Falskar forsendur
14.2.2014 | 18:54
Hagfræðingur Landsbankans heldur því fram að óverðtryggð lán séu dýrari en verðtryggð. Þetta er hinsvegar ekki allskostar rétt. Í Morgunblaðinu í dag eru tekin dæmi um kostnað við 20 milljón króna lán miðað við mismunandi forsendur. Tekin eru dæmi um verðtryggt lán miðað við annars vegar 3% verðbólgu, 5% verðbólgu, og svo óverðtryggt. Miðað við gjaldskrá Landsbankans þarf að endurgreiða eftirfarandi fjárhæðir af þessum lánum:
- Verðtryggt (3% verðbólga): 66,5 milljónir (333%)
- Verðtryggt (5% verðbólga): 113 milljónir (565%)
- Óverðtryggt: 55,7 milljónir (279%)
Dæmi svo hver fyrir sig um hver þessara fjárhæða er lægst, en það ætti að vera frekar augljóst hvert þessara lána er ódýrast.
En þar með er ekki öll sagan sögð því þessi útreikningur samræmist ekki lögum um neytendalán. Samkvæmt þeim ber að reikna upplýsingar um lánskostnað verðtryggðra lána miðað við annars vegar ársverðbólgu (nú 3,1%) og hinsvegar meðaltal verðbólgu síðustu 10 ára (8,1%). Síðari forsendunni er hinsvegar sleppt í framsetningu Morgunblaðsins, og má hugsanlega rekja það til þess hver útkoman úr slíkum útreikningi er.
Með því að nota vefreiknivél Landsbankans sjálfs er hægt að reikna þetta út, miðað við jafngreiðslulán á þeim kjörum sem bankinn býður nú og meðalverðbólgu síðustu 10 ára eins og lög kveða á um. Niðurstaðan verður þá að endurgreiða þarf alls tæpar 232 milljónir króna (1160%). Með öðrum orðið þarf að borga meira en ellefu sinnum höfuðstólinn.
Fleira er bogið við samanburðinn í morgunblaðinu í dag, til að mynda eru lánin með mismunandi endurgreiðsluferla. Dæmið frá Landsbankanum miðast við samsetta lánveitingu þar sem annað lánið er jafngreiðslulán en hitt með jöfnum afborgunum (sem er ódýrara). Dæmin frá hinum stóru bönkunum tveimur eru hinsvegar miðuð við jafngreiðslulán, sem hefur hingað til verið algengasta formið hér á landi hvort sem um er að ræða verðtryggð eða óverðtryggð lán. Þá eru þessi lán auk þess með misjafnlega langan lánstíma. Af því leiðir að dæmin sem eru tekin í blaðinu eru ekki samanburðarhæf og draga upp villandi mynd sem á sér litla eða enga stoð í raunveruleikanum.
Því hefur einnig verið haldið fram að óverðtryggð lán verði illviðráðanleg vegna hárrar greiðslubyrði í upphafi lánstíma. Skoðum nánar hvað er hæft í slíkum fullyrðingum. Aftur er stuðst við vefreiknivél Landsbankans, 40 ára jafngreiðslulán á þeim kjörum sem bankinn býður nú:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 91.522 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 91.668 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 91.890 kr.
- Óverðtryggt (6,75% vextir): 120.791 kr.
Vissulega eru fyrstu greiðslurnar hærri sem skýrist af því að lánskostnaður er staðgreiddur á hverjum gjalddaga í stað þess að færa stóran hluta hans á höfuðstól lánsins (þvert gegn lögum vel að merkja) og seinka greiðslu hans. Það er einmitt þess vegna sem óverðtryggða lánið er ódýrast á heildina litið, enda er eðlilegt að staðgreiðsla sé ódýrari en þegar veittur er greiðslufrestur. Ofan á þessi mánaðarlegu viðbótarlán fyrir verðtryggingunni bætast svo vaxtavextir sem gera ekkert annað en hækka lánskostnaðinn síðar meir. Hér gildir sú regla að því sem þú hefur ekki efni á í dag hefurðu ekki efni á á morgun þó þú frestir greiðslu þess, nema kannski þú vinnir í happdrætti í millitíðinni.
Reyndar er sama hvað maður blekkir sjálfan sig þá verður verðtryggða lánið alltaf dýrara, þó að það verði "dýrara seinna" þá er það bara eins og að pissa í skónna sína, skammgóður vermir. Helsti munurinn á þessum lánum er nefinlega sá að greiðslubyrði óverðtryggða lánsins verður alltaf sú sama, á meðan greiðslubyrði verðtryggða lánsins fer hækkandi. Þess vegna er ágætt að skoða líka hvenær á lánstímanum hún verður sú sama á þeim:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 12,5 ár
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 6,7 ár
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 4 ár
Eftir þetta verður svo greiðslubyrðin af verðtryggða láninu hærri heldur en því óverðtryggða, og fer síhækkandi í þau 27,5 - 36 ár sem eftir lifa lánstímans. Skoðum hversu há greiðslan verður nákvæmlega á síðasta gjalddaganum:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 221.264 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 477.385 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 1.528.443 kr.
- Óverðtryggt: 120.791 kr.
Nei þetta er ekki villa, miðað við forsendur síðustu tíu ára verður afborgunin síðast ein og hálf milljón af verðtryggða láninu, og athugið að hér er átt við afborgun aðeins eins mánaðar sem þýðir að á í lok lánstímans þarf að greiða hátt í sautján milljónir af láninu á einu ári. Getur verið að árstekjur einstaklings sem ekki ræður við að greiða 120.791 kr. í afborganir á mánuði verði nokkurntíma svo háar, hvað þá eftir 40 ár? Að minnsta kosti hafa aldrei neinar vísbendingar eða sannanir nokkurntíma verið bornar fram sem stutt gætu slíkar kenningar. Að reyna svo að réttlæta slíkar firrur með því að vísa til "lágtekjuhópa" sem þurfi "lága greiðslubyrði" er hreinasta svívirða og dónaskapur.
Svo er annað sem hefur algjörlega gleymst hjá sumum að taka með í reikninginn, en það eru vaxtabætur sem koma á móti vaxtagreiðslum af húsnæðislánum, og dempa þannig greiðslubyrðina í upphafi lánstímans, á meðan lítil eignarmyndun hefur átt sér stað. Skoðum þá næst hvernig greiðslubyrðin verður að teknu tilliti til vaxtabóta, miðað við sömu lánsforsendur og að vaxtabætur dreifist jafnt niður á alla gjalddaga afborgana. Þar sem gjarnan hefur verið vísað til "lágtekjuhópa" og meintra þarfa þeirra skulum við þá miða við að tekjuviðmið vaxtabóta skerði þær ekki en samkvæmt upplýsingum RSK eru þær óskertar hjá hjónum kr. 1.200.000 á ári eða mest kr. 100.000 á mánuði.
Vaxtabætur:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 60.824 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 61.463 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 62.446 kr.
- Óverðtryggt (6,75% vextir): 100.000 kr.
Eins og sjá má fást hæstu lögleyfðu vaxtabætur vegna óverðtryggða lánsins. Að teknu tilliti til þeirra verða fyrstu afborganir nettó:
- Verðtryggt (3% verðbólguspá): 30.698 kr.
- Verðtryggt (5% verðbólguspá): 30.205 kr.
- Verðtryggt (8,11% verðbólguspá): 29.444 kr.
- Óverðtryggt (6,75% vextir): 20.791 kr.
Dæmi svo hver fyrir sig hvað af þessu lánum er "ódýrast" en eins og þarna má sjá er greinilegt að óverðtryggða lánið er hér um bil helmingi ódýrara en það verðtryggða!
Rétt er taka fram að þetta er miðað við núverandi vaxtabótakerfi og þarfnast því engra lagabreytinga heldur er þetta raunveruleikinn á Íslandi í dag. Ljóst er að þær forsendur sem fullyrðingar fylgjenda verðtryggingar um meinta óbærilega háa greiðslubyrði óverðtryggðra lánabyggjast á, eru í besta falli villandi og í versta falli falskar. Þess er líka rétt að geta að Landsbankinn á stórfelldra hagsmuna að gæta en hann er með stærsta jákvæða verðtryggingarjöfnuðinn af öllum bönkunum og græðir fyrir vikið milljarð á hverju verðbólguprósenti. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að taka það mjög alvarlega þegar bankinn tjáir afstöðu sína til verðtryggingar.
Niðurstaða: Greiðslubyrðin er alls ekki of þung (fyrir lágtekjuhópa)!
Greiðslubyrðin er of þung | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Verðtrygging | Aukaflokkar: Fasismi, Fjölmiðlar, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 19:43 | Facebook
Athugasemdir
Og nú hefur það komið fram að aukin sókn sé aftur í verðtryggðu lánin. Enda rekinn harður áróður fyrir því lánaformi af þeim sem þar eiga hagsmuna að gæta. Bankarnir halda þeim svo örugglega meira að fólki vegna þess að það þjónar þeirra hagsmunum best.
Þórir Kjartansson, 14.2.2014 kl. 20:15
Mér finnst að það eigi að taka vaxtabætur útfyrir sviga þegar gerður er samanburður á greiðslubyrði lána. Vaxtabætur eru niðurgreiðsla ríkissins á vaxtaokri bankanna og í raun ætti alfarið að hætta þeim.
Að öðru leyti sammála þinni framsetningu.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 14.2.2014 kl. 20:26
Sammála því að ríkið hætti að greiða vaxtabætur, þá myndi fólk ekki taka lán nema á þeim vöxtum sem það ræður við að borga sjálft og bankarnir myndu þá neyðast til að bjóða lán á þeim vöxtum, frekar heldur en hærri vöxtum sem ríkið niðurgreiðir. Þetta er spurning um verðmyndun.
Ég held að það séu þjóðsögur að verðtryggðu lánin séu eitthvað "vinsæl" eins og gefið hefur verið í skyn að undanförnu. Hagsmunasamtök heimilanna létu gera skoðanakönnun meðal almennings 2009 sem leiddi í ljós 80% stuðning við afnám verðtryggingar. Samkvæmt könnun meðal frambjóðenda fyrir síðustu kosningar 2013 voru flestir þeirra sem svöruðu fylgjandi afnámi verðtryggingar í áföngum eða án fyrirvara, einkum og sér í lagi hjá núverandi stjórnarflokkum, og yfirgnæfandi fjöldi fylgjandi leiðréttingum vegna forsendubrests, og þar á meðal allir frambjóðendur núverandi stjórnarflokka sem svöruðu könnuninni, og báðir þeirra flokka hafa lofað leiðréttingu og afnámið eða að draga úr verðtryggingar á neytendamarkaði.
Ég held að meintar "vinsældir" verðtryggðra lána verði að skoðast í ljósi þess að Íbúðalánasjóður sem er með helmingsmarkaðshlutdeild býður ekki (ennþá) upp á óverðtryggð lán og á meðan svo er munu þau verða í meirihluta. Þetta mund hinsvegar breytast þegar húsnæðisráðherra ákveður að beita heimild sem þegar er til staðar í lögum fyrir sjóðinn til að veita óverðtryggð lán.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.2.2014 kl. 22:36
Sælir
Einar Karl skrifaði allvel um þessi mál.
Gagnslaus samanburður
Við verðum að muna að í verðbólgu rýrnar krónan og er verð minni með hverju árinu.
Það er að lánið lækkar að verðgildi á hverju ári.
Allur samanburður verður að vera á fastverðgildiskrónu.
Til dæmis í krónunni sem lánið var tekið.
Þeir sem veita lánin og þeir sem taka lánin skilja þetta ekki.
Þessi hringavitleysa gengur ekki lengur.
Ég var að reyna að skíra þetta hér.
Kostnaður við húsnæðislán.
Læra að peningur er bókhald.
Alþingi verður að breyta þeim reglum sem það setti Íbúðalánasjóði.
Íbúðalánasjóður á að lána frá SJÓÐI "0"´með 0,5% umsýsluvöxtum.
Nú breytum við öllum lánum þannig
að íbúðalánasjóður lánar beint frá SJÓÐI „0“
með 0,5% umsýsluvöxtum,
verðtryggt í launum.
Egilsstaðir, 14.02.2014 Jónas Gunnlaugsson
www.herad.is
Jónas Gunnlaugsson, 14.2.2014 kl. 22:51
"Við verðum að muna að í verðbólgu rýrnar krónan og er verð minni með hverju árinu."
Hárrétt, en þá þarf einmitt að líta á hvað það er sem orsakar verðbólguna.
Meginorsök verðbólgu á Íslandi er nefninlega verðtrygging útlána bankakerfisins. Þess vegna er svo brýnt að afnema hana. Með því að afnema verðtrygginguna, þá afnemum við um leið verðbólguna. Sem eins og réttilega er bent á er sú birtingarmynd skaðseminnar sem flestir þekkja og finna fyrir.
Það eru allir sammála um að verðbólga sé mikið vandamál á Íslandi, en eins ótrúlegt og það virðist vera þá eru ekki allir einhuga um að afnema hana strax. Sem betur fer virðist þó vera meirihluti fyrir því, og það sem meira er, nú eru kjöraðstæður til þess. Verðbólgan er um þessar mundir nánast eins lág og hún frekast getur orðið án verðtryggingar, og með því að afnema hana yrði þá varla nein verðbólga eftir. Þá loks værum við komin með gjaldmiðil sem kalla mætti "fastverðgildiskrónu", sem brennur ekki upp á verðbólgubáli heldur varðveitir kaupmátt peninganna sem fólk fær í tekjur og þarf til framfærslu. Auk þess eru uppi fjármagnshöft, svo að það eru engar líkur á því að afnámið myndi hafa í för með sér fyrirvaralausan fjármagnsflótta eða einhverjar aðrar svo dramatískar sveiflur að við getum ekki haldið þeim í skefjum.
Eftir að búið verður að hreinsa þennan óskapnað út úr kerfinu getum við svo farið að horfa til þess að halda hér úti traustum gjaldmiðli og sæmilegum stöðugleika þannig að vextir þurfi alls ekkert að vera háir. Það eru markmið sem við hljótum öll að vera sammála um að vilja stefna að, ekki satt?
Guðmundur Ásgeirsson, 15.2.2014 kl. 17:03
Hvers vegna taka vaxtabætur út fyrir sviga þegar í raun er um að ræða færslu fjár úr einum vasa í annan hjá neytendum. Þeir greiða jú skattana.
Vaxtabótaplottið er dulbúin peningagjöf til bankanna. Það hagnast enginn á þeim nema bankarnir.
Jón Steinar Ragnarsson, 15.2.2014 kl. 17:03
Verðtryggð lán og óverðtryggð laun/framfærslulífeyrir! Það getur aldrei gengið upp, á siðmenntaðan og réttlátan hátt.
Þrælahald er ekki löglegt, og það á öllu siðferðislega heilbrigðu fólki að vera ljóst á 21 öldinni, í siðmenntuðu samfélagi.
Er ekki kennd nútímaleg og þróuð siðfræði í einhverjum Háskólanum á Íslandi? Hvar eru raddir þeirra siðmenntuðu álitgjafa, hjá fjölmiðlum hins opinbera kerfis?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 15.2.2014 kl. 17:58
Jón Steinar, þetta get ég að nokkru leyti tekið undir.
En fyrst þarf að ná vöxtunum niður áður en við afnemum vaxtabætur.
Þangað til eru vaxtabætur einfaldlega raunveruleiki sem er til staðar, og þess vegna er ekkert óeðlilegt að taka mið af þeim raunveruleika á meðan.
Athugaðu að ríkið er nú þegar að greiða vaxtabætur, hér er alls ekki verið að tala um eða leggja til neina breytingu á því kerfi, heldur eingöngu hvernig dæmið kemur út miðað við núgildandi lög og reglur um vaxtabætur.
En þú hittir naglann með því að það eru auðvitað bankarnir sem hagnast á niðurgreiðslu vaxta því þá geta þeir í raun boðið hærri vexti en fólk væri annars i stakk búið að greiða. Ef þetta fyrirkomulag væri ekki fyrir hendi myndu bankarnir neyðast til að bjóða þá vexti sem fólk ræður við, því annars myndi enginn geta tekið lán hjá þeim, og þá færu þeir einfaldlega á hausinn. Þessu markmiði verður auðveldara að ná þegar við verðum laus við verðtrygginguna.
Anna Sigríður, eins og bent hefur verið eru verðtryggð lán mjög flókin, og kannanir hafa sýnt að fjármálalæsi er ekkert gríðarlega mikið meðal almennings hér á landi, því miður. Ætli siðfræðingarnir skilji nokkuð upp né niður í þessu heldur? Hvað þá að geta tjáð sig eitthvað um það?
Guðmundur Ásgeirsson, 15.2.2014 kl. 18:36
Guðmundur,
takk fyrir greinargott svar við bloggfærslu mína. Ég er hins vegar ekki sammála þér að öllu leyti, ég held að það sé mjög óraunhæft að setja upp samanburð þar sem annars vegar er stillt óverðtryggðu láni með 4.3% vöxtum, en hins vegar verðtryggðu láni með SÖMU vöxtum. Sérstaklega þar sem forsendur í samanburðinum gera ráð fyrir meðalverðbólgu uppá 8.1%!
Myndir ÞÚ vilja lána þinn lífeyrissparnað óverðtryggt á 4.3% vöxtum í 8.1% verðbólgu??!
Ég held að það sé óraunhæft að ætla að hér sé hægt að bjóða uppá "sömu" vexti og í nágrannalöndum, bara af því að, tja, af því þau eru nágrannalönd! Frá upphafi íslenskrar krónu hefur sú íslenska rýrnað 10.000-falt miðað við myntir í nágrannalöndum, svo það er í besta falli naívt að halda að hér sé hægt að bjóða upp á sömu vexti - á okkar krónu - og boðið er uppá það - á AÐRA og stöðugri gjaldmiðla.
Ég held að það sé miklu meira vit í að líta á vexti í löndum sem eru með SÖMU eða svipaða verðbólgu og Ísland. Þú getur litið t.d. á Mexíkó, þar eru algengir vextir 11%. Ég veit ekki til þess að í þessum löndum bjóðist verðtrygging, samt er þar verðbólga, enda held ég það sé mikil einföldum að segja að verðtrygging sé AÐAL orsök verðbólgu, og að verðbólga myndi hverfa ef verðtrygging væri aflögð.
Svo vil ég leiðrétta það að meðalverðbólga hér sl. 10 ár hafi verið 8.1%. Það er held ég ábyggilega röng tala, hygg að rétt tala sé ca. 6%.
Að öðru leyti er ég sammála mörgu sem kemur fram í pistli þínum hér að ofan. Er sjálfur búinn að losa mig alfarið við verðtryggingu úr mínu lífi, en er ekkert fylgjandi því að "banna" hana, eða "afnema". Hver og einn getur afnumið hana hjá sér EF HANN VILL og ræður við afborganir á óverðtryggðu láni.
Þá gætu sumir á næstu árum viljað 50:50 lán, verðtryggð:óvertryggð, til að nýta kosti beggja lánaforma, en dempa ókosti.
Einar Karl, 16.2.2014 kl. 08:48
Sæll vertu Einar Karl.
Ef þú efast um að meðaverðbólga frá nóvember 2003 til nóvember 2013 hafi raunverulega verið 8,11% þá bendi ég á að þetta er reiknað af bankanum sjálfum. Hægt er að kanna þetta sjálfur á vef Hagstofunnar: http://www.hagstofan.is/Pages/711
Útreikningur: (415,2/229-1)*100/10 = 8,1 %
(Ef þetta er vitlaust myndi bankinn eflaust verða mjög hissa á því.)
En svo vikið sé að meginkjarna málsins, sem þú réttilega vekur máls á:
"Myndir ÞÚ vilja lána þinn lífeyrissparnað óverðtryggt á 4.3% vöxtum í 8.1% verðbólgu??!"
Nei, enda er hlýtur það að vera jákvætt markmið að koma í veg fyrir að verðbólga geti orðið svo há. Besta leiðin til þess er einmitt að afnema verðtrygginguna á útlánum bankakerfisins.
Ég væri alveg til í að lána fé á 4,6% vöxtum ef það væri engin verðbólga, og held reyndar að flestir fjárfestar myndu sætta sig við 4,6% raunávöxtun. Til samanburðar er innri raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna 3,5%
"Frá upphafi íslenskrar krónu hefur sú íslenska rýrnað 10.000-falt miðað við myntir í nágrannalöndum,"
Megnið af þeirri rýrnun hefur átt sér stað frá því að verðtrygging var tekin upp hér, sem er einmitt ólíkt því sem viðgengst í téðum nágrannalöndum.
"það er í besta falli naívt að halda að hér sé hægt að bjóða upp á sömu vexti - á okkar krónu - og boðið er uppá það - á AÐRA og stöðugri gjaldmiðla."
Þess vegna þarf einmitt að gera krónuna stöðugri, með því hætta að leyfa verðtryggingu á útlánum bankakerfisins.
Það er því augljóst hvað þarf að gera fyrst: afnema verðtryggingu útlána bankakerfisins. Það er sú hindrun sem þarf fyrst af öllu að ryðja úr vegi, til þess að því næst sé hægt að ráðast í önnur skref sem þurfa að koma þar á eftir til að koma á skynsamlegri peningamálastjórnun hér á landi.
Þetta hljótum við að geta verið sammála um að séu allt jákvæð markmið.
Guðmundur Ásgeirsson, 16.2.2014 kl. 17:42
Ég held við séum komin í eitthvert hænu-egg dæmi í þessum rökræðum og verðum ekki sammála. Ég minni þó á að hér var bullandi verðbólga í mörg herrans ár ÁÐUR en tekin var upp verðtrygging. Hér sérðu verðbólgu á Íslandi, verðrtygging var tekin upp 1979, og ef eitthvað má álykta þá virðist hún hafa slegið á verðbólgu.
http://datamarket.com/data/set/148w/inflation-consumer-prices-annual#!display=line&ds=148w!ga2=1q
EN að öðru:
Smá stærðfræði: þið getið ekki reiknað út meðalverðbólgu svona eins og þú gerir (mig grunaði einmitt að þetta væru mistökin). Það þarf að reikna tíundu rótina af (415.2/229). Notar takkann: y √ x
Þá kemur rétt útkoma sem er 1.0613. Þetta er meðalverðbólga síðustu 10 ára.
(Þú getur sannreynt svarið með því að reikna 1.061*1.061*1.061 .. os.frv. tíu sinnum.)
Einar Karl, 16.2.2014 kl. 23:39
Þessi ályktun byggir því miður á of mikilli einföldun á veruleikanum, sem margir eiga það til að gera. Það er algjör misskilningur að verðtrygging hafi gert neitt til að slá á verðbólgu, heldur nam hún tugum prósenta á ári frá 1979 allt fram til ársins 1990. Það var ekki fyrr en tíunda áratugnum sem hún fór undir 10% og hélst þar allt fram til ársins 2008. Á tíunda áratugnum var verið að innleiða nýjar reglur um eiginfjárgrunn og lausafjárstýringu bankastofnana (Basel I) sem höfðu talsverð áhrif á virkni þess, 1992 opnaðist fyrir frjálsa fjármagnsflutninga og krónan fór á flot, svo um aldamótin hófst einkavæðing bankakerfisins. Auk þessara stóru áhrifaþátta voru um það bil milljón aðrir hlutir að gerast í peningakerfinu á sama tíma, og það er ekki hægt að útskýra þá ferla með verðtryggingu einni saman. Til að mynda veit enginn hvernig verðbætur voru bókfærðar í bankakerfinu fyrir innleiðingu Basel og reyndar eru menn í Seðlabankanum og víðar margsaga um það hvernig þær séu í raun bókfærðar í núverandi kerfi, en það getur haft lykilþýðingu, eins og sýnt var fram á í þessari rannsókn: http://arxiv.org/abs/1302.4112
Staðreynd málsins (og sönnuð niðurstaða) er sú að í viðvarandi verbólguumhverfi veldur verðtrygging peningaþenslu og það er eitt af grundvallarlögmálum hagfræðinnar að peningaþensla ein og sér getur eingöngu leitt til aukinnar verðbólgu, en í kerfi með verðtryggð útlán veldur það svo aftur meiri peningaþenslu, og þá erum við komin með vítahring. Það er þessi vítahringur sem þarf að rjúfa öðru fremur til að stöðva verðbólgu og koma í veg fyrir að hún hefjist á ný. Annars er það útilokað.
Þó að menn hafi prentað of mikið af peningum fyrir tíma verðtryggingar, þá er það í raun þegar bankakerfið var allt ríkisrekið og stórkostlega misnotað af hverri ríkisstjórnin á fætur annari vegna vanhæfni eða spillingar eða hvorutveggja, og eina ráðið sem þeir kunnu út úr vanda var að prenta. Með vþi að setja á verðtrygginguna gerðu þeir svo ekkert annað en að sjálfvirknivæða prentunina, sem varð svo á endan í einkaeigu en haft var eftir einum af nýríku stjórnendumeinkavæddu bankanna, að verðtrygging væri þeirra stærsta tekjulind (sem styður þetta með peningaprentunina).
Varðandi stærðfræðina, þá detta mér nú allar dauðar lýs úr höfði!
Ástæðan fyrir því er sú að þú hefur hárrétt fyrir þér. Ég kann reyndar alveg prýðileg skil á vaxta- og veldisútreikningi, það var ekki það sem klikkaði í þetta sinn, heldur skal ég viðurkenna á mig helst til mikla fljótfærni. Það sem gerðist nefninlega var að ég notaði töluna sem kom í pappírunum frá bankanum og setti hana inn í þessa formúlu og fékk út nákvæmlega sömu niðurstöðu og bankinn fékk, það er að sega 8,1%. Þegar ég fór svo og setti upp útreikning á ársverðbólgu hvers árs síðustu 10 ár og tók meðaltalið af þeim, þá fékk ég hinsvegar 6,1%, sem sagði mér um leið að eitthvað væri bogið, svo ég prófaði að nota veldisformúluna og þá kom að sjálfsögðu rétta útkoman í ljós: 6,1%.
Það þýðir að bankinn er að reikna vitlaust !
(Fyrst þetta er of flókið fyrir bankann, hvað þá með neytendur???)
Vel að merkja, er þetta í fyrsta skipti sem ég hef orðið vitni að því að banki hafi reiknað vitlaust sjálfum sér í óhag, en í öll hin skiptin var það á hinn veginn. Þetta hlýtur að kalla á vettvangsheimsókn Fjármálaeftirlitinu, til þess að komast til botns í því hvað sé eiginlega í gangi í þessum banka. ;)
Guðmundur Ásgeirsson, 17.2.2014 kl. 02:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.