Banna EKKI gistirekstur í íbúðarhúsnæði
4.5.2024 | 00:21
Meðfylgjandi frétt er efnislega röng. Þar er étið upp úr tilkynningu á vef Stjórnarráðsins að samkvæmt nýlegri lagabreytingu verði rekendum gististaða ekki lengur heimilt að leigja út gistirými sem er skilgreint sem íbúðarhúsnæði. Hið rétta er að samkvæmt nýsamþykktu lögunum verður rekendum gististaða sem hafa leyfi til að leigja út gistirými sem hefur verið skilgreint sem íbúðarhúsnæði, áfram heimilt að gera það.
Þannig er í raun fest í sessi að þeir sem hafi þegar fengið slíkum rekstrarleyfum úthlutað megi halda því áfram að eilífu að nýta íbúðarhúsnæði til annars en íbúðar. Enda eru þau leyfi ótímabundin eins og var lagt til um leyfi til sjókvíalaxeldis í frumvarpi sem var nýlega lagt fram á Alþingi og hefur vakið hörð viðbrögð í samfélaginu, með þeim afleiðingum að viðkomandi ráðherra hefur nú sagst ætla að draga þá tillögu til baka.
Eini munurinn er sá að ótímabundin leyfi til þess að reka gististarfsemi í atvinnuskyni í íbúðarhúsnæði hafa ekki verið veitt samkvæmt lögum frá lýðræðislega kjörnu Alþingi, heldur á grundvelli reglugerðarbreytingar ráðherra fyrir nokkrum árum síðan. Draga má í efa hvort að sú reglugerð eigi sér nægilega lagastoð þar sem hún stríðir gegn meginreglum ýmissa laga sem setja atvinnustarfsemi í íbúðarhúsnæði verulegar skorður.
Af greinargerð með frumvarpi til umræddra laga má ráða að þau eigi ekki að hafa nein áhrif á þegar útgefin leyfi heldur aðeins stöðva veitingu fleiri slíkra leyfa. Samkvæmt því myndi lagabreytingin ekki auka framboð íbúðarhúsnæðis eins og var þó yfirlýst markmið hennar, heldur aðeins draga úr fækkun þeirra íbúða sem rata inn á húsnæðismarkað, sem þjáist nú þegar af miklum skorti á framboði íbúðarhúsnæðis.
Það er skiljanlegt að mikill fjöldi fólks hafi risið upp og mótmælt því að fyrirtækjum yrðu veitt ævarandi leyfi til að hagnýta firði landsins undir starfsemi sem er í besta falli vafasamt hvort muni hafa æskileg áhrif til lengri tíma litið.
Að sama skapi vekur það furðu að ekki hafi vakið álíka hörð viðbrögð hjá þjóð sem þjáist nú hvað mest af gríðarlegum húsnæðisskorti, að það sé fest í sessi að halda megi íbúðum frá húsnæðismarkaði í stað þess að fólk og fjölskyldur geti haldið þar heimili. Skaðinn sem sá skortur veldur samfélaginu ætti nú að vera flestu fólki augljós.
Í þágu gegnsæis er rétt að fram komi að sá sem þetta skrifar er einnig höfundur umsagnar um hið umrædda frumvarp þar sem var gagnrýnt að ekki væri gengið lengra með því en raun ber vitni til að stuðla að auknu framboði íbúðarhúsnæðis.
Banna gistirekstur í íbúðarhúsnæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 21:37 | Facebook
Athugasemdir
Eftir að pistillinn var skrifaður virðast einhverjir hafa ráðist í lestrarátak:
Engin ný leyfi til reksturs gististaða í íbúðarhúsnæði í þéttbýli - RÚV.is
"Breytingin á ekki við þá samninga sem þegar hafa verið gerðir um rekstur gististaða í íbúðarhúsum."
"Hagsmunasamtök heimilanna gagnrýndu í umsögn um frumvarpið að lögin yrðu ekki afturvirk, það er að þegar gerðir samningar verði áfram gildir. Þannig sé það því alls ekki til þess fallið að auka framboð á íbúðarhúsnæði eins og yfirlýst markmið þess var."
Breytingarnar ekki afturvirkar
"Lögin eru ekki afturvirk og munu því ekki hafa áhrif á þá sem eru nú þegar búnir að fá leyfi fyrir rekstur gististaða í íbúðarhúsum innan þéttbýlis."
"Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag."
Guðmundur Ásgeirsson, 6.5.2024 kl. 23:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.