Flatjarðarkenningar um afnám verðtryggingar
12.8.2016 | 14:17
Meðal umtöluðustu kosningaloforða í seinni tíð eru þau fyrirheit sem gefin voru í aðdraganda síðustu kosninga um afnám verðtryggingar neytendalána. Nú þegar langt er liðið á kjörtímabilið bólar hinsvegar ekkert á efndum þeirra fyrirheita. Jú, það var skipaður "sérfræðingahópur" sem var falið það verkefni að útfæra afnám verðtryggingar. Jafnvel þó að hópnum hafi strax á fyrstu dögum starfa sinna verið afhent tilbúin útfærsla á silfurfati, mistókst honum samt einhvernveginn að skila þeirri útfærslu af sér. Þess í stað varð útkoman einhver hálfkæringur um að þrengja lánstíma verðtryggðra lána.
Æ síðan hafa hinir og þessir aðilar á opinverum vettvangi látið í ljós vanþekkingu sína með fullyrðingum um að það sé "ekki hægt" eða "mjög erfitt" að afnema verðtryggingu. Nú er svo komið að jafnvel Framsóknarmenn sem lögðu einna mesta áherslu á loforð um að afnema verðtryggingu, er farnir að elta slíkan málflutning. Sennilega gera þeir það í því skyni að búa sér til afsökun fyrir því að hafa mistekist verkefnið, og réttlæta sig með því að það sé svo "erfitt" (að afnema verðtryggingu). Að gefnu tilefni væri því vel við hæfi að fara yfir nokkrar staðreyndir málsins. Ekki skoðanir og ekki einstaklingsbundna afstöðu til málsins, heldur beinharðar staðreyndir:
- Rétt eins og verðtryggingu var upphaflega komið á með lagasetningu, verður hún ekki afnumin öðru vísi en með lagasetningu, þ.e. breytingum á lögum um vexti og verðtryggingu.
- Rétt eins verðtrygging miðað við gengi erlendra gjaldmiðla var afnumin mjög auðveldlega með gildistöku núgildandi vaxtalaga fyrir 15 árum síðan, væri alveg jafn auðvelt að afnema verðtryggingu miðað við vísitölu neysluverðs.
- Fyrir Alþingi liggur núna frumvarp fjármálaráðherra þar sem meðal annars er gerð tillaga um afnám verðtryggingar neytendalána miðað við hlutabréfavísitölur, með einni setningu í frumvarpstextanum, eða einmitt með "pennastriki" eins og það er stundum kallað. Ekki þyrfti að breyta nema einu orði í þeim texta til að afnema verðtryggingu neytendalána miðað við vísitölu neysluverðs líka.
- Frumvarp um afnám verðtryggingar neytendalána (miðað við vísitölu neysluverðs) hefur tvisvar verið lagt fram á Alþingi nú þegar. Frumvarp með fullnaðarútfærslu afnáms verðtryggingar var fyrst lagt fram í mars 2013 á síðasta kjörtímabili, og jafnframt var sambærilegt frumvarp lagt fram í janúar á þessu ári.
- Það eina sem þarf að gera til að afnema verðtryggingu neytendalána er að meirihluti Alþingis samþykki frumvarp þar að lútandi sem lög, og forseti staðfesti þau með undirritun sinni.
Enn fremur er rétt að vekja athygli á því að það er ranghermt í viðtengdri frétt mbl.is að þau Elsa Lára Arnardóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafi sagt í aðsendri grein í Fréttablaðinu í gær, að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki heldur verði að gera það í skrefum. Hið rétta er að í grein þeirra segir orðrétt:
"Í fréttum undanfarið hefur heyrst að draga skuli úr vægi verðtryggingar og að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna með einu pennastriki. Það þurfi að gera í skrefum."
Augljóslega eru þau ekki þarna að tjá sínar persónulega skoðanir, heldur eru þau að vísa til þeirra röngu fullyrðinga sem margir aðrir og sérstaklega hinir sjálfskipuðu varðhundar verðtryggingar, hafa látið út úr sér í viðtölum við fjölmiðla að undanförnu. Þar fer fremstur í flokki sjálfur fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, sem hefur það sem af er þessu kjörtímabili haldið málinu í dvala, og nánast dauðadái, innan veggja ráðuneytis síns.
Nú kann einhverjum að þykja bratt hjá mér að kalla skoðanir annarra "rangar". Við það stend ég hinsvegar fullum fetum, því sumir hlutir í veruleikanum eru einfaldlega staðreyndir, þar á meðal að það er ekkert sérstaklega erfitt að afnema verðtryggingu. Sá sem hefur aðra skoðun, er því ekki vel upplýstur og fer með rangt mál. Alveg eins og sá sem myndi halda því fram að jörðin væri flöt, en hvort sem það er skoðun viðkomandi aðila eða ekki breytir það engu um að slík fullyrðing er einfaldlega röng.
Það er áhyggjuefni fyrir Íslendinga að sjálfur fjármálaráðherra landsins, skuli ekki vita betur en svo, að bera fram rangar upplýsingar þegar kemur að einu stærsta og mikilvægasta hagsmunamáli íslenskra neytenda. Það er líka áhyggjuefni að fjölmiðlar, sem eiga að þjóna því hlutverki að upplýsa um mikilvæg málefni líðandi stundar, skuli taka athugasemdalaust undir slíkar flatjarðarkenningar. Þjóðfélagsumræða á Íslandi yrði þeim mun gagnlegri og markvissari, ef hún byggðist á staðreyndum frekar en tilhæfulausum ósannindum.
Vilja verðtryggingu burt í skrefum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Verðtrygging | Breytt s.d. kl. 17:10 | Facebook
Athugasemdir
Guðmundur þetta er besta grein sem ég hef lesið lengi og nákvæmlega sama má segja um það að lagfæra lífeyrsmáin, Hjá almenningi á Íslandi. Svo eru alltof margir sem halda að við höfum góða stjórnmálamenn í landinu. Af hverju er þetta allt svona spillt og ruglað?
Steindór Sigurðsson, 12.8.2016 kl. 14:54
Góð spurning. Því miður hef ég ekki svar á reiðum höndum. Veist þú af hverju þetta er allt svona spillt og ruglað? Eina skýringin sem mér dettur í hug er að það sé vegna þess að áhrifamiklir aðilar telji sig hafa hagsmuni af því að viðhalda þeirri vítisvél sem verðtryggingin er. Staðreyndin er hinsvegar sú að þeir eru á jafn miklum villigötum og aðrir sem halda að það sé einhver ávinningur af því að reyna að viðhalda ósfjálfbæru fyrirkomulagi.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2016 kl. 15:05
Guðmundur, hverjir eru þessir títtnefndu áhrifamiklu aðilar? Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna, verkalýðshreyfingarinnar, embættismenn, kaupmenn eða bankamenn?
Kolbrún Hilmars, 12.8.2016 kl. 16:00
Glöggur Guðmundur!
Kolbrún, eru það ekki fyrst og fremst ofurlauna-forsvarsmenn lífeyrissjóðanna (sem eru ríkið í ríkinu) og bankarnir?
Jón Valur Jensson, 12.8.2016 kl. 16:10
Ofurgróðabankarnir!
Jón Valur Jensson, 12.8.2016 kl. 16:11
Ég veit að Guðmundur hefur lengi unnið að þessum verðtryggingar málum og hefur þekkingu á þeim. En er ekki orðið tímabært að nefna þá sem standa helst á móti breytingum?
Kolbrún Hilmars, 12.8.2016 kl. 16:27
Vissulega má margt finna að verðtryggingunni, en fáir virðast nú muna eftir þeim ósköpum sem ríktu í fjármálum okkar áður en "Ólafs lög" um verðtryggingu tóku gildi.
"Útvaldir" menn fengu bankalán sem hjöðnuðu niður á nokkrum árum, og þeir sem eignuðust peninga flýttu sér að eyða þeim á einhvern hátt á meðan þeir voru einhvers virði.
Það verður án efa að sníða ýmsa vankanta af verðtryggingunni, en ég álít óráðlegt að afnema hana með öllu.
Ég bendi á ágæta grein Más Wolfgangs Mixa í Morgunbl. 11. ágúst síðastl.
Hörður Þormar (IP-tala skráð) 12.8.2016 kl. 16:38
Jú endilega nefnið þá.
Í pistlinum nefndi ég einn þeirra, en þeir eru fleiri.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2016 kl. 17:05
Nú ætla ég ekki að mótmæla því að verðtygging á íslandi er böl og til bóta væri að losna við hana ef: þeim fjármálalega stöðugleika sem nú ríkir er ekki raskað, ef gengi krónu helst stöðugt, ef það seinkar ekki losun hafta, ef ungt fólk getur áfram fjárfest í húsnæði, ef....
þegar ákveðið er að byggja flóðgarða og dæla burt vatni til stækka byggjaleg landsvæði þá er nóg að slökkva á dælunni, þá fyllist svæðið aftur, einfalt ekki satt. En er það val ? þegar fólkið er flutt inn á svæðið. Kannski má segja að lífeirssjóðirnir séu fólkið og dælan verðtryggingin í tilfelli verðtryggingarinnar.
Verðtrygging var heimska í upphafi en það er ekki hægt að stíga skrefið til baka án þess að það valdi tjóni fyrir þá sem hafa byggt sína afkomu á þessu.
Guðmundur Jónsson, 12.8.2016 kl. 19:13
Nei vísitölutryggingingin var ekki heimska í upphafi, Guðmundur J. Það var gríðarlega heimskuleg verðbólga lengi lengi og og vísitölutryggingin talin nauðsynleg.
Elle_, 12.8.2016 kl. 19:38
Nafni. Ég skal svara þessu lið fyrir lið:
"ef: þeim fjármálalega stöðugleika sem nú ríkir er ekki raskað"
Svar: Þar sem verðtrygging útlána bankakerfisins er ein mesta uppspretta óstöðugleika í íslensku efnahagskerfi, þá mun það ekki raska neinum stöðugleika að afnema hana, heldur þvert á móti stuðla að stórauknum stöðugleika frá því sem áður hefur þekkst.
"ef gengi krónu helst stöðugt"
Svar: Gengi krónunnar er um þessar mundir ákveðið af Seðlabanka Íslands. Verðtrygging hefur ekkert um það að segja. Enda væri það útilokað þar sem hugtakið "gengi krónunnar" á eðli málsins samkvæmt við um krónur sem eru ekki verðtryggðar. Það má ekki blanda þessu tvennu saman því það ruglar bara umræðuna.
"ef það seinkar ekki losun hafta"
Svar: Í fyrsta lagi þá hefur verðtrygging ekkert með losun hafta að gera. Hún var hinsvegar ein af frumorsökum þess hruns sem varð þess valdandi að höft voru sett á haustið 2008. Í öðru lagi, þá bíð ég enn eftir því að heyra sannfærandi rök fyrir því hvers vegna það ætti yfir höfuð að leyfa óhefta fjármagnsflutninga.
"ef ungt fólk getur áfram fjárfest í húsnæði"
Fjárfesting í húsnæði hefur ekkert með verðtryggingu að gera, því kaupverðið er án undantekninga greitt með nafnkrónum. Mér þykir hinsvegar líklegt að þú sért frekar að vísa til möguleika fólks á því að taka lán fyrir húsnæðiskaupum. Ég var sjálfur "ungt fólk" þegar ég reyndi árið 2006 að fjárfesta í minni fyrstu íbúð með lánsfé á grundvelli verðtryggðra skuldabréfa. Þau reyndust einmitt vera ástæðan fyrir því að sú tilraun fór út um þúfur. Þannig hefur verðtryggingin hingað til beinlínis komið í veg að fyrirætlanir um fjárfestingu í húsnæði nái fram að ganga, ekki aðeins hjá ungu fólki heldur hjá fólki yfir höfuð. Afnám þeirrar fyrirstöðu er því meginforsenda þess að skapa umhverfi þar sem ungt fólk sem og annað fólk geti fengið lán á hagstæðum kjörum til húsnæðiskaupa. Vissulega þarf fleira að koma til, ekki síst lægri vextir, en þeir munu aldrei lækka á meðan verðtryggingin heldur þeim uppi með því að tryggja lánveitendum jákvæða raunvexti sama hvernig viðrar í efnahagslífinu og skpa þannig gólf undir vaxtamyndun í landinu. Þess vegna er afnám verðtryggingar líka forsenda lægri vaxta.
"Kannski má segja að lífeirssjóðirnir séu fólkið og dælan verðtryggingin í tilfelli verðtryggingarinnar."
Kannski já, en bara ef dælan snýr öfugt í þeirri samlíkingu, því raunveruleikinn er sá að það er hún sem drekkir fólkinu.
"Verðtrygging var heimska í upphafi en það er ekki hægt að stíga skrefið til baka án þess að það valdi tjóni fyrir þá sem hafa byggt sína afkomu á þessu."
Hún var ekkert heimska bara í upphafi heldur hefur haldið áfram að vera það æ síðan og bara vaxið að umfangi með tímanum. Vissulega myndi afnám hennar draga úr ávinningi þeirra sem hafa byggt afkomu sína á þessari rányrkju, en almennt þykir nú sjaldnast ástæða til þess að hafa áhyggjur af ræningjum þegar rán er stöðvað, þvert á móti. Að stíga til baka frá orsök tjónsins getur ómögulega aukið það heldur myndi þvert á móti draga úr því. Þegar maður er staddur í miðju eldhafi, er eina leiðin til að það hætti að skaða mann, að fara út úr eldhafinu. Skaðinn eykst ekki við það heldur hættir, og þau einföldu sannindi skilur flest sæmilega vel gefið fólk.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.8.2016 kl. 20:51
Ekki raunsætt eða sanngjarnt, að mínu mati, að gagnrýni hafi komið fram sem segi að ,,ekki sé hægt" að afnema verðtryggingu.
Aðalmálið var og er, - að það er stórlega efasamt að það bæti nokkurn hlut að banna verðtryggingu. Sennilegast myndu fylgja margvíslegar afleiðingar sem yrðu vandamál á vandamál ofan.
Flatjarðarkenningin varðandi verðtryggingu væri frekar sú kenning að það að afnema verðtryggingu þýði = Paradís.
(En með Flatjarðarkenninguna, að þá er hún ekki aðeins um að Jörðin sé flöt heldur fylgir margt á eftir. Allur himininn, stjörnurnar, sólin etc., hljóta þá að vera með allt öðrum hætti en talið er o.s.frv. Furðuleg kenning og hún er að hljóta vaxandi stuðning að því er talið er.)
Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.8.2016 kl. 13:12
Er það misskilningur minn, að Seðlabankinn getir ákveðið verð (gengi) USdollar, Candollars, evru etc. Þ.e.a.s. ákveðið hversu margar Ikr ferðamaðurinn fær, þegar hann kemur í banka hér á landi og skiptir erlendum gjaldeyri í Ikr? En aftur á móti erlendar kauphallir og alþjóðabankar ákveð gengi Ikr við sömu aðstæður? Eru það því ekki mannalæti að segja, að SÍ ákveði gengi Ikr?
Ég held þú hafir alveg rétt fyrir þér í því sem þú segir um formlegt afnám verðtryggingarinnar. En hverjar verða afleiðingarnar í þjóðfélaginu eftir svo sem 3 - 4 ár, ef ekki verður farið í einhvers konar gjaldeyrisskipta samvinnu við erlent ríki (Norge, Kanada, USA)?
Er það ekki einhver óskhyggja að halda, að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að koma af stað verðbólgu í stíl við það, sem gilti á sjöunda og áttunda áratugnum síðustu aldar, þegar skuldir einstaklinga brunni upp á verðbólgubálinu; þeirra, sem voru þeirrar gæfu aðnjótandi að fá húsbyggingarlán á þeim tíma? Sá gózentími skuldara kemur vonandi aldrei aftur. Það var tími óréttláts eigatilflutnings.
Lausnin er einfaldlega sú að "taka upp" annan gjaldeeyri. En innlend öfl standa mjög í vegi fyrir því, þar sem slíkir samningar við erlend ríki, myndi hefta algerlega geðþóttaákvarðanir misheppnaðra varðhunda hins óréttlata efnahagskerfis. Íslenzka krónan ásamt gengisfellingarógninni eru þau kúgunartæki, sem núverandi stjórnvöld vilja halda lengst í!
Sigurður Oddgeirsson (IP-tala skráð) 13.8.2016 kl. 13:26
Er það ekki einhver óskhyggja að halda, að það væri þjóðhagslega hagkvæmt að koma af stað verðbólgu í stíl við það, sem gilti á sjöunda og áttunda áratugnum síðustu aldar, þegar skuldir einstaklinga brunni upp á verðbólgubálinu; þeirra, sem voru þeirrar gæfu aðnjótandi að fá húsbyggingarlán á þeim tíma? Sá gózentími skuldara kemur vonandi aldrei aftur. Það var tími óréttláts eigatilflutnings.
Hárrétt frá Sigurði. Svo var það líka þannig að sparifé fólks hvart út í veður og vind í gríðarlegri verðbólgu, rýrnuðu svo mikið að þeir voru orðnir að nánast engu. Guðmundur ætti líklega að hafa það með í dæminu.
Elle_, 13.8.2016 kl. 14:17
Ómar Bjarki.
Hvort sem það sé raunsætt eða sanngjarnt að sumir hafi reynt að halda því fram að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu, þá hefur það nú samt verið reynt. Meðal annars í þeirri frétt sem þessi færsla er tengd við. Það gleður mig hinsvegar að við séum á sama máli um að slík framsetning eigi ekki rétt á sér.
Það sem nú nefnir er hinsvegar annað mál og það eru afleiðingarnar. Þú segist efast um að afnám verðtryggingar geti haft jákvæð áhrif. Ég skal því upplýsa þig um hvað myndi batna við afnám hennar. Verðtrygging er einn stærsti einstaki verðbólguvaldurinn á Íslandi, og afnám hennar myndi því leiða til lægri verðbólgu en ella, sem væri öllum í þjóðfélaginu til hagsbóta ekki bara þeim sem skulda verðtryggð lán. Með því yrði efnahagsumhverfið hér mun stöðugra, sem myndi þá um leið skapa forsendur fyrir lækkun fjármagnskostnaðar almennt.
Ég reiknaði nýlega út á grundvelli gagna frá Seðlabanka Íslands sem ná yfir árabilið 2004-2010, að á því tímabili skapaði verðtrygging neytendalán ein og sér um helming allrar verðbólgu sem mældist á tímabili. Hún var að meðaltali tæp 6% á tímabilinu en hefði án áhrifa verðtryggðra neytendalána getað verið vel innan 4% vikmarka opinbers verðbólgumarkmiðs. Þessi auka verðbólga sem stafar af engu öðru en verðtryggingunni sjálfri, hafði þau áhrif að hækka verðtryggðar skuldir heimilanna um hundruði milljarða eða tugi prósenta á þessu tímabili, ekki vegna þess að neitt hefði raunverulega hækkað í verði, heldur vegna þess að verðtrygging lánanna rýrði verðgildi nafnkrónunnar þetta mikið.
Núna um þessar mundir mælist verðbólga frekar lág, og reyndar er það eina sem heldur henni fyrir ofan 0%, áframhaldandi hækkun á húsnæðisverði, en það er einmitt sá undirliður vísitölu neysluverðs sem er næmastur fyrir áhrif verðtryggingar því undirliggjandi nánast öllum húsnæðiskostnaði á Íslandi er verðtryggð fjármögnun. Ef þessi liður væri fjarlægður þá væri engin verðbólga hér núna heldur þvert á móti verðhjöðnun sem myndi þýða kaupmáttaraukningu fyrir almenning um hver einustu mánaðamót án þess að það þyrfti að kosta nokkurn skapaðan hlut fyrir neinn annan í þjóðfélaginu. Þannig má í raun segja að öll verðbólga sem nú mælist á Íslandi sé beinlínis afleiðing verðtryggingar.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.8.2016 kl. 15:10
Sigurður.
Nei það er ekki misskilningur, heldur rétt hjá þér að Seðlabankinn ákveður gengi krónunnar í viðskiptum við seðlabankann. Það gengi er aftur á móti alls ekki bindandi fyrir aðra, nema þeir hafi samið þannig með sér. Þannig koma gengisákvarðanir seðlabankans engan veginn í veg fyrir það ef ég og þú myndum semja um að skiptast á krónum og dollurum á allt öðru öðru gengi en seðlabankinn birtir. Um slíkt ríkir samningsfrelsi. Það sama á við utan landssteinanna eins og þú vísar til. Ég held reyndar að krónan sé hvergi í formlegum viðskiptum á neinu skráði gengi erlendis, heldur sé þær krónur sem eru í eigu erlendra aðila að skipta um hendur á einhverju gengi sem þeir aðilar semja sjálfir um hverju sinni. Svo gæti auðvitað seðlabankinn hætt að handstýra genginnu og sett krónuna á flot aftur eins og var reynt hér á árum áður og endaði með ósköpum. Ég mæli ekki með því heldur frekar nokkurskonar fastgengisstefnu.
Það er hinsvega rangt hjá þér að það sé einhver "lausn" á vandamálinu sem felst í verðtryggingu, að taka upp annan gjaldmiðil. Í fyrsta lagi þá er óraunhæft að taka einhliða upp erlendan gjaldmiðil án þess að ganga í myntbandalag, en það ein sem er hér nálægt okkur sem gæti komið til greina er það evrópska. Það er hinsvegar háð inngöngu í Evrópusambandið, sem er ekki að fara að gerast. Jafnvel þó það myndi gerast þá myndi það alls ekki hafa þau áhrif á verðtryggingu sem þú og margir fleiri virðast halda. Á fundi sem ég sótti ásamt fleiri íslenskum aðilum með sendiherra ESB á Íslandi í sendiráðinu við Ingólfstorg, bar ég fram þessa spurningu, þ.e. hvaða áhrif það hefði á verðtrygginguna ef Ísland gengi í ESB og tæki upp evru. Svarið var í stuttu máli: engin, það yrði eftir sem áður háð íslenskum lögum hvort verðtrygging yrði heimil eða ekki, sem hún er. Við myndum þá sitja uppi með það versta úr báðum heimum: skuldir okkar yrðu þá ekki aðeins verðtryggðar, heldur líka gengistryggðar miðað við erlendan gjaldmiðil sem við höfum engin tök á að stjórna ekki frekar en verðtryggingunni á meðan hún er við lýði. Við þetta má bæta að sendiherranum var sýnilega brugðið þegar hann var upplýstur um að slíkur málflutningur væri notaður af fylgismönnum ESB-aðildar hér á landi sem ein helsta röksemd þeirra fyrir inngöngu Ísland í ESB. Röksemd sem er á sandi byggð og nánast hrein lygi.
Þú segir: "Íslenzka krónan ásamt gengisfellingarógninni eru þau kúgunartæki, sem núverandi stjórnvöld vilja halda lengst í!"
Verðtrygging gerir það sama, hún er sjálfvirk gengifelling í hverjum einasta mánuði á nafnkrónunni. Krónan sjálf orsakar ekki nokkurn skapaðan hlut, heldur eru það slæmar ákvarðanir útgefanda hennar sem gera það. Sú stærsta þeirra slæmu ákvarðana var að innleiða lán með verðtryggðan höfuðstól sem meginreglu í útlánum. Hinsvegar er lítið mál að draga þá ákvörðun til baka, með því einfaldlega að afnema verðtryggingu, eins og er umfjöllunarefni pistilsins hér að ofan.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.8.2016 kl. 15:25
Elle.
"Svo var það líka þannig að sparifé fólks hvart út í veður og vind í gríðarlegri verðbólgu, rýrnuðu svo mikið að þeir voru orðnir að nánast engu. Guðmundur ætti líklega að hafa það með í dæminu."
Pistillinn fjallar ekki um þetta, heldur snýst hann um að hrekja þau ósannindi að ekki sé hægt að afnema verðtryggingu. Með pistlinum er ég einfaldlega að sýna fram á að það er vel hægt að afnema hana. Annað er ekki umfjöllunarefni þessa pistils.
En fyrst þú nefnir það, þá er alveg rétt að hér á árum áður þegar óðaverðbólga geysaði brann sparifé upp á verðbólgubálinu. Verðtryggingin hefur ekkert breytt því til hins betra, heldur þvert á móti aukið vandamálið. Auk þess að valda verðbólgu sem brennir upp sparifé í formi fjármagnseigna, þá hefur hún líka brennt upp allt eigið fé heimilanna í fasteignum sínum. Það má nefninlega ekki gleyma því að kaup á húsnæði eru líka fjárfesting, alveg eins og að kaupa ríkisskuldabréf eða leggja peninga inn á bankareikning til ávöxtunar. Ef ég ætti sjálfur að velja á milli þess hvort ég ætti 30 milljónir á bankabók eða skuldlausa íbúð, myndi ég hiklaust velja íbúðina því hana hef ég ekki aðeins not fyrir heldur beinlínis þörf. Ég hefði hinsvegar ekki þörf fyrir að eiga mikla peninga á bankabók ef ég ætti skuldaust húsnæði sem ég gæti búið í áhyggjulaus.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.8.2016 kl. 15:33
Ég er alveg sammála þér í því, að einhliða upptaka erlends gjaldmiðils er bara bull. En Danir hafa svínbundið dönsku krónuna við evruna, án þess að vera í myntbandalagi evruríkjanna. Það hefur gefizt vel. Ég kastaði fram hugmynd un gjalderisskiptasamning við annað ríki. Þú svaraðir því engu. Getur þú sagt mér hvaða skilyrði íslenzk stjórnvöld yrðu að gangast undir til að ná slíkum samningum? Var ekki gerður slíkur tímabundinn samningur við kínversk stjórnvöld fyrir nokkrum árum? Auðvitað hefði innganga Íslands í ESB engin áhrif á verðtryggingu svona beint. En óbeinu áhrifin, sem skipta meginmáli eru þau, að verðrygging verði óþörf! og þar með yrði hún sjálfdauð. En það er augljóst, að kerfiskarlarnir á Íslandi þurfa að breyta siðferðisvitund sinni við slíkar aðstæður og varla við því að búast að þeir vilji gefa frá sér möguleikann á að vernda hagsmuni þeirra, sem þeir stunda hagsmunagæzlu fyrir. En þú svaraðir ekki þeirri spurningu, sem var í innleggi mínu um það, hvað gerist eftir 3 – 4 ár, að ínu áliti, eftir að verðtrygging verði afnumin (bönnuð) og vextir verði gerðir frjálsir? Það er alþekkt fyrirbrigði, að það er mikil freisting fólgin í því að selja teygjuband í metramáli. Og þannig yrði það líka með vextina held ég. Er ekki hætta á því, að allt fari á hvolf (eina ferðina enn!). Gaman að heyra álit þitt á þessu, en ég læt lokið hér með orðaskiptum um þetta gagnmerka hagsmunamál þjóðarinnar.
Sigurður Oddgeirsson (IP-tala skráð) 13.8.2016 kl. 21:59
Sigurður.
"Ég kastaði fram hugmynd um gjalderisskiptasamning við annað ríki. Þú svaraðir því engu."
Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki svarar í fyrra sinn um hugmyndina um gjaldeyrisskiptasamninga. Ég held að það sé góð hugmynd, sem væri vert að skoða til framtíðar. Persónulega treysti ég mér ekki til að fullyrða hvaða skilyrði þyrfti að gangast undir, það færi sjálfsagt eftir hvernig næði að semjast. Ef evrópska myntbandalagið er tekið sem dæmi til hliðsjónar, þá þarf að hafa haldið stöðugleika í verðlagi, gengi og ríkisfjármálum í vissan tíma áður en skilyrðin eru uppfyllt. Það sem er svo merkilegt við þau skilyrði er að til þess að ná þeim þyrfti hvort sem er að gera það með sínum eigin sjálfstæða gjaldmiðli, sem ég held að sé alveg hægt ef það yrði nú bara tekin upp skynsemi í stjórn peningamála, og best væri ef það yrði bara drifið í að gera það sem fyrst því þá myndi þetta eilífa þras um gjaldmiðilinn einfaldlega þagna.
Þú nefnir að með inngöngu í ESB yrði verðtrygging óþörf og sjálfdauð. Gagnvart því vil ég benda á að hún er nú þegar óþörf hvort sem er, og reyndar til óþurftar, en hefur samt ekki orðið sjálfdauð, ekki einu sinni þó að stórir hópar í þjóðfélaginu hafi lengi barist gegn henni og haft stuðnings yfirgnæfandi meirihluta almennings á bak við sig í því. Ég fæ ekki séð hvernig það ætti að breytast einhvernveginn af sjálfu sér þó gengið yrði í ESB, þar sem reglur sambandsins hafa engin slík áhrif. Ef þú ert að hugsa um aðild að myntbandalaginu í kjölfarið, þá vísa ég aftur í það sem ég skrifaði hér að framan um skilyrðin sem þarf að uppfylla. Þeim verður aldrei náð með verðtryggingu á meirihluta útlána bankakerfisins, og þess vegna ættu menn að drífa í því strax að afnema hana ef þeir vilja einhverntímann uppfylla slík skilyrði, hvort sem það er til að koma stöðugleika á krónuna eða í því skyni að taka upp evruna, sem yrði þá reyndar orðið óþarft og sjálfdauð hugmynd.
Loks varðandi hvað gerist að mínu áliti eftir að verðtrygging hefur verið afnumin. Það fyrsta sem mun gerast er að það verða einfaldlega ekki veitt nein fleiri verðtryggð lán til neytenda. Bankarnir myndu þá þurfa að fullnægja útlánaþörf sinni með því að veita óverðtryggð lán, eins og þeir bjóða reyndar allir nú þegar. Hinsvegar eru vextirnir á þeim frekar háir, og reyndar svo háir að þá myndi koma í ljós hversu fáir standast greiðslumat fyrir greiðslubyrði slíkra okurvaxta, þegar það ekki lengur falsað með því að færa mestalla greiðslubyrðina aftar á lánstímann eins og í verðtryggðu lánunum. Samkvæmt lögmálinu um framboð og eftirspurn, munu bankarnir því neyðast til að lækka vexti svo þeir geti lánað fleirum og fullnægt útlánaþörf sinni. Vissulega myndi hagnaður þeirra minnka við það, en þeir hafa nú alveg rækilega efni á því. Á endanum munu vextirnir svo ná því jafnvægi sem markaðurinn þolir, sem þeir hafa aldrei fengið að gera á meðan verðtryggingin hefur myndað gólf undir þá. Það sem ég myndi svo leggja til að yrði gert samhliða þessu væri að banna uppgreiðslugjöld og lántökugjöld á eldri verðtryggðum lánum svo fólk geti auðveldlega skipt þeim yfir óverðtryggð. Þannig myndi þeim sem annt er um verðtryggðu lánin sín líka gefast kostur á að halda þeim. Svo mun áfram verða hægt að taka jafngreiðslulán til að dreifa greiðslubyrðinni svo hún sé ekki eins há í byrjun lánstímans, og ríkið mun áfram geta notað vaxtabætur til að styðja þá tekjulægstu svo þeir ráði við vaxtabyrði vegna húsnæðiskaupa. Þú spyrð hvort það fari ekki allt á hvolf við þetta? Svarið við því er að það fór allt á hvolf hérna út af verðtryggingunni og fleiru og er ennþá á hvolfi. Þess vegna þarf að hvolfa því við aftur, til að koma því á réttan kjöl. Hvað er á hvolfi fer nefninlega eftir því hvaðan maður horfir.
Guðmundur Ásgeirsson, 13.8.2016 kl. 23:00
Ég vil meina að það hafi verið allt í lagi með verðtrygginguna til að byrja með. Því að upphafi var launavísitalan inni í verðtryggingarjöfnunni, sem gerði það að verkum aö laun hækkuðu í réttu hlutfalli við annað verðlag í landinu.
En Adam var ekki lengi í Paradís.
Það leið ekki nema hálft ár þá var búið að kippa launavísitölunni útúr verðtryggingarjöfnunni. Sem hefur gert það að verkum að enginn hefur eignast neitt á heiðarlegan hátt á Íslandi.
Það líkar Elítunni mjög vel, því þá hamast almenningur á hamstrahjólinu út lífið með engum árangri. En Elítan fær óverðtryggð lán. Sumir kalla þetta að það séu tvær þjóðir í þessu landi.
Steindór Sigurðsson, 13.8.2016 kl. 23:59
En varðandi þessi uppgreiðslugjöld, lántökugjöld og stimpilkostnað og hvað þetta heitir nú allt saman, með rosalega flottum nöfnum.
Það vill til að ég hef m.a. unnið í tveimur löndum í Affríku. Þar eru nákvæmlega þessi sömu gjöld kölluð mútur, því þar eru ekki fínir háskólamenn búnir að finna upp svona fín nöfn á þann þjófnað.
Steindór Sigurðsson, 14.8.2016 kl. 00:11
Steindór.
Varðandi þessi gjöld sem þú vísar til. Sama hvað við köllum þau, þá hafa þau fyrst og fremst þau áhrif fyrir neytendur að læsa þá fasta við lánið og þar með í viðskipti við lánveitandann. Þess vegna þarf að afnema þau. Þess má geta að þau eru nú þegar bönnuð á lánum með breytilega vexti, og með sömu rökum ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að banna þau líka á verðtryggðum lánum, því kostnaðurinn við þau er líka breytilegur og enn síður fyrirsjáanlegur.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2016 kl. 00:22
Já Guðmundur ég er alveg sammála þér og ég átta mig alveg á því að þú ert miklu betur inni í þessum málum en ég. Enda hef ég ekki starfað í fjármálageiranum. En það sem ég átti við að mútur eiga ekki að eiga sér stað hvaða nöfnum svo sem menn nefna þau.
En ég var að endurnýja atvinnutæki fyrir rúmu ári, sem er kannski ekki í frásögu færandi. Nema fyrir það að þegar mér sýndist allt vera að ganga upp. Þá segi ég jæja ég ætla að taka óverðtryggt lán. Þá varð uppi fótur og fit og sagt. "Nei nei, sko það er ekki í boði." Það eina sem var í boði var verðtryggt lán. Þannig að óverðtryggt lán samkvæmt þessu er ekkert nema blaðrið og vindgangurinn. Eða í besta falli einhver draumur eða kannski bara fyrir suma.
Steindór Sigurðsson, 14.8.2016 kl. 01:03
Sæll Guðmundur jafnan - sem og aðrir gestir, þínir !
Guðmundur síðuhafi !
Jú: jú, víst er afnám verðtryggingar / sem og ofurvaxtaokursins, hið brýnasta mál, en, ......... Pírata gerpunum:: vinum þínum, treysti ég EKKI fyrir húshorn með þau mál, hvað þá hið þar næsta, fremur en hinum flokka luðrunum 5, sem eiga sæti á alþingi eyðileggingar- og sjálftöku burgeisanna, Guðmundur minn.
Hvað þá - að þið eyðið 1 orði, að niðurrifi smákóngaveldis Lífeyrissjóða Mafíunnar í landinu / og sjálfsögðum endurgreiðzlum iðgjaldanna, til eigenda þeirra.
Eruð þið: nokkuð hætis hót trúverðugri í ykkar málflutningi, en Íslenzka þjóðfylkingin, sem hangir á áframhaldi aðildarinnar, að efnhagslegum og Hernaðarlegum hryðjuverkasamtökum, eins og EFTA og NATÓ sem Hundar á roði þar á bæ, Guðmundur minn ?
Svara þú mér - sem öðrum hér, af þeirri einurð og hreinskilni, sem þér er þó gefin Guðmundur, þrátt fyrir dapurlega fylgispekt þína, við Pírata liðið, og þá ósvinnu hræsni og yfirdrepsskapar, sem í þeirri hreyfingu er aðal drifkrapturinn, hingað til !
Með kveðjum samt: sem áður - af Suðurlandi /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 01:52
Er það ekki með ólíkindum að einn harðasti andstæðingur afnáms verðtryggingarinnar, skuli vera forseti ASÍ? Umboðsmaður hinna vinnadi stétta, sem ávallt bera byrðarnar af braski og óráðsíu, sem kemur öllu á kaldan klaka? Undarlegt hve fáir hafa getað komið sér í þá stöðu að tukta til og niðurlægja almenning, verandi sjálfir á margföldum launum umbjóðenda sinna. Þakka skynsamlega skrifaðan pistil, Guðmundur.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 14.8.2016 kl. 04:23
Hvernig koma eftirlauna og lífeyrisþegar út við afnám verðtryggingar? Þeir sem hafa lagt fyrir í samtryggingu til elliáranna. Þeir eru smáir brauðmolarnir nú þegar. Verður það einhverskonar holocaust ellilífeyrisþeganna? Er að undra að ASÍ og lífeyrissjóðirnir hvái, þegar talað er um að afnema þetta jafnvægistæki með einu pennastriki.
Það er með þetta eins og margt. Betra í að komast en úr að fara.
Kannski væri hugsanlegt að fara alla leið, eins og var í upphafi og setja verðtryggingu á laun líka. Kannski þarf bara að endurskoða vísitöluviðmiðin. Það er þar sem misréttið er.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.8.2016 kl. 07:47
Áður voru allir að "byggja á besta tíma" eins og sagt var því lánin brunnu upp og og menn sluppu létt frá þeim. Ríkisbankarnir voru hinsvegar alltaf á hausnum og sparnaður enginn, því að sama skapi þá brann spariféð upp á bókum í verðbólgu og vaxtafári. Við höfðum ekkert fjárhagslegt bakland og vorum gersamlega óvarin sveiflum. Hér logaði allt í verkföllum og víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags.
Siðleysið nú er að vextir lækkuðu ekkert við tilkomu verðtryggingar og einkavæðing bankanna gaf frítt spil á okrið. Vextir hefðu samkvæmt öllu átt að lækka niður í mannleg 2-3% og haldast fastir. Innlánsvextir eilítið lægri. Nú eru innlánsvextir grín og útlansvextir með himinskautum í viðbót við verðtrygginguna. Þar vantar hömlur.
Stýrivaxtabrjálæðið hefur sýnt sig virka þveröfugt við markmið gegn þenslu en samt er því haldið til streitu. Hér græða bankar í fákeppni og samráði eins og enginn sé morgundagurinn. Ekkert hefur verið lagað né leiðrétt í reglum sem afnumdar voru fyrir hrun. Enn er ekki búið að aðskilja þjónustubankastarfsemi og fjárfestingabankastarfsemi og bankarnir spila casino með almannafé án þess að hafa nokkra ábyrgð.
Ég óska engum þeirra tíma sem voru hér fyrir verðtryggingu og verra verður það í því lagalega villtavestri sem bankar mega starfa.
Bankakerfið er riggað. Þar er vitlaust gefið. Þar liggur vandinn.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.8.2016 kl. 08:09
Svona neðanmáls má nefna að það gleymist að við fórum á hausinn 2008. Góð staða ríkissjóðs er enginn mælikvarði á það. Hér eignuðust erlendir vogunarsjöðir og aflandskrónueigendur alla bestu bitana og flytja arðinn af þeim úr landi. Þau styrku og góðu stórfyrirtæki sem við þykjumst eiga eru bara að brotabroti í okkar eigu. Dyrmætustu fasteignirnar og lóðirnar eru líka á leið í þessar hendur og hér eru opnar dyr fyrir allskyns loddara og ponsipresta, hvar sem drepið er niður, Silicor og sjúkrahus HS og mýmörg önnur dæmi. Bjórinn vinsæli Einstök, ferðaþjónustan og meira til. Allt i erlendri eigu eða á leið þangað. Brjálæðislegar fjárfestingar í ferðaiðnaði eru allar á lánum. Stæstu bankar eru í eigu óljósra vogunarsjoða.
Ísland er hjáleiga nú þegar, rétt eins og Grikkland. Samt er klifað á því að hér sé svo mikið góðæri og uppgangur. Menn hafa hlustað á þá plötu áður en gleymt henni og vakna líklega upp við vondan draum áður en langt um líður. Það þarf ekki mikið að klikka til þess. Þá verður yfirtakan alger og við verðum aftur nýlenda með eigin fána. Kúgarinn ekki nýlenduríki upp á gamla möðinn heldur, erlend stórfyrirtæki, bankar, braskarar og vogunarsjóðir.
Jón Steinar Ragnarsson, 14.8.2016 kl. 08:26
Óskar Helgi. Ég get því miður ekki svarað því sem þú spyrð um öðruvísi en að það verður líklega að koma í ljós hvernig fer. Ég vildi óska þess að ég gæti gefið þér skýrara svar en svo er því miður ekki á þessum tímapunkti.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2016 kl. 12:31
Jón Steinar.
"Hvernig koma eftirlauna og lífeyrisþegar út við afnám verðtryggingar?"
Þetta er algeng spurning sem kemur oft upp í tengslum við umræðu um afnám verðtryggingar neytendalána.
Rétt er að taka fram að pistillinn hér ofan snýst alls ekki um lífeyrisréttindi eða verðtryggingu í tengslum við þau. Efni pistilsins fjallar eingöngu um það afmarkaða álitaefni, hvort það sé hægt að afnema verðtryggingu neytendalána eða ekki, og í honum færði ég rök fyrir því að það sé vel hægt með því að benda á nákvæmlega hvernig hægt er að fara að því að framkvæma það. Neytendalán og lífeyrisréttindi eru ekki einn og sami hluturinn. Það eru heldur ekki nein bein tengsl þar á milli eins og sumir virðast halda.
Til þess að átta sig á því hvað ég er að meina, er ágætt að velta því fyrir sér, hvernig eftirlauna og lífeyrisþegar hafa komið út, þrátt fyrir verðtryggingu. Svarið við því er: ekkert allt of vel. Ég átti til dæmis lífeyrissparnað í einum af þeim sjóðum sem bankarnir stýrðu. Þegar hrunið varð og kom 20% verðbólga á einu ári, þá óx sá lífeyrssparnaður ekki sem því nemur heldur gufaði helmingurinn af honum upp, slík var nú öll verðtryggingin á honum, eða þannig. Það er semsagt bara þjóðsaga að lífeyrissparnaður sé verðtryggður. Öðru máli gegnir hins vegar um verðtryggðu lánin, þau héldu áfram að vaxa óskert upp úr öllu valdi eins og enginn væri morgundagurinn.
Nú hefur lengi verið auglýst eftir því að lífeyrisþegi gefi sig fram sem hefur fengið allt sem hann hefur lagt í lífeyrissjóð endurgreitt með 3,5% raunvöxtum. Þrátt fyrir að margir láti sig málið varða, hefur aldrei neinn slíkur gefið sig fram. Ástæðan er sú að þessi ímyndaði "verðtryggði lífeyrisþegi" er bara þjóðsagnapersóna sem er hvergi til í raunveruleikanum. Svokölluð raunávöxtunarkrafa lífeyrissjóða, er ekkert nema bókhaldslegt viðmið til að mæla frammistöðu þeirra. Ef þeir ná hinsvegar ekki því markmiði að skila 3,5% raunávöxtun, þá þýðir það einfaldlega að skerða þarf lífeyrisréttindin. Í kjölfar hrunsins voru þau einmitt skert um hundruðir milljarða vegna þess að sjóðirnir töpuðu gríðarlega á snarbiluðum fjárfestingum í útrásarfyrirtækjum og sjálfum bönkunum sem fóru á hausinn. Lífeyrisréttindi sem hægt er að skerða með pennastriki, eru eðli máls samkvæmt ekki verðtryggð í raun, og þess vegna er ástæðulaust að blanda þeim í umræðu um neytendalán.
Fyrst við erum hinsvegar að fjalla um lífeyrismálin, þá get ég sagt frá því hvaða persónulegu skoðun ég hef á þeim, sem ég veit að fleiri aðhyllast. Það sem ég myndi leggja til að yrði gert til að stokka upp hið úr sér gengna lífeyrissjóðakerfi er það einfaldasta sem hægt væri að gera við það: Leysa sjóðina upp og afhenda hverjum og einum sjóðfélaga sinn eignarhlut. Leggja svo í kjölfarið sjóðina niður og leyfa fólki að ákveða sjálft hvernig og hversu miklum hluta launa það ráðstafar í lífeyrissparnað. Svo dæmi sé tekið, þá hagnast sá sem skuldar miklu meira á því að nota viðkomandi hluta launa sinna til að borga niður þær skuldir hraðar en ella, heldur en að reyna að ávaxta það fé með öðrum hætti, það er bara einföld afleiðing af vaxtamun útlána og innlána. Svo annað dæmi sé tekið, þá getur það verið mun betri lífeyrissparnaður fyrir einstakling, að ráðstafa viðkomandi hluta launa sinna til eignamyndunar í húsnæði, heldur en að afhenda hann bröskurum til að spila með. Skuldlaus fasteign er ekki verri lífeyrissparnaður en hvað annað, og í slíku tilviki myndi verðtrygging ekki skipta neinu máli, því það væri fasteignin sjálf sem myndi halda verðgildi fjárfestingarinnar. Svona mætti lengi telja hvernig við værum betur sett án þess skollaleiks sem lífeyrissjóðakerfið er í núverandi mynd.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2016 kl. 12:58
Komið þið sæl - sem fyrr !
Guðmundur síðuhafi !
Fremur klént þykir mér: getir þú ekki svarað mér, á aðra vegu en með því, sem fram kemur, í athugasemd nr. 29 / hér efra.
Guðmundur !
Píratar - eru ÚRHRAKSLÝÐUR einn, algjörlega á alla skjön við raunverulega baráttu heimila- og fyrirtækja landsins, gegn ofstopa alþingis, stjórnarráðs og Banka og Lífeyrissjóða Mafíunnar.
Hafi virkilega: fram hjá þér farið, fornvinur góður.
Sumarið 2015 - gaf Gunnar Bragi Sveinsson, einhver ógeðfelldasti karakter þessa lands (og: er þó, af nægum af taka) út þá fyrirætlun sína, að hefja hugmyndafræðilegt stríð, við Rússneska Sambandslýðveldið með Makríl- viðskiptabanninu, í þeim 1 tilgangi, að hygla Nazistaklíkunni austur í Kyiv í Úkraínu, með fullri velþóknun NATÓ/Pentagón og ESB samsteypunnar, eins og menn muna.
Á þennan vagn: stukku ''vinir'' þínir, títtnefndir Píratar / og sönnuðu þar með, að viðskiptahagsmunir Íslendinga, sem aðrir mikilvægir, SKIPTA ÞÁ ENGU MÁLI, á nokkra vegu, Guðmundur minn.
II. dæmi !
Halldór Auðar Svansson - ómerkilegt dreng gerpi, sem Reykvíkingar álpuðust til að kjósa, í sveitarstjórnarkosningunum 2014, er einn rammasti fylgifiskur Valsmanna félagsins illræmda, sem er með tilraunina um að rústa Reykjavíkurflugvelli þessa dagana, flugvelli ALLRA LANDSMANNA, með Ess Birni, Degi B., og öðrum úrkynjuðum fígúrum, þar syðra.
Finnst þér réttlætanlegt: gagnvart sjálfum þér, sem öðrum samlöndum þínum, að binda trúss þitt, við þennan rumpulýð, Guðmundur minn ?
Sama: hvað ?
Hafir þú kjark til: eins og Sturla Jónsson Bifr. stjóri og Vinnuvélafrömuður sýndi okkur snemmsumars / sem og 2013, GETUR ÞÚ, boðið þig fram, sem hver annar heilsteyptur einstaklingur, leggir þú ekki í hann, með Ingu Sæland t.d., og hennar ágæta fólki, í þeim flokki, sem býður fram, í nafni fólksins í landinu (F lista), t.d., Guðmundur.
Ígrundaðu mín orð: sé þér annt um mannorðið Guðmundur minn, skyldir þú sverja þig í burtu:: nú þegar, frá Pírata gerpunum !!!
Píratar - hafa ekki hreyft legg né lið, til stuðnings þeim fjölskyldum í landinu, sem GLÆPASVEITIR Banka Mafíunnar, með fulltingi Sýslumanna villimannanna, eru að troða ofan í svaðið, dags daglega !!!
Lýðs: sem ætti skilin þau örlög, sem ekki teljast víst prenthæf hér á miðli, um sinn að minnsta kosti, Guðmundur minn !!!
Með þeim sömu kveðjum, sem fyrri /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 14:50
Óskar Helgi.
Þar sem Píratar hafa fram til þessa verið í minnihluta á Alþingi, er frekar ósanngjarnt að kenna þeim um að stjórnvöld hafi ekki hreyft legg né lið til suðnings þeim heimilum sem eiga undir högg að sækja. Þvert á móti hafa þingmenn Pírata lagt fram ýmislegt á Alþingi í þágu heimilanna, þó það hafi ekki náð fram að ganga.
Nýjasta dæmið er svokallað lyklafrumvarp, en á þessu kjörtímabili hefur enginn flokkur lagt það fram nema Píratar. Þá var Jón Þór Ólafsson fyrvverandi og verðandi þingmaður Pírata, mjög ötull í því að knýja fram frestun á nauðungarsölum fyrr á kjörtímabilinu. Hann lagði líka fram frumvarp um eflingu neytendaverndar á fjármálamarkaði, auk mikils fjölda fyrirspurna til ráðherra sem hafa skilað okkur sem vinnum að þessum málum afar mikilvægum upplýsingum.
Vandamálið er bara að sá meirihluti sem nú ræður, hleypir þessum þjóðþrifamálum ekki í gegn, ekki einu sinni þeim málum sem annar stjórnarflokkurinn hefur þó lofað svo sem afnám verðtryggingar. Þetta er ekki hægt að kenna þriggja manni þingflokki um.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2016 kl. 17:00
Komið þið sæl - sem áður, og jafnan !
Guðmundur !
Þú talar: um ósanngirni, af minni hálfu.
Þvert á móti - Guðmundur minn.
Væri / og hefði verið, lágmarks ræna í Pírötunum, hefðu þeir getað hvatt til vopnaðrar andspyrnu, gegn valda öflunum.
Hvort heldur er: gagnvart Jóhönnu og Steingríms J. klíkunni (2009 - 2013), sem og þeirra Sigurðar Inga (lesizt: Sigmundar Davíðs) og Bjarna FALSyni Engeyingi.
Og - burt séð frá, hvort þau eru 3 / 30:: fleirri eða færri, sem á þinginu sitja.
Sérðu ekki sjálfur Guðmundur minn: hversu fyrirlitlegar og smánar legar afsakanir þínar Pírötunum til handa: raunverulega eru ?
Áttu gengnir félagar mínir - í Kúómingtang hreyfingu Chiangs heitins Kai- shek (1887 - 1975) og lisðmenn hans, að láta bara kyrrt liggja, þegar Maó hyskið (Tse´s- tung), voru að leggja undir sig Miðríkið (Kína), forðum ?
Píratar: gætu meira að segja, haft forgöngu um, að sprengja alþingishúsið í lopt upp (mannlausu: að sjálfsögðu), sem væri 1. og merkasti þátturinn í, að AFNEMA núverandi stjórnarhætti í landinu, Guðmundur minn.
Ef - minnsti vlji væri, til þess, t.d. !!!
Reyndu svo ekki frekar: að réttlæta þessi himpi gimpi frekar, fyrir sjálfum þér / frekar en mér - eða öðrum, fornvinur góður !!!
Hinar sömu kveðjur: sem seinustu - ívið þyngri, að vísu /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 17:38
.... bið ykkur að afsaka, Helvítis prentvillurnar, sums staðar, í mínum athugasemdum hér efra, gott fólk.
ÓHH
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 17:43
Óskar Helgi.
Að hvetja til slíkra verka sem þú nefnir væri að öllum líkindum refsivert og samtök sem gerðu slíkt féllu þar með undir skilgreiningu skipulagðra glæpasamtaka. Ósennilegt er að slík skilgreining geti aflað stjórnmálahreyfingu neins fylgis, og án fylgis getur stjórnmálahreyfing litlu áorkað.
Góðar stundir.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2016 kl. 18:01
Komið þið marg blessuð - sem áður !
Guðmundur minn síðuhafi !
Viltu þá ekki spyrja þig sjálfan: sem og aðra hér á Mbl.vefnum og víðar:: hvaða ''leyfi'' hafði Frönsk alþýða, til þess að ráðast að Bastillu Loðvíks XVI. Bourbóna Konungs, þann 14. Júlí, árið 1789 ?
Guðmundur minn.
Í Guðanna bænum - smækkaðu ekki sjálfan þig, svo augljóslega / og algerlega að tiilefnislausu, sem þú gerir því miður, í þinni athugasemd nr. 35, á þinni,, annarrs merku og ágætu síðu.
Ég skil einfaldlega ekki: né botna upp né niður í, að þú skulir hafa látið glepjazt, af þessu líka liði, sem þau Birgitta og Helgi Hrafn fara fyrir:: fólks, sem veit einfaldlega ekki, hvort það sé að koma eða fara - eins og vinnubrögð þeirra sýna okkur, dags daglega, Guðmundur minn.
Svo - við tölum ekki um, ''preláta'' þeirra í höfuðstaðnum, Halldór Auðar Svansson, sem::: að mér virðist, hafi líklega þegið mútur úr vösum Vals manna græðgis Hundingjanna, sé mið tekið af hátterni núverandi meirihluta Borgarstjórnar meirihluta / þó svo:: ekki sé nú mannvalið mikið heldur, í minnihluta hinnar sömu Borgarstjórnar.
Það er: vægast sagt, ekki einleikið, hvers lags blak þú berð, af þessum Skoffínum, sem þú telur til þinna beztu vina, í samtímanum Guðmundur minn.
Svei mér þá - alla daga: þér, að segja, ærlegi og prúði síðuhafi !!!
Sömu kveðjur: sem seinustu - vitaskuld /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 18:17
Óskar Helgi.
Ég hef ekki látið glepjast, heldur geri ég mér vel grein fyrir því að margt mætti betur fara á þeim bænum. Þess vegna gerðist ég þáttakandi í því, til þess að geta haft áhrif á það, vonandi í átt til hins betra. Það er ekki þar með sagt að ég sé sammála öllu sem Píratar gera, enda er leyfilegt að hafa mismunandi skoðanir í þeim flokki, ólíkt flestum öðrum sem vilja steypa alla í sama mótið.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.8.2016 kl. 18:36
Komið þið sæl - á ný !
Guðmundur !
Mikil: er trú þín á þetta lið, en mikil munu vonbrigði þín verða, þá þú uppgötvar, hvers lags ''söfnuður'', þarna er á ferðinni.
En - ég vona samt, að þú náir mjúkri lendingu, eftir flugið með þessum líka flónum, fornvinur góður.
Ekkert síðri kveðjur - þeim öðrum, og fyrri /
Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.8.2016 kl. 19:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.