Heimildir lífeyrissjóða til að fjármagna leiguíbúðir

Nokkuð lengi hefur verið kallað eftir því að lífeyrissjóðir komi af krafti að fjármögnun á uppbyggingu leiguíbúða til að auka framboð á húsnæðismarkaði. Lífeyrissjóðirnir hafa kvartað yfir því að þeir geti það ekki vegna of þröngra takmarkana sem ríkisvaldið hefur sett á fjárfestingarheimildir þeirra með ákvæðum VII. kafla laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Þetta hefur meðal annars verið rætt í tengslum við kjarasamninga. Í yfirlýsingu stjórnvalda frá 12. desember 2022 vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði kom fram að stjórnvöld myndu á samningstímabilinu finna leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að fjármögnun á íbúðarhúsnæði til útleigu til einstaklinga með því að rýmka heimildir sjóðanna til fjárfestinga í leigufélögum.

Afraksturinn af þessu eru drög að frumvarpi sem hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Þar er lagt til að lífeyrissjóðum verði "heimilt að binda allt að 5% heildareigna í hlutabréfum og skuldabréfum, sem ekki eru skráð á skipulegan verðbréfamarkað, útgefin af félögum þar sem meginstarfsemin er langtímaleiga íbúðarhúsnæðis til einstaklinga", sem og í fjárfestingasjóðum sem fjárfesta eingöngu í slíkum bréfum.

Í árslok 2023 námu heildareignir lífeyrissjóða um 7.287 milljörðum króna en fasteignamat íbúðarhúsnæðis á landinu öllu samtals 10.596 milljörðum króna. Miðað við þær stærðir gætu lífeyrissjóðir í mesta lagi fjármagnað um 3,4% íbúðarhúsnæðis á landinu, verði frumvarpið óbreytt að lögum með þessari takmörkun.

Eins og svo margt sem stjórnvöld lofa í tengslum við kjarasamninga er þetta óþolandi seint fram komið og þar að auki í mýflugumynd. Það er harla ólíklegt að svona lágt hlutfall geti haft eins mikil áhrif til að auka framboð á húsnæði og raunverulega er þörf fyrir. Þess vegna væri full ástæða til að rýmka þetta hlutfall verulega og vonandi verður hugað að slíkri breytingu við meðferð frumvarpins á Alþingi.


mbl.is Vill auka fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ríkisstjórnin er greinilega hvorki að huga að hagsmunum leigjenda né lífeyrissjóða.

Sigurjón Þórðarson, 10.3.2024 kl. 22:23

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sæll Sigurjón.

Nei því miður virðist þessari ríkisstjórn ekki vera mjög umhugað um hagsmuni venjulegs fólks á húsnæðismarkaði.

Í öðrum löndum sem hafa vel fjármögnuð lífeyrissjóðakerfi eru þau stórtæk á húsnæðismarkaði. Til að mynda í Sviss þar sem stór hluti alls leiguhúsnæðis er fjármagnaður af lífeyrissjóðum, enda líta þeir á það sem trausta langtímafjárfestingu.

Þess vegna er óskiljanlegt að hér á landi sé lífeyrissjóðum ekki leyft að vera á þessum markaði og að nú þegar á loksins að breyta því sé það í svo litlum mæli að varla skipti máli.

Vonandi verður hlutfallið rýmkað í meðförum Alþingis.

Guðmundur Ásgeirsson, 10.3.2024 kl. 22:31

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Almenn spurning, en innblásin af þessari færslu:

Vita stjórnmálamenn almennt nokkuð um hvað er í gangi í samfélaginu? Eru þeir ekki of uppteknir á fésbókinni og við að klippa á borða?

Hvar er Hjörleifur Guttormsson sem las alla texta án aðstoðarmanna?

Geir Ágústsson, 11.3.2024 kl. 22:31

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Góð spurning Geir.

Nei því miður virðast (sumir, of margir) stjórnmálamenn ekki vita nógu vel hvað er raunverulega að gerast í samfélaginu.

Hvar er Hjörleifur nú? Um það var fjallað á vefmiðlinum Lifðu núna í desember 2019: Hjörleifur Guttormsson – Lifðu núna

Þar kom fram að hann væri aðallega aðallega að fást við verkefni tengd ritstörfum af ýmsu tagi. Hann reyndi að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi til að láta sér líða vel og færi í leikfimi og sund og göngutúra þegar veður leyfði.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.3.2024 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband