Stríðsástand á gjaldeyrismörkuðum

Burðarríki efnahagskerfisins sem var byggt upp eftir síðari heimsstyrjöldina skiptast á að fella gengi gjaldmiðla sinna. Ástæðan er einföld: Ríkin reyna að ná í stærri sneið af minnkandi útflutningsmarkaði með því að stuðla að verðlækkun á útflutningsvörum. Þetta er skoðun fjármálasérfræðingsins Alex Jurshvevki hjá kanadíska fjármálafyrirtækinu Recovery Partners

Niðurstaða hans þegar gengisfellingarnar eru annars vegar er sú að þær vitni um að heimshagkerfið glími við kerfislægt vandamál sem ekki sé hægt að afgreiða sem reglubundna hringrás uppgangs og niðursveiflu.

Öh... já, fjármálakerfi heimsins er ónýtt og dauðadæmt, vegna innbyggðrar kerfisvillu sem gerir ráð fyrir endalausum vexti (og vöxtum), og ekki bara stöðugum vexti heldur veldisvexti sem getur aldrei orðið sjálfbær til lengri tíma. Í vistfræði er vel þekkt að krappur veldisvöxtur leiðir gjarnan til ofvaxtar og í kjölfarið algjörs hruns í stofnstærð með tilheyrandi hörmungum. Hljómar þetta kannski kunnuglega? Það er vegna þess að íslenska þjóðin rak sig fastar á takmörkin fyrir veldisvexti í lokuðu kerfi en nokkur nútímaþjóð hefur gert svo vitað sé. Takmörk þessi eru ekki ímynduð heldur einfaldlega náttúrulögmál því jörðin er lokað kerfi með takmarkaðar auðlindir, ímyndunin fólst í því að þykjast geta hunsað þessa augljósu staðreynd. Það hafði ekkert með það að gera hvort hinir eða þessir gerðu mistök eða frömdu afbrot í aðdraganda hrunsins, þó vissulega hafi þeir lagt sitt af mörkum til að gera höggið fastara, heldur var það óhjákvæmileg afleiðing innbyggðrar kerfisvillu í því fjármálakerfi sem er við lýði allstaðar á Vesturlöndum og víðast hvar um heiminn. Það glæpsamlega er fyrst og fremst að þetta kerfi sem hefur öðru fremur þjónað alþjóðlegu fjármálayfirstéttinni við arðrán sitt á þjóðum heims, skuli ekki hafa verið afnumið fyrir löngu síðan.

Fjármálaráðherra Brasilíu, Guido Mantega, lýsti því yfir í ræðu sem hann hélt á ráðstefnu í Sao Paulo fyrr í vikunni, að heimurinn væri nú í heljargreipum alþjóðslegs gjaldmiðlastríðs. Fjármálaráðuneyti Japans hefur upplýst að það hefði selt jen að jafnvirði 300 milljarða kr. í þessum mánuði og keypt dollara í staðinn til að koma í veg fyrir mikla styrkingu á gengi jensins. Ríkisstjórnir um allan heim keppast nú um að grípa inn í gjaldeyrismarkaði og fella gengi gjaldmiðla sinna til að auka samkeppnishæfni og ná þannig í stærri sneið af sífellt minnkandi köku alþjóðaviðskipta. Seðlabankar  sumra Asíuríkja eru jafnvel farnir að ganga svo langt að kaupa skuldabréf keppinauta sinna til að hækka gengi gjaldmiðla þeirra á móti sínum eigin. Á meðan á þessu stendur verða öfgakenndar sveiflur í afstæðu gengi milli gjaldmiðla, því þó þeir séu allir á niðurleið þá er það mishratt og skrykkjótt, sem dugar ráðandi öflum ágætlega til að dylja það sem raunverulega er á seyði: Flestir ef ekki allir pappírsgjaldmiðlar eru að tapa verðgildi sínu, bara með misjafnlega stjórnlausum hætti. Þetta skýrist ekki af raunstærðum í hagkerfinu, heldur því að traust og trúverðugleiki spilaborganna sem byggðar hafa verið úr fjármálapappírum er fokinn út í veður og vind. Flóðbylgja nýprentaðra peninga skellur á þeim nýmarkaðsríkjum sem búa enn yfir einhverjum auðlindum sem ekki er búið að selja úr landi, og íhuga þau nú að setja á gjaldeyrishöft til að stemma stigu við pappírsflóðinu. (velkomin í klúbbinn með okkur)

Þetta ætti samt ekki að þurfa að koma þeim sem hafa fylgst vel með á óvart, Bloomberg fréttaveitan sagði t.d. frá því fyrir tæpum tveimur árum síðan á hápunkti bankahrunsins, að Bandaríkin ætluðu að drekkja heiminum í dollurum. (Tengillinn er búinn að vera hér til hægri síðan þá!) Með öðrum orðum virðast Tiny Tim og vinur hans Ben Shalom ætla að framkalla óðaverðbólgu að hætti Weimar-lýðveldisins til þess að brenna upp skuldir ríkissjóðs. Bandaríkin njóta nefninlega þeirrar öfundsverðu (og um leið fullkomlega óeðlilegu) stöðu að hafa nánast engar erlendar skuldir í reynd, því þær eru að mestu leyti í þeirra eigin gjaldmiðli sem hefur náð alþjóðlegri útbreiðslu með bæði góðu og illu.

Og þetta var að berast:

          popcorneating


mbl.is Stórveldin fella gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Góð grein hjá þér félagi

Guðrún Sæmundsdóttir, 19.10.2010 kl. 18:09

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Takk, ég lagði talsverðan metnað í hana.

Guðmundur Ásgeirsson, 20.10.2010 kl. 02:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband