Lögbann til verndar heildarhagsmunum neytenda

Neytendasamtökin segja í tilkynningu sinni að svo virðist sem þau úrræði sem stjórn­völd hafi til að koma í veg fyr­ir ólög­lega lána­starf­semi dugi skammt, með vísan til starfsemi svokallaðra smálánafyrirtækja sem bjóða neytendum ólögleg lán. Það má vissulega taka undir með þeim að stemma beri stigu við slíkri okurlánastarfsemi.

Þess væri reyndar óskandi að Neytendasamtökin hefðu beitt sér með sama hætti vegna ólöglegra stórlána annarra lánveitenda. Með því á ég t.d. við húsnæðislán en þau fela í sér stærstu skuldbindingar sem venjulegir neytendur undirgangast. Staðfest hefur verið af dómstólum að meira og minna öll slík lán sem veitt voru af fjármálafyrirtækjum fram að bankahruninu 2008 voru ólögleg, jafnt gengistryggð sem verðtryggð.

Jafnframt verður að skoða yfirlýsingar Neytendasamtakanna í ljósi þess að þau hafa þrátt fyrir allt í hendi sér úrræði sem hægt væri að grípa til. Samkvæmt lögum um lögbann og dómsmál til að vernda heildarhagsmuni neytenda nr. 141/2001 getur ráðherra veitt stjórnvöldum og samtökum heimild til að leita lögbanns og höfða dómsmál til að stöðva eða hindra brot gegn neytendum. Neytendasamtökin eru einmitt meðal þeirra samtaka sem hafa fengið slíka heimild samkvæmt auglýsingu ráðherra nr. 1320/2011.

Þrátt fyrir að njóta slíkrar heimildar, hafa Neytendasamtökin samt aldrei reynt að krefjast lögbanns á ólöglega starfsemi smálánafyrirtækja. Reyndar hefur aðeins einn þeirra aðila sem hafa heimild til þess reynt að nýta þá heimild, en Hagsmunasamtök heimilanna hafa alls fjórum sinnum leitað lögbanns á þessum grundvelli.

Í fyrsta sinn sem heimildinni var beitt beindist málið gegn ólöglegum vörslusviptingum ökutækja vegna ólöglegra bílasamninga, sem voru í kjölfarið stöðvaðar með lagasetningu. Því næst gegn innheimtu ólöglega gengistryggðra lána sem höfðu ekki verið leiðrétt í samræmi við lög af hálfu Lýsingar og Landsbankans. Þá var jafnframt krafist lögbanns á heimildarlausa innheimtustarfsemi Dróma hf., sem var stöðvuð í kjölfarið og umsjón þeirra lána sem þar um ræddi færð yfir til Arion banka.

Neytendasamtökin ættu kannski að leita í smiðju Hagsmunasamtaka heimilanna, og nýta hluta af því mikla fé sem þeim er úthlutað á hverju ári úr ríkissjóði, til að standa straum af höfðun lögbannsmáls í því skyni að stöðva ólöglega starfsemi smálánafyrirtækja? Með því væri að minnsta kosti staðið við stóru orðin í tilkynningu samtakanna...


mbl.is Yfir 400% ársvextir af smálánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband