Afnám kynbundinnar mismununar
3.2.2018 | 13:48
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 83/2005 var bætt við almenn hegningarlög nr. 19/1940, nýrri 218. gr. a um bann við umskurði á kynfærum stúlkubarna, svohljóðandi:
- Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlkubarns eða konu með því að fjarlægja kynfæri hennar að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum. Nú hefur árás í för með sér stórfellt líkams- eða heilsutjón eða bani hlýst af, eða hún telst sérstaklega vítaverð vegna þeirrar aðferðar sem notuð er, og varðar brot þá fangelsi allt að 16 árum.
Aftur á móti hefur ekkert sambærilegt bann verið lagt við umskurði á kynfærum drengja. Afleiðingin er réttarástand sem brýtur í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár sem bannar mismunun á grundvelli m.a. kynferðis, en ákvæðið er svohljóðandi:
- Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
- Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.
Nú hefur verið lagt fram á Alþingi, frumvarp þar sem lagt er til að orðhlutinn "stúlku-" verði felldur brott úr orðinu "stúlkubarns" ásamt orðinu "hennar" í 1. málslið 218. gr. a almennra hegningarlaga, en málsliðurinn yrði þá svohljóðandi:
- Hver sem með líkamsárás veldur tjóni á líkama eða heilsu barns eða konu með því að fjarlægja kynfæri að hluta eða öllu leyti skal sæta fangelsi allt að 6 árum.
Athugasemdir:
1. Frumvarpið er nauðsynlegt til að afnema þá kynbundnu mismunun sem ákvæði 218. gr. a almennra hegningarlaga felur í sér og brýtur í bága við 65. gr. stjórnarskrár. Eins og ákvæði 1. gr. frumvarpsins er orðað er það til þess fallið að ná þessu markmiði að því leyti sem það myndi gera umskurð á kynfærum barna refsiverðan, óháð kynferði þeirra.
2. Eins og ákvæði 1. gr. frumvarpsins er orðað er það aftur á móti ekki til þess fallið að afnema þá kynbundnu mismunun sem 218. gr. a almennra hegningarlaga felur í sér gagnvart fullorðnum einstaklingum. Samkvæmt orðalagi ákvæðisins er gert ráð fyrir að umskurður á kynfærum fullorðinna kvenna verði áfram refsiverður en eftir sem áður verði engin refsing lögð við umskurði á kynfærum fullorðinna karlmanna þ.e. þeirra sem náð hafa 18 ára aldri samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
3. Samkvæmt framangreindu er nauðsynlegt að breyta 1. gr. frumvarpins á þá leið að í stað orðalagsins "barns eða konu" komi: "einstaklings". Með því myndu allrir njóta verndar ákvæðisins, óháð kynferði eða aldri, í fullu samræmi við 65. gr. stjórnarskrár.
4. Ákvæðið brýtur ekki gegn trúfrelsi eins og það endurspeglast í ákvæðum 63.-65. gr. stjórnarskrár því það hindrar ekki að einstaklingur geti sjálfviljugur undirgengist umskurð t.d. vegna trúarlegrar sannfæringar sinnar, enda væri þá ekki um líkamsárás að ræða eins og áskilið er í verknaðarlýsingu ákvæðisins. Reyndar er vandséð hvenær nokkur maður gæti yfir höfuð talist hafa veitt nægilega upplýst samþykki sitt fyrir slíkri villimennsku, en á hinn bóginn leggja íslensk lög sem betur fer hvorki bann við fáfræði né þröngsýni.
5. Þannig er ljóst að allir lögráða einstaklingar geta veitt löglegt samþykki fyrir slíkri aðgerð. Hvenær börn hafi náð þeim vitsmunaþroska að geta veitt löglegt samþykki sitt fyrir slíkri aðgerð, yrði eftir sem áður að meta samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 12. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sbr. lög nr. 19/2013 sem kveða á um skyldu til að taka tillit til skoðana barns sem myndað getur eigin skoðanir.
6. Með framangreindum lagfæringum gæti frumvarp þetta ef það verður að lögum, orðið mikilvægt skref í átt að fullu afnámi kynbundinnar mismununar, sem í þessu tilviki hallar ekki á kvenkynið heldur þvert á móti karlkynið. Fleiri dæmi um slíkt er því miður enn að finna í íslenskri löggjöf á því herrans ári 2018, en eitt það versta kemur fram í 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga nr. 54/1971, þar sem segir m.a. í 1. mgr:
- Innheimtustofnun sveitarfélaga annast meðlagainnheimtu hjá barnsfeðrum, hvar sem er á landinu.
Í þeim málsgreinum sem á eftir koma er svo eingöngu getið um feður (karla) en ekki mæður (konur) í tengslum við meðlagsskyldu. Er þar augljóslega um að ræða mismunun á grundvelli kynferðis sem brýtur í bága við 65. gr. stjórnarskrár. Það sem gerir þetta enn alvarlegra er að samkvæmt upplýsingum frá Innheimtustofnun sveitarfélaga eru engu að síður dæmi um að meðlag sé innheimt af mæðrum. Er það án lagaheimildar og brýtur því gegn lögmætisreglunni sem er ein af grundvallarreglum íslenskrar stjórnskipunar.
Að framangreindu virtu er ástæða til að skora á flutningsmann ofangreinds frumvarps sem og aðra þingmenn sem telja sér umhugað um jafnrætti kynjanna, að láta ekki þar við sitja, heldur ganga alla leið í því að afnema kyndbundna mismunun úr íslensku lagasafni.
Bjóst ekki við viðbrögðum frá rabbínum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:50 | Facebook
Athugasemdir
Ágæti vinur minn, vertu ekki að hengja þig svona í orðanna hljóðan og einberan formalisma.
Það er allur munur á umskurn stúlkna og drengja, þetta eru ekki sambærileg fyrirbæri.
Allir eiga að vita, að með umskurn meybarna og fráskurði snípsins er verið að svipta þau síðar meir, sem uppvaxnar konur, kynferðislegum unaði af samförum. Þetta á EKKI við umskorna drengi.
Sömuleiðis glíma umskornar stúlkur, a.m.k. margar, við þjáningar þegar þær hafa þvaglát.
Láttu ekki yfirborðslega ytri hluti villa þér sýn, vinur. Og stuðlaðu ekki að því, að trúaðir múslimar fari að níðast á Íslendingum vegna þvingaðrar umskurnar sveinbarna. Og hin gamla þjóð Guðs á að fá að hafa þennan tiltölulega meinlitla sið sinn í friði, enda sagður stuðla að hreinlæti.
Með vinarkveðju,
Jón Valur Jensson, 3.2.2018 kl. 14:21
Sammála
Axel Þór Kolbeinsson, 3.2.2018 kl. 14:29
"Það er allur munur á umskurn stúlkna og drengja, þetta eru ekki sambærileg fyrirbæri."
Sem fyrrverandi drengur og núverandi faðir barna af báðum kynjum, er ég ósammála þessari fullyrðingu að því leyti sem hér um ræðir.
"..stuðlaðu ekki að því, að trúaðir múslimar fari að níðast á Íslendingum vegna þvingaðrar umskurnar sveinbarna"
Það hvarflar ekki að mér og hef hvergi reynt að stuðla að slíku.
Við viljum virða mannréttindi eins og þau sem koma fram í 65. gr. stjórnarskrár og barnasáttmála SÞ, ekki satt?
Við viljum einnig virða trúfrelsi, líka neikvætt trúfrelsi þ.m.t. frelsi barna undan því þröngvað sé upp á þau með óafturkræfum hætti trúarsiðum sem þau hugsanlega kæra sig ekki um þegar þau hafa náð þroska til að hafa sjálfstæða skoðun á því, ekki satt?
Varla ert þú andvígur mannréttindum Jón Valur?
Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2018 kl. 14:45
Auðvitað eiga drengir að njóta jafnréttis á við drengi! Það á ekkert að brennimerkja neinn með trú foreldra þeirra við fæðingu. Ef að ég kæmi fram núna og segði að ég hefði einhverja trú sem krefðist þess að það yrði að skera eyrnaflipann af börnum 8 dögum eftir fæðingu, myndi fólk brjálast! Það að eitthvað hafi verið gert lengi er engin afsökun til að halda því áfram. Með þeim rökum hefði t.d þrælahald aldrei verið afnumið
Jón Valur Jensson. Þú ert algjörlega enga menntun með til að geta metið það hvort að þetta sé "tilltölulega meinlítill siður". Það skín í gegn hversu fáfróður þú ert um þetta málefni með því sem þú skrifar hérna.
Það er algjört bull að drengir fái ekki mein af umskurð. Nógu marga hef ég nú hitt sem líða fyrir hvað það var gert þeim. Margir þora bara ekki að tala um það vegna þess hversu mikið tabú þetta er og líka vegna þess að þeirra eigin foreldrar voru jú valdir að þessu.
...og stuðla að hreinlæti? Eigum við ekki bara að rífa neglurnar af börnum og skera eyrun af? Það væri líka hreinlegra! Það er gott að þú ert ekki á alþingi!
Fólk sem hefur kynnt sér þessi mál frá alvöru og vinna í raun við þessi mál í heilbrigðisgeiranum sjá að það er augljóst að þennan ljóta ósóma á að banna á börnum undir eins! Þegar að maður er 18 ára getur maður síðan gert það sem maður vill.
Iris, 3.2.2018 kl. 14:52
Hver er þessi "Iris", sem virðist föðurlaus á netinu og fer hér mikinn gegn mér og lætur sem það sé í krafti meintra yfirburða?
Það er að minnsta kosti mjög hæpin alhæfing, að umskurn drengja sé óhollustusamleg.
Að gata eyru og slíkt eykur líkurnar á HIV-smiti (ekki grín, HIV hefur smitast með að skiptast á eyrnalokkum og fleiri sjúkdómar)
ritar einn ágætur maður.
Og annar ágætur benti á "rannsóknir sem styðja þetta hérna: Kostir þess að umskera, minni líkur á krabbameini
Get líka bent á aðra grein í Scientific American, sjá: http://www.scientificamerican.com/article.cfm?id=circumcision-penis-microbiome-hiv-infection "
Jón Valur Jensson, 3.2.2018 kl. 15:38
Já Jón Valur, hérna er ég í krafti "meintra yfirburða"!!!!!
Það að þér finnst skipta máli að ég sé föðurlaus er hlælegt. Það gerir ekki rök mín minna virði. Sýnir bara hversu erfitt þú átt með að verja málstað þinn.
Já ef þú hefðir eitthvað lesið þér til um málið þá myndurðu vita hversu vitlaust það er að benda á kosti þess að umskera til að fyrirbyggja krabbamein. Krabbamein í typpi er einn á móti 100,000. Samanber t.d brjóstakrabbameini sem er MIKLU algengara; eigum við að fjarlægja öll brjóst af litlum stúlkubörnum núna?
HIV rökin er líka hríkalega gölluð og ef þú hefðir lesið þér um þau mál þá myndurðu vita það. Bendi ég hér á mjög menntaðann mann innan þessara mála
https://intactdenmark.wordpress.com/omskaering/omskaering-forebygger-ikke-hivaids/
Og gott dæmi um það er t.d hversu há tíðni HIV er í USA þrátt fyrir háa tíðni umskurðar vs. lág tíðni HIV og lág tíðni umskurðar hérna í Evrópu.
Annars nenni ég ekki að svara þér hér eftir Jón Valur. Það hefur ítrekað sannað sig að þér er ekki við bjargandi. Þú er svo heiftarlega blindaður í málstað þínum að þú tekur engum rökum.
Guð hjálpi þér bara....
Iris, 3.2.2018 kl. 15:50
Hún segist vera hjúkrunarfræðingur og starfa erlendis, meira veit ég ekki um hana eða hennar hagi.
Ef það eru einhver rök fyrir umskurði að slík aðgerð dragi úr hættu á tilteknum sjúkdómum, þá hljóta fullveðja einstaklingar að geta tekið upplýsta ákvörðun um það sjálfir, vegið og metið á móti þeirri áhættu sem óhjákvæmilega fylgir öllum skurðaðgerðum.
Tek það fram að ég hef ekki kynnt mér umræddar rannsóknir af þeirri dýpt að geta tekið afstöðu til áreiðanleika þeirra.
Það eru til allskonar rannsóknir sem komist hafa að margvíslegum niðurstöðum, misjafnlega umdeildum. Sem dæmi hafa efnin flúoxetín og sertralín verið markaðssett og seld í tonnatali um allan heim á grundvelli athugasemdalausra ávísana lækna sem ekki vissu betur. Eða allt þar upplýst var að flestar rannsóknir sem sagðar voru sýna fram á virkni þeirra voru í raun fjármagnaðar af lyfjaframleiðendunum sjálfum en síðari óháðar rannsóknir leiddu aftur á móti í ljós að þessi efni hafa enga marktæka virkni umfram lyfleysu. Með öðrum orðum var fólki selt "lyf" sem er alls ekkert lyf, á mörg þúsund krónur fyrir mánaðarskammt, sem hafði í raun ekkert meiri áhrif en að fá sér vatnsglas. Ég verð því að taka öllum tilvísunum í rannsóknir sem þjóna einhverjum öðrum markmiðum en læknisfræðilegum, með stórum fyrirvara og klingjandi viðvörunarbjöllum.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2018 kl. 15:58
Manneskja sem ekki er umskorin á ekki að verja umskurð drengja! Þegar ég var ung og bjó erlendis var ég gift umskornum manni sem þjáðist það mikið fyrir verknaðinn að við sáum um að sonur okkar fengi ekki sömu meðferð! Það er vel hægt að bera umskurð drengja og stúlkna saman og óábyrgt að halda öðru framm.
ragga (IP-tala skráð) 3.2.2018 kl. 17:18
Þetta er lítilfjörleg aðgerð á sveinbörnum, en erfiðari á þeim sem fullorðnir eru. Engin ástæða til að draga þetta, í stíl krónískra vælara á netinu og víðar. Kirtlataka er miklu erfiðari aðgerð fyrir þann, sem þolir. Á þá að hætta slíku?
Þar fyrir utan er þetta óþarfa sýndarmennskufrumvarp þessarar Framsóknarkonu árás á Gyðingdóm og á foreldraréttinn. Hún ætti að hafa sig hæga, Framsóknarflokkurinn er búinn að vinna Gyðingum miklu meira en nóg skaðræði, Hermann Jónasson kaus frekar að bjóða Gyðingum, sem sóttu hér um hæli vegna ofsókna, upp á það að vera drepnir í fangabúðum nazista, og ekki var vinátta Steingríms sonar hans við hryðjuverkamanninn Jasser Arafat gæfuleg heldur.
Jón Valur Jensson, 3.2.2018 kl. 23:27
Kirtlataka er neyðaraðgerð og að því leyti ekki sambærileg við það sem hér um ræðir þar sem engin neyð réttlætir aðgerðina.
Mannréttindi eru ekki sýndarmennska og eiga ekki að vera það.
Guðmundur Ásgeirsson, 3.2.2018 kl. 23:50
Ég er sammála Jóni Val að það er mikill munur á umskurði stúlkna og drengja,vegna þess hlutverks sem líkamshluti þeirra gegnir sem numinn er burtu.- Já Guðmundur mig langar að segja upp á gamla íslenska umræðuhefð það er margt í mörgu,en eins og þú nefnir hér allskonar rannsóknir sem komast að misjöfnum niðurstöðum.
Þótt ég þykist vita að umskurður drengja sé ekki til að fyrirbyggja krabbamein,langar mig að minna á það haft eftir lækni að legkrabbamein kvenna væru í mörgum tilfellum karllimum að kenna,en ég finn bara ekki greinina.
En þessi trúarsiður Gyðinga ætti alltaf að vera þeirra mál.
Helga Kristjánsdóttir, 4.2.2018 kl. 03:45
Helga.
Þessi svokallaði "trúarsiður" Gyðinga er vissulega þeirra mál.
Á Íslandi gilda aftur á móti ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu og það er okkar mál sem búum í aðildarríkjum hans.
Kynbundin mismunun er bönnuð og þess vegna gengur ekki að hafa tiltekna brotategund refsiverða þegar brotaþoli er kvenkyns en refsilaust þegar brotaþoli er karlkyns.
Við erum vonandi öll sammála um jafnan rétt kynjanna.
Guðmundur Ásgeirsson, 4.2.2018 kl. 12:35
Þú hefur greinilega ekki orðið var við það, Guðmundur, að slíkt bann við umskurði sveinbarna (sem tíðkast helzt meðal Gyðinga og múslima) er hvergi við lýði á meginlandinu, hvað sem þú segir um "ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu"!
RABBÍNAR Í DANMÖRKU OG VÍÐAR ERU HINS VEGAR MEÐ ÁHYGGJUR AF ÞESSARI OFURRÓTTÆKNI HÉR UPPI Á ÍSLANDI og að þetta gæti breiðzt eitthvað út.
En þetta er álíka fjandsamlegt Gyðingum eins og sú stefna borgarstjórnar Dags B. Eggertssonar um árið að vilja setja viðskiptabann á Ísrael ! -- alltaf þessi sami antisemítismi í gangi síðustu áratugina hjá vinstri mönnum og öðrum vitleysingjum!
Kristin stjórnmálasamtök, 4.2.2018 kl. 16:16
Innleggið er raunar frá MÉR (óvart ekki útskráður af Kristbloggi).
Jón Valur Jensson.
Kristin stjórnmálasamtök, 4.2.2018 kl. 16:17
Sæll Jón Valur.
Þú gerir þér vonandi grein fyrir því að Mannréttindasáttmáli Evrópu gildir líka á meginlandi álfunnar?
Að "rabbínar í Danmörku og víðar" hafi áhyggjur af því mannréttindi séu virt, segir meira um að hversu miklu leyti þeir bera virðingu fyrir mannréttindum, frekar en nokkuð annað.
Afar merkileg þessi framsetning þín, að mannréttindi séu einhvernveginn fjandsamleg Gyðingum, ekki síst í ljósi þess að uppruna nútíma mannréttindasáttmála má beinlínis rekja til ofsókna á hendur Gyðingum og þess sögulega samkomulags sem náðist meðal þjóða heims í kjölfar seinni heimsstyrjaldar um að hindra að slíkt geti endurtekið sig refsilaust.
Afstaða þín er svo sem ljós og ég er ekki að búast við að henni verði breytt, en verð þá aftur á móti að spyrja:
Ert þú fylgjandi mismunun á grundvelli kynferðis?
Guðmundur Ásgeirsson, 4.2.2018 kl. 16:46
Ég var að benda þér á, að þetta bann vip umskurn sveinbarna er EKKI í gildi í löndunum á meginlandinu!
Hvað lokaspurningu þína varðar, ber ég enga sérstaka virðingu fyrir slíkum orðhengilshætti í mjög mörgum tilvikum. Það á að heita svo, að hér sé jafnrétti karla og kvenna, en samt eru t.d. mæðrum gefin hér í reynd alger forréttindi fram yfir forsjárlausa feður og ekki farið eftir barnasáttmála SÞ um að börn eigi rétt á að umgangast báða foreldra sína.
Þetta er sýndarmennskumál þessarar Silju Daggar, alger óþarfi og einungis til óþurftar, henni og okkur til skammar, ef samþykkt verður.
Þar að auki er umskurn meybarna langtum alvarlegri aðgerð og mjög skaðvænleg fyrir kynheilbrigði kvenna, ólíkt hinu dæminu.
Come off þess vegna, Guðmundur, og hættu þessari þrjózku.
Lestu líka Gunnar Rögnvaldsson!
Jón Valur Jensson, 4.2.2018 kl. 16:56
Annað hvort ertu að snúa út úr eða þú hefur einfaldlega misskilið það hver kjarni málsins er. Hann snýst ekki um það hvort bann við umskurði sé í gildi í löndum á meginlandi Evrópu.
Kjarni málsins er sú staðreynd að hér á Íslandi hefur bann við umskurði á stúlkum og konum verið í gildi undanfarin 13 ár, án þess að drengir og karlar njóti sömu verndar.
Allan þann tíma og lengur hefur kynbundin mismunun verið bönnuð samkvæmt íslensku stjórnarskránni og Mannréttindasáttmála Evrópu, sem er líka óumdeild staðreynd.
Þess vegna er nauðsynlegt veita drengjum og körlum sömu vernd, til þess að uppfylla skilyrðið um bann við kynbundinni mismunun.
Það hefur ekkert með það að gera hvort tiltekin lönd ákveða að leyfa eða banna umskurði, heldur að ef þau setja reglur um slíkt þá mega þær reglur ekki mismuna á grundvelli kynferðis.
Að brotið sé (gróflega) gegnbanni við kynbundinni mismunun og réttindum barnsins í forsjársmálum, eru ekki gild rök fyrir því að leyfa kynbundna mismunun í öðrum tilfellum. "Tvö röng gera ekki neitt rétt" eins og þú hlýtur að vita mætavel.
Svo er það einfaldlega allt önnur umræða hvort það standist ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leyfa óafturkræfa umskurði án læknisfræðilegrar nauðsynjar, á ómálga kornabörnum. Þetta er ekki sú umræða heldur er þetta umræða um kyndbundna mismunun.
Og talandi um þrjósku. Líttu sjálfum þér nær kæri vin.
Guðmundur Ásgeirsson, 4.2.2018 kl. 17:12
Þú ert að blanda óskyldum hlutum saman Guðmundur Ásgeirsson. Þótt blátt bann sé við umskurði kvenna kemur það ekki kynbundinni mismunun við í tengslum við umskurð á drengjum. Kynfæri karla og kvenna eru mismunandi og það kemur heldur ekkert kynbundinni mismunun við. Þannig vorum við sköpuð (þróuðumst). Sjáðu svar mitt til þín á bloggi mínu https://postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/2210651/#comment3683734
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 5.2.2018 kl. 04:18
Vilhjálmur Örn.
Útlit kynfæranna er ekki hluti af verknaðarlýsingunni.
Þó að stærsta líffæri flestra sem eru af afrískum uppruna (húðin) sé öðruvísi (á litinn) en okkar sem erum af norrænu bergi brotin, réttlætir það ekki mismunun á grundvelli þess mismunar, heldur er slík mismunun þvert á móti bönnuð.
Í athugasemd þinni kemur fram misskilningur um ákveðin lykilatriði málsins sem ég sé að er byrjaður að breiðast út um víðan völl í kommentakerfum. Það er sá misskilningur að um sé að ræða blátt bann við umskurði og það sé nýmæli. Þetta er rangt.
Umskurður á stúlkum og konum er alls ekki bannaður ef þær vilja það sjálfar en að einhver annar geri þeim það án upplýsts samþykkis er aftur á móti refsivert. Það ákvæði hefur verið í íslenskum lögum í 13 ár og er því alls ekkert nýmæli. Þar sem stjórnarskráin og mannréttindasáttmálar banna mismunun á grundvelli kynferðis verða drengir og karlar að njóta sömu verndar svo gilt sé. Það þýðir samt alls ekki blátt bann við umskurði heldur þvert á móti að öllum verði áfram velkomið að undirgangast slíka aðgerð sem kjósa það sjálfir.
Að vernda sjálfsákvörðunarrétt fólks í málefnum sem tengjast trúarsiðum er ekki aðför að neinum trúarbrögðum heldur þvert á móti liður í því að tryggja fólki trúfrelsi. Þess vegna væri til dæmis ekki hægt að banna þeim kjósa það sjálfir að undirgangast umskurð vegna trúarlegrar sannfæringar sinnar því þá væri einmitt verið að skerða trúfrelsi þeirra en það má ekki því trúfrelsi er líka varið í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum líkt og jafnréttið.
Umræða um þessi mál sem og önnur í samfélaginu yrði þeim mun gagnlegri ef hún byggðist á réttum staðreyndum.
Guðmundur Ásgeirsson, 5.2.2018 kl. 17:42
þegar fólk er bara hresst með að umskurður á drengjum og umskurður á stúlkum verði lagður að jöfnu í lögum er jafnréttishugsjónin komin útí öfgar. Ég hef mjög neikvæða skoðun á umskurði drengja en halló, það er óforsvaranlegt að líkja honum við limlestingarnar sem framkvæmdar eru á stúlkum. Ég er í sjálfu sér ekkert á móti því að þessar aðgerðir verði bannaðar á íslenskum sjúkrahúsum, en ég er á móti því að þessu verði jafnað saman í lögum.
halkatla, 8.2.2018 kl. 10:36
Það er enginn að tala um að leggja þetta tvennt að jöfnu, heldur eru þetta einmitt tveir ólíkir hópar þolenda sem báðir eiga þrátt fyrir það að njóta sömu verndar. Annars er þeim mismunað og mismunun á grundvelli atriða sem aðgreina fólk í ólíka hópa, svo sem kynferðis, er bönnuð samkvæmt stjórnarskrá.
Svo er það algjör misskilningur sem virðist breiðast eins og eldur í sinu um kommentakerfin, að umrætt frumvarp gangi út á að banna umskurði með öllu hér landi. Þetta er ekki rétt.
Umskurður á stúlkum og konum með líkamsárás (þ.e. án upplýsts samþykkis þeirra) hefur verið rafsiverður undanfarin 13 ár. Það kemur alls ekki í veg fyrir að þær sem náð hafa aldri til að veita upplýst samþykki geti sjálfviljugar undirgengist umskurð á sjúkrahúsi eða hjá lækni. Frumvarpið sem liggur fyrir Alþingi núna gengur út að veita drengjum sömu vernda, að þeir þuri ekki að sæta umskurði með líkamsárás refsilaust. Aftur á móti verði þeim, rétt eins og stúlkum, áfram fullfrjálst að undirgangst umskurð sjálfviljugir, þegar þeir hafi náð aldri til þess að vera færir um að veita upplýst samþykki til þess. Þetta ætti að vera ljóst þeim sem hafa lesið pistilinn hér að ofan.
Á að vera heimilt að fremja líkamsárásir gegn kynfærum drengja? Ef það þykir í lagi, en ekki í lagi að fremja slíka árás gegn kynfærum kvenna, þá er ekki um jafnrétti að ræða.
Guðmundur Ásgeirsson, 8.2.2018 kl. 13:07
Endemisjafnréttisbull er þetta í þér, Guðmundur. Þetta eru svo veikluleg líberal- og hálf-feministísk rök, að það hálfa væri nóg. Láttu the libtards um að hugsa svona.
Jón Valur Jensson, 9.2.2018 kl. 01:07
Það er misskilningur að verið sé að banna nokkurn skapaðan hlut. Þeim sem vilja af fúsum og frjálsum vilja undirgangast umskurð verður það áfram fullkomlega heimilt enda er það einmitt nauðsynlegt til að tryggja trúfrelsi. Þannig er alls ekki verið að leggja til neina skerðingu á trúfrelsi heldur þvert á móti að tryggja það.
P.S. Biblíutilvísanir hafa ekki lagagildi, með fullri virðingu.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.2.2018 kl. 21:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.