Ósamræmi í málshraða Persónuverndar
22.5.2019 | 21:44
Hinn 20. júlí 2018 beindi ég kvörtun til Persónuverndar yfir því að tiltekið fyrirtæki hér í bæ, væri að stunda ólögmætar persónunjósir á hendur mér. Síðan þá hefur umrætt fyrirtæki viðurkennt háttsemina en borið því við að hún hafi verið í þágu annars fyrirtækis. Vandséð er að það bæti neitt úr skák þó persónunjósnirnar fari fram í verktöku, þvert á móti ber það vott um einbeittan brotavilja. Þess má geta að háttsemin stendur enn þá yfir.
Nákvæmlega fjórum mánuðum seinna, 20. nóvember 2018, gekk Bára Halldórsdóttir inn á Klausturbarinn við Kirkjutorg. Það kvöld varð hún vitni að samtali sem hún tók upp og rataði það í kjölfarið á spjöld sögunnar. Skömmu seinna í kjölfar þess að upplýsingar um upptökuna urðu opinberar, var kvartað yfir henni til Persónuverndar.
Nú ber svo til að í dag 22. maí 2019, rúmum sex mánuðum eftir samtalið á Klaustri og tíu mánuðum eftir að ég kvartaði til Persónuverndar, hefur Persónuvernd kveðið upp úrskurð í máli Miðflokksmanna, þrátt fyrir frestun um tíma vegna tilrauna þeirra til gagnaöflunar fyrir héraðsdómi. Ekkert bólar þó á niðurstöðu í mínu máli. Þar á undan hafði það tekið Persónuvernd rúmlega eitt ár og mánuði betur að úrskurða (mér í hag) í öðru máli vegna kvörtunar sem ég hafði beint þangað í nóvember 2017.
Óhjákvæmilega vaknar sú spurning hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að mál hljóti slíka flýtimeðferð hjá Persónuvernd, eins og Klausturmálið virðist hafa fengið? Ekkert er flókið við mitt mál, allar upplýsingar um það liggja fyrir á gögnum málsins, þar á meðal játning á verknaðinum. Þó ég hafi ekki flokksskírteini frá Miðflokknum, hefði ég fyrirfram talið að það ætti ekki að hafa áhrif á málshraða Persónuverndar.
Bára braut af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:46 | Facebook
Athugasemdir
Þú hefur væntanlega ekki verið blindfullur, röflandi um öryrkja og samkynhneigða á Klausturbarnum.
Þorsteinn Briem, 23.5.2019 kl. 00:28
Nei a.m.k. ekki í því tilviki sem hér um ræðir. :)
Guðmundur Ásgeirsson, 23.5.2019 kl. 01:34
Og ekki sagt neitt ljótt um hörundsdökka eða hælisleitendur?
Ef svo, þá liggur ekkert á að afgreiða þitt mál, Guðmundur.
Kolbrún Hilmars, 24.5.2019 kl. 17:24
Kolbrún.
Innlegg þitt hefur nákvæmlega ekkert með efni færslunnar að gera. Ef þú vilt tjá þig um hörundsdökka eða hælisleitendur er þér frjálst að gera það á þinni eigin síðu.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.5.2019 kl. 20:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.