NEI því var hafnað

Æðsti löggjafi á Íslandi og fullveldishafi, íslenska þjóðin, sem nú hefur eignast Landsbankann að fullu, hefur hafnað því að greiða upp í skuldir þrotabús gamla bankans. Þar með taldar eru skuldir þrotabús gamla bankans við tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta, breska trygginsasjóðinn og hollenska seðlabankann vegna svokallaðra Iceasve innstæðna.

Þegar þess var krafist að íslenskir skattgreiðendur gengust í ábyrgð fyrir þessum afleiðingum af gjaldþroti hins einkarekna banka, urðu lyktir mála þær að því var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki einu sinni, heldur tvisvar. Enn fremur, þá hefur sú niðurstða nú verið staðfest af EFTA dómstólnum, sem hafnaði öllum kröfum mótaðila gagnvart Íslandi vegna þessa máls.

Þess vegna er engin þörf á því lengur að nýji Landsbankinn verði lengur skuldsettur upp í rjáfur í erlendum gjaldeyri, með skuldabréfi sem var búið til úr engu í niðdimmu skjóli nætur án þess að fyrir því væri nokkur heimild heldur væri það þvert á móti óheimilt. Samningar sem þannig eru gerði geta aldrei verið skuldbindandi í raun og veru, síst af öllu fyrir heila þjóð sem ekki hefur fengið að hafa neitt um þá að segja og hefur heldur engar forsendur til þess að undirgangast slíka skilmála.

Hefst þá nýji kaflinn, Icesave IV: Afturköllun meintra skulda

Samkvæmt fréttatilkynningu um breytt eignarhald Landsbankans:

Við sama tækifæri gaf Landsbankinn hf. út skuldabréf til LBI hf. að andvirði 92 milljarðar króna í erlendri mynt. Bréfið er hluti af kaupverði þeirra eigna sem Landsbankinn keypti af LBI hf. samkvæmt samkomulagi sem undirritað var í desember 2009. Þetta bréf kemur til viðbótar öðru skuldabréfi sem Landsbankinn gaf út 2009 að andvirði 260 milljarðar króna, einnig í erlendri mynt. Vegna sterkrar lausafjárstöðu greiddi Landsbankinn fyrirfram rúma 70 milljarða króna inn á lánin um mitt ár 2012.

Með öðrum orðum þá er nýji bankinn nú þegar búinn að greiða þeim gamla 70 milljarða fyrirfram inn á skuldabréf A, og eru eftirstöðvar þess því minnst 190 milljarðar. Við það bætist nýja skuldabréfið sem var gefið út þann 11. apríl sl. sem nemur 92 milljörðum. Samtals eftirstöðvar 282 milljarðar.

Samkvæmt upplýsingum slitastjórnar um fjárhagsstöðu þrotabús gamla Landsbankans um síðustu áramót hefur 651 milljarður nú þegar verið greiddur út úr þrotabúinu vegna innstæðna eða næstum sama fjárhæð og sem nemur lágmarkstryggingum innstæðna. Eftirstandandi forgangskröfur eru nú 656,5 milljarðar og eru þær að mestu vegna þeirra innstæðna sem ekki falla undir lágmarkstryggingu, en sem engu að síður njóta sama forgangs í kröfuröð.

Á móti þessum kröfum standa eignir þrotabúsins, en stærsti liðurinn í því samhengi eru skuldabréf nýja Landsbankans sem voru samanlagt verðmetin í upplýsingum slitastjórnarinnar á 312,9 milljarða. Heildareignir þrotabúsins um síðustu áramót námu 880,7 milljörðum, eða 224,1 milljörðum umfram forgangskröfur vegna innstæðna, þ.e.a.s. þann hluta krafna sem nauðsynlegt er að greiða svo innstæður fáist endurheimtar að fullu.

Þannig liggur fyrir að slitastjórn gamla bankans þarf í raun og veru ekki að innheimta nema 88,8 milljarða til viðbótar svo að hægt verði að endurgreiða forgangskröfur vegna innstæðna, en allt umfram það er eitthvað sem íslensk lög leyfa einfaldlega ekki. Það er enginn sem getur kveðið upp úr um það með meira afgerandi hætti en hinn endanlegi löggjafi: landsins þegnar, og það hafa þeir nú þegar gert. Tvisvar, ef það skyldi ekki enn hafa komið nógu skýrt fram.

Þannig er ekkert því til fyrirstöðu nú, að klippa af þessari uppplognu froðuskuld 224,1 milljarða sem þannig myndu sparast þjóðarbúinu í gjaldeyrisútgjöld, og færa hana þess í stað niður í rétta tölu sem er tæpir 58 milljarðar að viðbættum slitakostnaði. Meira þarf íslenska ríkið, eða nýji bankinn sem nú er í þess eigu, ekki að borga svo þrotabú þess gamla eigi fyrir forgangskröfum, og meira á ekki heldur að borga inn í þá hrægammahít. Það segja bæði íslensk lög og evrópskur dómur.

Með því að lækka skuld Landsbankans um rúma 224 milljarða auk þess að skuldbreyta 88,8 milljörðunum sem eftir standa í krónur, myndu erlendar skuldir þjóðarbúsins í heild lækka sem því nemur á einu og bretti, og yrði þá búið að mola niður stærsta ísbjargið í hinni svokölluðu snjóhengju. Þennan afgang má svo ekki greiða fyrr en búið er að skila þeim fjármunum sem þegar vera ranglega búið að greiða til kröfuhafa í gjaldeyri. Réttmætri kröfu tryggingasjóðs innstæðueigenda í helming eigna búsins sem nú er búið að staðfesta með dómi, var nefninlega lýst í íslenskum krónum, sem er sú mynt sem hann á að greiða út í.

Þannig er það Seðlabanki Íslands sem ætti með réttu að fá þann gjaldeyri sem tryggingasjóðurinn gæti þurft að selja af endurheimtum sínum úr þrotabúinu til þess að afla sér nægs lausafjár í krónum svo hægt verði að greiða út lágmarkstrygginguna. Þannig gæti sá gjaldeyrir jafnframt  nýst til þess að fara langleiðina með að endurgreiða þann skuldsetta gjaldeyrisforða sem eftir stendur frá veru AGS hér á landi.

Vilji menn leysa skuldavanda Íslands, ekki aðeins heimilanna, heldur þjóðarbúsins alls, þá er lykillinn að lausninni í þessu fólginn. Það góða er að núna er ekkert, eða allavega ekkert skynsamlegt að minnsta kosti, sem mælir gegn því að sú leið verði farin sem best þjónar hagsmunum lands og þjóðar í þetta sinn.

P.S. Þar sem Bretar beittu saklaust smáríki, sem nú hefur meira að segja verið sýknað, óbilgjörnu og óþörfu harðræði varðandi uppgjör þessara mála hafa sumir hreyft máls á því að sækja skaðabætur fyrir tjón sem það olli. Í ljósi þess væri sjálfsagt að meirihluti þess gjaldeyris sem gert yrði að skila gegn krónum, kæmi fyrst af hinum breska hluta forgangskrafna áður en dregið væri á hinar. Þannig gæti það óréttlæti sem um ræðir verið fært nær í átt til einhvers jafnvægis.


mbl.is Nauðsynlegt að lengja Landsbankabréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Gunnarsson

Þetta er mjög athyglivert blog hjá þér og of fáir sem koma auga á það. Það sýnir að næsta hrun kemur spurning bara hvenær. Einnig ríkisgjaldþrot geta komið, Bandaríkin eru æði nálægt slíku nú þegar.

Það sem gerir ástandið enn erfiðara er að vestræn ríki þurfa að gera sig ánægða með minni hluta af heildarauðlindum heimsins. Kína, Indland, og ríki Suður-Ameríku fara að heimta réttlátari skiptingu. Við eigum enn nóg, það er bara erfitt að lifa við æ knappari kjör. Áður var hægt að búa við smá verðbólgu, hagvöxturinn bætti hann upp. Núverandi ástand gæti jafnvel leitt til þess að vestræn ríki búi við viðvarandi samdrátt en ekki bara tímabundna kreppu.

Hefurðu hugleitt hvað hægt sé að gera til að bæta regluverkið, þannig að síendurtekin hrun og vesöld blasi ekki við? Sannir íhaldsmenn ættu að hafa áhuga á þessu og verða að útfæra þetta. Núverandi kerfi með tímabundnum gróða leiðir til taps til lengri tíma. Hefðu Steingrímur og Jóhanna komið með tillögur, væri það bara kommagríla. Eins hefði hægri stjórn aldrei geta framkvæmt nauðsynlega kjaraskerðingu, vegna þess að allir hefðu gert uppreisn á móti arðráni gegn alþýðunni!

Sigurður Gunnarsson, 18.4.2013 kl. 11:06

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Auk þeirra 224 milljarða sem þarna eru fyrir hendi má nefna fleiri dæmi:

Endurkrafa ríkisins á TIF vegna kostnaðar við björgun innstæðna: a.m.k. 22 milljarðar eru til í sjóðnum en ljóst að útgjöld og ábyrgðir ríkisins eru hærri.

Fjármögnun nýju bankanna: 414 milljarðar og þar af búa nýju bankarnir nú þegar yfir uppsöfnuðum hagnaði upp á rúma 234 milljarða sem hægt væri að endurheimta strax á morgun og millifæra yfir á ríkisreikninga.

Sértryggðar kröfur SÍ á hendur Kaupþingi: 120 milljarðar (skv. óstaðf. heimildum) sem þó er óvíst hverra endanlegt markaðsverð gæti orðið.

Eignasafn Seðlabanka Íslands, samsafn lánasafna fallinna fyrirtækja, veðkrafna og endurkrafna á þrotabú þeirra o.s.frv., þar á meðal Drómi, SPRON, Frjálsi, Saga Capital og fleiri. Hleypur á tugum milljarða eða hundruðum.

Það fjármagn sem bundið er í þessum eignum, þrátt fyrir rýrnun þeirra, er þó allt saman til ráðstöfunar ríkisins eða gæti hæglega orðið það með tiltölulega einföldum hætti. Þannig er ekkert því til fyrirstöðu að nýta það til góðra verka, eins og til dæmis að leiðrétta skuldir heimilanna og hins opinbera.

Þannig er samtals hægt að ná saman svigrúmi upp á 6-700 milljarða sem dugar feikivel til þess að kaupa upp íbúðalán almennings af bankakerfinu og færa þau inn í Íbúðalánasjóð þar sem svigrúmið myndi um leið aukast um nokkur prósent í viðbót vegna lægri kröfu til eiginfjárhlutfalls hjá sjóðnum en í bankakerfinu. Reyndar er ekkert því til fyrirstöðu að ríkið færi það alla leið niður í 0% þar sem sjóðurinn nýtur hvort sem er ríkisábyrgðar.

Því næst væri hægt að setja lög um breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar neytendalána þar sem hún yrði fest við tiltekið viðmið sem færi svo lækkandi í þrepum yfir ákveðið tímabil og þannig myndu skuldir heimila leiðréttast með almennum hætti á jafnréttisgrundvelli. Með þessu færi líka mikið magn af umframpeningum úr umferð í fjármálakerfinu, og þar með væri sá vandi leystur í sömu andrá.

Hallarekstur ríkissjóðs leiðréttist svo í kjölfarið þegar við hættum að borga 90 milljarða á ári í vexti til fjármálakerfisins og byrjum í staðinn að nota þá til að borga fyrir samneyslu og annað sem samræmist lögboðnu hlutverki ríkisins.

Svona leysum við Skuldavandann. Með Stóru eSSi. Ekki aðeins skuldavanda heimilanna, heldur þjóðarinnar allrar. Undirritaður varpar hér með fram þeirri hugmynd og leggur til að um þetta verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla.

Haldi einhver því fram að þetta sé óraunhæft skora ég á viðkomandi að benda á hvaða gallar séu fyrir hendi á útfærslunni, og þá skulum við einfaldlega laga þá svo að þetta geti gengið upp. Áfram Ísland!

Guðmundur Ásgeirsson, 21.4.2013 kl. 16:52

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fyndið. Þegar við vorum að fjalla um Icesave III á sínum tíma þá brást það ekki ef maður skrifaði um málið þá voru tilteknir menn, alltaf þeir sömu, sem flykktust inn á síðuna til að hrauna yfir sannleikann um málið.

Ég bíð enn eftir afsökunarbeiðnum frá þeim sem harðast kváðu að orði með ómálefnalegum árásum og persónuníð í garð þjóðhollra manna.

En nú heyrist ekki bofs frá slíkum úrtölumönnum.

Ætli þeir skammist sín núna?

Guðmundur Ásgeirsson, 25.4.2013 kl. 14:54

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sigurður: Þetta er mjög athyglivert blog hjá þér og of fáir sem koma auga á það.

Tjaahhh.... ?

Fréttabréf Júpiter, rekstrarfélags verðbréfasjóða 2. maí 2013:

http://jupiter.is/gogn/020513.pdf

Stóru mistökin
En hvað veldur því að þessi staða er upp komin? Stór hluti þeirra erlendu skulda sem þjóðarbúið þarf að standa skil á næstu árin voru tilkomnar fyrir gjaldþrot stóru viðskiptabankanna haustið 2008. En eins og seðlabankastjóri hefur gefið til kynna, er lykillinn að því að hægt verði að standa skil á erlendum skuldum þjóðarbúsins í því að endursemja um skuldabréf nýja Landsban
skilanefnd gamla bankans. Af því leiðir að samningar íslenskra stjórnvalda og skilanefndar Landsbankans haustið 2009 voru vanhugsaðir og fólu í sér stórmistök. Samkvæmt núverandi skilmálum þess skuldabréfs þarf Landsbankinn að greiða tæpa 300 milljarða í erlendum gjaldeyri til gamla bankans á árunum 2014-2018. Í ljósi þess að Seðlabankinn metur gjaldeyrisskort þjóðarbúsins á árunum 2013-2014 um 263 milljarða króna, er ljóst að Landsbankinn er allt að því upphaf og endir þeirra vandamála og þess gjaldeyrisskorts sem þjóðarbúið stendur frammi fyrir. Raunar var bent á það í fjölmiðlum haustið 2009 að afborganir á téðu skuldabréfi kynnu að setja þrýsting á gengi krónunnar árin 2014-2018. Fjármálaráðuneytið sá hins vegar sérstaka ástæðu til að vísa slíkum vangaveltum til föðurhúsanna. Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins frá nóvember 2009 vegna málsins sagði meðal annars:
„Vegna þeirra hugsanlegu áhrifa á krónuna sem bent er á, var samið um að skuldabréfið væri afborgunarlaust fyrstu fimm árin, en síðan greitt niður á árunum 2014–2018, þegar gjaldeyrismarkaður verður kominn í eðlilegt horf. Vegna stærðar skuldabréfsins er samið um afborgunarferil þess með tilliti til áætlana um greiðslujöfnuð landsins gagnvart útlöndum á næstu árum. Ekki er því ástæða til að ætla að samningur um uppgjör milli bankanna muni hafa nein óeðlileg áhrif á gengi krónunnar á næstu árum.“ Mætti hugsanlega af þessu ráða að þeir sem héldu á spöðum fyrir hönd íslenska ríkisins í samningaviðræðum við skilanefnd Landsbankans, hafi gert herfileg mistök?

Í ljósi alls þessa er vægast sagt undarlegt að velta fyrir sér hvers vegna í ósköpunum fjármálaráðuneyti, Seðlabanki og hinir ýmsu aðilar töldu nokkurn möguleika á því að íslenska ríkinu væri stætt á að undirgangast ábyrgð vegna hinna umdeildu Icesave samninga, sem hefði aldrei falið í sér minna en tugmilljarða útstreymi í erlendum gjaldeyri – sama hvaða samninga er miðað við. Nú standa fyrir dyrum samningaviðræður við kröfuhafa gömlu bankanna og aflandskrónueigendur. Sama hver niðurstaða þeirra viðræðna verður er ljóst að hún má aldrei setja þrýsting á gjaldeyrissköpun þjóðarbúsins. Svo mikið er víst.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.5.2013 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband