Stöðugleikaskilyrðin eru leyndarmál

Þegar svokallaður stöðugleikaskattur var kynntur í sumar með pompi og pragt og viðhöfn í Hörpunni, var þess getið líkt og í framhjáhlaupi, að skatturinn yrði þó ekki lagður á ef kröfuhafar slitabúa föllnu bankanna uppfylltu svokölluð "stöðugleikaskilyrði".

Þann sama dag og aðgerðin var kynnt setti undirritaður sig í samband við tilgreindan talsmann forsætisráðuneytisins í málinu, til að forvitnast um hver þessi skilyrði væru sem leggja mætti til grundvallar því að veita hinum skattskyldu aðilum undanþágu frá skattinum. Ekki síst í ljósi þess sem þá kom fram, að með þessu móti gætu viðkomandi aðilar fengið talsverðan afslátt af fullum skatti.

Nokkuð hefur verið á reiki hversu mikill sá afsláttur gæti orðið en tölur um það hafa farið vaxandi og nú síðast nálgast 60% af fullum skatti. Auk þess hefur komið fram að það falli í skaut seðlabankans að veita slíka undanþágu, og þar með hefur bankanum í raun verið falið vald til skattlagningar, sem verður að teljast óvenjulegt.

Þau svör sem fengust (og eru til á skriflegu formi) voru á þá leið að umrædd skilyrði væru trúnaðarmál og yrðu ekki birt opinberlega. Aftur á móti var vísað til þeirra tilboða frá kröfuhöfum slitabúanna sem birt voru sama dag á heimasíðu fjármálaráðuneytisins og að úr þeim mætti lesa vísbendingar um hvað fælist í skilyrðunum.

Til að draga þetta saman, þá er um ræða skattlagningu sem er á valdi Seðlabanka Íslands og byggist á forsendum sem eru leynilegar. Það eina sem liggur fyrir um þær opinberlega eru upplýsingar frá hinum skattskyldum aðilum sjálfum, sem seðlabankinn á svo að meta hvort uppfylli skilyrði fyrir stærsta skattaafslætti Íslandssögunnar til örfárra aðila. Ljóst er að margir myndu þiggja með þökkum allt 60% skattaafslátt, en slíkt býðst ekki almúganum.

Það þarf varla að hafa fleiri orð um þetta til að sýna fram á hversu snargalin aðgerðin og útfærslan eru. Þeir sem munu blæða fyrir hana eru íslenskur almenningur og heimilin. Verst er að þau fá ekki vita umfang blóðtökunnar, því það er "trúnaðarmál". Þetta hefur öll sömu einkenni og Icesave málið, þar sem um var að ræða leynisamninga um stórfellda og óþekkta áhættu fyrir skattgreiðendur.

Er þessi framgangsmáti ekki síst undarlegur í ljósi þess að sá flokkur sem barðist hvað mest gegn því máli leiðir nú ríkisstjórnina. - Eða gerir hann það ekki?


mbl.is Ódýr leið fyrir kröfuhafana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Sæll Guðmundur.

Liggur ekki beinast við að snúa sér til Ríkisskattstjóra um þetta mál og spyrja hann opinberlega um þennan "ásettan" stöðuleikaskatt og hvort "yfirvöld" séu að troða honum um tær.

Einnig mætti spyrja þá sem töluðu um skattinn í Hörpunni hvort einhver alvara hafi verið með þeirra orðum forðum.

Þetta er skrítið mál og ég sé engin merki nú í dag um einhver "stöðuleikaskilyrði" séu að skapast.  Seðlabankinn er í basli með að halda verðbólgunni í skefjun og sumar spár segja að verðbólga fari yfir 10% á næstu árum eða langt fram úr þeim 2,5% sem markmið Seðlabanka frá árinu 2001.

Það er rétt hjá þér að skýr svör þarf að fá frá bæði Seðlabanka og ráðaherrum..

Ef til vill er það rétt sagt, að sumir eru jafnari er aðrir.

Eggert Guðmundsson, 7.10.2015 kl. 22:59

2 Smámynd: Sveinn R. Pálsson

Maður skilur ekki af hverju þeir lögðu ekki bara á þennan stöðugleikaskatt og slepptu hjáleiðinni framhjá skattinum.

Sveinn R. Pálsson, 8.10.2015 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband