Táknrænir atburðir á ögurstundu fyrir Ísland

Valhöll á Þingvöllum er nú rústir einar eftir stórbruna og ekki laust við að mér sé sorg í brjósti. Það er svo margt ótrúlega táknrænt við þennan atburð, bæði staðsetningin og ekki síst tímasetningin. Á meðan þetta gerist er verið að ræða í þingsölum að framselja fullveldi Íslands (aftur) í hendur erlends yfirvalds, ásamt því að gera okkur öll að skuldaþrælum vegna fjárglæfra örfárra einstaklinga. Réttlát reiði fólks vegna yfirstandandi samfélagshruns og alls þess óréttlætis sem þrifist hefur í þjóðfélaginu að undanförnu kraumar undir og raunverulegur möguleiki er á að þeirri friðsæld sem lengi hefur einkennt þjóðlífið sé ógnað.

Þetta gerist líka nákvæmlega 39 árum eftir að Bjarni Benediktsson þáverandi forsætisráðherra fórst ásamt konu sinni og dóttursyni í eldsvoða, næstum því á sama blettinum. Bjarni var ötull talsmaður sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar, en það var á þeim tíma sem flokkur hans stóð ennþá undir nafni. Hjátrúarfullir myndu jafnvel segja að þetta væri illur fyrirboði. Ef við setjum þetta svo í samhengi við þær óvenjulega miklu jarðhræringar sem verið hafa á landinu undanfarið, þá er engu líkara en að landvættirnar séu að reyna að senda okkur skilaboð. Það eina sem vantar núna til að kóróna þetta væri eldgos, og ekki einhver smáspýja heldur alvöru eldsumbrot. (Þær systur Katla og Hekla eru t.d. báðar komnar á steypirinn!)

Ég er ekki mjög trúaður á hindurvitni en vil samt líta svo á að tengsl milli atburða séu oftar en ekki meiri en þau líta út fyrir að vera á yfirborðinu. Ekki að það sé endilega alltaf eitthvað yfirnáttúrulegt, heldur er þekking okkar á hinum ýmsu náttúrulögmálum bara svo óskaplega takmörkuð þrátt fyrir allt. Þegar svona ber undir læðist óhjákvæmilega hrollur niður bakið á manni.

Er ekki kominn tími fyrir íslenska þjóð að vakna og segja að nú sé nóg komið! ?

---

Á Vísindavef Háskóla Íslands er fjallað um Ragnarök og þykir mér nærtækt að vitna í það, nú þegar sjálf Valhöll er brunnin:

Að nokkrum hluta má líta á þær sögur af guðum og mönnum sem sagðar eru í kvæðunum í Konungsbók sem útfærslu á þeirri hugmynd að eftirsókn eftir gulli og völdum hafi ógurlegar afleiðingar. „Bræður munu berjast og að bönum verða, munu systrungar sifjum spilla, hart er í heimi, hórdómur mikill, skeggöld, skálmöld, skildir eru klofnir, vindöld, vargöld, áður veröld steypist mun engi maður öðrum þyrma“, hvort sem er í goðheimi eða mannheimi.

Hugmyndin um áhrif gullsins og græðginnar í mannheimi er síðan nánar útfærð í hetjukvæðunum í Konungsbók. Þar er sagt frá gullinu af Gnitaheiði sem Sigurður fáfnisbani komst yfir með því að drepa drekann Fáfni. Gullið kallaði mikla bölvun yfir Sigurð og fjölskyldu hans alla eins og Guðrún, ekkja hans, lýsir í síðasta kvæði bókarinnar, Hamdismálum: „Einstæð em eg orðin sem ösp í holti, fallin að frændum sem fura að kvisti“. Í lífi fjölskyldunnar hafa því orðið þau ragnarök sem Völuspá lýsir þótt hinn ytri heimur hafi ekki farist með sama hætti og í goðsögunni.

mbl.is Ekkert stendur eftir í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikta E

Þetta er ekki fyrirboði - Þetta er AÐVÖRUN og ákall til þjóðarinnar að láta til sín taka -  eins og þú segir -

Við erum ekki ein á ferð!

Bænin er máttug - hana eigum við alltaf.

Góður og gagnlegur pistill hjá þér Guðmundur.

Benedikta E, 11.7.2009 kl. 16:38

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Þakka þér Benedikta. Ef það er eitthvað til sem heitir fyrirboði þá held ég að slíkt geti einmitt falið í sér aðvörun.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.7.2009 kl. 17:34

3 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

EN „hverju reiddust goðin er hraun það rann sem við nú stöndum á“ - eða þegar ráðherrabústaðurinn brann við hlið Valhallar sama dag fyrir 39 árum og inni brunnu forsætisráðherra, kona hans og barnabarn?

Helgi Jóhann Hauksson, 11.7.2009 kl. 17:45

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Helgi, ég á ekkert gott svar við því. Líklega (vonandi!) eru þessir eldsvoðar ekki annað en slys. Það er hinsvegar tímasetningin sem mér þykir merkileg.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.7.2009 kl. 18:19

5 Smámynd: Viðar Eggertsson

Já goðin reiddust þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Frmsóknarflokkurinn einkavæddu bankana til manna sem settu síðan þjóðina á hausinn. Spillingaröflin innan þessara flokka eru enn að eins og lesa má um og heyra í fréttum daglega. Þjóðin er logandi reið og það eru goðin líka... Þarf frekari vitnana við?

Viðar Eggertsson, 11.7.2009 kl. 21:32

6 Smámynd: Viðar Eggertsson

Þetta er ákall um alvöru siðaskipti - þess vegna gerist þetta á þeim táknræna stað Þingvöllum....

Viðar Eggertsson, 11.7.2009 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband