Opnar alls ekki fyrir Uber

Sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra hef­ur lagt fram frum­varp til nýrra laga um leigubifreiðaakstur. Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum frá Eftirlitsstofnun EFTA, sem telur líkur á því að íslensk löggjöf um leigubifreiðar feli í sér aðgangshindranir sem samræmast ekki skyldum íslenska ríkisins að EES-rétti.

Nokkurs misskilnings hefur gætt um að með frumvarpinu sé stefnt að því að opna fyrir starfsemi fyrirtækja á borð við hið bandaríska Uber, sem skilgreinir sig sem svokallaða farveitu. Það felst í því að halda úti vefþjónustu þar sem bílstjórar geta gefið notendum kost á akstri gegn gjaldi sem er samið um milli farþega og bílstjóra hverju sinni.

Svo er þó alls ekki, því samkvæmt 7. gr. frumvarpsins munu leigubifreiðastöðvar eftir sem áður þurfa að hafa starfsleyfi útgefið af Samgöngustofu og uppfylla skilyrði slíkrar leyfisveitingar. Þar á meðal þarf viðkomandi fyrirtæki að hafa starfsstöð hér á landi sem er virk og traust. Enn fremur þarf það að hafa fyrirsvarsmann sem uppfyllir ýmsar af þeim kröfum sem eru gerðar til rekstrarleyfishafa leigubifreiða, svo sem að hafa lögheimili innan evrópska efnahagssvæðisins, fullnægjandi ökuréttindi, hafa setið tilskilin námskeið um leigubifreiðaakstur, rekstur, bókhald, skattskil o.fl. og staðist próf.

Uber fyrirtækið uppfyllir engin þessara skilyrða. Það er ekki með starfsstöð á Íslandi, fyrirsvarsmaður þess er ekki búsettur innan EES, hann hefur ekki ökuréttindi til aksturs leigubifreiða hér landi, og hefur hvorki sótt námskeið um slíkan akstur né staðist próf. Þvert á móti gengur viðskiptalíkan fyrirtækisins beinlínis út á að starfa án slíkra leyfa og það sama á við um bílstjóra þess. Starfsemin samræmist því hvorki núgildandi íslenskum lögum né umræddu frumvarpi verði það að nýjum lögum.

Starfshópur um heildarendurskoðun laganna tók starfsemi farveitna sem þessara einmitt til sérstakrar skoðunar, en um það segir í greinargerð með frumvarpinu:

"Niðurstaða starfshópsins var sú að í raun væri ekkert því til fyrirstöðu að heimila farveitum að bjóða þjónustu sína hér á landi. Hins vegar væri nauðsynlegt að líta til þess að í ljósi nýlegs dóms Evrópudómstólsins bæri að líta á farveitur sem farþegaflutningafyrirtæki. ... Í ljósi sjónarmiða um jöfn samkeppnisskilyrði og þeirrar grundvallarhugsunar ... að tryggja öryggi og gæði þjónustu verður að telja eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til farveitna og annarra aðila sem stunda farþegaflutninga með leigubifreiðaakstri. Þannig þurfa farveitur að fullnægja öllum skilyrðum sem leigubifreiðastöðvum verður gert að fullnægja og með sama hætti þurfa bílstjórar sem bjóða þjónustu sína hjá farveitum að uppfylla skilyrði leigubifreiðalöggjafarinnar og hafa gilt rekstrarleyfi og eftir atvikum atvinnuleyfi."

Samkvæmt þessu er alveg ljóst að með frumvarpinu er engan veginn verið að opna fyrir starfsemi fyrirtækja á borð við Uber hér á landi. Eina leiðin til þess að Uber gæti hafið starfsemi hér á landi væri að breyta sér í leigubílastöð eins og BSR eða Hreyfil, en þá væri það ekki lengur Uber heldur öðruvísi fyrirbæri. Þar sem slíkt samræmist hreinlega ekki viðskiptalíkani fyrirtækisins eru engar líkur á því að það gerist.

Uber er tæplega að fara að leggja starfsemi sína í núverandi mynd niður, til þess eins að komast inn á íslenskan markað fyrir leigubifreiðastöðvar.


mbl.is Frumvarp opnar á Uber og Lyft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Manni finnst í það minnsta hæpið að margir fari að ganga í gegnum það ferli að sækja um atvinnuleyfi sem leigubílstjórar til að geta tekið farþega fyrir Uber við og við. Líklegt að þetta verði útfært þannig að ekkert breytist í raun, svona rétt eins og í hittifyrra þegar átti að fara að leyfa gæludýr á kaffihúsum. Svo var reglugerðin þannig ef ég man rétt að það mátti hvorki elda né bera fram mat ef dýr væru á svæðinu!

Þorsteinn Siglaugsson, 30.11.2019 kl. 10:47

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Einmitt, og um leið og Uber myndi reyna að sækja um starfsleyfi til að starfa hér á landi, þá yrði það ekki lengur Uber heldur bara venjuleg leigubílastöð eins og BSR eða Hreyfill.

Guðmundur Ásgeirsson, 30.11.2019 kl. 16:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband