Ofsaveður á Bretlandseyjum í nótt
30.10.2008 | 12:49
Í tilefni af nýlegri grein minni um undarleg náttúrufyrirbæri og fleira í þeim dúr, langar mig að birta hér myndir sem sýna afleiðingarnar af fárviðri sem geisaði í Devon og Cornwall á Bretlandi í nótt. Þarna eru t.d. bílar bókstaflega á kafi í snjó eftir haglél sem myndaði sumstaðar allt að 1,8 metra djúpa skafla!
Megnið af úrkomunni kom hinsvegar niður í fljótandi formi og því fylgdu gríðarleg flóð í kjölfarið. Þó íslenskt verðurfar geti verið kraftmikið þá verða aðstæður á landi sem betur fer sjaldan svona slæmar hjá okkur.
Hamfarastormar af þessu tagi verða hinsvegar síalgengari á Bretlandseyjum, en þær eru taldar vera sérstaklega viðkvæmar fyrir hugsanlegum breytingum á hafstraumum sem sumir telja áhyggjuefni vegna loftslagsbreytinga.
Bretlandseyjar eru einnig í skotlínu fyrir öskufall og ýmis óþægindi frá íslenskum eldfjöllum, skyldu þau nú fara að gjósa af krafti (Katla og Hekla eru báðar komnar á tíma). Öflugt eldgos á Íslandi ásamt aukningu gróðurhúsaáhrifa er jafnvel talin geta leitt til þess að einhverskonar "mini-ísöld" myndi leggjast yfir Bretlandseyjarnar.
Á Íslandi erum við vön svona löguðu og kippum okkur ekki upp við dálítinn skafrenning. En vegna landræðilegra aðstæðna erum við sem betur fer ekki eins útsett fyrir svona miklum flóðum í byggð. Það er helst í dreifbýli þar sem ár flæða stundum yfir tún o.þ.h. ásamt örfáum stöðum í miðbæ Reykjavíkur sem eru viðkvæmir fyrir sjávarflóðum.
P.S. Myndirnar eru teknar af vef breska ríkisútvarpsins BBC, og ég ætla ekki að borga fyrir afnot af þeim! ;)
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.