Fyrndar kröfur á vanskilaskrá

Miðlun upplýsinga um fyrndar kröfur - mál nr. 2014/753 | Úrlausnir | Persónuvernd

"Landsbankanum hf. var óheimilt að miðla upplýsingum um fyrndar kröfur á hendur [A] í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf."

Úrskurður vegna miðlunar LÍN um fyrndar kröfur í skuldastöðukerfi - mál nr. 2016/1493 | Úrlausnir | Persónuvernd

"Lánasjóði íslenskra námsmanna var óheimilt að miðla upplýsingum um fyrndar kröfur á hendur kvartanda í skuldastöðukerfi Creditinfo Lánstrausts hf. Lánasjóðurinn skal, eigi síðar en 15. desember 2017, senda Persónuvernd skriflega staðfestingu á því að komið hafi verið í veg fyrir frekari miðlun upplýsinganna í kerfið."

Við þetta má svo bæta að eftir því sem næst verður komist falla kröfur sem skráðar hafa verið á vanskilaskrá ekki sjálfkrafa út af henni að fyrningartíma liðnum. Þetta hefur til að mynda komið í ljós í tilvikum þar sem skuldari hefur orðið gjaldþrota og að tveggja ára fyrningartíma frá skiptalokum hafi gamlar kröfur enn verið skráðar í vanskilum.

Það er með öllu ólíðandi að kröfuhafar geti skráð kröfur á vanskilaskrá einstaklinga eins auðveldlega og raun ber vitni, en vanræki svo að afskrá þær eftir að þær eru fallnar niður, svo sem vegna fyrningar. Miðlun úreltra og rangra fjárhagsupplýsinga brýtur í bága við persónuverndarlög.

Einföld lausn á þessu gæti verið sú að skylda kröfuhafa til að tilgreina fyrningartíma við skráningu kröfu í vanskilaskrá og skylda Creditinfo til að útfæra hugbúnað sinn þannig að þeim tíma liðnum eyðist skráningin sjálfkrafa.


mbl.is Fyrndar kröfur ekki á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Bezta lausnin væri einfaldlega að banna miðlæga söfnun og miðlun svona upplýsinga. Samanber söfnun og miðlun skattaupplýsinga á tekjur.is

Lánastofnanir eiga að hunskast til að útbúa sér sínar eigin databeisa.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.2.2019 kl. 15:08

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

"Lánastofnanir eiga að hunskast til að útbúa sér sínar eigin databeisa."

Það er einmitt slíkur gagnagrunnur sem Creditinfo starfrækir. Hélstu að það væri gert fyrir einhverja aðra en lánastofnanir?

Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2019 kl. 15:17

3 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Creditinfo fær að starfa á gráu svæði með leyfi löggjafans. Það var ekki sjalfsagt mál að afla slíks leyfis eins og kom fram í einhverju viðtali við stofnanda þessa fyrirtækis. Nú finnst mér sjálfsagt að afturkalla þetta leyfi og fela ábyrgðina á lánveitingum alfarið í hendur lánveitenda.  Samkvæmt bankaleynd ætti þeim að vera óheimilt að miðla þessum upplýsingum sín á milli.

Var þetta nógu skýrt fyrir lagatæknisýrðan heilann á þér?tongue-out

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 19.2.2019 kl. 15:30

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Já já alveg nógu skýrt. :)

Það er alveg rétt að Creditinfo fær að starfa með leyfi stjórnvalda reyndar (Persónuverndar) en það byggist jafnframt á ákvæðum sem hafa lengi verið í persónuverndarlögum. Hvað sem mönnum finnst um starfsemina er hún því lögleg, en þó eru sett ýmis skilyrði í starfsleyfinu sem ætlað er að vernda einstaklinga fyrir óréttmætum skráningum og miðlun fjárhagsupplýsinga. Vandamálin koma fyrst og fremst upp þegar þessi skilyrði eru brotin, sem því miður virðist gerast allt of oft miðað við fjölda slíkra úrskurða frá Persónuvernd. (Ég sjálfur kvartandi í nokkrum þeirra.)

Athugaðu að þetta myndi ekkert endilega breytast þó bankarnir myndu sjálfir starfrækja sína eigin gagnagrunna, því það er þeir sömu sem bera nú þegar ábyrgð á þeim skráningum sem þeir setja inn í Creditinfo kerfið. Ef þeir geta ekki gert það án þess að brjóta reglulega gegn lögum með óréttmætum skráningum þar þá er allt eins líklegt að þeir geri það líka með skráningum í sína eigin grunna.

Auk þess væri fróðlegt að sjá upplitið á snjalltækjavæddum neytanda af aldamótakynslóðinni ef han kæmi í banka til að sækja um lán en yrði þá tilkynnt að hann þyrfti fyrst að fara til allra hinna bankanna og annarra lánveitenda og sækja þar vottorð um skulda- og vanskilastöðu sína hjá hverjum og einum þeirra til að leggja fram með lánsumsókninni. Það væri þveröfugt við auknar kröfur nútímans um skilvirkni og minna pappírsflóð.

Með þessum skýringum er ég alls ekki að verja neitt sem rangt er gert heldur einfaldlega að benda á að þegar þetta er notað rétt getur verið heilmikill ávinningur af því. Það er aftur á móti ranga notkunin sem þarf að stöðva og ein leið til þess væri til dæmis að beita viðurlögum fyrir brot í ríkara mæli.

Guðmundur Ásgeirsson, 19.2.2019 kl. 15:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband