Fordæmisgildi fyrir verðtryggð lán?
25.7.2010 | 17:59
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari í Reykjavík hefur fallist á kröfu Lýsingar um að samningsvextir á gengistryggðu láni standi ekki óhaggaðir án tryggingarinnar, heldur skuli þessi í stað miða við óverðtryggða vexti Seðlabankans. Þess má geta að eiginmaður Arnfríðar, Brynjar Níelsson er náinn samstarfsmaður Sigurmars K. Albertssonar sem sótti málið fyrir hönd Lýsingar (sjá frétt Svipunnar), en eiginkona hans er Álheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Tekið skal fram að ég á eftir að kynna mér dóminn ítarlega, en í fljótu bragði sýnist mér þó rökstuðningur dómarans að stóru leyti ganga út frá 4. gr. vaxtalaga, þar sem kveðið er á um seðlabankavexti í þeim tilvikum þar sem "vaxtastig er ekki tilgreint" á samningi. Þetta ákvæði er hugsað fyrir jaðartilvik þar sem fjárkrafa er fyrir hendi án þess að samið hafi verið um hana eða vaxtastigið sérstaklega, til dæmis þegar lántaki á endurkröfu á hendur lánveitanda vegna ofgreiddra afborgana á fölskum forsendum. Að slíkt ákvæði nái yfir samninga þar sem vaxtastigið er einmitt skýrt tilgreint og prentað á samningana er hinsvegar í besta falli langsótt.
Forsendubrestur getur samt ekki átt við í öllum tilvikum, til dæmis alls ekki um samninga SP Fjármögnunar sem er stærsti útgefandi bílalána. Í ársreikningum fyrirtækisins kemur nefninlega fram að það varði sig einmitt fyrir gengissveiflum með framvirkum samningum, án þess að hafa starfsleyfi til slíkra viðskipta. Þetta virðist hafa verið gert með vitneskju Fjármálaeftirlitsins og ég hef persónulega vakið athygli viðskiptaráðherra á þessu máli, sem hann sagðist myndi fylgja eftir. Hinsvegar voru lánin veitt með gengistryggingu líka þannig að það má segja að SP hafi verið með bæði axlabönd og belti. Ef fyrirtækið ætlast svo til þess að lánþegar haldi uppum sig buxunum vegna þess að axlaböndin slitnuðu þá er það einfaldlega óþarfi vegna þess að beltið er enn til staðar, a.m.k. á meðan stjórnvöld láta þessi skýlausu brot á starfsleyfi fyrirtækisins viðgangast. Frá sjónarhóli SP Fjármögnunar eru í reynd engar forsendur brostnar, og mikilvægt að því sé haldið til haga fyrir þolendur þessara brota.
Það sem virðist þó hafa farið fyrir ofan garð og neðan er að út úr dómnum má líka lesa mikilvægt fordæmisgildi: Ef leiðrétting á ólögmætri gengistryggingu telst grundvöllur fyrir forsendubresti vaxtakjara, þá hljóta sömu rök að geta átt við um stökbreyttan höfuðstól vegna verðtryggingar. Þegar flestir sömdu um sín verðtryggðu lán var það gert á grundvelli verðbólgumarkmiðs Seðlabankans að hámarki 4% en ekki 20%. Það má að sama skapi færa rök fyrir því að enginn sem tók verðtryggð lán hafi gert ráð fyrir óðaverðbólgu, frekar en útgefendur myntkörfulána gerðu ráð fyrir gengissveiflum því þeir töldu sig hafa flutt þær yfir á lántakendurna. Sanngirnisrök eru ekki einhliða heldur hljóta að gilda jafnt í báðar áttir, annað væri ekki sanngjarnt eða hvað? Undir þetta sjónarmið tekur Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, en hann er einmitt að undirbúa málarekstur sem byggir á þessari röksemdafærslu.
Það er ljóst að það mun halda áfram að vera spennandi að vera Íslendingur næstu misseri á meðan beðið er milli vonar og ótta hverjar verði málalyktir. Nýjasta leikfléttan í harmleikinn er tilkoma nýs embættis umboðsmanns skuldara, og verður fróðlegt að sjá hvernig því tekst til að standa vörð um hagsmuni almennings. Þegar allt kemur til alls veltur það samt líklega á hæstarétti, sem vonandi kann að minnsta kosti að gæta samræmis í dómum sínum. Glæpasagan heldur áfram...
Samningsvextir standa ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Gengistrygging | Aukaflokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt 26.7.2010 kl. 02:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.