjandi.

Varðandi það þegar löggjafinn lætur dómstóla segja sér fyrir verkum þá eru það svo sannarlega ógöngur, eins og áðurnefnd Árnapálslög eru lýsandi dæmi um.

Þú nefnir þá hugmynd að breyta vísitölu neysluverðs. Það gæti verið fær leið enda eru til fordæmi fyrir því að breytingar á vísitölu tiil verðtryggingar hafi staðist skoðun dómstóla.

En það ætti í raun að vera óþarft því það má hæglega leiðrétta lánin á grundvelli þegar gildandi laga án þess að lenda í neinum ógöngum vegna afturvirkni. Meira að segja málshöfðun þar að lútandi í burðarliðnum og á lokastigum undirbúnings.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 16:18

15 Smámynd: Jóhann Elíasson

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, svarið við AFTURVIRKNI laganna er EINFALT "LÖG ERU ALDREI AFTURVIRK".  Þannig að lán sem hafa verið tekin til þess dags sem hugsanleg lg um afnám verðtryggingar taka gildi verða áfram í fullu gildi.

Jóhann Elíasson, 9.10.2017 kl. 16:18

16 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Jóhann.

...lán sem hafa verið tekin til þess dags sem hugsanleg lg um afnám verðtryggingar taka gildi verða áfram í fullu gildi.

Ekki þau lán sem brutu í bága við gildandi lög þegar þau voru tekin. Þá er nefninlega ekki afturvirkni að leiðrétta ólögmætið.

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 16:45

17 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæll Jóhann, Að misnota Caps Lock takkann á lyklaborðinu eins og þér er svo gjarnt flokkast af flestum sem dónaskapur í umræðunni. Menn geta ræðst við án upphrópana.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.10.2017 kl. 16:55

18 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll aftur Jón Steinar. Eins og þú þá man ég einnig þá tíð er brauðið hækkaði daglega, þegar víxlhækkun verðalags og kaupgjalds var stjórnlaus. Ég man líka að það breyttist sannarlega við upptöku verðtryggingar, í stað sveiflna þá rauk verðbólgan upp úr öllu valdi, varð algerlega stjórnlaus!! En þar sem ég er kannski kominn á þann aldur að mynnið gæti verið farið að svíkja, þá skoðaði ég einfaldlega gögn Hagstofunnar frá þessum tíma, svona til að fullvissa mig að ég væri að fara með rétt mál. Þar má glöggt sjá hverning verðbólgan sveiflaðist á milli 20% og yfir 40%, á áttunda áratugnum. Einnig má sjá í þessum gögnum að verðbólgan æddi upp eftir að verðtrygging var sett á og stefndi í 100% rúmum þrem árum síðar. Eftir að verðtrygging launa var afnumin má sjá í gögnunum að verðbógan hjaðnaði, en þó einungis niður á sama plan og áratuginn á undan og það sem meira var, þá byrjaði sama sveiflan aftur, þ.e. 20 - 40% verðbólga. Í þessum sömu gögnum sést að verðbólga byrjar að lækka í byrjun tíunda áratugarins og var komin á þokkalegt ról um hann miðjan. Það má alfarið þakka þjóðarsáttinni, sem gerð var í byrjun þess áratugar.

Það er því ekki byggt á mínu aldraða mynni sem mínar fullyrðingar eru settar fram, um að verðtryggingin virki öfugt á hagsveiflur og ýki þær, heldur fyrst og fremast á tölulegum staðreyndum.

Þessi vettvangur er ekki kannski réttur til að ræða það stóra mál sem lífeyrissjóðirnir eru. Ég var einfaldlega að svara þar spurningu þinni um hvort afnám verðtryggingar hefðu einhver áhrif á þá. Ég tók ekki eftöðu í því svari hvort sjóðirnir væru of stórir, heldur sagði að þeir væru nokkuð örugglega mun hærra metnir í bókum en raunverulegt virði þeirra er. Líkti þeim saman við gömlu bankana fyrir hrun, þar sem eigið fé var að stórum hluta froða. Það er fleira sem þar má líkja saman, en ekki rétti vettvangur hér að fara út í það.

