Mál tengt bókun 35 til Hæstaréttar á ný
3.9.2025 | 15:43
Hæstiréttur Íslands hefur samþykkt málskotsbeiðni Önnu Bryndísar Einarsdóttur læknis og heimilað áfrýjun skaðabótamáls hennar gegn íslenska ríkinu beint til Hæstaréttar, fram hjá Landsrétti. Málið er í lögfræðilegum skilningi sprottið af ágreiningi um hvort skuli gilda framar, EES reglur eða séríslensk lög sem stangast á við þær.
Forsaga málsins er sú að Anna Bryndís fluttist til Íslands í september árið 2019 eftir um fjögurra ára dvöl í Danmörku þar sem hún hafði starfað. Hún hóf störf á íslenskum vinnumarkaði í september 2019 og eignaðist barn í mars 2020. Fæðingarorlofssjóður samþykkti eingöngu greiðslur í orlofi vegna vinnu á Íslandi og námu þær 184 þúsund krónum á mánuði miðað við 100% orlof. Anna Bryndís kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti niðurstöðu Fæðingarorlofssjóðs.
Ákvörðunin var í kjölfarið borin undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem staðfesti niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Var þá sótt um leyfi til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar, sem var samþykkt með þeim rökum að dómur í því gæti haft fordæmisgildi, almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna og verulega samfélagslega þýðingu að öðru leyti. Málið var svo flutt 7. febrúar 2024 fyrir fullskipuðum Hæstarétti með sjö dómurum í stað fimm, sem er sjaldgæft og aðeins gert í málum sem eru talin sérstaklega þýðingarmikil.
Dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 24/2023 var kveðinn upp 28. febrúar 2024. Af honum má ráða að engin vafi lék á því að íslensk lög um fæðingarorlof veittu í þessu tilviki lakari réttindi en ef Anna Bryndís hefði dvalið og starfað á Íslandi allan tímann, fyrir þær sakir einar að hún hafði dvalið og starfað í Danmörku þar til skömmu eftir að hún varð ólétt þegar hún flutti heim til Íslands. Þetta stangaðist þó á við lög sem höfðu áður verið sett til þess að innleiða EES samninginn með þeim reglum hann innifelur um frjálsa för launafólks innan EES ásamt reglugerð um samræmingu almannatryggingakerfa.
Þar sem kominn var upp árekstur á milli mismunandi lagabálka (og reglugerðar) þurfti að leysa úr því hvor lögin skyldu ganga framar hinum. Því skal haldið til haga að hér er aðeins um að ræða íslensk lög og reglur enda dæma íslenskir dómstólar eingöngu eftir íslenskum lögum, hvort sem þau eiga rætur að rekja til EES samningsins eða ekki.
Hæstiréttur fjallaði ítarlega í dómi sínum um bókun 35 við EES samninginn en hún mælir fyrir um að í tilvikum sem þessum skuli aðildarríkin tryggja að lög sem innleiða EES reglur gangi framar öðrum lögum sem gera það ekki. Niðurstaða samkvæmt því hefði orðið Önnu Bryndísi í hag og hún átt rétt á óskertum greiðslum í fæðingarorlofi. Aftur á móti hafði slík forgangsregla ekki verið lögfest hér á landi og þess vegna þurfti að dæma málið eftir hinum yngri lögum um fæðingarorlof og staðfesta hina umræddu skerðingu á greiðslum hennar í fæðingarlofi. Þessi ósanngjarna niðurstaða var óhjákvæmileg þar sem íslensk lög innihéldu enga forgangsreglu samkvæmt bókun 35 sem hefði getað leitt til annars.
Þrátt fyrir að íslenska ríkið hefði í öndverðu innleitt reglurnar um frjálsa för launþega réttilega hafði það síðar tekið þær úr sambandi að því leyti sem hér um ræðir og haft þær að engu sem gerði innleiðingu þeirra ófullnægjandi. Þá gildir sú meginregla að þegar EES reglur hafa ekki verið innleiddar með fullnægjandi hætti í íslenskan rétt verður ríkið jafnan skaðabótaskylt fyrir það tjón sem einstaklingar verða fyrir af þeim sökum. Anna Bryndís höfðaði því skaðabótamál gegn íslenska ríkinu 25. janúar 2021 til að sækja sér bætur fyrir skerðinguna að fjárhæð 2.782.238 krónur auk dráttarvaxta.
Brynjar Níelsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóm sinn í málinu 4. júní 2025 og sýknaði íslenska ríkið af kröfu Bryndísar Önnu með þeim rökum einum að hið augljósa brot ríkisins gegn umsömdum réttindum hennar hefði ekki verið nægilega alvarlegt (að mati Brynjars). Anna Bryndís sótti því 1. júlí 2025 um leyfi til að áfrýja þeim dómi beint til Hæstaréttar Íslands og sú beiðni var samþykkt 1. september 2025 (í fyrradag).
Vonandi mun Hæstiréttur Íslands snúa við því mati setts héraðsdómara að það sé léttvægt brot að svipta nýbakaða móður greiðslum í fæðingarorlofi upp á hátt í 3 milljónir króna og skerða þannig möguleika hennar til viðunandi framfærslu og til að geta nýtt þennan mikilvægasta tíma í lífi hvers barns til áhyggjulausra samvista með því. Engu að síður býr að baki gríðarlega kostnaðarsöm sex ára löng þrautaganga sem er engu nýbökuðu foreldri óskandi. Jafnframt situr íslenska ríkið uppi með þá skömm að hafa komið svo snautlega fram sem raun ber vitni við sína eigin ríkisborgara því málið er ekki einsdæmi.
Hjá allri þessari sneypu hefði auðveldlega mátt komast ef íslenska ríkið hefði einfaldlega gætt að því að uppfylla skyldur sínar til að innleiða réttilega þær EES reglur sem um ræðir, í stað þess að aftengja þær, til tjóns fyrir Íslendinga sem sækja sér nám og starfsreynslu í nágrannaríkjum, flytja þá þekkingu og reynslu með sér aftur heim til Íslands og bera með sér undir belti nýja ríkisborgara og verðandi skattgreiðendur, landi og þjóð til heilla.
![]() |
Fæðingarorlofsmál beint upp í Hæstarétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 4.9.2025 kl. 11:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Hverjir hafa verðbólguvæntingar?
19.8.2025 | 19:17
Þegar vextir eru hækkaðir eða þeim haldið háum er ástæðan fyrir því oft sögð vera miklar "verðbólguvæntingar" en mælingar á þeim væntingum eru gerðar með skoðanakönnunum. Það hlýtur því að vera rannsóknarefni hvers vegna í veröldinni þau sem verða fyrir svörum í slíkum könnum gera sér yfir höfuð væntingar um verðbólgu.
Skilja þau ekki orsakasamhengið á milli svara sinna og vaxtaákvarðana? Kannski þarf að koma þeim í skilning um að þau verði að láta af þeirri sjálfsskaðandi hegðun að segjast hafa væntingar um verðbólgu og kalla með því yfir sig háa vexti.
Sjálfur hef ég aldrei verið beðinn um að taka þátt í könnun á verðbólguvæntingum en þegar þar að kemur er svarið löngu ákveðið: Ég hef væntingar um enga verðbólgu og komið því vinsamlegast skilmerkilega á framfæri við peningastefnunefnd Seðlabankans!
![]() |
Sér ekki fram á lækkun vaxta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Aðildarumsókn Schrödingers
26.7.2025 | 17:07
Þrátt fyrir að starfsfólk Evrópusambandsins hafi staðfest afturköllun ólögmætrar umsóknar Íslands um aðild að sambandinu frá árinu 2009 í samskiptum við undirritaðan árið 2015, halda talsmenn sambandsins því núna fram að umsóknin hafi aldrei verið "formlega" dregin til baka og sé enn í gildi. Þess má geta að umrædd tölvupóstsamskipti hafa verið varðveitt enda eru þau mikilvæg sönnunargögn um réttar og sögulegar staðreyndir.
Samt mætti halda að umsóknin sé í einhverskonar skammtafræðilegri tvístöðu líkt og hinn ímyndaði köttur Schrödingers þar sem hún er samtímis bæði afturkölluð og enn í gildi.
Kannski er það kaldhæðnislegt að í hinni ímynduðu tilraun Erwin Schrödinger kemur ekki í ljós hvort kötturinn er dauður eða lifandi fyrr en "kíkt er í kassann". Það svipar til þeirrar kenningar að einungis aðildarviðræður við Evrópusambandið geti leitt í ljós aðildarsamning sem taka megi afstöðu til en það hefur verið kallað að "kíkja í pakkann".
Ólíkt lokaða kassanum í hugarsmíðaðri tilraun Schrödingers er þó ekki neinn lokaður pakki sem þarf að "opna" með aðildarviðræðum svo hægt sé að komast að hinu rétta um skilmála hugsanlegrar aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
Sáttmálarnir um Evrópusambandið og starfshætti þess sem mynda svokallaðan Lissabon-sáttmála voru undirritaðir af aðildarríkjum sambandsins 13. desember 2007 og tóku gildi 1. desember 2009. Síðan þá hefur aðild Evrópusambandinu verið háð því skilyrði að ríki sem sækja um aðild undirgangist hann og enginn annar aðildarsamningur stendur til boða.
Íslensk þýðing Lissabon-sáttmálans var gefin út árið 2012 þegar Ísland var í svokölluðum aðildarviðræðum við Evrópusambandið sem lauk árið 2013. Síðan þá hefur sá pakki staðið öllum opinn sem vilja kíkja í hann og taka afstöðu til hans.
Við lestur þessa aðildarsamnings (sáttmálans) kemur í ljós að í honum er gerð ófrávíkjanleg krafa um framsal ríkisvalds til stofnana Evrópusambandsins, en það samræmist ekki 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þess vegna er eina mögulega afstaðan til hugmynda um aðild Íslands að Evrópusambandinu sú að hún komi ekki til greina.
Ekki þarf að halda neina ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta því það getur engu breytt um hvað stendur skýrum orðum í stjórnarskránni. Auk þess hafa verið haldnar tvær bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur árin 2010 og 2011 á grundvelli 26. gr. stjórnarskrár og í þeim báðum höfnuðu íslenskir kjósendur með afgerandi hætti órjúfanlegum hluta aðildar að Evrópusambandinu: ríkisábyrgð á innstæðutryggingum.
Í kjölfarið var höfðað mál gegn Íslandi fyrir EFTA-dómstólnum þar sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins var meðal nokkurra gagnaðila en tapaði málinu og Ísland hafði betur. Þrátt fyrir bindandi dóminn hefur Evrópusambandið aldrei viðurkennt niðurstöðu hans heldur virt hann að vettugi allar götur síðan með því að krefja öll aðildarríki sín um að undirgangast ríkisábyrgð á innstæðutrygginum.
Fulltrúar Íslands í sameiginlegu EES nefndinni hafa aftur á móti framfylgt vilja kjósenda ásamt niðurstöðu EFTA-dómstólsins með andstöðu gegn því að slík ríkisábyrgð verði tekin upp í EES-samninginn. Um leið er það lifandi sönnun þess að ólíkt því sem stundum hefur verið haldið fram er neitunarvald Íslands í EES samstarfinu raunverulegt og það hefur verið notað. Innan Evrópusambandsins eiga aðildarríki þess engra slíkra kosta völ.
Staðreyndir málsins í hnotskurn:
- Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu frá árinu 2009 var dregin til baka árið 2015 og sönnunargögn um það liggja fyrir.
- Aðildarsamningurinn liggur fyrir og hver sem vill getur kíkt í þann pakka.
- Stjórnarskráin leyfir lýðveldinu Íslandi ekki að undirgangast aðildarsamninginn.
- Íslenskir kjósendur höfnuðu ófrjúfanlegum hluta aðildar að Evrópusambandinu í tveimur bindandi þjóðaratkvæðagreiðslum árin 2010 og 2011.
- Íslenskum stjórnvöldum er hvorki heimilt að ganga gegn stjórnarskrá né bindandi niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslna á grundvelli hennar.
- Hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu er því útilokuð og málið útkljáð.
Íslenskir kjósendur verða réttilega að ætlast til þess að ríkisstjórnin virði stjórnarskránna og þann vilja þeirra sem var látinn í ljós með bindandi hætti í tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum með því að láta af öllum áformum um að efna í heimildarleysi til þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja enn á ný tilgangslausar aðildarviðræður við Evrópusambandið.
![]() |
Aldrei formlega dregin til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt 27.7.2025 kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Utanríkisráðherra, Ursula og vonda lygin
22.7.2025 | 00:27
Utanríkisráðherra heldur því fram að umsókn Íslands að Evrópusambandinu frá árinu 2009 hafi aldrei verið formlega dregin til baka. Þar vitnar hún til orða Ursulu von der Leyen og mögulega líka talsmanns stækkunarstjóra sambandsins, sem hafa bæði sagst líta svo á að sú umsókn sé enn í gildi, en tilvitnun í rangar staðhæfingar er jafn röng og uppruninn.
Ég hef nefnilega skrifleg sönnunargögn fyrir hinu gagnstæða frá Evrópusambandinu sjálfu, sem má heyra nánar um hér á 4:19: Símatími - Útvarp - Vísir (16.1.2025)
Auk þess var þessi gamla umsókn aldrei gild í upphafi.
Meira um það má heyra hér á 0:45: Símatími - Útvarp - Vísir (18.7.2025)
![]() |
Umsóknin var aldrei formlega dregin til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Hvað með rannsókn á aðförinni að heimilunum?
1.7.2025 | 20:43
Flest sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins hefur verið rækilega rannsakað. Fyrir um tveimur mánuðum hóf RÚV að greina frá umfangsmiklum stuldi og leka á gögnum frá tilteknu embætti sem stóð að sumum þeirra rannsókna. Allar götur síðan hefur nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins lamið höfði við stein og heimtað í sífellu rannsókn á þessum rannsakendum, sem rannsökuðu þrátt fyrir allt ekki neitt sem leiddi af hruninu.
Það sem gerðist í eftirmálum hrunsins, aðförin sem var gerð að heimilum landsins sem báru enga ábyrgð á hruninu, hefur aldrei verið rannsökuð. Tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins lýtur á engan hátt að því að bæta úr þessum skorti á rannsókn eftirmála hrunsins því hún snýst eingöngu um rannsókn á rannsóknum á atburðum í aðdraganda hrunsins sem hafa þegar verið rannsakaðir. Hver vegna ekki þeim ósköpum sem á eftir því fylgdu?
Orsakir hrunsins og flest sem hafði áhrif í aðdraganda þess hefur verið rækilega rannsakað, en þær hamfarir sem voru látnir dynja á heimilum landsins í kjölfar þess og endurreisnar bankanna hafa aldrei verið rannsakaðar. Þess vegna hafa Hagsmunasamtök heimilanna barist fyrir því árum saman að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis til að framkvæma slíka rannsókn með sambærilegum hætti og slíkar nefndir voru skipaðar til að rannsaka aðdraganda og orsakir bankahrunsins, falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs.
Sjá nánar eftirfarandi samantektir:
Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?
Af hverju rannsóknarskýrsla heimilanna?
Fálæti stjórnvalda frá hruni við þeirri sjálfsögðu kröfu af ofbeldið gegn heimilunum verði rannsakað er móðgun við hin raunverulegu fórnarlömb þess. Sérstakur áhugi nýs formanns Sjálfstæðisflokksins á því að rannsaka rannsakendur (en ekki sjálfa gerendurna) er varla til annars fallinn en að strá salti í sár hinna eiginlegu fórnarlamba hrunsins.
![]() |
Ætlar hún að treysta áfram á kerfið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Rangfærslur leiðréttar
18.6.2025 | 00:51
Viðskipti og fjármál | Breytt 12.7.2025 kl. 01:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár
8.6.2025 | 17:39
Viðskipti og fjármál | Breytt 14.6.2025 kl. 04:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Velkomin staðreynd um bókun 35
8.6.2025 | 01:49
Evrópumál | Breytt 22.7.2025 kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
Ranghugmynd um (samfélags)banka
19.3.2025 | 21:00
Viðskipti og fjármál | Breytt 1.4.2025 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Efnislega röng fyrirsögn
6.2.2025 | 00:12
Fjölmiðlar | Breytt 7.2.2025 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Leiga á móti leigu er skattfrjáls
26.1.2025 | 21:30
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðilega hátíð
24.12.2024 | 18:00
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Öxl er ekki hendi í knattspyrnu
3.9.2024 | 00:41
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvar í veröldinni er Katrín Jakobsdóttir?
30.6.2024 | 20:51
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þjóðarsjóður?
29.5.2024 | 21:51