Rússneski kafbáturinn bandarískur
28.7.2015 | 22:34
Sagt var frá því í gær að íslenskt hafrannsóknafyrirtæki hefði fundið flak kafbáts í sænska skerjagarðinum. Rifjaðist þá fljótlega upp mikil leit sem var gerð á sömu slóðum í fyrrahaust eftir að vart varð við ferðir kafbáts af óþekktum uppruna. Var jafnvel talið að sá kafbátur gæti verið rússneskur og því um óvinveitta för í sænskri landhelgi að ræða.
Nú hefur fengist staðfest að flakið sem fannst í gær er vissulega af rússneskum kafbát, en hinsvegar er útilokað að hann hafi verið þar á ferð í fyrra og sokkið þá. Báturinn sem heitir Som (Steinbítur), af samnefndri tegund, er nefninlega 111 ára gamall. Samkvæmt sögulegum heimildum sökk hann í fyrri heimsstyrjöldinni, nánar tiltekið árið 1916, eftir árekstur við sænska gufuskipið Ångermanland.
Þetta er því ekki sú æsifrétt sem orðið hefði ef báturinn hefði reynst nýlegur, heldur er hér um að ræða fornleifafund. Í sænskum fjölmiðlum hefur til að mynda verið fjallað um þá hugmynd að friðlýsa staðinn sem stríðsminjar og bátinn sem gröf fallinna hermanna. Fyrir utan hræðileg örlög skipverja bátsins er þó ýmislegt fleira merkilegt við sögu hans.
Kafbáturinn hét eins og áður segir Som sem er rússneska yfir Steinbít, og þar sem hann var sá fyrsti sinnar gerðar sem var sjósettur heitir tegundin eftir honum samkvæmt venju kafbátasjómanna. Eins merkilegt sem það kann að virðast voru þessir bátar framleiddir af bandaríska fyrirtækinu Electric Boat co., en keisaralegi rússneski sjóherinni pantaði sjö slíka árið 1904 vegna átaka sem Rússar áttu þá í við Japani.
Steinbíturinn var agnarsmár á nútíma mælikvarða, aðeins 20m langur, og ljóst að mjög þröngt hefur verið um 24 manna áhöfnina. Vopnabúnaðurinn var að sama skapi fátæklegur, eitt rör fyrir tundurskeyti og vélbyssa um borð. Miðað við tvo hleðslumenn, eina skyttu, vélstjóra, stýrimann, kaftein og jafnvel matsvein, er reyndar nokkur ráðgata hvaða hlutverki hinir 17 áhafnarmeðlimirnir hafi þjónað. Kannski sem landgöngulið á óvinagrundu?
Rússneskur eða bandarískur kafbátur?
Báturinn Som var sá fyrsti sinnar tegundar og jafnframt sá eini þeirra sem var smíðaður í Bandaríkjunum, undir nafninu Fulton, sem frumraun í þróun einnar af fyrstu gerðum kafbáta sem voru fjöldaframleiddar fyrir þarlendan flota. Það er því engu logið um að í raun hafi bandaríski kafbáturinn Fulton fundist í sænska skerjagarðinum í gær!
Fulton var afhentur Kyrrahafsflota Rússa í Vladivostok árið 1904, þaðan sem hann var sendur í þjónustu Svartahafsflotans og síðar Eystrasaltsflotans. Næstu sex bátar af gerðinni Som voru svo framleiddir í pörtum í Bandaríkjunum en sendir til Rússlands og settir saman í Nevski skipasmíðastöðinni í Pétursborg. Þeim var að lokum sökkt, fjórum við Tallin í Eistlandi árið 1918 og tveimur við Sevastopol á Krímskaga ári síðar.
Það virðist ekki boða gott fyrir kafbáta að heita Steinbíts nafninu. Árið 1945 afhenti Electric Boat co. bandaríska hernum nýsmíðaðan kafbát sem hlaut einnig nafnið Catfish eða Steinbítur. Þáttaka hans í seinni heimsstyrjöld stóð reyndar ekki nema í viku og lenti hann ekki í neinum bardögum. Árið 1971 var hann svo tekinn úr notkun og seldur til Argentínu þar sem hann var tekinn í notkun og gerður út af Argentínska sjóhernum allt þar til Bretar sökktu honum í Falklandseyjastríðinu árið 1982.
Rússar hófu reyndar árið 1972 framleiðslu á sinni eigin tegund kafbáta undir nafninu Som en þeir voru miklu stærri og nútímalegri. Á vesturlöndum var sú tegund kölluð Tango og hefur komið við sögu í mörgum Hollywood kvikmyndum frá tímum kalda stríðsins. Frá hruni Sovétríkjanna hafa þeir næstum allir verið teknir úr notkun og sumir þeirra jafnvel orðið safngripir. Síðast var vitað um einn slíkan í Svartahafsflotanum en hann er þó talinn hafa verið tekinn úr notkun einhverntíma eftir árið 2010.
Rússar gantast með kafbátsfundinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Öryggis- og alþjóðamál | Aukaflokkur: Vísindi og fræði | Breytt 29.7.2015 kl. 12:33 | Facebook
Athugasemdir
Fróðlegt, takk
Gunnar Th. Gunnarsson, 29.7.2015 kl. 13:51
Já fróðlegt er það og sagan endurtekur sig næstum á hverju sumri í sænska skerjagarðinum og er orðið einskonar sumarleykur í sænskum fjölmiðlum. En hafið þið tekið eftir bæði í Svíþjóð og sérstaklega Noregi að gamlar táknrænar kvikmyndir um fánann,frelsið,ánægða fólkið og bara hreinann þóðarrembing eru sýndar núna á fullu og er ekki einn einast svartur maður eða arabi með í þessum myndum. Selurinn Snorri afturgenginn??
Eyjólfur Jónsson, 29.7.2015 kl. 21:56
Eyjólfur.
Þú tengir þennan fornleifafund við kynþætti, með annari tröllasögu.
Til hamingju með þann árangur, sem er í raunveruleikanum enginn.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 29.7.2015 kl. 22:37
Fróðlegur pistill hjá þér félagi, en ég verð að leiðrétta eitt.
Catfish á í flestum tilfellum um tegund Grana, sem er hreisturlaus ferskvatnsfiskur í n-Ameríku (og ekkert sérstaklega bragðgóður). Steinbítur er oftast kallaður Wolffish á enskri tungu, en þó þekkist Ocean Catfish líka.
Þar sem kafbáturinn Catfish var fré BNA hafa þeir þá átt við sinn ferskvatns Grana.
Axel Þór Kolbeinsson, 9.8.2015 kl. 08:28
Takk. Ég vissi að þýðingin væri e.t.v. ónákvæm.
Bæði Sjávarútvegsráðuneytið og Hafrannsóknastofnun kalla Steinbítinn 'Atlantic catfish'. Samkvæmt þeim þekkist einnig að þýða þetta sem 'Wolffish' sem að mínu mati er nær latneska heitinu 'Anarhichas lupus' en lupus þýðir úlfur.
Samkvæmt FAO veiða Íslendingar um þriðjung af öllum Steinbít í heimi, næst á eftir Rússum sem veiða næstum allan hinn hlutann. Það er því fremur líklegt að rússneska heiti kafbátsins eigi við um Steinbít frekar en Grana. Ég hef þó ekki getað staðfest það.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.8.2015 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.