Búsáhaldabyltingin: áréttað af gefnu tilefni
12.4.2009 | 14:17
Enn virðist gæta nokkurs misskilnings varðandi mótmælaaðgerðir gegn yfirvöldum í vetur og Búsáhaldabyltinguna svokölluðu, en sumir hafa haldið því fram að atburðarásin hafi verið skipulögð og beinlínis fjármögnuð úr herbúðum ungliðahreyfingar tiltekins stjórnmálaflokks. Slík ummæli dæma sig auðvitað sjálf eins og hverjar aðrar samsæriskenningar, þó svo að eflaust hafi margir úr þeim flokki mætt á mótmælin. Sá fjöldi sem tók þátt í mótmælunum hljóp eflaust á tugum þúsunda ef allt er talið og mest voru vel yfir 10.000 manns mættir á sama stað á sama tíma. Ég efast um að neinn stjórnmálaflokkur búi yfir svo fjölmennri ungliðahreyfingu sem hann gæti beitt sem fótgönguliðum í skipulagðri byltingu, nema kannski einna helst SUS ef því er að skipta. Ef hinsvegar VG væri raunverulega svo fjölmenn og öflug hreyfing sem af er látið þá hefðu þau alls ekki þurft byltingu til að komast til valda. Lýðræðislegar kosningar hefðu dugað til þess.
Það er aftur á móti brjóstumkennanlegt hvernig sumir hafa bitið þessa kenningu í sig, ekki síst bitrir Sjálfstæðismenn sem sjá eftir valdataumunum. Fara þar einna fremstir í flokki Sturla Böðvarsson og Björn Bjarnason, sem kyrja þetta við hvert einasta tækifæri af fullkomnu ofsóknarbrjálæði. Vekur það vissulega áhyggjur að svo skuli vera komið fyrir fyrrverandi þingforseta og dómsmálaráðherra, en þeir voru reyndar byrjaðir að sýna þess merki fyrir löngu síðan að vera ekki í snertingu við raunveruleikann. Ég vil samt senda þeim heilshugar samúðarkveðjur, því ég veit það af eigin reynslu hversu erfitt getur verið að fást við geðrænan sjúkleika, sem gjarnan bitnar hvað verst á fjölskyldu viðkomandi og nánustu aðstandendum. Til þess að leiðrétta þessa ranghugmynd í eitt skipti fyrir öll langar mig hinsvegar að deila með lesendum mínu persónulega sjónarhorni á mótmælin í vetur og byltinguna í kjölfarið.
Ég mætti sjálfur af eigin frumkvæði á fyrsta mótmælafundinn sem var boðaður opinberlega í haust, á Arnarhóli við Seðlabankann, sama dag og ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum, sem ég hafði verið skráður í frá því ég fékk kosningarétt. Örfáum helgum áður stóð ég reyndar á Austurvelli þegar Alþingi var sett, ásamt nokkrum mönnum sem voru að mótmæla kvótakerfinu, en ég sá engan annan sem var þar beinlínis vegna atburðanna í tengslum við fjármálakerfið. Þess vegna mætti með góðum vilja halda því fram að ég hafi verið einna fyrstur til að mæta á Austurvöll síðasta haust beinlínis í því skyni að mótmæla vegna efnahagshrunsins, þó ég hafi ekki eignað mér þann heiður sérstaklega. Síðan þá mætti ég á fjölmarga útifundi og tók líka þátt í mótmælum við Alþingishúsið að kvöldi byltingarinnar, en þar mátti sjá allskonar fólk úr ýmsum áttum.
Það hefur hinsvegar enginn úr ungliðahreyfingum VG, Skátahreyfingunni, Félagi óþokka og bófa, eða neinum öðrum hópum haft samband við mig vegna atburða vetrarins, hvorki fyrr né síðar. Konan mín er reyndar vinstri-græn en mætti einungis á einn mótmælafund með mér og þess má geta að við erum bæði dálítið eldri en flestir í ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna. Á Austurvelli í vetur mátti aðeins sjá eitt flokksmerki en það er með mynd af ránfugli, oftast var það reyndar í neikvæðu samhengi á mótmælaskiltum. Það má vel vera að einhverjir þeirra sem þar voru hafi tilheyrt einhverjum hreyfingum, en ef svo er þá þekkti ég þá allavega ekki í sundur frá öðrum mótmælendum, það voru helst anarkistarnir sem voru auðþekkjanlegir en þeir styðja engan flokk. Ég hitti hinsvegar fullt af fólki sem ég veit vel að tilheyra ekki neinum stjórnmálasamtökum, sem og aðra sem hafa jafnvel hægrisinnaðar skoðanir eins og ég sjálfur. Einn þeirra situr meira að segja á þingi núna fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins!
Ég hafði lengi vitað að FLokkurinn væri hálfgerð klíka, en trúði því samt lengi að þetta væri samt góðviljað og skynsamt fólk að mörgu leyti. Í vetur hefur hinsvegar slík spilling og vanhæfi flokksforystunnar og þingmanna verið afhjúpuð að það er bókstaflega glæpsamlegt. Sú stefna í reynd að eiga svona "náið samstarf" við atvinnurekendur og útvalda fjármagnseigendur, miklu nánara en það samstarf sem stjórnmálin eiga að hafa við þjóðina sjálfa, er hreinlega farin að jaðra við fasisma. Sem festist svo rækilega í sessi með kosningu formanns sem einnig var stjórnarmaður e1Ns af olíusamráðsfélögunum, og þá þótti mér sem merki FLokksins hefði endanlega verið gúmmístimplað á svínaríið og hagsmunatengslin. Uppljóstranir um styrkjamál FLokksins hafa nú sýnt fram á að þessi tilfinning mín var ekki út í hött og að lengi hefur verið unnið fyrir ranga umbjóðendur. Það er eitt að beita brellum til að komast áfram í pólitík, það gera líklega flestir að einhverju marki, en svo er annað mál hvernig menn fara með völdin þegar þeim er náð. Hér var það gert mjög illa að mínu mati, og þess vegna mótmælti ég hástöfum því sem mér fannst vera "vanhæf ríkisstjórn" eins og söngurinn hljómaði.
Ekki vegna þess að einhver í ungliðahreyfingu VG fékk mig til þess...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Facebook
Athugasemdir
Eflaust eru einhverjir langt gengnir sjálfstæðismenn(þvílíkt öfugnefni!) á því að byltingin hafi verið samsæri skipulagt af ungliðahreyfingu VG, flestir vita samt betur.
Georg P Sveinbjörnsson, 12.4.2009 kl. 14:38
Takk fyrir flottan pistil! Það er með ólíkindum að enn skuli einhverjir reyna að halda því fram að mótmæli liðins vetrar hafa verið skipulögð af Vinstri grænum. Þetta er þvílík bábilja að mér hefur ekki fundist hún svaraverð enda hefði mér aldrei tekist að svara henni jafnvandlega og þú gerir hér
Rakel Sigurgeirsdóttir, 12.4.2009 kl. 15:47
Flottur pistill, sama hér.
Magnús Sigurðsson, 12.4.2009 kl. 17:49
Góður pistill Guðmundur.
Sjálfur var ég í Alþýðuflokknum og tók þátt í að búa Samfylkinguna til. Síðan þá hefur Samfylkingin orðið illskiljanlegra stjórnmálaafl smátt og smátt með árunum. Þar til nú að ég sé lítinn mun á XS, XD, XB og XV. Enda kemur í ljós að þetta eru allt meira og minna spilltir fulltrúar fjárframlaga stórfyrirtækja. Ég vil stjórnmálaafl sem sinnir MÍNUM hagsmunum og framtíð MINNA barna og um leið OKKAR allra.
Ég er reyndar búinn að gera upp hug minn fyirr þessar kosningar, og ætla að merkja X við O. Hér má sjá af hverju: http://www.youtube.com/watch?v=htVDjAyP5j4
Baldvin Björgvinsson, 13.4.2009 kl. 10:10
Ég fór einmitt að mótmæla algjörlega á mínum forsendum. Ef einhver samtök hefðu eignað sér þetta þá hefði ég líklega ekkert verið að mæta.
Þessir dagar í janúar þegar mest gékk á voru alveg magnaðir.
Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 18:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.