Efnislega röng fyrirsögn
6.2.2025 | 00:12
Fyrirsögn viðtengdrar fréttar er efnislega röng.
("Sekt fyrir barnakynlífsdúkkur: Kallaði sjálfur til lögreglu")
Reifun niðurstöðu málsins á vef héraðsdóms er svohljóðandi:
Karlmaður var sakfelldur fyrir framleiðslu, öflun og vörslur á þremur ljósmyndum sem sýndu annars vegar tölvugert "barn" og hins vegar raunverulegt barn á kynferðislegan hátt og gerð 100.000 króna fésektarrefsing. Ákærði var á hinn bóginn sýknaður af stærstum hluta sakarefnis, sem laut að myndatöku af kynlífsdúkkum.
Með öðrum orðum var ákærða ekki gerð nein sekt fyrir svokallaðar "barnakynlífsdúkkur" eins og er ranglega fullyrt í fyrirsögninni. Hann var ekki einu sinni ákærður fyrir dúkkurnar sjálfar eða eins og er vitnað í forsendur dómsins í fréttinni sjálfri:
Þykir í því sambandi rétt að árétta að málsókn ákæruvaldsins er hvorki á því reist að ákærða hafi verið óheimilt að flytja minni kynlífsdúkkurnar tvær til Íslands né heldur að honum sé eða hafi verið óheimilt að hafa kynferðislegt samneyti við þær að vild á eigin heimili.
Þannig lýtur meint, refsiverð háttsemi samkvæmt 1. og 2. ákærulið eingöngu að því að ákærða hafi verið óheimilt að framleiða og hafa í sínum vörslum ljósmyndir sem sýna dúkkurnar tvær á kynferðislegan hátt. ..."
Með öðrum orðum var maðurinn eingöngu ákærður fyrir að taka og varðveita ljósmyndir af þessum tilteknu dúkkum sem sýndu þær á kynferðislegan hátt, en dómurinn sýknaði hann af því eins og er einnig vikið að í fréttinni sbr. eftirfarandi hluta af forsendum dómsins:
"...er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi hvorki mátt vita né getað séð fyrir með einhverri vissu að það varði refsingu samkvæmt 4. mgr. 210. gr. a. að taka og hafa í vörslum þær ljósmyndir sem ákært er fyrir í 1. og 2. tölulið ákæru. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af þeim ákæruliðum."
Það sem ákærði vær dæmdur sekur fyrir hafði ekkert með dúkkurnar að gera, heldur þrjár ljósmyndir sem fundust á tölvu hans. Tvær þeirra sýndu "barnungu" gervigreindarstúlkuna Lolita á kynferðislegan hátt (að mati dómsins) og ein þeirra sýndi höfuð á ungri stúlku, augljóslega undir 18 ára aldri (að mati dómsins) við kynferðislegar athafnir.
Þetta er vissulega skringilegt og að hluta til ógeðfellt mál, ekki síst vegna hins raunverulega barnakláms. Það gerir aftur á móti lítið úr alvarleika þess að því sé ranglega slegið upp sem smellubeitu eða einhverskonar gríni í fyrirsögninni að ákærði hafi verið sektaður fyrir "barnakynlífsdúkkur" þegar það á sér enga stoð í staðreyndum málsins.
Hvað þann hluta málsins varðar er niðurstaða dómsins sú að það er ekkert ólöglegt við að eiga kynlífsdúkkur og hafa þær til einkanota, ekki frekar en önnur kynlífshjálpartæki.
Svo má þess líka geta að seinni hluti fyrirsagnarinnar er einnig villandi þar sem hann setur það ranglega í samhengi við kynlífsdúkkurnar að ákærði hafi sjálfur kallað til lögreglu. Það hafði ekkert með dúkkurnar að gera heldur hafði hann hringt í lögreglu og tilkynnt um mögulegt innbrot í íbúð sína vegna þess að öryggiskerfi hafði farið í gang og hann óttaðist að einhver væri þar inni.
Lögregla kom á staðinn og sá hvernig var umhorfs en aðhafðist ekkert frekar þar sem íbúðin reyndist mannlaus. Það var ekki fyrr en lögregluþjónarnir komu aftur á lögreglustöð og tilkynntu um aðstæður á heimili ákærða sem þeir voru sendir aftur á staðinn til að handtaka hann fyrir "barnakynlífsdúkkurnar" sem hann var svo að endingu sýknaður af því að hafa brotið nokkuð af sér með.
Við húsleit í kjölfarið var tölva ákærða haldlögð og á henni fundust myndirnar þrjár sem honum var að endingu gerð sekt fyrir. Fram að því hafði engan grunað hann um annað en að eiga dúkkur sem reyndust löglegar og má því segja að hið raunverulega saknæma efni hafi uppgötvast fyrir tilviljun.
![]() |
Sekt fyrir barnakynlífsdúkkur: Kallaði sjálfur til lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt 7.2.2025 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Leiga á móti leigu er skattfrjáls
26.1.2025 | 21:30
Í viðtengdri grein er svarað spurningu frá lífeyrisþega sem fer erlendis á veturna og spyr hvort hann geti leigt íbúðina sína út á meðan án þess að fá skerðingar?
Eins og er réttilega bent á í svarinu teljast leigutekjur til fjármagnstekna og sem slíkar skerða þær því bætur almannatrygginga (en ekki greiðslur frá lífeyrissjóðum). Aftur á móti er skattur á slíkar tekjur mun lægri (11% með 300.000 kr. frítekjumarki) en launaskatturinn sem er lagður á bæturnar (um 37%) og þess vegna borgar sig líklega fyrir viðkomandi að leigja íbúðina út þrátt fyrir skerðingu bóta.
Við þetta má svo bæta að ef maður hefur tekjur af útleigu íbúðarhúsnæði sem hann hafði til eigin nota og sem fellur undir húsaleigulög og greiðir á sama tíma leigugjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, er heimilt að draga leigugjöldin frá leigutekjum. Þetta er kallað "leiga á móti leigu".
Ef fyrirspyrjandinn leigir húsnæði erlendis á meðan hann dvelst þar á veturna gæti hann því dregið þær leigugreiðslur frá leigutekjum af íbúð hans á Íslandi og þannig lækkað skattgreiðslur sínar enn meira. Ef leigan erlendis er jafn há eða hærri en leigutekjurnar af íbúðinni á Íslandi gæti hann jafnvel ekki þurft að greiða neinn skatt af leigutekjunum.
Frádráttur vegna leigu erlendis reiknast miðað við meðalkaupgengi á leigutímanum.
Sjá nánar hér: Leigutekjur | Skatturinn - skattar og gjöld
![]() |
Má lífeyrisþegi leigja út íbúðina án þess að tekjur skerðist? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gleðilega hátíð
24.12.2024 | 18:00
Ég sendi öllum mínum ættingjum, vinum, og samstarfsfólki hugheilar hátíðakveðjur ásamt þökkum fyrir ánægjulega samveru og samskipti á þessu ári sem er að líða, með óskum um farsælt komandi ár. Ég þakka einnig öðrum hér á blogginu fyrir öll gagnleg og skemmtileg skoðanaskipti sem halda vonandi málefnalega áfram á nýju ári.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Öxl er ekki hendi í knattspyrnu
3.9.2024 | 00:41
Viðtengd frétt fjallar um athyglisvert mál sem kom í sumar til kasta úrskurðarnefndar vátryggingarmála þar sem var deilt um hvort öxl manns teldist vera hluti handleggsins og þar með útlimur eða hluti af búknum. Eins og háttaði til í málinu hefði trygging mannsins nefnilega aðeins bætt fyrir meiðsli á útlim en ekki búk.
Segja má að viss klofningur hafi orðið í málinu. Ekki innan nefndarinnar heldur í skilningi hennar á sjálfri öxlinni. Nefndinni tókst nefnilega einhvern veginn að kljúfa öxlina í tvo hluta og líta svo á að annar þeirra tilheyrði búknum en hinn handleggnum.
Niðurstaðan varð þó hinum slasaða í hag þar hann hafði einmitt hlotið meiðsli á þeim hluta axlarinnar sem nefndin taldi vera hluta af handleggnum en ekki búknum og honum voru því úrskurðaðar bætur fyrir meiðsli á útlim.
Bótaréttur vegna líkamstjóns er eitt en knattspyrna er annað og þar eru reglurnar um hendi nokkuð skýrar: Handleggurinn byrjar þar sem ermin á leikbúningnum endar sem er klárlega fyrir neðan öxlina. Það er því ekki leikbrot að snerta knöttinn með öxl.
Aftur á móti hafa oft komið upp tilvik þar sem knötturinn hefur lent í upphandleggsvöðva leikmanns og á honum miðjum endar einmitt skyrtuermin (hjá flestum).
Ég vona því að enginn knattspyrnudómari muni lesa þennan úrskurð og fara svo að reyna að sundurliða upphandleggsvöðva leikmanna!
![]() |
Tilheyrir öxlin handleggnum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 00:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvar í veröldinni er Katrín Jakobsdóttir?
30.6.2024 | 20:51
Í flokknum "ferðalög" á mbl.is birtist í dag mannlífspistillinn: Katrín í útlöndum
Þar er greint frá því að Katrín Jakobsdóttir fyrrverandi forsætisráðherra sé stödd í útlöndum ef marka má mynd sem hún deildi af sér og vinkonum sínum á Instagram. Upphaflega var sagt í pistlinum að þær virtust vera í evrópskri borg en að öðru leyti óljóst hvar þær væru nákvæmlega staddar á myndinni. (Seinna var heiti borgarinnar svo bætt við textann.)
Katrín Jakobsdóttir, Bergþóra Benediktsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Katrínar, Anna Lísa Björnsdóttir aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar og Lára Björg Björnsdóttir fyrrverandi aðstoðarmaður Katrínar
Þar sem höfundur er áhugamaður um landafræði og hefur gaman af myndagátum var hér komin upp skemmtileg gestaþraut: að finna út hvar myndin var tekin.
Höskuldarviðvörun: þeim sem vilja spreyta sig sjálf er ráðlagt að lesa ekki lengra.
Fyrst var athugað hvort að skráin með myndinni innihéldi upplýsingar um staðsetningu eins og flestir snjallsímar vista ef kveikt er á GPS staðsetningarbúnaði. Gátan var þó ekki svo auðleyst því myndin á mbl.is reyndist vera skjáskot en ekki sjálf frummyndin.
Næsta skref var þá að rýna í götumyndina og reyna að bera kennsl á einhver kennileiti. Byggingarstíll eldri húsa við götuna gaf strax ákveðna skírskotun til frönskumælandi hluta Evrópu. Ekki síst umbúnaður í kringum "frönsku" svalirnar á annarri hæð byggingarinnar á götuhorninu fyrir aftan þær vinkonur.
Mest áberandi kennileitið er samt háhýsið sem sést í bakgrunni við enda götunnar. Það minnti strax á Montparnasse turninn sem er hæsta bygging Parísar og var reyndar hæsta bygging Frakklands þegar hún var reist. Það vill svo til að höfundur hefur heimsótt þá byggingu en á efstu hæð hennar er útsýnispallur hvaðan sést vel til allra átta yfir borgina. Smá leit á netinu staðfesti þetta fyrsta hugboð sem þrengdi strax leitina talsvert.
Með því að klippa út efri hluta myndarinnar þar sem sést í byggingarnar í kring og keyra hana þannig breytta inn í myndaleitarvél Google leiddi það slóðina að fasteignafélaginu Vastned en á heimasíðu þess má finna mynd sem virðist vera tekin á nákvæmlega sama götuhorninu. Fyrirtækið er til húsa við götuna Rue Rivoli í París en hún er ekki í nágrenni við Montparnasse heldur í öðru hverfi handan árinnar Signu. Á stuttu rápi um þá götu á Google Street View fannst ekkert götuhorn sem líktist þessu og slóðin kulnaði.
Eftir allt saman reyndist þó besta vísbendingin leynast í vefslóðinni fnac.com sem glittir í á auglýsingaskilti fyrir ofan búðarglugga hægra megin á myndinni. Með smá leit á netinu kom fljótt í ljós að um er að ræða verslanakeðju sem selur afþreyingarefni og raftæki og svipar að því leyti nokkuð til ELKO. Nokkrar verslanir í þeirri keðju eru víðsvegar um París en ein þeirra í nágrenni við Montparnasse, nánar til tekið í húsi númer 136 við götuna Rue de Rennes á horninu við götuna Rue Blaise Desgoffe. Á jarðhæðinni í hornhúsinu númer 140 með frönsku svölunum handan við Rue Blaise Desgoffe, beint fyrir aftan þær vinkonur á myndinni, er ein af mörgum verslunum tískukeðjunnar Zara.
Með hjálp Google Street View var fljótlegt að sannreyna að myndin af þeim vinkonum var einmitt tekin þarna, eins og má sjá með því að smella hér.
Katrín Jakobsdóttir á það sameiginlegt með Carmen Sandiego að með því að rekja sig eftir vísbendingum og kennileitum er hægt að komast að því hvar hún er niður komin.
Rue de Rennes 140, París, Frakklandi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þjóðarsjóður?
29.5.2024 | 21:51
Banna EKKI gistirekstur í íbúðarhúsnæði
4.5.2024 | 00:21
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Rafmyntagröftur er ofurtölvuþjónusta
17.4.2024 | 15:49
Viðskipti og fjármál | Breytt 18.4.2024 kl. 22:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fleiri réttindi eru í stjórnarskrá en eignarréttur
23.3.2024 | 00:30
Viðskipti og fjármál | Breytt 4.5.2024 kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimildir lífeyrissjóða til að fjármagna leiguíbúðir
10.3.2024 | 21:58
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Hunsa þunga fjárhagsstöðu (allra hinna) heimilanna
20.10.2023 | 17:05
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Verðbólguhvetjandi vaxtahækkanir
29.9.2023 | 15:59
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Meintar "vinsældir" verðtryggðra lána
5.4.2023 | 17:14
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Lækkið þá vextina!
8.2.2023 | 22:08
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Til hamingju með daginn!
28.1.2023 | 20:05
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)