Stöðugleikaskilyrðin eru svikamylla
18.10.2015 | 19:30
Að undanförnu hefur mikið verið fjallað um svokölluð stöðugleikaskilyrði vegna fyrirhugaðs afnáms fjármagnshafta á slitabú fallinna fjármálafyrirtækja. Hafa talsmenn stjórnvalda meðal annars fullyrt að stöðugleikaframlag samkvæmt tillögum kröfuhafa slitabúanna verði jafngilt þeim 39% stöðugleikaskatti sem að öðru kosti legðist á búin samkvæmt lögum sem samþykkt voru í sumar.
Einnig hafði því verið lýst yfir af hálfu Seðlabanka Íslands að til stæði að birta sérstakan kafla um stöðugleikaskilyrðin og mat á áhrifum þeirra í riti bankans, Fjármálastöðugleika, sem átti að koma út þann 6. október síðastliðinn. Af því varð þó ekki en í tilkynningu seðlabankans þann dag kom fram að sú útgáfudagsetning reyndist óheppileg í ljósi þess að ekki tókst að ljúka lögboðnu samráðs- og kynningarferli varðandi það sem þar átti að koma fram. Ný útgáfudagsetning yrði birt fljótlega.
Síðdegis á föstudaginn 16. október kom ritið loksins út, en í tilkynningu seðlabankans var getið um þann viðauka sem til stóð að birta þar sem greint yrði frá tillögum kröfuhafa um hvernig þeir hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og mati á heildaráhrifum mögulegra nauðasamninga á grundvelli þeirra. Ekki yrði unnt að ljúka mati á undanþágubeiðnum einstakra búa gömlu bankanna fyrr en endanleg gögn sem haft gætu áhrif á matið liggja fyrir. Niðurstöðurnar yrðu því birtar síðar og sérstakur kynningarfundur haldinn við það tilefni.
Þessi vandræðagangur við birtingu upplýsinga um stöðugleikaframlög og áhrif þeirra, er síst til þess fallinn að eyða þeirri tortrygging sem af gefnu tilefni hefur skapast um aðgerðina og útfærslu hennar. Til að mynda hefur áður verið greint frá því hér að samkvæmt fyrirliggjandi skriflegum svörum frá forsætisráðuneytinu séu hin umræddu stöðugleikaskilyrði trúnaðarmál. Slíkt stenst þó hvorki meginreglur á sviði skattaréttar um að skattlagning verði að byggjast á skýrum, almennum, og opinberum reglum.
Með hliðsjón af framangreindu vekur það því talsverða undrun sem kemur fram á bls. 14 í ritinu, en þar segir:
"Hrein erlend staða án innlánsstofnana í slitameðferð jákvæð
Vegna umtalsverðra forgreiðslna sem og jákvæðs undirliggjandi viðskiptajafnaðar hefur hrein erlend staða þjóðarbúsins batnað að undanförnu. Ef litið er á stöðuna án innlánsstofnana í slitameðferð var hún jákvæð um 114 ma.kr., 5,4% af landsframleiðslu, í lok annars ársfjórðungs 2015 en hún hefur iðulega verið neikvæð fram til þessa. Að teknu tilliti til áætlaðra áhrifa af uppgjöri þrotabúanna er undirliggjandi erlend staða þó enn neikvæð um 685 ma.kr., 32,4% af landsframleiðslu. Þá hefur hvorki verið tekið tillit til stöðugleikaskatts né stöðugleikaframlaga innlánsstofnana í slitameðferð. Ætla má að slit fjármálafyrirtækja í samræmi við bréf kröfuhafa til stjórnvalda sem voru kynnt samhliða áætlun um losun fjármagnshafta geti bætt stöðuna um 16-18% í hlutfalli við landsframleiðslu. Þar sem enn er verið að fara yfir drög að nauða samningum kröfuhafa er óvissa um endanleg áhrif."
Tvennt vekur hér sérstaklega athygli. Í fyrsta lagi að með tilliti til áætlaðra áhrifa af uppgjöri slitabúanna verði erlend staða þjóðarbúsins neikvæð um 685 milljarða eða 32,4% af landsframleiðslu, en það er nokkurn veginn sama fjárhæð og nefnd var til sögunnar þegar stöðugleikaskatturinn var kynntur (ntt. 682 milljarðar). Í öðru lagi var jafnframt fullyrt að afhending stöðugleikaframlags yrði jafngild skattinum, en engu að síður segir í hinu nýútkomna riti að stöðugleikaframlög samkvæmt tillögum kröfuhafa til stjórnvalda muni bæta þá stöðu um 16-18%, eða 338-380 milljarða kr.
Þessar upplýsingar vekja upp fleiri spurningar en þær svara. Hvernig geta 338-380 milljarðar verið "jafngildir" 682 milljarða stöðugleikaskatti? Hvernig getur rétt rúmlega helmingur verið jafngildur heildinni? Hvers vegna var það gefið í skyn í tilkynningu seðlabankans að ekki væri hægt að birta upplýsingar um stöðugleikaframlögin, en samt virðist vera hægt að skýra frá áhrifum þeirra á stöðu þjóðarbúsins?
Hvað er seðlabankinn að reyna að fela? Kannski að verið sé að snuða okkur um helming af því sem auglýst var? Er þetta kannski eins og 300 milljarða "leiðréttingin" sem varð að 80 milljörðum? Leiðrétt: nú aðeins 60 milljörðum samkvæmt upplýsingum á bls. 20 í Fjármálastöðugleika! Sem var svo ráðstafað að mestu til bankanna sjálfra en ekki almennings? Og hvers vegna taka fjölmiðlar á þessu hneyksli með silkihönskum í stað þess að halda úti sjálfsagðri og gagnrýnni umfjöllun? Á kannski að þaga þetta í hel?
Sporin hræða þegar slíkt er annars vegar.
Stöðugleikaskilyrðin enn ekki birt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Viðskipti og fjármál | Aukaflokkar: Fjölmiðlar, Stjórnmál og samfélag, Öryggis- og alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:40 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er athyglisvert og reyndar dálítið þversagnakennt, eins og þetta er fram sett, af Seðlabankanum. Eitt er þó vist og það er að fjölmiðlar þessa lands munu ekki hafa uppi orð um þetta eða gagnrýna, frekar en aðra fjármálagjörninga, sem fara fram nú um stundir. Einu "fjármálafréttirnar" sem almenningur fær að sjá eru fréttatilkynningar fjármálafyrirtækjanna, sem oftast eru settar beint á prent, án þess svo mikið sem einnar spurningar sé spurt, um innihaldið. Fjölmiðlar dönsuðu trylltan dans fyrir hrun, í banksteradýrkun og "Island best í heimi". Fjölmiðlafólk virðist ekki kunna að læra af reynslunni og ástæðan er einföld.: Það er ekki starfi sínu vaxið, að allt of stórum hluta, þó inn á milli megi finna raunverulegt fjölmiðlafólk, með dug og þor og nennu. "Google translate", "copy paste" og móttaka fréttatilkynninga er því miður orðin samnefnari hérlendrar fréttamennsku. Appelsinuhúðin á lærum Söru Jessiku Parker, eða hverju Ásdís Rún klæðist, eða ekki, svín og annað sem illa er farið með, hefur forgang umfram allt annað, virðist vera, því miður. Það þarf að bakka upp góða vakt, til að fylgjast með vinnubrögðum stjórnvalda og Seðlabankans, þegar kemur að því að rukka inn "stöðugleikaskattinn".
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 18.10.2015 kl. 20:19
"Dálítið" þversagnakennt?
Fullkomnar þversagnir, réttara sagt!
Guðmundur Ásgeirsson, 18.10.2015 kl. 20:52
Mummi, þú veist það alveg jafnvel og ég, að aldrei stóð til að leiðrétting á forsendubresit yrði 300 ma.kr. þar sem forsendubresturinn miðað við allt umfram 4% verðbólgu var vel innan við 200 ma.kr. Menn geta alveg haldið áfram að halda á lofti röngum upplýsingum, en það var ekki háttur HH á sínum tíma. Mér þykir leitt ef það hefur breyst. Samtökin áunnu sér sinn trúverðugleika einmitt vegna þess að við fórum ekki frjálslega með staðreyndir. Hvað er unnið með því að gera það núna, skil ég ekki.
SDG sagði að hægt væri að sækja 300 ma.kr. til þrotabúanna sem hægt væri að nota í leiðréttingu lána. Hann sagði aldrei að nota ætti alla upphæðina enda hefði það verið mun meira en sú leiðrétting sem HH hafði barist fyrir.
Marinó G. Njálsson, 18.10.2015 kl. 21:57
Sæll Marinó.
Þú mátt ekki misskilja mig, ég er alls ekki að reyna að "fara frjálslega með staðreyndir" eins og þú orðar það svo kurteislega, heldur er ég einfaldlega að vekja athygli á hversu þversagnakennt og ótrúverðugt þetta er allt saman af hálfu stjórnvalda. Ef eitthvað er þá eru það þau sem fara frjálslega með staðreyndir.
Hvað varðar það sjónarmið að leggja 4% verðbólguviðmið til grundvallar einhverskonar afmörkun á "forsendubresti", þá kannast ég nú ekki við hvaðan það gæti verið komið eða afhverju ætti að miða við það frekar en einhverja aðra prósentu, t.d. 2% eða bara 0%.
Allavega hafa engin slík sjónarmið verið sérstaklega uppi á teningnum síðan ég hóf að starfa með HH og við byrjuðum að undirbúa málaferli á grundvelli laga um neytendalán til að láta reyna á verðtryggðu lánin. Hvergi í þeim lögum er að finna neitt um "forsendubrest" eða skilgreiningu hans miðað við 4% vikmörk. Heldur fer það einfaldlega eftir árlegri hlutfallstölu kostnaðar sem var tilgreind í lánssamningi, hversu háan lánskostnað má innheimta.
Þar sem greiðsluáætlanir verðtryggðra lána miðuðust í nánast öllum tilvikum við 0% verðtryggingu, þ.e.a.s. þeim tilvikum þar sem slík áætlun fylgdi yfir höfuð með láninu, þá er það hámarkið sem heimilt er að innheimta. Það er að segja eins og ef lánið væri óverðtryggt en þó með umsömdum vöxtum, sem stemmir við það markmið að útrýma allri verðtryggingu. Að halda áfram með 4% verðtryggingu samræmist hinsvegar engan veginn því markmiði að útrýma henni, og á sér auk þess hvergi neina stoð í íslenska lagasafninu.
Út frá þessu hefur verið unnið af hálfu HH, allt frá því að ég kom þar til starfa, þ.e. að fara einungis eftir lögunum og engu öðru, líkt og dómendum er skylt samkvæmt. 61. gr. stjórnarskrárinnar. Fyrrnefnt dómsmál sem höfðað var til fyrir réttum þremur árum í dag, verður loksins tekið til efnislegrar meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands þann 20. nóvember næstkomandi (sjá nánar hér). Það er engin dómkrafa í því máli sem miðast við nein 4% vikmörk, heldur er þess krafist að lánið verði leiðrétt í samræmi við lög um neytendalán. Verði á það fallist og dæmt samkvæmt lögum, mun það hafa í för með sér margfalt meiri leiðréttingu heldur en ef 4% vikmörk væru lögð til grundvallar, og miklu meiri en bara en 300 milljarða.
Tilfellið er nefninlega að (samkvæmt gögnum frá Seðlabanka Íslands) samanstendur rúmlega helmingur af skuldum heimilanna eða yfir 600 milljarðar króna, af áföllnum verðbótum á höfuðstól. Þar sem þær tölur taka hinsvegar ekki með í reikninginn þær verðbætur, sem nú þegar hafa verið greiddar frá gildistöku laga um neytendalán, má leiða að því líkur að raunveruleg tala sé miklu hærri, jafnvel yfir þúsund milljarðar króna. Jafnvel þá á svo líka eftir að taka tillit til þeirra vaxta sem voru reiknaðir af verðbótum, því augljóslega má aðeins taka vexti af þeim hluta kröfu sem er lögvarinn.
Guðmundur Ásgeirsson, 18.10.2015 kl. 22:49
Ég skil ekki útreikningana, hvorumegin borðsins, en ég er fullkomlega sammála þessari grein.
Guðjón E. Hreinberg, 18.10.2015 kl. 23:58
Ekki snúa út úr, Mummi. Þetta sæmir þér ekki:
Hvað varðar það sjónarmið að leggja 4% verðbólguviðmið til grundvallar einhverskonar afmörkun á "forsendubresti", þá kannast ég nú ekki við hvaðan það gæti verið komið eða afhverju ætti að miða við það frekar en einhverja aðra prósentu, t.d. 2% eða bara 0%.
Það getur vel verið að þú hafir ekki verið í starfinu frá upphafi, en þér er í lófalagið að skoða eldri ályktanir, áskoranir og kröfur. Upphaflegu kröfur HH og þær sem enn voru á lofti, þegar ég hætti í stjórn samtakanna í nóvember 2010 voru að leiðrétta þann forsendubrest sem fólst í verðbólgu umfram efri vikmörk verðbólguviðmiða Seðlabanka Íslands fyrir árin 2008 og 2009. HH kom ekki fram með kröfu um að miða við 2,5% fyrr en löngu seinna, líklegast ekki fyrr en 2012, þegar Hreyfingin setti það fram. Aftur var það í kröfum HH að trappa niður verðtrygginguna með því að setja þak á verðbætur sem lækkaði árlega.
En þó svo að miðað væri við 2,5%, þá hefði forsendubresturinn ekki verið "nema" 250 ma.kr. mínus það sem búið var að leiðrétta af honum í gegn um aðrar aðgerðir (50 ma.kr.), þannig að eftir hefðu staðið 200 ma.kr.
Leiðréttingin var hins vegar miðuð við 4,8% verðbólgu og náði til 2007 að auki. Við getum gagnrýnt 4,8% viðmiðið, en ættum að fagna að 2007 sé tekið með. Það var svo sem nokkuð sem ég hafði oft bent á, en HH fylgdi því ekki eftir, þar sem fólk leit svo á, að með því að fara lengra aftur í tímann værum við að grafa undan sanngirnisrökum okkar.
Vissulega er það rétt að verðbótahluti húsnæðislána er hár. Ég reiknaði hann einhvern tímann út og þá var hann 600-650 ma.kr. Hefur hann bæði hækkað og lækkað síðan, þannig að ég veit ekki nákvæmlega hver hann er í dag, en kæmi ekki á óvart að hann væri um 700 ma.kr. miðað við að verðtryggð húsnæðislán standi í 1.200 ma.kr.
Marinó G. Njálsson, 19.10.2015 kl. 13:12
Dómkröfur í dómsmáli varðandi verðtrygginguna koma umræðu um forsendubrest ekkert við og skil ég ekki hvers vegna þú ert að blanda þessu tvennu saman.
Marinó G. Njálsson, 19.10.2015 kl. 13:16
Marinó, það var alls ekki meining mín að snúa út úr. Ég þekki alveg umræðuna um forsendubrest og hin ólíku viðmið. Það sem ég var einfaldlega að benda á er að sú nálgun var höfð fyrir minn tíma í starfi fyrir HH. Eftir þann tíma hefur herferðin gegn verðtryggingu hinsvegar byggst á öðrum grundvelli, þ.e. lögum um neytendalán. Þar er um allt önnur sjónarmið að ræða heldur en forsendubrestinn. Vissulega er þetta tvennt ólíkt og óþarfi að blanda því saman.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2015 kl. 14:24
Þeir virðast vera að vakna núna, miðað við frétt á rúv: http://ruv.is/frett/stjornvold-samthykki-ekki-334-milljarda
Þeir héldu þessa glæsilegu kynningu í Hörpu, þar sem sagt var að þetta yrði að lágmarki 500 milljarðar, þannig að það væri ekkert að marka þessa menn ef þeir ganga að samningum upp á 334.
Við skulum vona að þeir nái þessu í það minnsta upp í 500 milljarða, en 39% skatturinn er bestur að mínu mati.
Sveinn R. Pálsson, 19.10.2015 kl. 15:28
Í frétt Bloomberg sem vitnað er til er talað um að stjórnvöld séu að miða við 470 milljarða stöðugleikaframlag, sem er talsvert betra en tilboð kröfuhafa upp á 334. Samt gengur það ekki nærri því eins langt og skatturinn, allavega ekki á meðan enginn hefur útskýrt hvernig 470 geti verið "jafngilt" 850.
Það er a.m.k. gott að umræðan um þetta sé að vakna.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2015 kl. 15:38
850 ma.kr. er allur pakkinn, ekki bara bankarnir þrír.
Marinó G. Njálsson, 19.10.2015 kl. 15:59
Eru fleiri bankar, en þeir þrír stóru?
Er ekki búið að ljúka nauðasamningum hinna, eins og til dæmis Frjálsa fjárfestingarbankans og Straums fjárfestingarbanka?
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2015 kl. 16:01
Láttu ekki svona, Mummi, það eru háar upphæðir í eigu erlendra aðila sem ekki teljast til bankanna. Gert er ráð fyrir að þær fari líka úr landi, á einhverju skiptigengi.
Marinó G. Njálsson, 19.10.2015 kl. 16:15
Best er að segja eins og Guðjón: skil ekki útreikningana. Óstöðugleiki er okkar sérgrein. Nú er verðbólgu haldið niðri með háu gengi, og óþarfa eyðslu gjaldeyris. Íslenskir ferðamenn eru sagðir eyða jafn miklu og erlendir á Íslandi í met ári. Seðlabankinn kaupir gjaldeyri á lágu verði en um leið kyndir það undir óstöðugleika með auknum innflutningi.
Hagfræðin er fag hins óvænta og hér má botna af gröfum eða línufræði að málmar eru á eilífu flakki. Álverð í lægstu hæðum sem og orkuverð til Landsvirkjunar. Trúverðugt gengi krónunnar er ekki fyrir hendi þegar innflutnhingur er meiri en útflutningur. Hagfræðingar Seðlabankans hafa því miður ekki sýnt að þeir geti stýrt peningamálum. Jafnvel þótt þeir gefi góð ráð hefur ekki tekist að framfylgja þeim.
Sigurður Antonsson, 19.10.2015 kl. 18:22
Marinó.
Á vef fjármálaráðuneytisins eru birt "tilboð" um stöðugleikaframlög frá kröfuhöfum stóru bankanna þriggja, ekki neinna annarra. Það voru þau tilboð sem ég var að vísa til.
Eru einhverjir fleiri en þeir að fara að greiða stöðugleikaframlag?
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2015 kl. 18:57
Það þarf ekkert að láta svona. Við vitum alveg hvað framsóknarmenn vilja. Þeir vilja fá gefins banka svo þeir eigi hægara með að moka svoleiðis fjármunum tilvildarvina. Eigi flókið og frekar mikið augljóst.
Það er líka alveg vitað að framsóknarmenn voru með heljartak á svokölluðu HH hér á tíma Jafnaðarstjórnarinnar.
Eitthvað virðast þeir ekki hafa gætt að því að halda tökunum áfram.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.10.2015 kl. 11:23
Við sem raunverulega vorum og erum á vettvangi vitum betur en bullið sem kemur frá Ómari Bjarka.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.10.2015 kl. 11:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.