Fyrningarreglur eftir gjaldþrot
1.6.2022 | 21:57
Í viðtengdum pistli af Smartlandi svarar lögmaður nokkur spurningu frá lesanda sem er ábyrgðarmaður á námsláni, án þess þó að svara raunverulega spurningunni.
Hér verða því birt raunveruleg og haldbær svör við spurningunni.
Í fyrsta lagi. Hvar er réttlætið í þessu?
Svar: Það var aldrei neitt réttlæti í ábyrgðarmannakerfinu, þess vegna var það lagt niður (að mestu leyti).
Í öðru lagi. Getur skuldari bara sagt bless og borgaðu þetta bara fyrir mig?
Svar: Það er einmitt þýðing þess að gangast í ábyrgð fyrir skuld, að ef skuldarinn sjálfur getur ekki borgað fellur skuldin á ábyrgðarmanninn. Ekki er þó öll nótt úti enn a.m.k. ekki í þessu tilviki. Ábyrgðarmaðurinn getur nefninlega líka bara sleppt því að greiða skuldina og beðið þangað til tvö ár verða liðin frá því að gjaldþrotaskiptum skuldarans var lokið því þá fyrnist skuldin.
Þá kann að vakna önnur spurning: Hefur það ekki neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir ábyrgðarmanninn að greiða ekki kröfuna?
Svar: Jú vissulega, hann getur verið skráður á vanskilaskrá hjá Creditinfo og hægt er að gera fjárnám í fasteign eða skráðu ökutæki hans og láta selja þá eign upp í skuldina. Hér er aftur á móti lykilatriði að af fyrirspurninni má ráða að viðkomandi ábyrgðarmaður sé nú þegar skráður á vanskilaskrá hvort sem er og eigi engar aðfararhæfar eignir. Þá er það versta sem gæti komið fyrir, að gert verði árangurslaust fjárnám hjá honum, en samkvæmt dómafordæmum framlengir það ekki fyrningartímann. Vanskilaskráningin er auðvitað vesen, en hún ætti að hverfa eða vera hægt að fá hana fjarlægða þegar skuldin fyrnist, því það er óheimilt að hafa ólögvarðar fyrndar kröfur skráðar á vanskilaskrá og samkvæmt dómafordæmum telst fyrning kröfu meira að segja jafngilda efndum hennar.
Smá viðbót: Mikilvægt er að ábyrgðarmenn geri sér grein fyrir því að fyrir hverja einustu krónu sem þeir greiða vegna ábyrgðarskuldbindingar, eignast þeir jafn háa endurkröfu á upphaflega skuldarann. Þar sem sú krafa stofnast eftir gjaldþrotaskiptin fyrnist hún ekki eftir tvö ár eins og eldri kröfur á hendur þrotamanninum, heldur er fyrningartíminn sá sami og gilti um upphaflegu skuldina. Þessi réttur er því miður sjaldan eða aldrei kynntur fyrir ábyrgðarmönnum sem lenda í slíkum aðstæðum.
Hagsmunasamtök heimilanna bjóða félagsmönnum ókeypis ráðgjöf um mál sem þessi en félagsgjöld eru 4.900 kr. á ári. Sú ráðgjöf hefur hagsmuni neytenda alltaf í fyrirrúmi.
Situr í súpunni eftir að hafa skrifað upp á námslán | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.