Hvað með rannsókn á aðförinni að heimilunum?

Flest sem gerðist í aðdraganda bankahrunsins hefur verið rækilega rannsakað. Fyrir um tveimur mánuðum hóf RÚV að greina frá umfangsmiklum stuldi og leka á gögnum frá tilteknu embætti sem stóð að sumum þeirra rannsókna. Allar götur síðan hefur nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins lamið höfði við stein og heimtað í sífellu rannsókn á þessum rannsakendum, sem rannsökuðu þrátt fyrir allt ekki neitt sem leiddi af hruninu.

Það sem gerðist í eftirmálum hrunsins, aðförin sem var gerð að heimilum landsins sem báru enga ábyrgð á hruninu, hefur aldrei verið rannsökuð. Tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins lýtur á engan hátt að því að bæta úr þessum skorti á rannsókn eftirmála hrunsins því hún snýst eingöngu um rannsókn á rannsóknum á atburðum í aðdraganda hrunsins sem hafa þegar verið rannsakaðir. Hver vegna ekki þeim ósköpum sem á eftir því fylgdu?

Orsakir hrunsins og flest sem hafði áhrif í aðdraganda þess hefur verið rækilega rannsakað, en þær hamfarir sem voru látnir dynja á heimilum landsins í kjölfar þess og endurreisnar bankanna hafa aldrei verið rannsakaðar. Þess vegna hafa Hagsmunasamtök heimilanna barist fyrir því árum saman að skipuð verði rannsóknarnefnd Alþingis til að framkvæma slíka rannsókn með sambærilegum hætti og slíkar nefndir voru skipaðar til að rannsaka aðdraganda og orsakir bankahrunsins, falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóðs.

Sjá nánar eftirfarandi samantektir:

Hvar er Rannsóknarskýrsla heimilanna?

Af hverju rannsóknarskýrsla heimilanna?

Fálæti stjórnvalda frá hruni við þeirri sjálfsögðu kröfu af ofbeldið gegn heimilunum verði rannsakað er móðgun við hin raunverulegu fórnarlömb þess. Sérstakur áhugi nýs formanns Sjálfstæðisflokksins á því að rannsaka rannsakendur (en ekki sjálfa gerendurna) er varla til annars fallinn en að strá salti í sár hinna eiginlegu fórnarlamba hrunsins.


mbl.is „Ætlar hún að treysta áfram á kerfið?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Grímur Kjartansson

Þetta yrði þá rannsakað og skrifað af sérfræðingum sem láta frá sér fara svona gullkorn

"Þrátt fyrir að ekki sé um neitt góðæri að ræða sé orðið sýnilegra að ríkisútgjöld í Evrópu kunni að verða eftirlátssamari."
Ríkisútgjöld ótakmörkuð stærð óháð innkomu?

"Áhrif tolla á verðbólgu eru meiri í Bandaríkjunum þar sem þeir bitna beint á heimilum"
bitnar verðbólga ekki alltaf beint á heimilin?.

"Íran hótaði að loka fyrir flutninga um Hormus sund og þá varð greinileg endurverðlagning á áhættu." 
kostnað vegna áhættu má verðleggja

Grímur Kjartansson, 2.7.2025 kl. 07:41

2 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Klassísk hliðvarsla, þegar "flest það sem rannsakað var" er skemmri skírn og misvísun. Hið eina sem þarf að rannsaka, er hvaða valdamafía fékk völdin í kjölfarið og hvar hún starfaði áður, og hvaða hugmyndafræði hún aðhyllist.

Guðjón E. Hreinberg, 2.7.2025 kl. 18:08

3 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Grímur. Ekkert í þessum setningum hefur neitt að gera með efni pistilsins hér að ofan. Kannski var það meining þín?

Guðjón. Já hliðvarsla er það, en ég er ekki sammála um "hið eina sem þarf að rannsaka" því það sem þú nefnir er ekki það sama og ég benti á í pistlinum hér að ofan að þurfi og eigi eftir að rannsaka.

Þeir sem fengu völdin yfir heimilunum í kjölfar hrunsins voru bankarnir og hrægammar á þeirra vegum en stjórnvöld leyfðu þeim að komast upp frekar illa og stundum skelfilega meðferð á heimilum. Viðkomandi þolendur eiga eins og aðrir rétt á að mál þeirra verði rannsökuð.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.7.2025 kl. 23:28

4 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Heimilin létu Shjanghia sig á sínum tíma, þau stóðu ekki saman um að fara í greiðsluverkfall.

Þau sem gátu borgað fannst það neðan sinnar virðingar að standa ekki skilum með stökkbreyttar afborganir, -og borguðu því bara meira. Hin sem ekki gátu borgað gátu ekki borgað og töpuðu öllu.

Meðan neðan máls liðið áttar sig ekki á því að sá sem hefur misst vinnuna fer ekki í verkfall, þá þarf enga rannsókn.

Magnús Sigurðsson, 3.7.2025 kl. 19:32

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús.

Heimilin létu ekki "sjanghæa" sig og voru ekki í of stuttum pilsi, heldur var einfaldlega ráðist á þau með leyfi stjórnvalda. Sumir hefðu getað borgað en fengu aldrei tækifæri til þess. Aðrir vildu borga réttum aðila sem höfðu tekið lán hjá en þá var hvergi að finna. Enginn af þessu fólki tók lán hjá bönkunum sem fengu kennitölur 2008 og komu svo og hirtu eignirnar af þeim. Það sem fólkið sagt skulda þeim var í mörgum tilfellum bara lygi en því miður féllu flestir fyrir henni, ekki síst sýslumenn og dómstólar. Þeir sem ekki féllu fyrir lyginni urðu undir hinum sem voru meðvirkir með svikurunum fyrir utan örfáa sem skoruðu þá á hólm að sanna lygina og í þeim tilvikum gátu þeir það ekki.

Ekki voga þér að "drusluskamma" heimilin eins og margir reyndu að gera og þar á meðal fólk sem þóttist ætla að "redda þessu öllu" en kom svo í ljós að "reddingin" fólst í því að láta fólk borga fyrir lygina.

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2025 kl. 23:28

6 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Ef þér líður eitthvað betur með það Guðmundur, þá lét almenningur Sjannghia sig með því að standa ekki saman um að vísa hyskinu út úr húsum þjóðarinnar í hinu svokallaða hruni. Eitt sem þurfti til þess var að standa saman greiðsluverkfall.

Þú súmmmar þetta ágætlega í lok athugasemdarinnar þinnar, hyskið laug því að það myndi sjá um reddinguna. Það mátti vera hverju meðalgreindu mannsbarni ljóst strax í upphafi að svo yrði ekki, og nú sitjum við uppi með sama slektið á hverjum pósti, -kúlulánadrottninguna og kó.

Magnús Sigurðsson, 4.7.2025 kl. 06:06

7 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Magnús. Já það skorti því miður á samstöðu meðal almennings. Hún skapaðist um tíma en fjaraði út áður en dæmið var klárað eins og það hefði getað orðið og í staðinn fór sem fór.

Guðmundur Ásgeirsson, 4.7.2025 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband