Skilar mjög takmörkuðum árangri
12.6.2009 | 09:07
Lokun sem íslensk fjarskiptafyrirtæki hafa sett á ákveðna síðu sem nefnd er í fréttinni er máttlaus tilraun til ritskoðunar og fyrirfram dæmd til að mistakast. Síðan er eftir sem áður aðgengileg gegnum erlenda milliliði (web proxy) sem kostar ekki neitt og er tiltölulega þægilegt í notkun. Ég veit svosem ekki nákvæmlega hvað er verið að reyna að girða fyrir, og er alls ekki að verja það að menn stundi lögbrot í netheimum ef það er málið. Ef þessi síða innihélt eitthvað ólöglegt hvort sem það er barnaklám eða persónulegar ofsóknir á hendur einstaklingum, þá á að sjálfsögðu að hafa upp á viðkomandi afbrotamönnum og sækja þá til saka með þeim úrræðum sem þegar eru til staðar í lögum. Það að reyna að fela svona lagað er engin lausn frekar en t.d. "stríðið gegn fíkniefnum", sem leiðir bara til þess að vafasöm starfsemi færist neðanjarðar og verður bæði harðsvíraðri og illrekjanlegri fyrir vikið. Það er í raun bara verið að búa til hvata fyrir notendur "þjónustunnar" til að koma sér upp leiðum framhjá hindruninni, sbr. smygl á ólöglegum varningu. Svona breiðvirk og einföld lokun skilar í raun voðalega litlum árangri sé mönnum alvara að taka á vandanum, og ber fyrst og fremst vott um takmarkaðan skilning yfirvalda á eðli þess vanda sem þau eru að fást við í svona tilvikum.
Svo tekið sé hliðstætt dæmi, ef við ímyndum okkur að í Pennanum væru seld blöð með barnaklámi, þá myndi þýða voða lítið að láta loka Pennanum ef sömu blöð væru svo fáanleg á bensínstöðvum. Barnaperrar myndu þá bara versla sitt klám þar í staðinn og Pennin yrði fyrir rekstrartapi á annari löglegri starfsemi sinni. Ef bensínstöðvunum yrði svo lokað, þá myndu bara einhverjir glæpamenn sjá sér hag í því að selja klámið á svörtum markaði, en almennir neytendur sætu hinsvegar uppi með mjög skerta þjónustu hvað varðar löglega hlið starfseminnar. Nákvæmlega sömu lögmál gilda um flestar vörur sem eru ólöglegar en þó eftirsóttar af einhverjum hópi fólks, og vímuefni eru þar nærtækasta dæmið sem margir þekkja.
Ekki á stefnuskránni að hefja ritskoðun á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 09:09 | Facebook
Athugasemdir
Nákvæmlega, og eykur þar með á vandann ef eitthvað er, í stað þess að ráðast að rótum hans.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.6.2009 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.