Það er rétt hjá þér Jón Steinar, að fyrir tíma verðtryggingar var gengi handstýrt og þá gjarnan látið stjórnast af vilja LÍÚ. Víxlverkun launa og verðlags var staðreynd en alls ekki hægt að halda því fram að launahækkanir hafi verið þar orsakavaldur. Mun frekar afleiðing.

Að sjálfsögðu er hægt að taka verðtryggingu af með einu pennastriki. Það var sett á með einu pennastriki, var afnumið af launaliðnum með einu pennastriki svo ekkert ætti að standa í vegi fyrir að taka hana af lánum með samskonar pennastiki. Auðvitað er þá verið að tala um lán sem tekin eru eftir slíkt pennastrik. Um eldri lán gildir annað, eins og síðuhafi hefur marg bennt á.

Allt tal um að "minnka vægi verðtryggingar" er lýðskrum, eins og þú segir. Þetta hefur í raun verið gert, með því að afnema verðtryggingu á lægri og styttri lánum og framboði banka á bæði verðtryggðum sem óverðtryggðum lánum. Staðreyndin er hins vegar sú að meðan bönkum er í sjálfs vald sett hvernig framboð lána er til húsnæðiskaupa, er lántakinn berskjaldaður. Og að sjálfsögðu hugsar bankinn fyrst og fremst um eigin hag.

Evrutenging eða evra kemur ekkert verðtryggingu við.

Gunnar Heiðarsson, 9.10.2017 kl. 20:25

19 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gunnar.

Hér má sjá á línuriti hversu mikið peningaprentun jókst beinlínis eftir setningu Ólafslaga, áður en hún lækkaði eitthvað að ráði mörgum árum seinna en eins og kemur fram í þeirri rannsókn sem þetta er fengið úr þá hafði það ekkert með verðtryggingu að gera heldur kom það til vegna innleiðingar nýrra reglna sem gerðu bönkum tímabundið kleift að prenta peninga án þess að það ylli verðbólgu. Réttara sagt gerði það í raun ekkert annað en að fresta henni þangað til þetta bilaða kerfi sprakk svo aftur í hruninu 2008.

mpct.png

Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2017 kl. 21:26

20 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Guðmundur,

Góður pistill að vanda.  Ég man verðbólguna um miðjan áttunda áratuginn og fram undur 1990 og innleiðingu verðtryggingunnar.  Ég er búinn að missa alla von um að hún verði afnumin.  Peningakerfið vill ekki sjá á eftir þessu, svo ekkert skeður, því miður :(

Kveðja,  

Arnór Baldvinsson, 10.10.2017 kl. 05:36

21 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Gaman að lesa svona vel upp setta greininngu á ísensku verðtryggingunni. Og eins ath frá Gunnari nr 3 og 18.

Guðmundur Jónsson, 10.10.2017 kl. 09:16

22 Smámynd: Réttsýni

Sæll Guðmundur ... ég er búinn að ranna yfir pistilinn og þessar umræður og er mun fróðari en áður. Þakka þér fyrir það. En getur þú svarað því í stuttu máli hvers vegna verðtryggingin hefur ekki verið afnumin? Sigmundur sagði á sínum tíma að það væri einfalt að gera það og gaf í skyn að hann myndi beita sér fyrir að hún yrði afnumin. Síðan hljópst hann undan að ræða þetta mál þegar á reyndi. Hvað gerðist og hvað/hver kom í veg fyrir afnámið?

Spurning tvö: Hvað heldurðu að gerist í þessu máli næstu fjögur árin?

Réttsýni, 10.10.2017 kl. 10:06

23 identicon

"...Staðreyndir: Verðtrygging er ekki bönnuð í Evrópusambandinu eins og hefur verið staðfest af þar til bærum dómstólum, þó með fyrirvörum um að skilmálarnir séu skýrir og lánskostnaður vel kynntur fyrir lántaka. Allar Evróputilskipanir um neytendalán gilda nú þegar á Íslandi vegna EES-samningsins..." 

Afnám eða bann við einhverju sem EES samningurinn heimilar stendur ekki til boða meðan við erum aðilar að þeim samningi. 

"...Þess vegna legg ég mig einmitt fram um að koma réttum staðreyndum málsins á framfæri, vegna þess að ég er ekki skrumari, hvorki lýðs- né annars, heldur raunhyggjumaður..."      Stenst ekki skoðun. Strax í fyrstu málsgrein talar þú um "einhliða verðtryggingu á lánum" þegar hún er ekki einhliða, inneignir er hægt að verðtryggja. Dæmigerður blekkingarleikur og skrum og aðeins það fyrsta af mörgum hjá þér. Síðan heldur þú áfram og talar eins og það sé einfalt mál fyrir Alþingi að samþykkja lög sem ekki standast EES samninginn.

Ufsi (IP-tala skráð) 10.10.2017 kl. 10:53

24 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Arnór og Guðmundur, takk fyrir.

"Réttsýni" :

Ég get ekki svarað fyrir Sigmund, þú yrðir að spyrja hann og mér skilst að hann sé kosningabaráttu svo það ætti að ver mögulegt að ná af honum tali til þess. Ef ég ætti að vera með getspakir myndi ég kannski benda á að Sigmundur var ekki einn í ríkisstjórn og sá meirihluti samanstóð af fleiri en einum flokki. Sumir hafa sagt að það hafi verið samstarfsflokkurinn sem hafi reynst Sigmundi helsta hindrunin, en þetta er bara það sem ég hef heyrt og ætla ekki að fullyrða neitt út frá því. Þó að ekki hafi náðst pólitísk samstaða um það þá breytir það því ekki að það var rétt hjá honum að þetta er mjög einföld aðgerð.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.10.2017 kl. 12:51

25 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ufsi.

Afnám eða bann við einhverju sem EES samningurinn heimilar stendur ekki til boða meðan við erum aðilar að þeim samningi.

Hér ertu að rugla saman heimild og skyldu. Það er rangt að að EES samningurinn kveði á um einhverjar sérstakar skyldur í þessum efnum. Hið rétta er að hann hvorki bannar né heimilar sérstaklega vertðryggingu, heldur er hann þögull um hana. Aðeins á einum stað í þeim tilskipunum sem falla undir EES samninginn sem hér skipta máli er minnst á verðtryggingu, þ.e. í viðauka við tilskipun 93/13 um óréttmæta skilmála. Þar segir að sú tilskipun banni ekki skilmála um verðtryggingu, svo lengi sem þeir séu löglegir í viðkomandi ríki og önnur skilyrði sem tilskipunin setur séu uppfyllt svo sem að skilmálinn sé skýr og að áhrif hans séu rækilega kynnt fyrir neytandanum.

Þetta hafa Eftirlitsstofnun EFTA, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og EFTA dómstóllinn öll staðfest í málum E-25/13 og E-27/13 sem snerust um íslensku verðtryggðu neytendalánin.

Samkvæmt þessu er það hverju og einu aðildarríki EES (og þar með ESB) í sjálfsvald sett hvort það leyfir eða bannar verðtryggingu á tilteknum tegundum samninga. Þetta mun ekki breytast við inngöngu í ESB því þar eru reglur um þetta þær sömu og í EES. Þar af leiðandi er jafn einfalt fyrir Alþingi að samþykkja lög um afnám verðtryggingar, hvort sem Ísland er í EES, ESB eða hvorugu, því það stangast ekki á við neinar reglur sem í samningum þessarra bandalaga felast.

Í ljósi þessarra skýringa vona ég Ufsi, að þú sért maður til að draga til baka þær óréttmætu ásakanir í minn garð sem komu fram í seinni hluta athugasemdar þinnar. Höldum okkur við staðreyndir en ekki rangtúlkanir.

Fyrst EES/ESB reglur banna ekki beinlínis verðtryggðu, má búast við að einhverjir spyrji sig þá hvers vegna var látið reyna á það fyrir dómstólum? Svarið við því er að málatilbúnaður um lögmæti verðtryggðra neytendalána hefur aldrei snúist um að neinar Evrópureglur banni beinlínis verðtryggingu, heldur að þau skilyrði sem þær setja fyrir því að heimila hana hafi ekki verið uppfyllt. Fyrir liggur staðfesting Neytendastofu (ákvörðun nr. 8/2014), áfrýjunarnefndar neytendamála (úrskurður nr. 5/2014), Alþingis (lög nr. 33/2013), Héraðsdóms Reykjavíkur (í máli nr. E-4521/2013) og Hæstaréttar Íslands (í máli nr. 243/2015) á því að þannig hafi verið í pottinn búið. Hæstiréttur er bara ekki sammála hinum um hverju sé um að kenna og hefur fellt sökina á Alþingi. Þar með er íslenska ríkið skaðabótaskylt og neytendur geta sótt sér bætur fyrir tjón. Reyndar er furðulegt að enginn hafi gert það nú þegar, en slíkt mál er í undirbúningi.

Fyrir áhugasama sem vilja kynna sér réttar staðreyndir um Evrópurétturétt, mæli ég með bókinni Réttarkerfi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins eftir Sigurð Líndal & Skúla Magnússon. Það er einhver auðlæsilegasta lögfræðibók sem til er á íslensku og góður inngangur að þessu efni jafnt fyrir lærða sem leikmenn.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.10.2017 kl. 13:27

26 Smámynd: Réttsýni

Önnur spurning til þín Guðmundur (ég er að reyna að átta mig á því út af hverju verðtrygging er ekki afnumin):

Hver/hverjir vilja EKKI, hagsmuna snna vegna, að verðtrygging sé afnumin, og hvaða hagsmunir eru það?

Réttsýni, 10.10.2017 kl. 14:43

27 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Réttsýni.

Spurning þín er er í raun þríþætt. Í fyrsta lagi hverji það eru sem vilja ekki að verðtrygging sé afnumin. Í öðru lagi hvers vegna þ.e. hvort það sé vegna hagsmuna þeirra eða af öðrum ástæðum. Í þriðja lagi, ef það er vegna hagsmuna, hvaða hagsmunir það eru.

Ég hef því miður ekki klippt og skorin tæmandi svör við þessum spurningum en myndi vilja vita þau líka ef hægt væri.

Ef við skoðum hverjir hafa það á valdi sínu að afnema verðtryggingu, þá eru það fyrst og fremst Alþingismenn. Þar sem núna eru kosningar á næsta leyti er hægt að nota aðgengið sem býðst að frambjóðendum í kosningabaráttu til að spyrja þá þessarra spurninga.

Þessi pistill snýst fyrst og fremst um að vinda ofan af þeim misskilningi að það sé einhvernvegi nauðsynlegt að ganga í ESB/EMU til að afnema verðtryggingu eða að það muni gerast sjálfkrafa við inngöngu, en hvorugt er rétt eins og hér hefur verið rakið.

Í því sambandi er kannski vert að hafa í huga að svo virðist sem stjórnmálamenn og -flokkar sem aðhyllast Evrópusambandsaðild eru ennþá að klifa á þessum misskilningi, jafnvel þó þeir viti betur og margbúið sé að fara yfir staðreyndir málsins með þeim. Þrátt fyrir það hefur þessi skringilega afstaða þeirra ekki breyst.

Maður fær það oft á tilfinninguna að þeir vilji beinlínis halda slíkum  ranghugmyndum lifandi þess að geta notað verðtryggingu sem verkfæri til að afla fylgis við Evrópudrauma sína. Ef það er rétt að svo sé, þá virðist það falla fullkomlega að skilgreiningunni á lýðskrumi: að halda einhverju fram gegn betri vitund sem ekki er á rökum reist, í þeim tilgangi að hafa áhrif á afstöðu fólks í óskyldum málaflokki. Með öðrum orðum blekkingaleikur.

Hvaða raunverulegu hagsmuni stjórnmálamenn og -flokkar gætu haft af því ef gengið yrði í Evrópusambandið á fölskum forsendum, er jafn hulin ráðgáta fyrir mér eins og fyrir næsta manni.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.10.2017 kl. 15:11

28 Smámynd: Réttsýni

Takk fyrir þessi svör, en ein spurning kviknar í viðbót: Veistu til þess að einhver(jir) hafi skrifað grein(ar) til að andmæla því að verðtrygging sé afnumin? Ef þú veist um einhverja(r) slíkar greinar þætti mér gaman að vera vísað á þær til að geta skoðað rökin.

Réttsýni, 10.10.2017 kl. 16:39

29 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Réttsýni.

Ég man nú ekki í svipinn eftir slíku, enda vilja fáir afhjúpa sig sem einhverja sérstaka varðhunda verðtryggingar þar sem það er ekki til þess fallið að afla þeim neinna vinsælda.

Nokkrir hafa þó skrifað greinar þar sem þeir virðast vera að reyna að ráðast gegn okkur sem viljum afnema verðtryggingu, t.d. Vilhjálmur Bjarnason fjárfestir og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Í slíkum skrifum hafa þó aldrei komið fram nein haldbær rök heldur ranghugmyndir, útúrsnúningar og kenninga sem byggðar eru á sandi, líkt og sumt sem komið hefur fram í sumum athugasemdunum hér við þessa færslu og ég hef reynt að leiðrétta eftir föngum.

Ef þér (eða einhverjum öðrum sem þetta les) tekst að finna einhver greinaskrif af þessu tagi þar sem fram koma raunveruleg og haldbær rök gegn afnámi verðtryggingar, má gjarnan koma þeim á framfæri hér. Ég hefði sjálfur gagn af því að skoða slík mótrök, það er að segja ef þau fyrirfinnast þá yfir höfuð.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.10.2017 kl. 16:49

30 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Sighvatur Björgvinsson er einn ötulast talsmaður verðtryggingar á íslandi.

Viltu lána mér Dodge-inn þinn? Ég skal borga til baka í gömlum Skóda

http://herdubreid.is/viltu-lana-mer-dodge-inn-thinn-eg-skal-borga-til-baka-i-gomlum-skoda/

og

Sjálfhverfa kynslóðin

http://www.visir.is/g/2012711109993

Guðmundur Jónsson, 10.10.2017 kl. 18:28

31 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ekki það að ég telji þetta halbær rök.  Frekar dæmi um trúarlegt ofstæki.

Guðmundur Jónsson, 10.10.2017 kl. 18:33

32 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk fyrir þetta innlegg nafni.

Ég er sammála því að þetta eru ekki haldbær rök. Bankar lána nefninlega hvorki Dodge né Skoda heldur krónur.

Ef ég ætti að leiðrétta þá setningu til samræmis við raunveruleikann gæti hún útlagst einhvernveginn svona:

"Viltu lána mér X margar krónur? Ég skal borga til baka nákvæmlega jafn margar nákvæmlega eins krónur, í trausti þess að þú, ágæti lánveitandi, munir ekki rýra verðgildi þeirra eftir að þú lánar mér þær og áður en ég get endurgreitt þér að fullu."

Öll verðrýrnun á krónum, sem verðtryggingu er ætlað að bæta fyrir, er nefninlega lánveitendum (bönkunum) að kenna. Að láta tjónþolann "bæta" tjónvaldinum skaðann er því fullkominn öfugsnúningur og gerir ekkert annað en að tvöfalda skaðsemina.

Mér sýnist að umfjöllunin í umræddri þessari grein Sighvats snúist mestmegnis um að krónan sé svo óstöðugur gjaldmiðill að verðtrygging sé þess vegna nauðsynleg. Með því lítur hann algjörlega fram hjá því að meginorsök óstöðugleika krónunnar er einmitt verðtryggingin eins og nútíma rannsóknir hafa sýnt fram á. Að rugla saman orsök og afleiðingu leiðir auðvitað til rökleysu.

Greinin um "sjálfhverfu" kynslóðina fjallar svo alls ekkert um afnám verðtryggingar og þau orð koma hvergi fyrir í henni. Þar af leiðandi felur hún ekki sér nein rök gegn afnámi verðtryggingar.

Umfjöllunarefnið í síðarnefndu greinni er "forsendubrestur" sem er loðið hugtak og hægt að túlka það á ýmsa vegu. Hann virðist halda að þeir sem krefjast leiðréttingar á lánum almennings geri það vegna þess að lántakendur hafi orðið fyrir einhverjum forsendubresti. Þetta hefur ekkert með afnám verðtryggingar að gera.

Slíkt tal um "forsendubrest" er líka falskenning og útúrsnúningur því forsendur eldri verðtryggðra neytendalána "brustu" aldrei heldur voru þær rangar frá upphafi. Þau lán sem það á við um voru þar með ólögleg og þarf því að leiðrétta þau til samræmis við lög. Sá sem leggst gegn því er um leið að lýsa yfir stuðningi við lögleysu og stórfelld brot gegn réttindum íslenskra neytenda.

Svona draugar úr fortíðinni eiga það flestir sammerkt að hafa engan skilning á réttarumhverfi neytendalána. Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því að í nútímanum eru til nokkuð sem kallast lögvarin réttindi neytenda, sem voru því miður ekki til fyrir 40 árum síðan á meðan ennþá var litið svo á að það væri í lagi að leyfa þeim stóru og sterku að níðast á minni máttar. Sem betur hefur samfélagið þróast til betri vegar og viðurkennir ekki lengur slíkt ofríki, burtséð frá einkaskoðunum örfárra afturhaldspunga.

Skilum skömminni þangað sem hún á heima, en það er ekki hjá þolendum lögbrota heldur hjá gerendum þeirra.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.10.2017 kl. 19:31

33 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Réttsýni":

Spurning tvö: Hvað heldurðu að gerist í þessu máli næstu fjögur árin?

Fyrirgefðu að mér láðist að svara þessari spurningu en ég bæti úr því núna. Spurningin lýtur í raun að því að spá fyrir um framtíðina og ég ætla ekki að þykjast vera neinn yfirburða spámaður.

Þó má benda á að það eru flokkar í framboði sem halda afnámi verðtryggingar á lofti og kjósendur geta séð hverjir þeir eru og reynt að leggja sitt mat á hversu trúverðugar þær yfirlýsingar eru. Að minnsta kosti verður hún ekki afnumin nema kosnir séu flokkar sem segjast vilja afnema hana.

Ef ltið er til undanfarinna ára og reynt að draga ályktanir af þeim þá má nefna að á síðustu fjórum árum hefur þrisvar verið lagt fram á Alþingi frumvarp um afnám verðtryggingar en ekki náð fram að ganga. Hvort og hversu mikið forspárgildi það hafi fyrir næstu fjögur ár ætla ég að leyfa öðrum að draga ályktanir um.

Betur get ég ekki svarað spurningunni en hvað mig sjálfan varðar mun ég ekki hverfa frá þeirri afstöðu að útrýma beri þessum skaðvaldi, hvort sem það hefst á næstu fjórum árum eða síðar.

Guðmundur Ásgeirsson, 14.10.2017 kl. 23:42

34 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég hvet áhugafólk um afnám verðtryggingar (og úrtölumenn líka) til að hlusta á frábært viðtal við Lárus Sigurð Lárusson lögfræðing sem er í framboði fyrir Framsóknarflokkinn, um afnám verðtryggingar:

Reykjavík síðdegis - Verðtryggingin gengin sér til húðar og mikið hagsmunamál að afnema hana. - Vísir

Ég er alls ekki að lýsa yfir stuðningi við Framsóknarflokkinn með því að benda á þetta heldur er einfaldlega um að ræða gott viðtal þar sem viðmælandi er með skýr svör á reiðum höndum og útskýrir rækilega hvernig hægt sé á einfaldan að framkvæma afnámið.

Allt sem hann segir í þessu viðtal er fullkomlega rétt og byggt á staðreyndum, en ekki neinum óljósum vangaveltum.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.10.2017 kl. 21:06

35 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"einfaldan hátt" hefði það auðvitað átt að vera en síðara orðið féll óvart brott í athugasemdinni.

Guðmundur Ásgeirsson, 17.10.2017 kl. 21:07

36 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hérna er líka ansi gott viðtal við fyrrverandi forsætisráðherra þar sem hann kemur aðeins inn á það hvernig gekk að afnema verðtryggingu í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Harmageddon - Með sterka málefnastöðu - Vísir

Guðmundur Ásgeirsson, 21.10.2017 kl. 03:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband