Upplýsingaskylda vegna lánveitinga (SÍ 1991)

Málaferli þau sem nú standa yfir vegna verðtryggðra neytendalána þar sem reynir á lögmæti þeirra, byggjast aðallega á því að lánveitendur hafi brotið gegn upplýsingaskyldum sínum með því að leggja 0% verðbólguviðmið til grundvallar útreikningum á kostnaði og leyna þannig fyrir neytendum raunverulegum áhrifum verðtryggingar á lánskostnaðinn.

Með hliðsjón af þessu er afar forvitnilegt að lesa umsögn Seðlabanka Íslands um hin upprunalegu lög um neytendalán, einkum meðfylgjandi greinargerð bankaeftirlitsins sem var skrifuð 1991, tveimur árum fyrir inngöngu Íslands í EES og innleiðingu á tilskipun 87/102/EBE um neytendalán með lögum nr. 30/1993.

Tilvitnun:

"Efni: Upplýsingaskylda vegna lánveitinga

Bankaeftirlitið hefur tekið saman greinargerð um aukna upplýsingaskyldu lánveitenda gagnvart lántakendum. Upplýsingaskyldan sem um ræðir varðar auglýsingu á virkum vöxtum svo og öðrum atriðum sem nánar er vikið að í eftirfarandi greinargerð."

"Þeir lánveitendur sem upplýsingaskyldan ætti að ná til væru t.d. :

-viðskiptabankar og sparisjóðir

-opinberar lánastofnanir og sjóðir

-aðrar lánastofnanir

..."

Aths.: "Virkir vextir" eru það sama og árleg hlutfallstala kostnaðar.

Tilvitnun:

"Lánveitendur gerðu lántaka skriflega grein fyrir eftirfarandi atriðum áður en til lánveitingar kæmi:

-Virkum vöxtum, [Innsk. árleg hlutfallstala kostnaðar] þ.e. þeirri vaxtaprósentu (á ársgrundvelli) sem út kæmi þegar búið væri að taka tillit til alls þess kostnaðar sem lánið hefði í för með sér. Taka þyrfti fram hvaða kostnaður það væri sem reiknaður væri með í þeirri prósentu. *)

-Nafnvöxtum.

-Hvort vextir séu reiknaðir fyrirfram eða eftirá.

-Hve oft vextir væru reiknaðir á ári.

-Áætlaða greiðsluþörf, skipt niður í upphæð afborgunar nettó, vexti, verðbætur, þóknunarkostnað svo og annan kostnað ef einhver er. Einnig að uppgefin sé árleg afborgun brúttó svo og, sé þess óskað, heildareftirstöðvar  láns."

Aths.: Í síðustu málsgrein er lýst því sem kallast greiðsluáætlun, og verður ekki um villst að þar skuli koma fram, meðal annars, verðbætur. Það geta þær hinsvegar alls ekki gert ef 0% verðbólguviðmið væri lagt til grundvallar þeim útreikningum, eins og varð þó af einhverjum óútskýrðum ástæðum raunin í framkvæmd lánveitenda hér á landi. Það er sú framkvæmd sem samkvæmt þessu er ólögmæt og sem nú reynir á fyrir dómstólum.

Þess má til gamans geta að fram kemur í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarpið til laganna um neytendalán að sá starfsmaður bankaeftirlitsins sem mælti fyrir tilvitnaðri umsögn seðlabankans á fundi nefndarinnar um málið, hafi verið Unnur Gunnardóttir. Hún gegnir núna stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins, svo það ætti að verða nærtækt fyrir hana að framfylgja niðurstöðu dóms um þessa framkvæmd á upplýsingaskyldu við lánveitingar, um leið og hann mun liggja fyrir.


mbl.is Tekist á um lögmæti verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur líklegri til heimilisofbeldis en karlar

...samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar.

Og brauð lendir oftar á smjörhliðinni þegar maður missir það, því hún er þyngri.

Bæði eru augljósar staðreyndir, en þurftu vísindarannsóknir til að sanna þær.

Sniðugt að sú sem gerði rannsóknina var kona, og steinhissa á útkomunni.

Það er eitthvað svo "sætt" að það skuli hafa verið viðbrögðin, eða þannig.

http://www.dailymail.co.uk/sciencetech/article-2669408/Rise-female-relationship-terrorists-Study-finds-women-controlling-aggressive-partners-men.html


Nýr kafli í Skáldsöguna Ísland

Ríkisendurskoðun hefur lokið athugun sinni á greiðslu málskostnaðar seðlabankastjóra vegna málaferla hans gegn bankanum. Tvennt stendur upp úr í niðurstöðunum:

1. Ríkisendurskoðandi virðist ekkert hafa rætt við fulltrúa í bankaráði seðlabankans við rannsókn málsins. Það eru í hæsta máta undarleg vinnubrögð að rannsaka mál um opinbera ákvarðanatöku, án þess að taka viðtöl við þá sem eiga hlut að málinu og þeirri ákvarðanatöku. Maður hlýtur því að velta fyrir sér hvaðan Ríkisendurskoðandi hafi fengið upplýsingar um málið? Kannski frá Láru V. Júlíusdóttir, þáverandi formanni bankaráðsins, sem virðist hafa tekið ákvörðun um þessa fjárveitingu?

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins var það alls ekki ákveðið að frumkvæði bankaráðsins eða formanns þess að greiða málskostnað seðlabankastjóra, heldur hafi beiðni um það komið frá honum sjálfum. Þetta kom hinsvegar ekki fram í úttekt Ríkisendurskoðunar (væntanlega vegna þess að Lára var ein til frásagnar og búið að ákveða að hún tæki á sig sökina?).Hver svo sem sannleikurinn er þá eru þessi vinnubrögð við rannsóknina fyrir neðan allar hellur.

2. Það sem er svo eiginlega það allra fáránlegasta sem þetta mál hefur leitt í ljós, er að samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar virðast engar reglur vera til staðar um fjárveitingar af hálfu bankaráðs Seðlabanka Íslands.

Það er ef til vill þörf á því að endurtaka, því þetta er svo fáránlegt að það skráist eiginlega ekki almennilega fyrr en maður hefur velt því aðeins fyrir sér.

a. Seðlabanki Íslands er æðsta peningamálastofnun landsins.

b. Bankaráð fer með aðalstjórn þeirrar stofnunar.

c. Hjá bankaráði eru engar reglur um fjárveitingar.

Engar reglur eru um fjárveitingar aðalstjórnar æðstu stofnunar peningamála!

Í Skáldsögunni um Ísland er nú þegar sérstakur kafli tileinkaður fjármálaeftirlitinu og seðlabankanum, en þetta er svo sérstakt tilvik að það verðskuldar algjörlega sinn eigin viðauka. Hér efnisyfirlitið með þessari nýjustu uppfærslu:

Efnisyfirlit:

  1. Iðnaðarsalt í matvælaframleiðslu
  2. Ólögleg lán og endurútreikningar
  3. Landbúnaðaráburður með kadmíum
  4. Iðnaðarsílikon í brjóstaígræðslum
  5. Landeyjahöfn og Grímseyjarferjan
  6. Skólplosun á vatnsverndarsvæðum
  7. Fjármálaeftirlitið og seðlabankinn
  8. Símaskrárforsíðan og guli límmiðinn
  9. Mannauðs- og fjárhagskerfið Orri
  10. Blæðandi gallað repjuolíumalbik
  11. Allir sjússamælar voru skakkir.
    1. Viðauki: Kadmíumáburður snýr aftur!
    2. Viðauki: Engar reglur um fjárveitingar seðlabankaráðs

mbl.is Óskaði eftir endurgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármálaeftirlitið afturkalli starfsleyfi Lýsingar

Samkvæmt fréttum eru á annað hundrað mál gegn Lýsingu hf. fyrir dómstólum um þessar mundir, og má því telja líklegt að ljósin í lögfræðideildinni þar verði oft kveikt á nóttunni næsta haust. Þessi mikli málafjöldi er hinsvegar úr öllu samræmi við smæð fyrirtækisins og er mörgum tíðrætt um mikla óánægju viðskiptavina með óbilgirni fyrirtækisins í framkomu við sig. Hugsanlega er hinn mikli málafjöldi að einhverju leyti einkenni þess vanda.

Það er hinsvegar ekki nóg að kvarta bara, heldur er rétt að skoða hvað sé til ráða, og um leið er hægt að greina að nokkru leyti dýpri orsakir þess að vandamál sem þessi ná gjarnan að skjóta rótum á íslenskum fjármálamarkaði (er skemmst að minnast starfsemi Dróma í því samhengi). Við slíka athugun kemur í ljós einn sameiginlegur undirliggjandi þáttur: Fjármálaeftirlitið, eða reyndar í flestum tilvikum fullkominn skortur á því.

Sjá 7. tl. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/2002161.html#G20

20. gr. Starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja.
Starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið til eftirfarandi þátta:
   [...]
   7. Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
   a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
   b. erlendan gjaldeyri,
   c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
   d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
   e. [...]

Jafnframt 3. mgr. sömu greinar:

Starfsemi lánafyrirtækja getur tekið til 1.–14. tölul. 1. mgr. að því undanskildu að lánafyrirtækjum er óheimilt að taka á móti innlánum.

(Lýsing fellur þarna undir skilgreininguna "lánafyrirtæki".)

Sjá yfirlit yfir starfsleyfi fjármálafyrirtækja á vef Fjármálaeftirlitsins:

http://www.fme.is/media/frettir/Yfirlit-yfir-starfsleyfi---skjal-3714.pdf

Starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja skv. 20. gr. laga nr. 161/2002:
Lýsing hf.
 [...] 
 7. Viðskipti fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með: 
 a. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.), X³
 b. erlendan gjaldeyri, X³
 c. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir), X³
 d. gengisbundin bréf og vaxtabréf og X³
 e. verðbréf. X³
 [...] X³

Sjá athugasemd til nánari skýringar í neðanmálsgrein:

"³ = En eingöngu fyrir eigin reikning, ekki fyrir viðskiptavini."

Það sem þetta þýðir í stuttu máli er að Lýsing hf. hefur hvorki starfsleyfi til viðskipta fyrir viðskiptavini sína með gjaldeyri né gengisbundin bréf. Þannig er útilokað að gengistryggðar lánveitingar Lýsingar til viðskiptavina sinna hafi getað rúmast innan þeirra heimilda sem starfsleyfi fyrirtækisins kveður á um.

Brotið getur varðað við 7. tl. 1. mgr. 9. gr. sömu laga:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/2002161.html#G9

9. gr. Ástæður afturköllunar.
Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta:
[...]
   7. brjóti fyrirtækið að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.

Jafnframt varðar brot á starfsheimildum við 112. gr. b. laganna:

112. gr. b. Sektir eða fangelsi.
Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og reglum settum á grundvelli þeirra:
   1. 3. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis,
   2. [...]

Með öðrum orðum er um að ræða athæfi sem varðar sviptingu starfleyfis og er refsivert.

Hérna eru hinsvegar þær aðgerðir FME vegna framferðis Lýsingar, sem sjáanlegar eru:

26.11.2012 Gagnsæistilkynning vegna athugunar á starfsháttum Lýsingar hf.

Borist hafði "ábending" (hugtakið sem FME notar yfir kvartanir) frá viðskiptavini Lýsingar sem hafði ekki aðeins verið neitað um endurútreikning, heldur beinlínis neitað um upplýsingar um endurútreikning og önnur nánar tiltekin atriði sem hann hafði óskað eftir. FME taldi að svara hefði átt fyrirspurninni og fyrirskipaði Lýsingu að "endurskoða meðhöndlun fyrirspurna frá viðskiptavinum" sem leiddi til þess að Lýsing birti nýja fréttatilkynningu á heimasíðu sinni með ítarlegri upplýsingum. Taldi FME það nægjanlegt og að ekki þætti ástæða til beitingar stjórnvaldssektar.

20.12.2013 Gagnsæistilkynning vegna athugunar á viðskiptaháttum Lýsingar hf. í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 672/2012

Umræddur dómur braut blað í réttarsögunni að tvennu leyti. Í fyrsta skipti var dæmt samkvæmt lögum um neytendalán, og í fyrsta skipti var verðtrygging láns miðað við vísitölu neysluverðs dæmd ólögleg. Lýsing hefur hinsvegar gert sitt allra besta til þess að þaga yfir þessari niðurstöðu svo hún spyrjist ekki út, og hafði til dæmis ekki einu sinni fyrir því að láta fyrrverandi viðskiptavini með samskonar samninga vita af því að dómur hefði fallið og að þeir ættu líklega rétt á leiðréttingu. Jafnvel þeir sem vissu af dómnum og höfðu samband við Lýsingu af eigin frumkvæði, hafa margir hverjir lent í stökustu vandræðum með að fá þá leiðréttingu framkvæmda.

Fjármálaeftirlitið skarst í leikinn og fyrirskipaði Lýsingu að tilkynna öllum viðskiptavinum um dóminn, þar á meðal fyrrverandi viðskiptavinum sem voru þegar búnir að borga sig frá prísundinni, allt of háu og ólögmætu gjaldi. Lýsing þráaðist hinsvegar við og bar við allskyns misjafnlega góðum ástæðum og flækjum fyrir því að verða við fyrirmælunum.

9.1.2014 Eftir meira en sex mánaða þref og stapp höfðar Lýsing dómsmál gegn Fjármálaeftirlitinu og krefst ógildingar framangreindrar ákvörðunar um að tilkynna skuli viðskiptavinum með uppgreidda samninga um dóm sem eigi við um þá. FME tekur til varna og krefst frávísunar málsins, þar sem þriggja mánaða kærufrestur ákvörðunarinnar hafi verið löngu liðinn þegar dómsmálið var höfðað.

13.6.2014 Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-85/2014.

Rúmu ári eftir fyrsta bréf FME um málið til Lýsingar, kveður héraðsdómur upp úrskurð þar sem fallist er á að kröfum Lýsingar verði vísað frá dómi enda var kærufrestur útrunninn.

27.6.2014 Fjármálaeftirlitið samþykkir yfirtöku Lýsingar á Lykli

FME veitir samþykki sitt fyrir því að Lýsing yfirtaki tiltekinn rekstrahluta MP banka á sviði bílalána sem gengur undir heitinu Lykill. Engin sérstök rök eru færð fyrir ákvörðuninni. Reyndar er afar erfitt að sjá nein rök fyrir henni, nema þá kannski að FME hafi talið að fleiri neytendur á fjármálamarkaði þyrftu að taka út sína þjáningu...?

Meira um þessi hræðilegheit má lesa um í augLýsingu sem birtist í Fréttablaðinu þann 8. mars síðastliðinn, þar sem neytendur voru varaðir við starfsháttum Lýsingar. Miðað við þann fjölda mála sem nú fréttist að séu fyrir dómstólum gegn Lýsingu virðist hafa verið full þörf á slíkum aðvörunum. Málafjöldinn er heldur ekki í nokkru einasta samræmi við hverfandi markaðshlutdeild fyrirtækisins á íslenskum fjármálamarkaði, en í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna yfirtöku Lykils er hún sögð vera einungis 1,3%.

Með hliðsjón af öllu þessu er það ekki bara undarlegt heldur eiginlega hin mesta furða að ekki sé fyrir löngu búið að afturkalla starfsleyfi Lýsingar. Brot sem þessi geta varla talist flokkast undir annað en skipulögð fjársvik og stórfelldar tilraunir til ólögmætrar auðgunar. Hefðu þau verið framin í heilbrigðu réttarríki þá væri fyrirtækið ekki lengur starfandi undir stjórn sömu aðila og þeir annað hvort komnir eða á leiðinni bak við lás og slá.

Á Íslandi hinsvegar, þar höfum við FME, sem virðist vera pikkfast ofan í ræsinu.


mbl.is Á annað hundrað mál gegn Lýsingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafi einhver efast um það...

...hlýtur sá vafi nú að hafa verið tekinn af um hvert þetta stefnir.

"Rík­is­stjórn Ítal­íu ætl­ar að leggja áherslu á að Evr­ópu­sam­bandið verði að Banda­ríkj­um Evr­ópu á meðan hún fer með for­sætið inn­an sam­bands­ins á síðari helm­ingi þessa árs. 

Þetta er haft eft­ir Matteo Renzi, for­sæt­is­ráðherra Ítal­íu..."
mbl.is Leggur áherslu á Bandaríki Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldeyrishöft í Laugardal um helgina

Á Secret Solstice tónlistarhátiðinni sem fer fram um helgina verður sérstakur gjaldmiðill notaður. Gestir hátíðarinnar munu við innganginn þurfa að skipta utanaðkomandi gjaldmiðlum (þar með talið íslenskum krónum) yfir í staðarmyntina sem er gjaldgeng í...

Talandi um almannahagsmuni

Hagsmunasamtök heimilanna sendu í dag frá sér svohljóðandi tilkynningu : Þar sem Alþingi kemur saman í dag þrátt fyrir þinghlé vilja Hagsmunasamtök heimilanna skora á þingmenn að nýta tækifærið í þágu þeirra fjölmörgu fjölskyldna sem standa frammi fyrir...

Refsivert á Íslandi líka

Talsverð umræða hefur sprottið að undanförnu um svokölluð "þvinguð hjónabönd" og sumir hafa velt því fyrir sér hvort setja þurfi sérstök lög til að koma í veg fyrir slíkt hér á landi. Til þess að svara slíkum spurningum er kannski rétt að byrja á því að...

Kunna fjármálafyrirtæki ekki að reikna?

Í helgarblaði Morgunblaðsins í dag er heilsíðuumfjöllun um neytendalán og ákveðin vandkvæði við að framfylgja þeim lögum og reglum sem um þau gilda. Meðal þess sem kemur fram í fréttinni í blaðinu er að raftækjaverslunin ELKO getur lögum samkvæmt ekki...

Leiðrétting á bókhaldsbrellum

Samkvæmt meðfylgjandi frétt þar sem vitnað er í greiningu IFS eru kostnaðarhlutföll íslensku bankanna sögð of há vegna endurútreikninga og endurskipulagningar lána. Aftur á móti hafi virðis­breyt­ing út­lána þó hækkað tekj­urn­ar og þar með lækkað...

Ekki aftur...

Aldrei aftur !!!

Bankarnir treysta Fjármálaeftirlitinu

Fyrirsögn þessarar fréttar á mbl.is er frekar villandi því af henni mætti draga þá ályktun að Fjármálaeftirlitið hefði mælst með umtalsvert traust í einhverri könnun meðal almennings. Svo er þó alls ekki, því um er að ræða viðhorfskönnun sem FME efndi...

Óánægður viðskiptavinur?

Maður var staðinn að verki á Akranesi eldsnemma í morgun við tilraun til að opna hraðbanka með slíprokk, væntanlega í þeim tilgangi að ná innihaldinu úr honum. Ætli hann hafi kannski verið búinn að gefast upp á því að bíða eftir endurgreiðslu af ólöglegu...

Vælubílinn á Kirkjusand

Það er komið upp neyðarástand í Íslandsbanka, en starfsmenn jafnt sem stjórnendur þar á bæ eru núna hágrenjandi yfir vondu köllunum á Mogganum sem voguðu sér að skrifa eitthvað um það hvernig bankinn hagar sér. Í yfirlýsingu segir að: " Bankinn vísar því...

Hvað með skuldavæðingu?

Kjörn­ir full­trú­ar Vinstri grænna og fram­bjóðend­ur hreyf­ing­ar­inn­ar til sveit­ar­stjórna um land allt hafa und­ir­ritað yf­ir­lýs­ingu um að þeir muni ávallt beita sér gegn einka­væðingu á al­manna­eig­um. Bara ef sambærileg yfirlýsing hefði nú...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband