Ekki fækkun heldur fjölgun
28.12.2013 | 14:05
Árið 2013 voru 445 fasteignir seldar nauðungarsölu hjá sýslumanninum í Reykjavík en þær höfðu verið 505 talsins árið áður. Sérstaka athygli vekja tölurnar í desember, en þá gaf innanríkisráðherra sig undan látlausum þrýstingi sem Hagsmunasamtök heimilanna höfðu beitt frá upphafi kjörtímabils hennar, og frestaði nauðungarsölum. Fyrir vikið voru þær aðeins níu talsins í desember á þessu ári samanborið við 80 í desember 2012.
Til þess að samanburður við fyrra ár verði raunhæfur þarf að leiðrétta fyrir þesssum mismun, sem nemur 71 sölu. Að teknu tillit til þess voru nauðungarsölur 505-71= 434 talsins á sama tíma í fyrra og þær voru í gangi á þessu ári. Á því tímabili hefur nauðungarsölum því raunverulega fjölgað um 11 frá síðasta ári eða um 2,5%. Þannig er í raun villandi að tala um fækkun, ekki síst í ljósi þess að þær nauðungarsölur sem hefðu að óbreyttu farið fram nú í desember, hafa ekki verið felldar niður heldur aðeins frestað.
Niðurstöður:
Mælda fækkun má alfarið rekja til frestunar á nauðungarsölum.
Fram að því hafði þeim í raun fjölgað um 2,5% frá síðasta ári.
Nauðungarsölum fækkar á milli ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fasismi, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Nei, það varð fækkun. Ef rétt er að mörgum sölum hafi verið frestað munu þær tölur koma fram á næsta ári og þá gæti mögulega orðið fjölgun. Svona virka tölur, hvort sem okkur líkar betur eða verr.
Ef þú ætlaðir að undirstrika slæmt ástand þá hefði nægt að ítreka þá staðreynd að nærri þúsund nauðungarsölur hafi átt sér stað á tveimur árum.
Leifur (IP-tala skráð) 28.12.2013 kl. 15:46
Ég var að tala við ömmu í gær en hún sagði mér einusinni að þegar hún var ung þá var hægt að koma sér þaki yfir höfuðið og eignast það skuldlaust, ég er ekki að grínast ég endurtek skuldlaust.
Farðu með það í bankann, þeir segja þér örugglega að það sé bara samsæriskenning.
Davíð, 28.12.2013 kl. 16:39
Það sem ég var að sýna fram á var að nauðungarsölur fram til þeirrar frestunar sem tók gildi nú í desember, voru í raun fleiri en á sambærilegu tímabili í fyrra, en ekki færri eins og fyrirsögn fréttarinnar gæti gefið til kynna.
Hinsvegar hefur nauðungarsölum vissulega fækkað yfir árið í heild, og það vildi ég líka sýna fram á að mætti alfarið rekja til frestunarinnar.
Ég var semsagt ekki að reyna að undirstrika slæmt ástand sérstaklega, heldur að sýna fram á hvaða áhrif það hefur nú þegar haft að ná fram frestun á nauðungarsölum. Það skilaði sér í marktækri fækkun á ársgrundvelli sem hefði annars verið í hina áttina, þ.e. fjölgun.
Ef maður myndi hinsvegar vilja undirstrika slæmt ástand, þá væri miklu nær að vísa til þess að samkvæmt upplýsingum frá bönkunum sjálfum hafa þeir leyst til sín að meðaltali þrjár íbúðir á dag frá 1. janúar 2009 fram í mars á þessu ári. Samkvæmt nýjustu tölunum frá sýslumann virðist trendið hafa haldið áfram alveg fram í desember. Af því má draga þá ályktun að frá hruni hafi bankarnir leyst til sín a.m.k. 5.400 íbúðir, sem er talsvert hærri tala en bara sjálfar nauðungarsölurnar því þeir geta leyst til sín eignir með fleiri aðferðum t.d. fjárnámi, við gjaldþrot, nauðasamninga o.fl.
Guðmundur Ásgeirsson, 28.12.2013 kl. 16:47
Við skulum átta okkur á því að fyrirsagnir frétta eru hannaðar eða settar upp til þess að vekja athygli á fréttinni og innihaldi hennar. Þ.e. til þess að hvetja fólk til þess að lesa fréttina.
Þessi fyrirsögn er kannski "rétt" í þeim skilningi að nauðungarsölum fækkaði á milli ára en hún er klárlega villandi í þeim skilningi að hún vekur upp þær væntingar eða skoðanir hjá lesandanum að ástandið fari batnandi, þegar þvert á móti eins og Guðmundur bendir á bendir margt til þess að ástandið fari einmitt versnandi.
Skuli Sigurdsson (IP-tala skráð) 28.12.2013 kl. 19:08
Davíð Örn:
Það er í sjálfu sér lítið mál að eignast fasteign skuldlaust. Þú staðgreiðir innborgun, t.d. 20% af kaupverði, svo tekur þú 25 ára lán fyrir rest, annað hvort verðtryggt eða óverðtryggt. Svo greiðir þú hvern greiðsluseðil á gjalddaga. Eftir 25 ár áttu fasteignina þína skuldlausa. 100%.
Skeggi Skaftason, 28.12.2013 kl. 23:46
Í framtíðarþjóðfélaginu mun enginn þurfa að skuldsetja sig til að eignast þak yfir höfuðið. Í framtíðarþjóðfélaginu mun reyndar enginn þurfa að skuldsetja sig til að lifa, enda eru skuldir ekkert náttúrulögmál.
Besta mögulega kerfið er ekki fengið að láni eða tekið á leigu.
Guðmundur Ásgeirsson, 31.12.2013 kl. 13:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.