Táknræn flöggun við Evrópuþingið

Það er stundum sagt að mynd segi meira en þúsund orð. Myndin sem fylgir þeirri frétt sem hér er tengt við stendur fullkomlega undir þeirri fullyrðingu, og við það hefur undirritaður nákvæmlega engu að bæta.

Fánum ESB-ríkja flaggað í hálfa

 


mbl.is Ísland ekki nægilega undirbúið í landbúnaðarmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir í klemmu

Smugan segir frá:

Þingmaður VG hefur óskað eftir skýringum þingsins á því að ESB fáni sé framan á húsnæði sem Alþingi leigir fyrir flokkinn. ,,Þetta er neyðarlegt fyrir þingið og þingflokk VG,“ segir Álfheiður Ingadóttir þingmaður VG.  ,,Mér finnst nóg er að vera undir auglýsingu fyrir Morgunblaðið sem trónir yfir öllu en að vera klemmd á milli Moggans og ESB fánans finnst mér of mikið.”

Alþingi á ekki húsið heldur leigir það fyrir skrifstofur þingflokks VG en á hæð þar fyrir neðan hefur Sendinefnd ESB á Íslandi hreiðrað um sig.

,Það má segja að við höfum góða yfirsýn yfir óvinina,” segir Bergur Sigurðsson framkvæmdastjóri þingflokksins.

Morgunblaðið VG og ESB

Undirritaður hefur nákvæmlega engu við þetta að bæta.


Norski Olíusjóðurinn vs. Bank of America

Dagens Næringsliv segir frá (íslensk þýðing er mín):

Yngvi Slyngstað yfirmaður lífeyrissjóðs norska ríkisins (olíusjóðsins) lögsækir nú húsnæðislánasjóðinn Country-wide ásamt núverandi eiganda Bank of America og endurskoðunarfyrirtækinu KPMG í Bandaríkjunum, fyrir svik.

Milljarðar norskra króna eru í húfi.

Olíusjóðurinn og 14 aðrar fjárfestingastofnanir standa að málsókninni sem var höfðuð fyrir dómstól í Kaliforníu.

Þau vilja meina að Countrywide - áður stærsti húsnæðislánveitandi Bandaríkjanna - hafi leynt mikilvægum upplýsingum og dregið dul á umfang útlánaáhættu sinnar. Fyrirtækið var einn stærsti lánveitandi svokallaðra undirmálslána, sem urðu stór orsakavaldur fjármálakreppunnar.

Á grundvelli villandi framsetningar upplýsinga af hálfu fyrirtækisins og stjórnenda þess, keyptu olíusjóðurinn og aðrir fjárfestar hlutabréf í Countrywide á uppblásnu verði frá mars 2005 til mars 2008, að sögn sjóðsins.

Fyrrverandi yfirmaður Countrywide, Angelo Mozilo og tveir aðrir fyrrverandi stjórnendur eru meðal hinna stefndu. Þeim er gert að sök að hafa hagnast persónulega á sölu hlutabréfa fyrir hundruðir milljóna Bandaríkjadala á grundvelli innherjauppslýsinga.

Meðal hinna stefndu eru einnig endurskoðunarfyrirtækið KPMG og Bank of America sem keypti Countrywide árið 2008.

Hlutabréfin gengu kaupum og sölu á allt að 45 dali á hlut 2. febrúar 2007. Rúmu ári síðar höfðu þau fallið í verði um 90%, sem olli fjárfestum milljarða dala tapi, segir Bunny Nooryani fjölmiðlafulltrúi olíusjóðsins í tölvupósti.

Hún vildi ekki nefna nákvæmar tölur í þessu sambandi.

Samkvæmt ársreikningi olíusjóðsins árið 2010 lagði hann fram kröfur í 50 málum sem fóru fyrir dómstóla í fyrra, en sjaldgæft er að sjóðurinn höfði sjálfur mál.


Ályktað út frá ófullkomnum forsendum

Á Evrópuvefnum er reynt að svara þeirri spurningu hver hlutur Íslands hefði verið í þeim "björgunarpökkum" sem ESB-ríkin hafa þurft að útdeila, ef landið væri fullgildur meðlimur í sambandinu og myntbandalaginu. Það er vissulega erfitt að leggja mat á svona "hvað ef" spurningu um sviðsmynd sem hefði breytt öllum forsendum þeirrar spurningar sem verið er að reyna að svara. Það er reyndar augljóst af svarinu að um hreina hugarleikfimi er að ræða, og Evrópuvefurinn útskýrir vel bæði forsendurnar sem og rökleiðsluna sem leiðir til þeirrar ályktunar sem þar er dregin. Hún er sú að hlutur Íslands hefði verið annað hvort núll ef hér hefði engu að síður orðið efnahagshrun og við hefðum sótt um að fara í einskonar slitameðferð eins og Grikkland. Hinsvegar ef evruaðild hefði gert okkur kleift að forðast efnahagshrun, þá hefði vænt hlutdeild Íslands í sameiginlegum ábyrgðum fyrir lánveitingum til evruríkja í vanda verið jafnvirði 38,4 ma.kr á móti þeim ávinningi.

Þessar niðurstöður eru alls ekki rangar miðað við þær forsendur sem eru gefnar. Það eru hinsvegar forsendurnar sem eru að mörgu leyti ófullkomnar. Með því er ég ekki að halda því fram að farið sé með rangt mál, heldur aðeins að benda á að með ólíkum forsendum er hægt að fá ólíkar niðurstöður.

Meðal gefinna forsenda er að Ísland hefði gerst aðili að sameiginlegu myntsvæði Evrópusambandsins á árunum 1990-2008, sem sagt fyrir efnahagshrunið. Ekki er hinsvegar tekið tillit til þess að svo skilyrðin fyrir slíkri aðild væru uppfyllt hefði þurft að vera löngu búið að ráðast í slíka tiltekt í efnahagsmálum hér á landi, að líkurnar á efnahagshruni af þeirri stærðargráðu sem varð árið 2008 væru hverfandi ef allt væri með felldu. Hefðum við hinsvegar lent í efnahagshruni engu að síður sem hliðstæðurnar í bókhaldsfölsunum hér og í Grikklandi benda til þess að væri alls ekki ólíklegt, þá hefðu afleiðingarnar af því ekkert orðið minni þó við værum í myntbandalaginu og þá hefði sjálfsskuldarábyrgð fyrir 38,4 milljörðum af skuldum annara ríkja í sömu sporum verið sem dropi í hafið hvort sem er.

En gott og vel, göngum útfrá þeirri draumsýn sem margir aðildarsinnar vilja trúa á, að evruaðild virki sem sjálkrafa skjól fyrir efnahagsáföllum og Ísland hefði þannig komist klakklaust gegnum þann alþjóðlega ólgusjó sem geisað hefur á fjármálamörkuðum undanfarin ár, ólíkt öðrum aðildarþjóðum. Þá er ljóst að lágmarkshlutdeild í björgunarpökkunum væri ekki núll heldur 38,4 ma.kr. samkvæmt áðurnefndum forsendum. Þær forsendur eru hinsvegar einnig ófullkomnar að því leyti að þær ná eingöngu til þeirra björgunaraðgerða sem þegar hafa verið samþykktar (Grikkland I, Írland, Portúgal, Grikkland II). Hvergi er tekið tillit til þess að sjálft grundvallarvandamálið er ennþá óleyst og enn sér ekki fyrir endann á því hversu miklar ábyrgðir evruríkin munu endanlega þurfa að undirgangast fyrir hvort annað. Ekki er tekið tillit til fullkominnar óvissu sem ríkir um málalyktir síðasta björgunarpakkans til Grikklands og að ekkert útlit er fyrir að Grikkir nái að komast hjá greiðslufalli án þess að fá enn fleiri björgunarpakka. Og það sem mest er um vert er að hvergi er tekið tillit til þess sem allt stefnir í að Ítalía verði næst og svo annaðhvort Spánn eða Belgía og jafnvel sjálft Frakkland. Þegar það gerist erum við að tala um allt aðrar stærðargráður þar sem efnahagur þessar landa er miklu stærri að umfangi en hinna fyrrnefndu.

Þegar væntur kostnaður við ábyrgðarskuldbindingu er metinn þarf alltaf að gera ráð fyrir bæði besta og versta tilfelli. Besta tillfellið í þessu ímyndaða tilfelli er eins og áður sagði að Ísland hefði komist klakklaust gegnum alþjóðlegt fjármálahrun og undirgengist 38,4 ma.kr. ábyrgð sem hefði aldrei reynt á þar sem núverandi vandi evrusvæðisins myndi leysast snarlega á næstunni og björgunarpakkarnir fást endurgreiddir að fullu. Ólíklegt kannski, en samt ekki alveg út úr kortinu. Versta mögulega tilfellið er hinsvegar að evruvandinn haldi áfram að vinda upp á sig á næstunni sem leiði til þess að fleiri og margfalt stærri ríki þurfi að fá björgunarpakka og hlutdeild Íslands í slíkum ábyrgðum myndi þá fara úr tugum milljarða í hundruðir og jafnvel þúsundir ma.kr. ef landið væri aðili að björgunarsjóðnum. Augljóslega myndi trúverðugleiki slíkrar ábyrgðar bresta á einhverjum tímapunkti slíkrar vegferðar, björgunaráætlanirnar fara út um þúfur og afleiðingin yrði víðtækt greiðslufall á evrusvæðinu. Þegar svo væri komið við sögu myndi einmitt reyna á ábyrgðarskuldbindingar aðildarríkjanna og hugsanlegur kostnaður sem lent gæti á Íslandi vegna þess á sér engin merkingarbær takmörk því þá værum við að tala um stærðir sem væru margfalt stærri en þjóðarbúskapur Íslands gæti nokkurntíma staðið undir.

Í þessari greiningu er heldur ekki tekið tillit til þess að íslenska þjóðin hefur tvívegis hafnað því með afgerandi hætti að axla skuldbindingar annara að ósekju. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að þjóðin myni eitthvað frekar samþykkja að borga skuldir Grikklands og annara evruríkja, heldur en skuldir Landsbankans á sínum tíma. Ég myndi því giska á að líklegasta útkoma úr þessari ímynduðu sviðsmynd væri sú að hlutdeild Íslands í björgunarpökkunum yrði núll, því veitingu ríkisábyrgðar fyrir skuldum hinna evruríkjanna yrði einfaldlega hafnað af þjóðinni. Þar með væri líka björgunarsjóður sem byggir á slíkri samábyrgð útilokaður, Grikkland væri þegar komið í greiðslufall og tilvist evru sem gjaldmiðils heyrði sögunni til.

Versti möguleikinn í sviðsmyndinni væri hinsvegar sá sem áður er lýst, að Ísland yrði meðábyrgt fyrir nánast ótakmörkuðum afleiðingum víðtæks greiðslufalls hinna evruríkjanna, og þar með skiptir í rauninni engu máli hversu efri mörkin eru há, nóg er að vita að þau eru svo há að það yrði banvænt fyrir efnahagslíf Íslands. Í stað þess að segja sem svo að um væri að ræða 0-38,4 ma.kr. hlutdeild í sviðsmynd þar sem evran verður til sem gjaldmiðill til framtíðar, væri því réttara að segja sem svo að um væri að ræða hlutdeild sem væri allt frá því að vera engin upp í að vera ótakmörkuð en í báðum tilvikum endar það með dauðdaga myntbandalagsins og efnahagslegum hörmungum fyrir öll aðildarríkin en ekki bara sum. Þar með talið Ísland sem er í þessari ímynduðu sviðsmynd hluti af myntbandalaginu.

Sem betur fer mun þessi dökka sviðsmynd aldrei verða annað en ímyndun!


mbl.is Hefðum væntanlega ekki greitt neitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innan við 5% afskrifta til einstaklinga

Í gær birti ég færslu þar sem ég gerði tilraun til að bera saman tölur um afskriftir á skuldum heimila (einstaklinga) annars vegar og fyrirtækja hinsvegar. Þar sem tölurnar áttu sér ólíkan uppruna og voru fundnar með ólíkum aðferðum gat ég hinsvegar engu slegið föstu um hversu raunhæfur samanburðurinn væri.

Þegar leið á daginn laut svo allt að vilja mínum, þegar fregnaðist af svari efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um afskriftir í fjármálakerfinu. Það sem gerir þessar tölur meiri að gæðum en hinar fyrri, er að hér er um að ræða samræmda upplýsingasöfnun fjármálaeftirlitsins beint frá nýju bönkunum sjálfum, án þess að tölur um þrotabú gömlu bankanna blandist þar saman við.

Í svarinu kemur fram að heildarafskriftir þriggja stærstu bankanna (væntanlega Landsbanka, Íslandsbanka og Arion) árin 2009 og 2010 nemi rúmum 503 ma.kr. Þar af séu afskriftir til einstaklinga (heimila) ekki nema rúmir 22 ma.kr. á sama tímabili, eða 1,6% af heildarskuldum heimila og aðeins 4,7% af heildarskriftunum sem þýðir að fyrirtækin hafa fengið tuttugu sinnum meira afskrifað.

Í svarinu eru afskriftir fyrirtækja sundurliðaðar eftir atvinnugreinum. Athygli vekur að undir liðnum "Annað" eru tæpir 346 ma.kr. eða 71,9% af heildarafskriftum. Ekki fylgir sögunni hvað sé innifalið í þessum safnlið en heimildir mínar herma að uppistaðan í því séu meðal annars eignarhaldsfélög sem stofnuð voru utan um lánsviðskipti starfsmanna og vildarviðskiptavina með hlutabréf í fjármálafyrirtækjum.

Hversu nákvæmlega stór hluti þessrar fjárhæðar eru afskriftir hlutabréfalána er ekki ljóst á þessu stigi, en óhætt er að fullyrða að um sé að ræða vænan skerf. Sem dæmi má nefna að bara hjá Kaupþingi námu slík lán hátt í 50 ma.kr., þar af 15 ma.kr. bara hjá bankastjórunum tveimur., og hjá Glitni fengu sjö stjórnendur rúman milljarð á mann. Auk þess má nefna lán til félaga á borð við Stím (20 ma.kr.) eða Q Iceland Finance (25 ma.kr.) og fleiri sem voru ekki í eigu starfsmanna heldur vildarviðskiptavina sem tóku viljugir þátt í braskinu.

Áhrif verðtryggingar á skuldir heimila

Eins og sjá má er þriðjungur skulda heimila til komin vegna áhrifa verðtryggingar og gengistryggingar. Þetta eru hækkanir sem urðu til án þess að nokkuð hafi verið fengið að láni til viðbótar, heldur vegna þess að lánin hækkuðu sjálfkrafa. Við þá hækkun myndaðist fullt af gervieignum inni í bönkunum, sem þeir lögðu til grundvallar stórauknum lánveitingum til hlutabréfakaupa í aðdraganda hrunsins. Þennan reikning sitja heimilin nú uppi með, en bankamennirnir sem eyddu þessum fjármunum í markaðsmisnotkun hafa með skipulegum hætti komið sér undan ábyrgð. Helsti munurinn er samt sá að heimilin voru óviljugir og grunlausir þáttakendur í svikamyllunni.


mbl.is 503 milljarðar afskrifaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afskriftir fyrirtækja dygðu margfalt fyrir heimilin

Í nýjasta hefti Tíundar , tímariti Ríkisskattstjóra, er fjallað um skuldir fyrirtækja. Þar kemur fram að á árinu 2009 virðist sem skuldir íslenskra fyrirtækja hafi lækkað um 4.852 ma.kr. sem megi rekja til gjaldþrota og afskrifta á skuldum. Í vikunni sem...

Ræðuskrifari Obama til Hollywood

Wahsington Post segir frá því að Jon Lovett, 29 ára gamall handritshöfundur fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta, muni hætta störfum í þessum mánuði. Í stað þess að skrifa ræður forsetans hyggst hann reyna fyrir sér sem handritshöfundur gamanþátta í...

Eru gerðarbeiðendur löglegir veðhafar?

Mikill fjöldi nauðungaruppboða er sagður yfirvofandi, en í hversu mörgum þeirra ætli gerðarbeiðandi sé í raun löglegur veðhafi og eigandi skuldarinnar? Hagsmunasamtökum Heimilanna hafa borist upplýsingar um fjölmörg tilvik þar sem nauðungaruppboð hafa...

Formaður lögmannafélags varðhundur glæpagengja

Formanni lögmannafélagsins ætti að vera fullljóst að Hæstréttur hefur úrskurðað að vaxtaberandi bílasamningar séu í raun lán. Enda eru þeir meðhöndlaðir sem slíkir í bókhaldi fjármálafyrirtækjanna sjálfra. Ákvæði þeirra um vörslusviptingar "hins leigða"...

Óverðtryggð lán raunhæfur valkostur

Umræðan um afnám verðtryggingar hefur virkilega hafið sig á flug að undanförnu. Sem er vel því nú er einmitt mánuður eftir þar til Undirskriftir Heimilanna við kröfu um leiðréttingu verðtryggðra lána og afnám verðtryggingar, verða afhentar þegar...

Gríski harmleikurinn á sér engin takmörk

Skuldir Grikklands eru óviðráðanlegar og björgunarlánapakkarnir guðmávitahvaðmörgu frá ESB/ECB/IMF duga ef til vill ekki til að bjarga ríkissjóði frá greiðsluþroti. Samkvæmt nýlekinni skýrslu gríska fjármálaráðuneytisins. Ráðherrann brást við...

Fór Ísland í stríð við geimverur?

Bloggarinn Paul Krugman hagfræðingur, segir að Ísland hafi gert rétt með því að fara óhefðbundna leið í gegnum kreppuna, í grein sem hann skrifar í tilefni af "útskrift" landsins af gjörgæsludeild Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Athyglisverðasti hlutinn af...

Ögmundur tekur undir kröfur Hagsmunasamtaka Heimilanna

„Sú krafa var uppi í upphafi kreppunnar að allar skuldir yrðu færðar niður á þeim grundvelli sem Hagsmunasamtök heimilanna kröfðust. Þeirri hugsun var ég algerlega sammála,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra í tilefni af brotthvarfi...

Skuldatryggingarálag Íslands undir Evrópumeðaltali

Bloomberg fjallar í dag um nýlega stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands. Vitnað er í Ásgeir Jónsson fyrrum yfirmann greiningardeildar Kaupþings, sem tókst ekki að greina ástæður hrunsins fyrr en eftir á, en hann segir að þessi ákvörðun opni fyrir þann...

Kemur Sheikh Al-Thani evrunni til "bjargar"?

Tilkynnt var í dag um fyrirhugaða sameiningu tveggja grískra banka og endurfjármögnun svo úr verður stærsti banki suðausturhluta álfunnar: Alpha Eurobank. Fjórðungur hlutfjárframlagsins og jafnframt 16% eignarhlutur í hinum nýja banka er sagður muni...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband