Aðildarumsókn Schrödingers
26.7.2025 | 17:07
Þrátt fyrir að starfsfólk Evrópusambandsins hafi staðfest afturköllun ólögmætrar umsóknar Íslands um aðild að sambandinu frá árinu 2009 í samskiptum við undirritaðan árið 2015, halda talsmenn sambandsins því núna fram að umsóknin hafi aldrei verið "formlega" dregin til baka og sé enn í gildi. Þess má geta að umrædd tölvupóstsamskipti hafa verið varðveitt enda eru þau mikilvæg sönnunargögn um réttar og sögulegar staðreyndir.
Samt mætti halda að umsóknin sé í einhverskonar skammtafræðilegri tvístöðu líkt og hinn ímyndaði köttur Schrödingers þar sem hún er samtímis bæði afturkölluð og enn í gildi.
Kannski er það kaldhæðnislegt að í hinni ímynduðu tilraun Erwin Schrödinger kemur ekki í ljós hvort kötturinn er dauður eða lifandi fyrr en "kíkt er í kassann". Það svipar til þeirrar kenningar að einungis aðildarviðræður við Evrópusambandið geti leitt í ljós aðildarsamning sem taka megi afstöðu til en það hefur verið kallað að "kíkja í pakkann".
Ólíkt lokaða kassanum í hugarsmíðaðri tilraun Schrödingers er þó ekki neinn lokaður pakki sem þarf að "opna" með aðildarviðræðum svo hægt sé að komast að hinu rétta um skilmála hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Sáttmálarnir um Evrópusambandið og starfshætti þess sem mynda svokallaðan Lissabon-sáttmála voru undirritaðir af aðildarríkjum sambandsins 13. desember 2007 og tóku gildi 1. desember 2009. Síðan þá hefur aðild Evrópusambandinu verið háð því skilyrði að ríki sem sækja um aðild undirgangist hann og enginn annar aðildarsamningur stendur til boða.
Íslensk þýðing Lissabon-sáttmálans var gefin út árið 2012 þegar Ísland var í svokölluðum aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem lauk árið 2013. Síðan þá hefur sá pakki staðið öllum opinn sem vilja kíkja í hann og taka afstöðu til hans.
Við lestur þessa aðildarsamnings (sáttmálans) kemur í ljós að í honum er gerð ófrávíkjanleg krafa um framsal ríkisvalds til stofnana Evrópusambandsins, en það samræmist ekki 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þess vegna er eina mögulega afstaðan til hugmynda um aðild Íslands að Evrópusambandinu sú að hún komi ekki til greina.
Ekki þarf að halda neina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta því það getur engu breytt um hvað stendur skýrum orðum í stjórnarskránni. Auk þess hafa verið haldnar tvær bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur árin 2010 og 2011 á grundvelli 26. gr. stjórnarskrár og í þeim báðum höfnuðu íslenskir kjósendur með afgerandi hætti órjúfanlegum hluta aðildar að Evrópusambandinu: ríkisábyrgð á innstæðutryggingum.
Í kjölfarið var höfðað mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins var meðal nokkurra gagnaðila en tapaði málinu og Ísland hafði betur. Þrátt fyrir bindandi dóminn hefur Evrópusambandið aldrei viðurkennt niðurstöðu hans heldur virt hann að vettugi allar götur síðan með því að krefja öll aðildarríki sín um að undirgangast ríkisábyrgð á innstæðutrygginum.
Fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES nefndinni hafa aftur á móti framfylgt vilja kjósenda ásamt niðurstöðu EFTA-dómstólsins með andstöðu gegn því að slík ríkisábyrgð verði tekin upp í EES-samninginn. Um leið er það lifandi sönnun þess að ólíkt því sem stundum hefur verið haldið fram er neitunarvald Íslands í EES samstarfinu raunverulegt og það hefur verið notað. Innan Evrópusambandsins eiga aðildarríki þess engra slíkra kosta völ.
Staðreyndir málsins í hnotskurn:
- Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá árinu 2009 var dregin til baka árið 2015 og sönnunargögn um það liggja fyrir.
- Aðildarsamningurinn liggur fyrir og hver sem vill getur kíkt í þann pakka.
- Stjórnarskráin leyfir lýðveldinu Íslandi ekki að undirgangast aðildarsamninginn.
- Íslenskir kjósendur höfnuðu ófrjúfanlegum hluta aðildar að Evrópusambandinu í tveimur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum árin 2010 og 2011.
- Íslenskum stjórnvöldum er hvorki heimilt að ganga gegn stjórnarskrá né bindandi niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna á grundvelli hennar.
- Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er því útilokuð og málið útkljáð.
Íslenskir kjósendur verða réttilega að ætlast til þess að ríkisstjórnin virði stjórnarskránna og þann vilja þeirra sem var látinn í ljós með bindandi hætti í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum með því að láta af öllum áformum um að efna í heimildarleysi til þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja enn á ný tilgangslausar aðildarviðræður við Evrópusambandið.
![]() |
Aldrei formlega dregin til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 27.7.2025 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Utanríkisráðherra, Ursula og vonda lygin
22.7.2025 | 00:27
Utanríkisráðherra heldur því fram að umsókn Íslands að Evrópusambandinu frá árinu 2009 hafi aldrei verið formlega dregin til baka. Þar vitnar hún til orða Ursulu von der Leyen og mögulega líka talsmanns stækkunarstjóra sambandsins, sem hafa bæði sagst líta svo á að sú umsókn sé enn í gildi, en tilvitnun í rangar staðhæfingar er jafn röng og uppruninn.
Ég hef nefnilega skrifleg sönnunargögn fyrir hinu gagnstæða frá Evrópusambandinu sjálfu, sem má heyra nánar um hér á 4:19: Símatími - Útvarp - Vísir (16.1.2025)
Auk þess var þessi gamla umsókn aldrei gild í upphafi.
Meira um það má heyra hér á 0:45: Símatími - Útvarp - Vísir (18.7.2025)
![]() |
Umsóknin var aldrei formlega dregin til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað með rannsókn á aðförinni að heimilunum?
1.7.2025 | 20:43
Flest sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins hefur verið rækilega rannsakað. Fyrir um tveimur mánuðum hóf RÚV að greina frá umfangsmiklum stuldi og leka á gögnum frá tilteknu embætti sem stóð að sumum þeirra rannsókna. Allar götur síðan hefur nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins lamið höfði við stein og heimtað í sífellu rannsókn á þessum rannsakendum, sem rannsökuðu þrátt fyrir allt ekki neitt sem leiddi af hruninu.
Það sem gerðist í eftirmálum hrunsins, aðförin sem var gerð að heimilum landsins sem báru enga ábyrgð á hruninu, hefur aldrei verið rannsökuð. Tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins lýtur á engan hátt að því að bæta úr þessum skorti á rannsókn eftirmála hrunsins því hún snýst eingöngu um rannsókn á rannsóknum á atburðum í aðdraganda hrunsins sem hafa þegar verið rannsakaðir. Hver vegna ekki þeim ósköpum sem á eftir því fylgdu?
Orsakir hrunsins og flest sem hafði áhrif í aðdraganda þess hefur verið rækilega rannsakað, en þær hamfarir sem voru látnir dynja á heimilum landsins í kjölfar þess og endurreisnar bankanna hafa aldrei verið rannsakaðar. Þess vegna hafa Hagsmunasamtök heimilanna barist fyrir því árum saman að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis til að framkvæma slíka rannsókn með sambærilegum hætti og slíkar nefndir voru skipaðar til að rannsaka aðdraganda og orsakir bankahrunsins, falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs.
Sjá nánar eftirfarandi samantektir:
Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?
Af hverju rannsóknarskýrsla heimilanna?
Fálæti stjórnvalda frá hruni við þeirri sjálfsögðu kröfu af ofbeldið gegn heimilunum verði rannsakað er móðgun við hin raunverulegu fórnarlömb þess. Sérstakur áhugi nýs formanns Sjálfstæðisflokksins á því að rannsaka rannsakendur (en ekki sjálfa gerendurna) er varla til annars fallinn en að strá salti í sár hinna eiginlegu fórnarlamba hrunsins.
![]() |
Ætlar hún að treysta áfram á kerfið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Rangfærslur leiðréttar
18.6.2025 | 00:51
Utanríkisráðuneytið birti í fyrradag svohljóðandi tilkynningu:
Vegna fréttar Morgunblaðsins um bókun 35
Í frétt í Morgunblaðinu í dag er fullyrt að bókun 35 krefjist þess að EES-reglur eigi að ganga framar íslenskum lögum og að það feli í sér framsal fullveldis.
Að gefnu tilefni er það áréttað að hvorki bókun 35 né nokkuð annað ákvæði EES-samningsins felur í sér framsal á löggjafarvaldi Alþingis. EES-reglur fá einungis gildi á Íslandi þegar þær hafa verið leiddar í lög, af Alþingi eða með heimild Alþingis.
Lagafrumvarp utanríkisráðherra snýr að forgangi þeirra EES-reglna, sem Alþingi hefur innleitt, ef til árekstrar kemur gagnvart öðrum lögum sem Alþingi hefur sett. Löggjafarvald Alþingis er eftir sem áður óskorað enda bundið í stjórnarskrá. Frumvarp utanríkisráðherra snýr einungis að því að tryggja borgurum þau réttindi sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að veita og Alþingi jafnframt samþykkt að innleiða.
Jafnframt hefur því verið velt upp í umræðu undanfarna daga hvers vegna það sé núna lagt til að innleiða bókun 35 þegar það eru yfir þrjátíu ár síðan EES-samningurinn tók gildi. Tilefnið er einmitt það að nýleg dæmi hafa sýnt að borgarar eru að fara á mis við réttindi sín og úr því þarf að bæta. Þetta sannaðist í máli unglæknis sem ekki fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og rétt innleidd bókun 35 hefði tryggt henni.
Hér má nálgast upplýsingasíðu utanríkisráðuneytisins um bókun 35.
Við þetta má bæta að í grein Morgunblaðsins var einnig ranghermt að efnisákvæði bókunarinnar sé í beinni mótsögn við aðfararorð hennar, sem kveði á um að löggjafarvaldið skuli ekki framselt. Hið rétta er að engin mótsögn er þar því ákvæðið gerir beinlínis ráð fyrir því að enginn nema löggjafi aðildarríkis, Alþingi í tilviki Íslands, geti sett lagaákvæði þess efnis að EES-reglur skuli gilda. Enda hefur enginn annar löggjafarvald í aðildarríki þar sem með EES samningnum er samningsaðila ekki gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins eins og er áréttað í aðfararorðunum.
Sama dag birtist grein í áskriftarútgáfu Morgunblaðsins eftir Ólaf nokkurn Sigurðsson með fyrirsögninni "Hvaða bókun erum við að samþykkja?". Sá ágæti maður virðist ekki vera fylgjandi málinu sem er kennt við bókun 35. Því miður byrjar greinin þó á villu í sjálfri fyrirsögninnni því "við" erum ekki að "samþykkja" neina bókun. Hið rétta er að EES samningurinn var samþykktur árið 1993 og bókun 35 með honum. Það sem er löngu búið að samþykkja þarf ekki að samþykkja aftur. Það sem er núna til umræðu er aftur á móti frumvarp sem er kennt við þessa bókun en því hefði eftir á að hyggja kannski mátt sleppa þar sem það kann að hafa stuðlað að allskonar ruglingi eins og þessum.
Við nánari lestur greinarinnar kemur einnig í ljós að höfundurinn virðist eiga erfitt með að skilja orðalagsmun á annars vegar samningsákvæði (hinni einu efnisgrein bókunar 35) sem fjallar um setningu forgangsreglu og hins vegar lagalegri útfærslu slíkrar forgangsreglu eins og þeirri sem kemur fram í frumvarpinu sem er til meðferðar á Alþingi. Eins og gefur að skilja er um tvennt ólíkt að ræða, annars vegar samningsákvæði sem mælir fyrir um tiltekið markmið og svo hinsvegar lagaákvæði sem er ætlað til þess að ná því markmiði. Ekkert er óeðlilegt við að markmið og útfærsla séu ekki nákvæmlega eins orðuð.
Greininni lýkur svo á þeirri tillögu höfundar að allir lesi síðustu blaðsíðu greinargerðar með frumvarpinu og hugsi svo málið, en í þeim lokakafla greinarinnar sést því miður að hann virðist ekki sjálfur hafa lesið þann texta sem vísað er til í allri sinni heild.
Þar er vitnað til svohljóðandi setningar í greinargerðinni: "Reglan um forgangsáhrif ESB-réttar byggist á fordæmum dómstóls ESB. Þetta á við um allar reglur landsréttar, þ.m.t. stjórnarskrá aðildarríkis." Af þeirri setningu er svo ranglega dregin sú ályktun að "Löggjafarvaldið víkur fyrir lögum EES/ESB. Framkvæmdarvald ríkisstjórnar með reglugerðum og tilskipunum víkur fyrir EES/ESB. Dómsvaldið byggist á fordæmum dómstóls ESB."
Vandamálið við þetta er að setningin sem er vísað til fjallar alls ekki um neina reglu í EES-rétti heldur forgangsreglu ESB-réttar sem er til staðar í aðildarríkjum ESB vegna þess að innan ESB hafa reglur sambandsins bein lagaáhrif. Engin slík bein lagaáhrif eru í EES-rétti, Ísland er ekki í ESB eins og flestir vita og ekkert af þessu á því við hér á landi.
Greinarhöfundurinn hefði einmitt getað gert sér betur grein fyrir þessu ef hann hefði farið sjálfur að sinni eigin tillögu og lesið alla síðustu blaðsíðu greinargerðarinnar. Sé allur sá texti lesinn í heild útskýrir hann nefnilega vel hið sögulega samhengi sem málið á rætur að rekja til en þar stendur strax í næstu setningu á eftir þeirri sem áður var vitnað til: "EFTA-ríkin gátu ekki fallist á að sambærileg regla myndi felast í EES-samningnum, m.a. þar sem hún var talin fela í sér framsal lagasetningarvalds til alþjóðastofnunar sem ríkin áttu ekki aðild að og var það talið ósamrýmanlegt fullveldi ríkjanna."
Þar höfum við það, í EES rétti er engin þjóðréttarleg regla sambærileg forgangsreglu ESB-réttar, einmitt af þeirri ástæðu að slík regla hefði falið í sér framsal lagasetningarvalds til erlendrar stofnunar sem EES ríkin eiga ekki aðild og slíkt væri ósamrýmanlegt fullveldi ríkjanna. Þess vegna þurfti að eftirláta EES ríkjunum sjálfum sem handhafa eigin fullveldis og lagasetningarvalds að setja í sín eigin lög reglur um forgang þeirra EES reglna sem þau myndu innleiða í sín eigin lög í krafti þess valds síns. Þetta er nákvæmlega það sem er lagt til með hinu umrædda frumvarpi og ekkert annað, beinlínis vegna þess að öðruvísi myndi það ekki samræmast fullveldi Íslands. Þegar Alþingi samþykkir frumvarpið sem lög mun það ekki afsala sér neinu löggjafarvaldi heldur nota það og ekki skerða fullveldi heldur beita fullveldisrétti Lýðveldisins Íslands í framkvæmd.
Af einmitt sömu ástæðum og hér að síðustu voru raktar er aðild Íslands að ESB útilokuð þar sem hún myndi útheimta áðurnefnt framsal lagasetningarvalds til stofnana ESB en það væri ósamrýmanlegt 2. gr. stjórnarskrárinnar sem kveður skýrt á um að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið og engir aðrir.
Svo mörg voru þau orð: 981
![]() |
Um hvað snýst þessi bókun 35? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.7.2025 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár
8.6.2025 | 17:39
Lesandi sendi Smartlandi spurningu um fyrningartíma skattaskuldar. Einhverra hluta vegna er þeirri spurningu ekki beinlínis svarað heldur fjallað um fyrningartíma skattalagabrota. Fyrning refsinga fyrir afbrot er alls ekki það sama og fyrning skulda eða kröfuréttinda.
Hér er því aðeins nákvæmara svar við spurningunni:
Samkvæmt 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. Frá þeirri meginreglu eru svo nokkrar undantekningar um lengri fyrningartíma en engin þeirra á beinlínis við um skattaskuldir.
Í þessu sambandi er þó einnig mikilvægt að hafa í huga eins og er réttilega bent á í svarinu frá lögmanninum að skatturinn getur rofið fyrningu með ýmsum hætti og þá hefst nýr fyrningartími sem er jafn langur hinum upphaflega, nema ef krafa er dæmd eða dómssátt gerð um hana en þá lengist fyrningartíminn í tíu ár.
Sem dæmi um aðgerðir til að rjúfa fyrningu má nefna beiðni til sýslumanns um fjárnám eða nauðungarsölu, kröfu til héraðsdóms um gjaldþrotaskipti, lýsingu kröfu í þrotabú eða söluverð eignar á nauðungarsölu eða höfðun dómsmáls til innheimtu kröfunnar. Einnig getur skuldarinn sjálfur rofið fyrningu með því að viðurkenna kröfuna, til dæmis með loforði eða samkomulagi um greiðslu eða með því að greiða eitthvað af kröfunni.
Enn fremur er rétt að benda á að þegar skatturinn eða hið opinbera gerir kröfu um að haldið sé eftir af launum eða öðrum greiðslum upp í skuld rýfur það ekki fyrningu ef skuldarinn er ekki sjálfur hinn sami og sá sem greiðir inn á kröfuna.
![]() |
Fyrnast skattaskuldir? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.6.2025 kl. 04:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Velkomin staðreynd um bókun 35
8.6.2025 | 01:49
Evrópumál | Breytt 22.7.2025 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Ranghugmynd um (samfélags)banka
19.3.2025 | 21:00
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.4.2025 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Efnislega röng fyrirsögn
6.2.2025 | 00:12
Fjölmiðlar | Breytt 7.2.2025 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Leiga á móti leigu er skattfrjáls
26.1.2025 | 21:30
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðilega hátíð
24.12.2024 | 18:00
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Öxl er ekki hendi í knattspyrnu
3.9.2024 | 00:41
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvar í veröldinni er Katrín Jakobsdóttir?
30.6.2024 | 20:51
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þjóðarsjóður?
29.5.2024 | 21:51
Banna EKKI gistirekstur í íbúðarhúsnæði
4.5.2024 | 00:21
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rafmyntagröftur er ofurtölvuþjónusta
17.4.2024 | 15:49
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.4.2024 kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)