Jú víst, ef það yrði gert úti í geimnum...
1.7.2008 | 22:53
... t.d. hafa verið ræddar hugmyndir um að reisa fjölmörg gríðarstór kjarnorkuver á annars lífvana yfirborði tunglsins, og geisla svo raforkunni til jarðar með örbylgjum, sem er tæknilega framkvæmanlegt a.m.k. "á pappír" eins og sagt er þó það sé ekki hagkvæmt með núverandi tækni. Næsta rökrétta skref væri svo að senda þangað flestallan mengandi iðnað sem gæti nýtt orkuna á staðnum og dregið úr þörf fyrir umfangsmikil flutningsmannvirki. Í raun mætti hugsa sér að reisa þar í framtíðinni alla framleiðslu sem hægt er að sjálfvirknivæða að nógu miklu marki, nú þegar er ýmis þungaiðnaður að miklu leyti unnin af vélmennum og eru bílaverksmiðjur gott dæmi. Einnig hefur verið nefnt að í þyngdarleysinu á sporbaug jarðar sé kjörið umhverfi fyrir slíka starfsemi, öll orkunotkun vélbúnaðar er minni þar sem ekki þarf að yfirvinna þyngdarafl jarðar (t.d. með lyfturum). Flutningskostnaður til kaupenda er ekki mikill, það er nóg að láta hlutina "detta" niður í fallhlíf (sbr. endurkomuhylki Apollo geimfaranna) eða svífa með einhverskonar geimskutlu á borð við þær sem NASA ræður yfir í dag. Kjarnorka er kannski ekki heppileg á sporbaug um jörðu með aukinni umferð þangað, en sem dæmi er Bandaríska varnarmálaráðuneytið að skoða í fúlustu alvöru hugmyndir um að beisla sólarorku með gríðarstórum sólspeglum sem komið yrði fyrir á braut um jörðu ásamt dreifikerfi endurvarpsstöðva fyrir örbylgjur sem gæti skilað orkunni á fyrirfram ákveðna staði á yfirborði jarðar eða jafnvel vera stýranlegt þannig að hægt sé að senda orkuna nánast hvert sem er með skömmum fyrirvara t.d. vegna breyttra aðstæðna á yfirborðinu. Þar sem þetta er í hermálaráðuneyti þá er auðvitað verið að skoða þetta útfrá varnarhagsmunum, m.a. í þeim tilgangi að minnka þörfina fyrir jarðefna eldsneyti, en það þarf engan snilling til að átta sig á því að ef bandaríski herinn hefði ekki tryggan aðgang að olíu til að knýja stríðstólin þá væri landið nánast varnarlaust! Svo má reyndar setja stórt spurningamerki við hvort hermálayfirvöld séu réttu aðilarnir til að ráða yfir búnaði sem gæti sent gríðarsterkan orkugeisla nánast hvert sem er á yfirborði jarðar, en í höndum hershöfðingja er slíkt auðvitað eins og hvert annað gereyðingarvopn sem gæti þurrkað út heilu borgirnar! Á hinn bóginn má nefna að nýting sólarorkunnar á þennan hátt væri mun hagkvæmari en á yfirborðinu þar sem mikið af orkunni tapast annars á leið sinni gegnum gufuhvolfið, reiknað var út að 1km breiður sólarspegill sem næði um sporbaug jarðar allan hringinn í ákveðinni hæð (líklega 80-100 km) gæti beislað jafn mikla orku og samanlögð notkun mannkynsins af öllum núverandi orkugjöfum, jafnvel þó að einungis önnur hliðin snúi að sólu hverju sinni!
Mannkynið stendur um þessar mundir á krossgötum, við stöndum frammi fyrir hugsanlegri kreppu í orkumálum (og auðlindamálum almennt ef út í það er farið), auk þess sem mengun og gróðurhúsaáhrif eru farin að hafa ótvíræð skaðleg áhrif á vistkerfi jarðarinnar, á móti þessu vegur svo áframhaldandi aukning fólksfjöldunar ásamt því að sífellt fleiri sk. þróunarríki eru að rísa upp af því stigi og ganga inn í hóp sk. "þróaðra ríkja". Það er ljóst að eitthvað róttækt þarf að gerast á næstu áratugum til að breyta þróuninni til betri vegar. Áðurnefndar hugmyndir byggja allar á þekktri tækni og aðferðum sem hafa verið sannaðar nú þegar, eina og langstærsta vandamálið felst í því að koma öllum þessum búnaði út í geiminn og setja hann saman. Við núverandi aðstæður er það mjög langt frá því að geta talist hagkvæmt auk þess sem þörf væri á talsvert mikilli þróunarvinnu áður en hægt væri að hefja smíði á einhverju slíku, og pólitískar hindranir þarf einnig að yfirstíga ásamt gríðarlegum stofnkostnaði en allt saman er það bara spurning um vilja og samvinnu. Lykilforsenda fyrir velgengni er hinsvegar að mönnum takist að þróa hagkvæma geimferðatækni, en núverandi aðferð sem notar eldflaugar til að skjóta litlu geimfari beint upp í loftið með hraða á við byssukúlu er gríðarlega dýr aðferð sem auk þess nýtir illa orkuna sem leyst er úr læðingi.
Núna árið 2008 eru 105 ár síðan Wright bræður hófu sig fyrstir manna á loft í vélknúnu faratæki og slétt 100 ár síðan fyrsti bíllin var fjöldaframleiddur og þar með á færi almennings að kaupa hann, enn fremur eru u.þ.b. 50 ár síðan menn komust fyrst út í geiminn. Í dag eru bílar orðnir fleiri en fólk (a.m.k. hér á landi) og flugferðir yfir hnöttin þveran og endilangan eru daglegt brauð jafnvel á færi almúgans, haldið er uppi reglulegum ferðum til alþjóðlegrar geimstöðvar á braut um jörðu. Ef þróunin verður svipuð í geimferðum má leiða að því líkur að reglulegar áætlunarferðir til tunglsins gætu hafist upp úr miðri þessari öld. Ég treysti mér reyndar ekki til að veðja á það rætist, en bendi hinsvegar á að flugfélagið Virgin Galactic er nú þegar byrjað að bjóða í opinni sölu ferðir með þar til gerðu geimfari, SpaceShipOne sem mun fljúga út fyrir þyngdarsvið jarðar þar sem farþegar geta upplifað þyngdarleysi, en seinna meir stendur til að bjóða einnig upp á ferðir alla leið á sporbaug. Í árslok 2007 höfðu þegar selst yfir 200 miðar en ferðir hefjast strax á næsta ári (2009), miðinn kostar í upphafi litla $200.000 eða 16 milljónir á núvirði sem er svosem "ekki nema" verð á lítilli blokkaríbúð í Reykjavík. Farþegar í jómfrúarferðinni verða Richard Branson eigandi Virgin ásamt fjölskyldu sinni, og sérstökum gesti þeirra engum öðrum en William Shatner sjálfum Captain Kirk! Meðal annara sem hafa tryggt sér miða er Sigourney Weaver aðalleikona úr Alien og stjarneðlisfræðingurinn Stephen Hawking sem verður þá líklega fyrsti fatlaði einstaklingurinn sem fer út í geim, en hann hefur nú þegar verið fyrstur úr þeim hópi til að upplifa "hermi"þyngdarleysisflug í hefðbundinni flugvél. Eflaust verður ekki langt þangað til einhver Íslendingur skellir sér með, ég er meira að segja sjálfur búinn að gera það að markmiði síðar á ævinni, því eftir að búið verður að selja fyrstu 500 miðana á verðið víst að lækka um 90% eða niður í $20.000 sem er nú bara lægra en verðið á meðal fjölskyldubíl! ;)
Kjarnorkuiðnaðurinn leysir ekki orkuvandamál framtíðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 3.7.2008 kl. 18:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.