Lofsvert
1.10.2007 | 21:58
Ég lýsi yfir fögnuði með þessa ákvörðun, ekki aðeins vegna þeirrar bandvíddaraukningar sem hún hefur í för með sér, heldur er væntanleg lega stengsins ákjósanleg með tilliti til þjóðaröryggis.
Eins og staðan er í dag þá liggja allar okkar fjarskiptatengingar við umheiminn gegnum yfirráðasvæði aðildarríkja UKUSA njósnabandalagsins, sem þýðir að samskipti okkar geta hvenær sem er átt á hættu að lenda í Echelon hlerunarneti þeirra. Með því að tengjast beint við Danmörku opnast bein leið inn á áhrifasvæði Evrópusambandsins, sem hefur m.a. séð ástæðu til þess að verjast slíkum njósnum sérstaklega. Talið er að kerfinu sé ekki aðeins beitt í "hernaðarlegum" tilgangi gegn hryðjuverkamönnum og óvinaþjóðum heldur einnig í pólitískum og efnahagslegum tilgangi, hvar sem er og hvenær sem er og líka gegn sk. "vinveittum" ríkjum. Er litið á þetta sem lið í þeirri yfirlýstu stefnu núverandi stjórnar að viðhalda með öllum ráðum pólitískum og efnahagslegum yfirráðum BNA, en eins og þekkt er hafa valdamenn þar sterk tengsl við bæði njósnastofnanir og stórar fyrirtækjasamsteypur sem verða líklega seint þekktar fyrir viðskiptasiðferði.
Stóri bróðir (eða Sámur frændi e.t.v.) er svo sannarlega að hlusta, og spyr ekki leyfis. Þekkt er að þær stofnanir sem um ræðir hafa m.a. stundað heimildarlausar hleranir gegn bandarískum ríkisborgurum þrátt fyrir að innanríkisnjósnir séu klárlega lögbrot, sem sýnir að viðkomandi stofnunum er ekki treystandi fyrir þeim völdum og úrræðum sem þær hafa yfir að ráða. Í Evrópu og þó sér í lagi Skandinavíu er hinsvegar mjög sterk almenningsvitund um þessi mál, og ber því að líta þangað frekar til samvinnu um fjarskipti og upplýsingaöryggi.
Evrópusambandið er með ýmis verkefni í gangi sem miða markvisst að því að sporna við því að fólk sé yfirhöfuð að hlusta á það sem kemur því ekki við. Eitt það athyglisverðasta á því sviði er fyrirbæri sem kallast skammtadulkóðun (e. Quantum Cryptography), en til slíkra verkefna hefur sambandið varið talsverðum fjárupphæðum á undanförnum árum sem nú eru byrjuð að skila sér á markað sem nothæfar lausnir. Það ætti að vera sjálfsögð krafa að þessi nýju strengur verði lagður með slíkt í huga, enda er hægt að notast við hefbundin ljósleiðara og þarf aðeins breytingu í endabúnaði og rýrnun á afköstum er hverfandi.
Til þess að skilja muninn á skammtadulkóðun og hefbundunni dulkóðun í tölvum, þarf að átta sig á því að það sem venjulega er kallað dulkóðun er alls ekki það sama og trygging fyrir öryggi upplýsinga. Nútíma aðferðir við dulkóðun eru of flóknar til að rekja hér í smáatriðum, en eftirfarandi eru nokkur atriði sem skipta máli. Hefðbundin dulkóðun í tölvum byggir á því að skv. núverandi stærðfræðikenningum sé óyfirstíganlega "erfitt" að reikna út lausn á dulkóðunaraðferðinni nema vita fyrirfram lykilinn að réttri lausn, en þó aðeins í meðaltilfelli eða verra. Þetta þýðir að það eru tölfræðilega hverfandi (en þó endanlegar!) líkur á að afmarkaður fjöldi tilrauna til að snúa við dulkóðuninni heppnist, eftir því best er vitað. Frá upphafi dulkóðunar sem vísindagreinar hafa það reyndar verið njósnastofnanir sem "vita best" hversu mikið þarf til að snúa við dulkóðun, þar sem það er eitt af þeirra meginviðfangsefnum og þær ávallt framarlega á því sviði í heiminum. Auk þess byggir áreiðanleiki dulkóðunar að stóru leyti á því hversu vel hún er útfærð í hugbúnaði, en á því vill því miður verða misbrestur. Með ofurtölvum eða stórum tölvusamstæðum er hægt að flýta þessu eitthvað, og nýlega eru þekkt dæmi um að "standard" dulkóðun hafi verið brotin með nógu stórum vélaklösum á u.þ.b. 4 vikum af einföldum þaulreikningi, sem er vel yfirstíganlegt ef miklir hagsmunir eru í húfi. Þar að auki eru sjálfsagt enn fleiri "óþekkt" tilvik, þ.e.a.s. það gæti vel verið (og er þ.a.l. mjög líklega!!!) einhverstaðar til leynilegt "netþjónabú" sem brýtur dulkóðun á svipstundu, og nánast örugglega undir stjórn einhverrar leyniþjónustustofnunar. Það er því varla lengur hægt að tala um "örugg" fjarskipti nema upp að vissu marki! Sérstaklega þegar samskipti fara víða um koparvíra sem er auðvelt að hlera, og eru "ekki nema tölfræðilega öruggar" hvort eð er. Í þessu samhengi ber að vekja athygli á því að fyrir útgáfu Windows Vista var ein af áherslunum "aukið öryggi" og stærði Microsoft sig m.a. af því hafa notið "handleiðslu" þjóðaröryggisstofnunar BNA (NSA) við öryggisútfærsluna! Reyndar hefur sú stofnun verið viðriðin útfærslu á dulkóðun í Windows mun lengur eftir "hálfopinberum" leiðum, á meðan forritun á dulkóðun féll undir sömu reglur og hergagnaframleiðsla.
Skammtadulkóðun byggir hinsvegar ekki á kenningum um hversu erfitt sé (að meðaltali) að leysa ákveðin reikningsdæmi (ef afkastageta og tími eru af skornum skammti, hugsanlega ;), heldur ákvarðast öryggið af eðlisfræðilegum takmörkum þess sem mögulegt er að mæla, jafnvel með nákvæmustu mælitækjum. Skv. óvissulögmáli skammtafræðinnar er einn af eiginleikum ljóseinda sá að ekki er hægt að mæla neina eiginleika þeirra (t.d. orku) nema hrófla við öðrum (t.d. skautun), og að truflunin sem verður sé þar að auki óútreiknanleg. Það er líkt og stök ljóseind "hafi ekki nægt pláss" fyrir nákvæmar upplýsingar um alla eiginleika sína fullskilgreinda, heldur aðeins um tilhneigingu og innbyrðis afstöðu þeirra, og þegar einn eiginleiki er mældur nákvæmlega þá verða upplýsingar um aðra eiginleika óljósari fyrir vikið. En til þess að hlera ljósmerki þarf óhjákvæmilega að mæla eiginleika þess á einhvern hátt, sem er þá ekki hægt án þess að hrófla við merkinu og sú truflun kemur svo sterkt fram hjá réttum viðtakanda að hann getur ekki einu sinni lesið rétt úr merkjunum. Þ.a.l. eru allar truflanir skilgreindar sem möguleg tilraun til hlerunar, og viðkomandi gögn hvort eð er ólæsileg hjá viðtakanda. Aðeins merkin sem komust heil í gegn eru notuð til að flytja upplýsingar, og því ekki bara "afar ólíklegt" heldur gjörsamlega útilokað skv. lögmálum náttúrunnar að einhver hafi getað hlerað skeytið! Þar liggur nefninlega hundurinn með hnífinn grafinn í kýrhausnum varðandi muninn á "öryggi" og ÖRYGGI í fjarskiptum. Og ef einhverjum þykir þetta skrýtið eða illskiljanlegt, þá er skammtafræðin því miður svo einkennileg að ef maður reynir að útskýra hana meira þá virðist hún bara verða ennþá undarlegri. ;)
Nýr sæstrengur til Danmerkur tilbúinn fyrir árslok 2008 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Öryggis- og alþjóðamál | Breytt 3.10.2007 kl. 09:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.