Búið að reyna á ábyrgð ríkisins

Nú er liðið rúmt ár síðan EFTA-dómstólinn kvað upp dóm sinn um að íslenska ríkinu bæri ekki að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingar Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF), sem er reyndar meira að segja óleyfilegt samkvæmt tilskipun 94/19/EB.

Með þeirri niðurstöðu var staðfest það sem fjöldi aðila, flestir úr röðum almennings frekar en elítunnar, reyndu ítrekað af mikilli þrautsegju að koma þáverandi stjórnvöldum hér á landi í skilning um, og mikilvægi þess að taka til fullra varna gegn ólögmætum kröfum Breta og Hollendinga. Það tók fjögur ár, og sigur hafðist að lokum.

Núna hafa Bretar og Hollendingar loksins viðurkennt það rétta í verki, það er að segja með því að stefna hinum réttmæta greiðanda innstæðutrygginga (TIF) fyrir þann dómstól sem hefur lögsögu í varnarþingi hans (Héraðsdóm Reykjavíkur) og gera þar kröfu um greiðslu þess sem þeir telja sig vanta upp á vegna innstæðna sem þeir hafi átt hér á landi.

Tryggingasjóðurinn er sjálfseignarstofnun, og sem slíkur nýtur hann ekki ríkisbyrgðar, heldur þvert á móti, hann er til að mynda fjármagnaður af bönkunum sjálfum, og eins og áður segir er beinlínis óheimilt að fjármagna hann með ríkisábyrgð. Hefði slík ríkisábyrgð verið veitt þá hefði Ísland gerst brotlegt við skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum.

Það athyglisverðasta við þetta er sú staðreynd að hvorugur stefnenda átti neinar innstæður í íslenskum bönkum, og eiga því enga kröfu á hendur TIF, svo málinu sem þeir hafa höfðað hlýtur að verða að vísa frá Héraðsdómi Reykjavíkur sökum aðildarskorts.

Komist dómurinn engu að síður að þeirri niðurstöðu að stefnendur hafi með einhverjum hætti getað eignast kröfu(r) á hendur TIF,  hljóta þeir að þurfa að framvísa gögnum sem staðfesta það, máli sínu til stuðnings. Geti þeir það ekki, hlýtur málinu að lykta með sýknu TIF, en geti þeir það þá hafa þeir að öllum líkindum gert það með veitingu ríkisábyrgðar á innstæðutryggingum, og þar með gerst brotlegir við EES-samninginn.

Við úrlausn málsins hlýtur að hafa sitt að segja, að búið sé að sökkva nýja Landsbankanum (sem er í eigu ríkisins) í 300 milljarða króna skuldir við þrotabú þess gamla til þess að hann geti greitt kröfur á hendur sér vegna innstæðna. Þar af er hann nú þegar búinn að greiða tugi milljarða fyrirfram og það í erlendum gjaldeyri. Þessum greiðslum hlýtur því að þurfa að skila til baka, eða í það minnsta skuldajafna þeim á móti dómkröfunum.

Ekki er hinsvegar víst að þeir innstæðueigendur sem hafa eygt von endurheimtur úr búinu, verði sáttir ef þær skerðast vegna málshöfðunar Breta og Hollendinga, en kröfur þeirra gæti TIF ekki efnt öðruvísi en að nota eignir úr búi Landsbankans til þess. En þar sem það eru aðallega breskir og hollenskir ríkisborgarar þá eru góðu fréttirnar þær að þeir þyrftu þá í framhaldinu aðeins að glíma við sín eigin stjórnvöld til að fá því skilað.

Þá hlýtur það jafnframt að liggja beint við fyrst Bretar og Hollendingar virðast núna telja að Landsbankinn eigi bara alls ekkert að borga þeim þetta heldur eigi TIF að gera það, að þá verði hinum svokölluðu "Landsbankabréfum" rift hið snarasta, og ekki bara rift heldur þau rifin í tætlur og kveikt í tætlunum og öskunni svo sturtað niður úr klósettinu.

Því næst gæti sá banki snúið sér að því að leiðrétta uppsprengdar skuldir viðskiptavina eins og hann hefði átt að verja síðustu fjórum árum í að gera, í stað þess að rembast við að senda Bretum og Hollendingum gjafir úr skuldsettum gjaldeyrisforða þjóðarinnar. Hann hefði þá í það minnsta þeim mun meira svigrúm til þess að leiðrétta lánin hjá heimilunum, þó ekki nema bara þannig að þau samræmist lögum. Vonandi á samt ekki eftir að taka önnur fjögur ár að fá þá sem ekkert þykjast skilja til þess að fatta þau lög.

Og svo er það rúsínan í pylsuendanum, sem er sú að jafnvel þó að Bretum og Hollendingum tækist að vinna þetta dómsmál, þá yrði sá dómur ekki aðfararhæfur í neinu öðru en íslenskum krónum: TADA! Það gæti svo reynst þeim afar erfitt ef ekki ógerlegt að selja svo stórar fjárhæðir fyrir erlendan gjaldeyri. Nema kannski með miklum afföllum, og langri bið eftir afléttingu gjaldeyrishafta til að flytja þann gjaldeyri úr landi.

Jæja, þá eru tveir stærstu keppendurnir dottnir úr leik í störukeppninni.

Næsti?


mbl.is Ekki mun reyna á ábyrgð ríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Gunnlaugsson

Fróðleg umfjöllun.

Þú ættir að krifja til mergjar Kreppufléttuna hans Tónasar Jefferssonar.

Fyrst skipulögð verðbólga og síðan verðhjöðnun.

Þannig var eign heimilana og fyrirtækjanna látin hverfa.

Þá tók fjármálafyrirtækið eignirnar, og endurmat þær.

 Þá sögðu fjármálafyrirtækin að þau hefðu grætt miljarða.

Þetta er svo einfallt að allir geta skilið það.

Er það löglegt að ná eignum heimila og fyrirtækja með klækjum?

http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/1243291/

http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/1229691/

Að sjálfsögðu eiga fjármálastofnanir að skila öllu til baka, til fólksins.

www.herad.is

http://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/

Egilsstaðir, 10.02.2014  Jónas Gunnlaugsson

Jónas Gunnlaugsson, 11.2.2014 kl. 00:15

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Verðhjöðnun er það besta sem gæti komið fyrir heimilin í dag. Þá myndu nefninlega verðtryggðar skuldir þeirra lækka.

Helsta furðan er að það sé ekki löngu komin mikil verðhjöðnun eftir það mikla hrun sem hér varð fyrir fimm árum.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.2.2014 kl. 08:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband