Gengi Bandaríkjadals aldrei jafn lágt gagnvart CHF

"Svissneski frankinn hefur aldrei áður verið jafn hár gagnvart Bandaríkjadal en dalurinn hefur veikst gagnvart öðrum gjaldmiðlum að undanförnu."

Fyrirsögnin gæti semsagt allt eins verið um gengisfall dollarans, frekar en styrkingu svissneska frankans, enda eru það tvær hliðar á sama peningum því gengi gjaldmiðla er alltaf afstæð breyta eftir því við hvað er miðað. Ég vakti athygli á þessu líka í gær vegna annarar fréttar sem bar fyrirsögnina "Evran hefur hækkað gagnvart Bandaríkjadal" en hefði allt eins getað verið "Bandaríkjadalur hefur lækkað gagnvart Evru". Sé miðað við verð á áþreifanlegum verðmætum eins og hrávörum og eðalmálmum hefur dollarinn nefninlega verið að hrapa undanfarið.

Útgangspunkturinn er sá að fólk ætti ekki að láta blekkjast og halda að þetta þýði að Evran eða svissneski Frankinn (eða krónan ef út í það er farið) séu í raun og veru að styrkjast. Heldur keppast ríkisstjórnir nú um að fella gengi gjaldmiðla sinna með inngripum til að auka samkeppnishæfni og ná þannig í stærri sneið af sífellt minnkandi köku alþjóðaviðskipta. Fjármálaráðherra Brasilíu, Guido Mantega, gekk jafnvel svo langt í byrjun vikunnar að lýsa því yfir í viðtali að um þessar mundir stæði yfir stríð á gjaldeyrismörkuðum. Afleiðingin er sú að flestir pappírsgjaldmiðlar eru að tapa verðgildi sínu, þeir gera það bara á misjöfnum hraða og þess vegna sjáum við allar þessar öfgakenndu sveiflur í afstæðu gengi þeirra.

Það er samt athyglisvert að sjá hvernig reynt er að nota framsetningu og orðalag svona frétta til að stjórna því hver sálrænu áhrifin eru á lesandann, sem í flestum tilfellum er sá sem fær að kenna á kaupmáttarrýrnuninni sem þetta hefur í för með sér. "Vinsamlegast haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, ekkert til að hafa áhyggjur af hér, svissneski frankinn var bara að styrkjast..." ;)


mbl.is Svissneski frankinn aldrei hærri gagnvart dal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætti ekki að vera hægt að sjá hvort að gjaldmiðill sé sjálfur að hækka eða lækka með því að skoða gengisvísitölu viðkomandi gjaldeyris?

Viðar Þorgeirsson (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 13:50

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Gengisvísitölur eru bara vísbending en ekki algildur sannleikur því þær miðast líka við afstætt gengi gagnvart öðrum gjaldmiðlum (eða myntkörfum). Endanlegur mælikvarði á verðgildi gjaldmiðils er hversu mikil raunveruleg verðmæti má kaupa fyrir hann, t.d. hráefni, nauðsynjavörur og þjónustu. Vísbendingu um það má fá með því að reikna gengið yfir í dollara og svo aftur yfir í verð á hrávörum og/eða eðalmálmum (t.d. gulli) sem eru verðlagðir í dollurum á heimsmarkaði, þannig er hægt að sjá hversu mikið fæst keypt fyrir peninginn. Einnig má finna vísbendingu í vísitölum sem mæla verðþróun (t.d. vísitala neysluverðs, framleiðsluverðs, byggingarkostnaðar o.s.frv.) en þó með þeim fyrirvara að slíkar hagtölur eru aldrei traustari en þær reiknireglur sem liggja að baki þeim, sem eru manna verk og þar af leiðandi háðar pólitískum og öðrum duttlungum að misjafnlega miklu leyti.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.9.2010 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband